þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Brotthvarf Guðna

Það voru vissulega stór-pólitísk tíðindi í gær að Guðni Ágústsson skyldi segja af sér bæði þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum

Að Guðni skyldi kjósa að hverfa af vettvangi kemur í sjálfu sér ekki á óvart, tímasetning og aðferðarfræðin gerir það hins vegar.

Þann 10. september síðastliðinn velti ég því upp hér á þessum síðum að formannsskipti gætu verið framundan í öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Sérstaklega beindi ég sjónum að mínum eigin flokki og taldi þá, í ljósi stöðu Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum, að krafan um forystuskipti myndu fara að vera hærri í aðdraganda flokksþings, ef fylgið færi ekki að rétta úr kútnum.

Morguninn eftir þessa færslu fékk ég símtal frá Guðna þar sem hann óskaði eftir fundi. Sá fundur fór fram á þingskrifstofu hans við Austurstræti. Á fundinum lýsti Guðni megnri óánægju með þessa blogg færslu mína og að ég skyldi þar vega að honum með ómaklegum hætti. Hann hefði marga fjöruna sopið í pólitík og margir reynt að vega að honum en hér væri hann enn. Ég skyldi hafa það í huga. Fundur þessi stóð í u.þ.b. þrjú korter og skiptust þar á skin og skúrir. Ekki sá ég á þessum fundi neina ástæðu til þess að bakka með þá skoðun sem ég hafði útlistað í pistli mínum, enda í sjálfu sér ósköp saklausar vangaveltur um framtíðarforystu Framsóknarflokksins. Ég varð hins vegar óneitanlega mjög hugsi eftir þennan fund.

Þann 16. október síðastliðinn skrifaði ég að nýju um formanninn og dró lítt undan. Tilefnið var ræða hans í þinginu deginum áður í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um stöðu bankakerfisins. Í ræðu sinni taldi ég formanninn hafa vikið með grófum hætti frá stefnu flokksins, gengið á svig við eigin málamiðlun um Evrópumál auk þess að afhjúpa sig sem afsökunarmann fyrir fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formann bankaráðs Seðlabankans. Í niðurlagi þess pistils segir eftirfarandi: “Trúverðuleiki formanns Framsóknarflokksins til að framfylgja stefnu flokksins og leiða hann til öndvegis á ný í íslenskum stjórnmálum hlýtur að koma til mikilla álita, sérstaklega eftir að hann hefur gengið með slíkum hætti gegn stefnu og vilja eigin flokks.”

Töluverð viðbrögð urðu við þessum pistli mínum og ófá símtöl fylgdu í kjölfarið. Greinilegt var að í þessari gagnrýni minni var ég að snerta á taug meðal margra Framsóknarmanna – segja það sem margir hugsuðu. Svo því sé haldið til haga þá fékk ég líka skammir, en þær voru mun færri.

Tveimur dögum síðar er haldið kjördæmisþing Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi og þar fara mál á þann veg að vænir bitar sem beint var gegn ESB og EES í drögum að ályktun þingsins eru felldir út, en höfundur þeirra var þáverandi þingmaður Bjarni Harðarson. Sú niðurstaða virtist fara mjög í taugarnar á honum og varð honum tilefni til upphrópanna í fjölmiðlum um óróamenn innan Framsóknarflokksins. Augljóst var að upphrópanir þingmannsins fyrrverandi gátu vel átt við undirritaðan. Sá ég því fulla ástæðu til að fjalla eilítið um þessar upphrópanir þingmannsins hér á þessum stað.

Þann 27. október síðastliðinn skrifa ég aftur hér á þessum vettvangi og set þar fram þá skoðun mína, umbúðalaust, að ég telji að Guðni Ágústsson eigi að víkja sem formaður flokksins. Fyrir því séu tvær ástæður, annars vegar hörmuleg útreið flokksins í skoðanakönnunum og hins vegar sú staðreynd að formaðurinn verði reglulega uppvís að því að “vinna beinlínis gegn stefnu eigin flokks.”

