laugardagur, 7. febrúar 2009

ESB-aðild hefði bjargað miklu

Það er full ástæða til að benda á fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag um samanburð á Íslandi og Írlandi og stöðu þeirra í heimskreppunni. Margt er jú um líkt með löndunum. Í stuttu máli er það þó svo að þrátt fyrir að írar, sem og margar aðrar þjóðir innan ESB, glími við mikinn vanda tengdan efnahagskreppunni og afleiðinga ofþennslu innanlands, er staða þeirra snöggtum skárri en Íslands. Hvers vegna? Jú landið er aðili að Evrópusambandinu og hefur evruna sem gjaldmiðil.

Nú reynir á Evrópusambandið sem einskonar efnahagslegt varnarbandalag gegn heimskreppu. Gengur þar allt fyrir sig með sem bestum hætti? Auðvitað ekki, enda bandalagið samband 27 sjálfstæðra ríkja! 

Ef sambandið væri hið einstrengislega ofurríki sem andstæðingar aðildar hér á landi reyna að halda fram (reyndar á sama tíma og þeir halda fram að sambandið sé allt í upplausn og mun leysast upp innan skamms) þá hefði jú mátt búast við því að skipun kæmi að ofan frá Brussel um einsleitar og fullkomlega samhæfðar aðgerðir gegn kreppunni. 

Auðvitað gerist það ekki. Ákveðnar aðgerðir eru sameiginlegar, Seðlabanki Evrópu leikur stórt hlutverk hvað varðar t.d. peningamál og vaxtastefnu, en ríkin sjálf verða að bregðast við þeim hluta efnhagsvandans og heimskreppunar sem er sértækur innan þeirra eigin landamæra.

Þau eru jú ennþá fullvalda og sjálfstæð og með gríðarlegt sjálfsforræði hvað varðar eigin mál.

ESB-aðildin og evran, gefur þeim hins vegar bakhjarl og trúverðugleika til þess að glíma við vandann.

Þess vegna er það t.d. svo, eins og bent er á í fréttaskýringu Morgunblaðsins, að "Írsk heimili og fyrirtæki hafa því ekki þurft að takast á við gjaldeyriskreppu, háa vexti og mikla verðbólgu."

Höfum svo í huga að andstæðingar ESB aðildar Íslands hafa í gegnum tíðina notað eftirfarandi röksemdir gegn aðild Íslands að ESB og evru:

"Mikilvægur sveiflujöfnunarsveigjanleiki" - ójá, allt þar til sveifluðumst út um gluggann, misstum takið á pendúlnum og skullum í gólfið.

"Aðild fylgir atvinnuleysi" - eigum við að ræða það eitthvað?

"Aðild kostar!" - en aðildarleysi kostar greinilega meira.

"Evran í núverandi ástandi myndi þýða að eina leiðin til að bregðast við væri að lækka laun!" - eins og það sé ekki að gerast?

"Ísland yrði áhrifalaust innan ESB!" - áhrif okkar utan þess, sérstaklega núna, er einmitt eitthvað til að hrópa húrra fyrir...

"Fríverslunarsamningar Íslands við önnur ríki myndu falla niður!" - en í staðinn kæmi aðild að mun víðfeðmara og öflugra fríverslunarneti ESB.

"Ísland myndi lokast innan tollamúra ESB!" - sem eru óvart lægri tolla- og gjaldamúrar en Ísland hefur í dag. ESB er líka aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og "tollamúrar" þess eru takmarkaðir samkvæmt þeim skuldbindum, rétt eins og tollamúrar Íslands. Ísland er þó snöggtum duglegra en ESB að nýta sér allskyns "trix" eins og vörugjöld.

Ákvörðun um aðildarumsókn að ESB verður mikilvægur líður í því að vinna endurreisn Íslands og björgun heimila og fyrirtækja. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju Samfylkingin gerði ekki aðildarumsókn að kröfu í stjórnarmyndunarviðræðunum. Í ljósi niðurstöðu flokksþings Framsóknarflokksins hefði forystu þess flokks ekki verið stætt á öðru en að samþykkja það.

Læt þetta duga að sinni, en kannski maður taki smá syrpu næstu daga í að salla niður röflið í afturhaldsíhaldstittsseggjunum og skaðaskemmturunum í Heimssýn... M.a. þá kostulegu stöðu að innan þessarar hreyfingar "sjálfstæðissinna" er að finna haug af liði sem finnst allt í lagi að halda því fram sem valkosti að ganga aftur Noregskonungi á hönd! 1262 hvað?

Vek svo í slúttið athygli á ágætri grein Jóns Baldvins Hannibalssonar í Morgunblaðinu í morgun.

10 ummæli:

  1. Það væri ráð að fylgjast með hvernig Írum og Íslendingum gegnur að vinna sig út úr kreppunni. Við erum rétt að komast í gegnum fyrsta kaflann og mikið eftir enn.

    Mig grunar að hlutskipti Íra verði ekki öfundsvert. Settu X við október á dagatalinu þínu og skrifaðu aðra færslu þá um samanburð landanna tveggja þá.

    SvaraEyða
  2. Er ekki ráð að hvíla ESB umræðuna aðeins.

    Þetta karp skilar ekki neinu, bendi þér svo vinsamlega á það að ef þú vonast eftir stuðningi í NV kjördæmi þá eru fáir þar utan Samfylkingar sem hafa tekið Brusselsóttina.

