þriðjudagur, 31. mars 2009

Gengi gengis

Sko...

Seðlabanki Íslands hefur gengi íslensku krónunnar algerlega í hendi sér.

Gjaldeyrismarkaður er tiltölulega umfangslítill. Seðlabankinn þarf ekki að kosta miklu til þess að halda upp gengi krónunnar, og styrkja það jafnvel enn frekar.

Gengissig undanfarna vikna virðist þannig stefnuval núverandi seðlabankastjóra.

Haft er eftir fjármálaráðherra að ástæður gengissigsins undanfarið sé vegna stórra gjalddaga í vikunni á vaxtagreiðslum jöklabréfa. Þeim megi skipta í erlendan gjaldeyri. Það er þá í raun mjög hentugt fyrir Seðlabankann að í aðdraganda slíkar útborgunar falli gengið. Það sparar gjaldeyri.

Meginástæða hárra vaxtagreiðslna, fyrir utan jú að allt of mikið fé er hér bundið í jöklabréfum, eru hinir fáránlega háu vextir. Lækkun vaxtanna myndi spara meiri gjaldeyri en gengissigið.

Tökum dæmi:

Milljarður í jöklabréfi ber 18% vexti. Vextir eru borgaðir á þriggja mánaða fresti og vaxtagreiðslan í hvert sinn 45 milljónir. Þremur vikum fyrir útborgunardag er gengi krónunnar gagnvart evru 144 krónur þ.a. fyrirsjáanlegt er að ca. 312,5 þúsund evrur verði keyptar á útborgunardegi. Með því hins vegar að ná fram 15% gengissigi fram að gjalddaga verður gengi evrunnar 165,6 krónur og einungis 272 þúsund evrur keyptar á gjaldaga - búið að spara 40 þúsund evrur!

Ef hins vegar vextirnir eru lækkaðir í 12% með sömu öðrum skilyrðum, þá verður vaxtagreiðslan eftir þrjá mánuði 30 milljónir og m.v. evrugengi 144 krónur, vaxtagreiðslan í evrum 208 þúsund – 64 þúsund evrum lægra en við 18% vexti og 165,6 krónu evrugengi.

(Til umhugsunar þá þyrfti gengi evrunnar að fara niður í 110,3 krónur til þess að 30 milljón króna vaxtagreiðslan skilaði jafn miklu í evrum (272 þúsund) og 45 milljón króna vaxtagreiðslan skilar við gengi 165,6 krónur.)

Það er því ríkinu, atvinnuvegunum og seðlabankanum miklu frekar í hag að keyra niður vextina og tryggja á sama tíma stöðugleika gengisins, frekar en að fara að ástunda sama leik og viðskiptabankarnir voru ásakaðir um að stunda í aðdraganda ársfjórðungsuppgjöra fyrir bankahrun og "manipulera" með gengið í aðdraganda skuldadaga jöklabréfanna.

3 ummæli:

  1. Þetta er mjög góður punktur hjá þér. Ef kostnaður Seðlabanka við inngripin er veginn upp með lægri vaxtakostnaði þjóðarbúsins er ekki spurning að hagkvæmara er að halda gengisstöðugleikanum, þ.e. ef þetta eru valkostirnir í raun.

    Þetta leysir hinsvegar ekki stóra vandamálið sem er sú gríðarlega upphæð sem er bundin í jöklabréfunum með gríðarlegum þrýstingi á gengi krónunnar. Jöklabréfastaðan er líklega hættulegasta efnahagsvandamál Íslands í dag. Þetta virðist hafa leitt til þess að alls konar svartamarkaðsbrask með gjaldeyri hefur myndast og útflytjendur eru sagðir stöðugt útsjónarsamari við að bæði takmarka gjaldeyrisskil til að halda gjaldeyrisforða í erlendri mynt til öryggis og einnig fá hærra verð fyrir það sem skipt er í íslenskar krónur. Með auknum leka utan formlegs gjaldeyrismarkaðar verður erfiðara fyrir seðlabankann að ná markmiðum sínum.

    SvaraEyða
  2. Lægri vextir (án fyrirheita um evrópuframtíð)skapa hættu á að eigendur jöklabréfa taki út höfuðstólinn sem samsvarar eins árs landsframleiðslu
    Stefán Benediktsson

    SvaraEyða
  3. Þetta er áhugavert Friðrik.
    Glöggur ertu.
    Kv
    Karl

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.