Þann 3. nóvember síðastlíðinn er haldin almennur félagsfundur í Framsóknarfélagi Akranes hvar ég gegni formennsku. Þar er samþykkt ályktun þar sem m.a. kemur fram eftirfarandi:

Framsóknarfélag Akranes lýsir sérstökum áhyggjum yfir stöðu Framsóknarflokksins. Endurnýjun flokksforystunnar er óumflýjanleg og hvetur Framsóknarfélag Akranes miðstjórn flokksins til þess að bregðast við með óyggjandi hætti hafi forysta flokksins ekki sjálf frumkvæði að breytingum.

Þann 8. nóvember er haldið kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þar tekur formaður flokksins í tvígang til máls í löngu máli, annars vegar við upphaf og hins vegar við lok þingsins. Báðar ræðurnar höfðu á sér sérkennilegt yfirbragð. Í þeim eyddi hann miklum tíma í að tala um að hann sætti sig ekki við að vegið væri að heiðarleika hans sem stjórnmálamanns. Nokkuð sem ég held að engin kannist við að hafa gert. Heiðarleiki Guðna hefur verið óumdeildur. Auk þess eyddi hann löngu máli í að tala um aðför gegn sér og þar væri að baki Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum borgarfulltrúi og nú ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins. Sem dæmi tiltók hann dæmalausa, að hans mati, bloggfærslu Björns Inga í kjölfar þingræðu sinnar í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um stöðu bankanna um miðjan október. Af tilvitnuninni að dæma var hann líkast til að eiga við þessa bloggfærslu hér, en í henni er lítið annað en tilvitnun í bloggfærslu undirritaðs.

Það ætti að vera óþarfi að taka fram, en tryggara samt, að undirritaður tilheyrir engum armi innan Framsóknarflokksins. Í gagnrýni minni á nú fyrrverandi formann flokksins, og síðan einnig á fyrrverandi þingmann Bjarna Harðarson, undanfarnar vikur, hef ég verið nokkurs konar eins manns fjöldahreyfing. Vinnubrögð Bjarna Harðarsonar í pólitík voru hins vegar afhjúpuð með eftirminnilegum hætti í síðustu viku og nú nokkuð augljóst að í gaspri sínu um óróamenn og óheiðarleg vinnubrögð í flokknum var þingmaðurinn fyrrverandi undir áhrifum hins fornkveðna að margur heldur mig sig.

Aðallega var Guðni Ágústsson þó fórnarlamb afleitrar tímasetningar í því að taka við formennsku í flokknum eftir langa stjórnarsetu, erfið deilumál og afhroð í kosningum. Jafnframt er ljóst nú eftir á að hann mislas þá ólgu sem orðin var í flokknum vegna annars vegar útkomu flokksins í skoðanakönnunum og hins vegar afstöðu til Evrópusambandsaðildar. Miðstjórnarfundurinn síðastliðinn laugardag var honum, og öðrum í forystu flokksins, mjög erfiður.

Afsögn hans og brotthvarf er þannig skiljanleg, en ekki sérlega þokkafull. Aðferðin er sambærileg við það að rjúka út í fússi og skella á eftir sér hurðum. Nær hefði verið að tilkynna um brotthvarf og sitja fram að flokksþingi. Kemur ekki á óvart að í þessu virðist Guðni Ágústsson enn hafa notið afleitrar ráðgjafar Bjarna Harðarsonar.

Miðstjórnarfundurinn síðastliðinn laugardag var augljóslega mikill vendipunktur. Óvægin gagnrýni fulltrúa ungra framsóknarmanna strax í upphafi umræðna slógu hinn nú fallna formann verulega út af laginu. Hann brást hinn ókvæða við og var það honum lítt til sóma. Guðni gerði sér þó grein fyrir því og eftir því sem leið á fundinn dró hann úr gagnrýni sinni á ungliðana. Enda var það svo að gagnrýni á forystu flokksins var síst einskorðuð við þá, hún átti sér engin aldursmörk og beindist ekki síður að varaformanninum og þingflokksformanninum.

