laugardagur, 21. mars 2009

ESB og næsta ríkisstjórn

Það er má vel vera rétt mat hjá ritstjóra Fréttablaðsins í leiðara dagsins að flest bendi til þess að núverandi stjórnarflokkar muni ná hreinum meirihluta eftir næstu kosningar. Langsóttari þykir mér heldur sú kenning að þeir muni engu að síður bjóða Framsóknarflokknum með í stjórnarsamstarfið. Og þó.

Athyglisvert verður hins vegar að fylgjast með hvernig afstaða flokkanna til Evrópusambandsins, og þá sérstaklega aðildarumsóknar, á eftir að hafa áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar.

Í drottningarviðtali dagsins í Fréttablaðinu opnar verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins dyrnar upp á gátt gagnvart Evrópusambandsaðild með yfirlýsingu sinni um að engin kostur sé jafn sterkur í gjaldmiðilsvalkostum þjóðarinnar og upptaka evru með aðild að ESB.

Fréttir af landsfundi Vinstri grænna bera það hins vegar með sér að þar sé lítill áhugi á að opna á Evrópusambandið, þó undankomuleið með lýðræðistilvísunum liggi í bakgrunninum.

Ef hins vegar Vg lokar um of á undankomuleiðir í Evrópumálunum og skilja ekki að minnsta kosti eftir opnun á aðildarumsókn, hlýtur það að hafa áhrif á myndun ríkisstjórnar eftir kosningar - sérstaklega í ljósi mjög afdráttarlausra yfirlýsinga leiðtoga Samfylkingarinnar að þeir muni ekki semja burt Evrópusambandið eins og gert var á Þingvöllum fyrir tveimur árum.

Ákall á það að vinstri flokkarnir gangi bundnir til kosninga endurspeglar þá í því ljósi ákveðið vantraust á milli þeirra, meðal annars vegna þess að þeir hafa ekki gert út um Evrópumálin sín á milli. Með því að ganga bundin til kosninga án þess að leysa úr Evrópumálunum við Vg væri Samfylkingin í reynd að gefa þeim neitunarvald á frekara framhald málsins.

Stefna Framsóknarflokksins er skýr hvað varðar ESB. Flokkurinn vill sækja um aðild með þeim skilyrðum sem skilgreind voru á flokksþinginu í janúar síðastliðnum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn opnar á aðildarumsókn en Vinstri grænir hafa áfram lokað, hvað gerir þá Samfylkingin?

Ein leið væri að mynda á ný ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar, en líkurnar á því eru hverfandi.

Önnur leið væri myndun minnihlutastjórnar með Framsóknarflokknum, sem varin yrði hlutleysi annað hvort Vinstri grænna eða Sjálfstæðisflokksins. Slík minnihlutastjórn hefði það verkefni, jafnhliða almennum efnahags- og björgunaraðgerðum, að sækja um aðild að ESB strax í kjölfar kosninganna í vor.

Slík minnihlutastjórn myndi væntanlega ekki sitja mikið lengur en meðan aðildarviðræður fara fram, og náist ásættanlegir samningar, fram yfir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Rökrétt gæti verið í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að ESB, sama hver hún verður, að boða til nýrra þingkosninga í kjölfarið.

2 ummæli:

 1. Sæll

  Þetta eru góðar pælingar með ESB og viðhorf flokkanna.

  Málið er að Framsókn er EKKI með skýra stefnu í ESB. Þeir eru sveigjanlegir og við vitum hvað það þýðir:)

  Þó það sé fræðilegur möguleiki á minnihlutastjórn Framsóknar og Samfylkingar þá hlýtur það að vera sagt í meira gríni því það mun aldrei gerast.

  En því miður, þá er þjóðin enn að bíta í það súra, með ómældum kostnaði almennings og þjóðarbúsins, að ENGINN flokkur með vigt og þunga nema Samfylkingin vildi horfast í auga við veruleikann fyrir hrunið (síðustu ár) að aðild að ESB var þjóðinni lífsnauðsynleg. Svo ekki sé talað um bankakerfið, gjaldmiðilinn og hag heimilanna.

  Fyrir þá framsýni á Samfylkingin allt gott skilið og getur borið höfuðið hátt. Það sama verður ekki sagt um aðara flokka.

  Ps. Það er samt ánægjulegt að verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins hafi NÚNA loks áttað sig á þessarri staðreynd og þori að viðra hana. Það er nýlunda á þeim bænum enda hafa þeir engu að tapa lengur sem flokkur.

  Kv. Friðrik G

  SvaraEyða
 2. Hello
  It has a nice blog.
  Sorry not write more, but my English is bad writing.
  A hug from my country, Portugal

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.