miðvikudagur, 25. mars 2009

SPRON: Skortur á skilningi?

Ekki ætla ég að draga í efa að SPRON hafi verið í verulega djúpum.

Hins vegar eru fréttir Markaðar Fréttablaðsins og Pressan.is allrar athygli verðar um óánægju kröfuhafa vegna aðgerða stjórnvalda.

Pressan.is birti frétt þessa efnis fyrir þremur dögum þar sem sagði m.a.:

Pressan hefur heimildir fyrir því að stærstu kröfuhafar SPRON hafi skrifað íslenskum stjórnvöldum bréf og varað eindregið við að aftur yrði gripið til ákvæða neyðarlaga við yfirtöku á íslenskum fjármálafyrirtækjum. Slíkt væri augljóst brot á alþjóðalögum og mismunaði kröfuhöfum. Forsvarsmenn SPRON telja að Seðlabankinn hafi í raun og veru ákveðið að taka bankann niður og reyna ekki frekari björgunartilraunir, þrátt fyrir að í síðustu viku hafi komið fram tilboð af hálfu erlendu kröfuhafanna, einkum þýskra banka, um niðurfellingu skulda upp á 21% og lengingu í lánum, þannig að afganginn mætti greiða á næstu 7-10 árum.

Í frétt Markaðarins í morgun segir m.a.:

Kröfuhafar SPRON töldu stjórnvöld fylgja rangri eða gallaðri ráðgjöf í aðdraganda þess að Fjármálaeftirlitið (FME) greip inn í rekstur SPRON og Sparisjóðabankans um síðustu helgi.

Hver er hin ranga eða gallaða ráðgjöf?

Þá hefur Markaðurinn heimildir fyrir því að auki á reiði kröfuhafanna að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) virðist hafa átt hlutdeild í þeirri ákvörðun að taka SPRON yfir, en ákvörðun þar að lútandi hafi verið tekin að höfðu samráði við sjóðinn.

Í leiðara Markaðarins segir m.a. eftirfarandi:

Ljóst er að mikillar reiði gætir í þeirra hópi þar sem ekki hafi verið fullreynt með samninga um niðurfellingu skulda og breytt lánakjör sem þeir telja að aukið hefðu líkur á betri heimtum á kröfum þeirra. Þrátt fyrir að kröfuhafarnir hafi lýst yfir vilja til að ljúka samningum innan ásættanlegs tíma var ráðist í yfirtökuna. Forsvarsmenn þessara sömu banka ákveða lánakjör til hverra þeirra íslensku fyrirtækja sem til þeirra kynnu að leita þegar fram líða stundir.

Þannig að kröfuhafar SPRON vildu afskrifa skuldir SPRON um 20%, jafnvel meir, til þess að auka líkur á betri heimtum á kröfum sínum.

Hvaðan hef ég heyrt tillögur og rök í þessa áttina? Sigmundur og Tryggvi, getið þið hjálpað mér að rifja það upp?

Hverjir hafa verið alfarið á móti þeirri aðferðafræði? Eru það ekki sömu aðilar og ákváðu að taka yfir SPRON? Forsætisráðherrann? Viðskiptaráðherrann?

Var ekki fulltrúi Alþjóða gjáldeyrissjóðsins ekki búin að tjá sig í þessa veru líka opnberlega, þó hann hefði víst sagt annað á lokuðum fundum?

Mátti ekki verða til fordæmi þar sem þessari aðferðafræði væri beitt? Þó að í þessu tilviki væri það að frumkvæði kröfuhafanna?

Svo aftur sé vitnað í frétt Markaðarins frá í morgun:

„Í kjölfarið á símafundi sem nýlokið er við fulltrúa FME, Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins [síðdegis föstudaginn 20. mars], hefur stýrihópur sá sem er fulltrúi 35 alþjóðlegra banka sem lánað hafa SPRON miklar áhyggjur af því að taka eigi handahófskennda og óábyrgar ákvarðanir í málefnum SPRON. Ákvarðanir sem byggja á skorti á skilningi viðeigandi yfirvalda á þeirri lausn til endurskipulagningar sem þeim var kynnt 18. mars," segir í erindinu, sem er frá fulltrúa Sumitomo Mitsui bankanum. Sá banki er jafnframt einn stærsti kröfuhafi Kaupþings.

Ástæða er til að taka undir varnaðarorð ritstjóra Markaðarins í leiðara hans í morgun þegar hann segir: „...verður að teljast ólíklegt að forsvarsmenn erlendra stórbanka sem hér hafa tapað ógrynni fjár verði áfjáðir í að fjármagna hér uppbyggingu ef ekki er fyllstu sanngirni gætt í samskiptum við þá."

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.