Evrópumálin voru Guðna hins vegar líklega erfiðust á fundinum. Ekki endilega sú niðurstaða sem sæst var á og samþykkt samhljóða, heldur aðdragandi hennar. Um tíma lá við upplausn fundarins og beittu sér óvænt mjög óvægið tveir fyrrum ráðherrar flokksins, þær Siv Friðleifsdóttir og Jónína Bjartmars, og vildu fá samþykkta meiriháttar stefnubreytingu flokksins í Evrópumálum þannig að flokkurinn yrði hreinn aðildarflokkur. Það hugsa ég að hafi komið Guðna mjög í opna skjöldu. Samkvæmt lögum flokksins er miðstjórn án efa ekki heimilt að ganga svo langt í stefnumörkun og fyrirsjáanlegt að andstæðingar aðildar hefðu kært málið til laganefndar flokksins, hefði leið Sivjar og Jónínu verið farin.

Nú þarf engin að velkjast í vafa um mína afstöðu í Evrópumálum, en hér fannst mér, sem og mörgum öðrum fulllangt gengið. Áður hafði ég lýst því í pontu að ég teldi hreinlegra að flýta flokksþingi og beina því til þingsins að taka afstöðu til aðildarumsóknar. Það er nefnilega mikill eðlismunur á því fyrir stjórnmálaflokk að vera á girðingunni, eins og Framsóknarflokkurinn hefur verið hingað til, jafnvel með hvatningu til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu, og því að verða aðildarumsóknarflokkur. Þegar og ef flokkurinn samþykkir þá stefnubreytingu að vilja aðildarumsókn felur það í sér að flokkurinn hefur sameinast um það að aðild er markmiðið.

Því varð ljóst að málamiðlunar var þörf og átti ég þátt í þeirri málamiðlunartillögu sem miðstjórnarfundurinn samþykkti síðan samhljóða – sem betur fer. Með þeirri tillögu tókst að koma í veg fyrir að málið yrði þæft og tafið enn frekar, jafnvel með kæru til laganefndar flokksins.

Í kjölfarið róaðist fundurinn mjög þannig að hægt var að afgreiða stjórnmálaályktun fundarins í góðri sátt. Hins vegar er vart að undra að Guðni Ágústsson hafi upplifað sig mjög einan að afloknum fundi.

Það er rétt að með Guðna Ágústssyni hverfur af vettvangi stjórnmálanna litríkur stjórnmálamaður. Af honum verður mikill sjónarsviptir. En engin er eilífur í pólitík. Undanfarnir tveir mánuðir hafa verið mjög óvenjulegir hjá þjóðinni allri og brokkgengt brotthvarf hans er auðfyrirgefið.

Guðna Ágústssyni og fjölskyldu hans óska ég gæfu og gengis í framtíðinni.

11 ummæli:

  1. Hafðu þökk fyrir að deila þessu með okkur.

    Ég tilheyri ekki Framsóknarflokknum, en vildi óska að meðlimir annara flokka fetuðu í þín spor og deildu því með þjóðinni sem innan þeirra gerist. Eins og staðan er á Íslandi í dag er þörf á að fólk innan flokkana opni sig og segi frá -- og láti um leið af þeim leiða misskilningi að almenningur eigi ekkert með að vita hvað fer þar fram.

    Ég óska Framsóknarflokknum engrar sérstakrar velgengni, en með skrifum þínum mætti segja mér að hann ætti eftir að bæta sig í könnunum.

    SvaraEyða
  2. Af hverju er Valgerði haldið utan við þessa gagnrýni?