    Margir til viðbótar geta verið móttækilegir en ekki fyrir þessum stíl sem þú brúkar hérna.

    kv. Barði Barðason

    SvaraEyða
  3. Ástæðan fyrir því að ekki var sótt um aðild að ESB núna sýnist mér vera stjórnarskrábreytingar sem stjórnarflokkanir vilja koma í gegn áður en sótt verður um aðild að ESB. Það fellur því í hlutverk næstu ríkisstjórnar að sækja um aðild að ESB.

    SvaraEyða
  4. Nafnlaus: Auðvitað fyljgumst við áfram með og berum saman hvernig þessum ágætu frændþjóðum vegnir í áframhaldi kreppunnar. Ef írar verða enn í djúpum og jafnvel dýpri í október, geri ég mér littlar vonir um að staðan hér muni verða nokkuð skárri.

    Barði: Nei, það er ekki ráð að hvíla ESB-umræðuna. Hún hefur aldrei verið mikilvægari. Ég geri ráð fyrir að stíllinn sem þér hugnast ekki sé skot mitt í lokin á þá Heimssýnarfélaga. Þeir ættu að þola það - ekki hlífa þeir okkur evrópusinnunum hætishót. "Svona karp" eins og þú kallar það er hins vegar alltaf vandmeðfarið þ.a. ég get nú fullvissað þig um það að ég verð spar á uppnefnin, þó að ég muni leyfa mér stundum smá! Það verður jú að sýna að það renni í manni blóðið...

    Hvað varðar afstöðu fólks í NV-kjördæmi til ESB að þá fer ég ekki í framboð og geng í gegnum hamskipti. Ég er hlynntur aðildarumsókn að ESB og tel það vera réttu leiðina fyrir Ísland til framtíðar - ekkert kjördæmi undanskilið. Ég fer ekki að draga dul yfir þá afstöðu mína af því að það gæti hentað tímabundnum framboðshagsmunum. Erum við ekki búin að fá nóg af slíkum pólitíkusum?

    Jón Frímann: Hugsanleg skýring en núverandi stjórnarskrá kemur hins vegar að engu leiti í veg fyrir aðildarumsókn. Breyting á stjórnarskrá væri hins vegar nauðsynleg áður en að til aðildar kæmi. En, málið er komin í þennan farveg þ.a. maður lifir vel með því.

    SvaraEyða
  5. Er í öllum aðalatriðum sammála þér Friðrik. Íslendingar eru þegar djúpt inni í ESB en án fullrar aðildar sem takmarkar sjálfsæði þjóðarinnar. Ef það væri sjálfstæðinu til bóta að segja sig úr EES þá ætti að gera það. Það dettur víst engum í hug í fullri alvöru. Amk engum sem hefur eitthvað um málið að segja fyrir okkar hönd. Geri ráð fyrir að enginn þingmaður sem nú situr myndi styðja slíka tillögu. Afleiðing þess að telja að EES samningurinn sé nægjanlegur og til frambúðar er hinsvegar að mínu mati orðið skaðlegt fyrir frekari þróun samfélags okkar. Full aðild með kostum og göllumm er það eina sem er rökrétt ferli fram á við. Það hefur reyndar blasað við lengur en menn viðja viðurkenna en núna snýst það um að bjarga innviðum samfélagsins sem enn standa. Álagið á mennta, heilbrigðis og atvinnukerfi landsmanna er hinsvegar að verða krítiskt og það mun láta undan með óbreyttri sinnuleysisstefnu gagnvart evrópusamvinnu. Kær kveðja Gísli Ingvarsson ( ekki anonymus)

    SvaraEyða
  6. Var það ekki VEGNA skorts á reglum já ESB sem Ice Save féll á ríkið? Ef við hefðum ekki haft ESB reglur, þá hefði ríkið aldrei samþykkt ábyrgðir fyrir Icesave, og þessar upphæðir þar með aldrei fallið á ríkið.

    Sem sagt, við hefðum aldrei lent svona illa í þessu ef ESB væri ekki til?

    SvaraEyða
  7. Gísli: ég er líka sammála þér!

    Nafnlaus: Neibb. Annars vegar var það kerfið hér sem brást. Hvort og með hvaða hætti menn fóru eftir og nýttu reglurnar var lykilatriði, svo og sú staðreynd að ýmislegt vantaði upp á í reglusetningu hér, s.s. varðandi krosseignatengsl.

    Hins vegar er það svo að mesta ábyrgð á ICESAVE bera fyrrum eigendur og stjórnendur Landsbankans, og svo okkar pólitísku leiðtogar við upphaf bankakrísunnar.

    SvaraEyða
  8. Skemmtileg umræða hér Friðrik. Mér þætti gaman að sjá hvaða lausnir and-ESB sinnar stinga upp á í stað þess að stöðugt að gaganrýna ESB aðild með mismálefnalagum rökum og upphrópunum.

    Þinn vinur
    Ægir

    SvaraEyða
  9. Öllum meginatriðum sammála þér Friðrik. það er með eindæmum hvað ESB andstæðingar hafa vaðið uppi með hræðsluáróður um að við munum tapa öllu við að ganga í ESB. Ég kom á sveitabæ um daginn og fólk var einfaldlega hrætt. Þessu þarf að svara betur! kv. B

    SvaraEyða
  10. Ægir, kemur ekki á óvart að við séum á sömu línu hvað þetta varðar!

    Baldur: Það verður að gefa Heimssýnarmönnum kredit fyrir það að þeir eru miklu öflugri í sínum áróðri, betur skipulagðir og ófyrirleitnari. ESB-sinnar eru hins vegar alltaf of kurteisir, já og of málefnalegir. Skipulagið er hverfandi. Við verðum að hrópa hærra, meira og víðar... og tala nú ekki um að fara gegn þessum fáránlega hræðsluáróðri...

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.