    SvaraEyða
  3. Segið svo að blogg hafi ekki áhrif.
    En niðurstaðan var sem sagt hefðbundið Framsóknarmálamiðlunarmoll sem segir lítið sem ekkert....

    SvaraEyða
  4. Var Valgerður ekki á fundinum? Sagði hún ekkert?
    Samt gaman að fá smá innsýn í þá bakstungu og skítkastspólitík sem þið rekið innan framsóknar......

    SvaraEyða
  5. Er ekki nóg komið ?

    Einhverstaðar sagði að "hátt hreyki heimskur sér" og sé ég ekki betur en það eigi ágætlega við um þennan pistil þinn um eigin framistöðu í flokkstarfinu.

    Nú ætla ég þér ekki að vera svo mikill naívisti að þú áttir þig ekki á hvaða hlutverki þú gegndir með opinberum undrróðri þínum. Við höfum séð svona hlutverkaleiki hvað eftir annað í flokkstarfinu. Einhverjusinni var talað um að "húskarlar væru komnir á kreik". Ætli þinn húsbóndi sé sá hinn sami og kom þér í vinnu í utanríkisráðuneytinu í gegnum flokkinn á sínum tíma? Er það einskær tilviljun að grasrótarmaðurinn af Akranesi deili skoðunum með fyrrum húsbónda sínum?

    Þú kannski bloggar næst um það.

    SvaraEyða
  6. Er ekki meginástæða fyrir flótta Guðna sú að það komst upp að hann hafði lekið IMF samningnum til DV

    SvaraEyða
  7. Þú hefur augljóslega hitt naglann á höfuðið Friðrik fyrst Haukur Logi skammar þig. Fyrir okkur sem þekkjum til þarna innanflokks er það hrós ef skósveinn Sivjar gerir svo lítið að hreyta í þig ónotum. Haukur Logi hefur gert flokknum meira ógagn með yfirlýsingum sínum og ummælum en flestir aðrir. Samt spyr hann hvort ekki sé nóg komið. Hlæja myndi ég ef tilefnið væri ekki svona sorglegt

    SvaraEyða
  8. nafnlaus skrifaði: "Er ekki meginástæða fyrir flótta Guðna sú að það komst upp að hann hafði lekið IMF samningnum til DV" - hefur það komið fram? Ljóst má vera að gríðarlegur leki er innan fjármálráðuneytis og verður að fara yfir það, samanber samtal ÁM og Darling.

    En ég verð að leyfa mér að kommentera á Hauk Loga. Sá ágæti maður ætti nú að horfa í eigin barm, veit ekki betur en hann hafi verið ein ósmekklegasta eiturpadda í bloggheimum sem hefur stórskaðað flokkinn síðustu misseri.

    SvaraEyða
  9. Það er útaf framsóknarmönnum eins og þér sem ég afskráði mig úr flokkum á þriðjudag.

    SvaraEyða
  10. Friðrik skósveinn.
    Hversvegna er þú ekki á póstlista Jóns Sigurðssonar fyrrverandi formanns flokksins? Öðrum til skýringar sendi Jón út póst 12. nóvember sem bar yfirskriftina "Ekkert leyndarmál"
    Þar kom kallinn heldur betur upp um sig og klíkuógeðið sem haldið hefur flokknum í heljargreypum svo mánuðum skiptir.
    Þessi póstsending fór úr böndunum eins og fleiri og lenti að lokum í höndum réttra aðila.

    SvaraEyða
  11. Hvernig lýstu þessar heljargreipar sér?
    Var formaðurinn gagnrýndur í fjölmiðlum? Var dylgjað um heiðarleika hans eða fjármál hans eða fjölskyldu hans og stuðningsmanna?

    Segðu frá, miðað við umræðuna og það hvernig fjölmiðlaumfjöllun um framsókn var undanfarin ár einkenndist formennska Guðna af algjörum friði, eina neikvæða fréttin var um að hann hefði gengið út úr þættinum hjá Stormsker,

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.