miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Framboðsyfirlýsing

Ég sækist eftir að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Ég býð fram krafta mína, ekki aðeins í þágu Norðvesturkjördæmis heldur í þágu landsins alls í ljósi þess mikla uppbyggingarstarfs sem fyrir höndum er.

Það er erfitt verk fyrir höndum. Nauðsynlegt er að byggja upp traust á stjórnvöldum og stofnunum samfélagsins og kallar það á ný og gegnsæ vinnubrögð. Mikilvægt er að vel takist til. Við höfum ekki efni á mistökum. Sá kvóti er uppurinn.

Nú sem aldrei fyrr er þörf á uppbyggingu og endurreisn alþjóðlegra tengsla landsins, svo bætt verði fyrir þau mistök sem gerð voru í samskiptum við okkar helstu vinaþjóðir. Aldrei aftur megum við finna okkur á alþjóðlegu bersvæði, óstudd og óvölduð.

Í á fjórtánda ár hef ég notið þeirrar gæfu að vinna í þjónustu þjóðarinnar innan íslenskrar stjórnsýslu, bæði innanlands og erlendis. Það hefur gefið mér dýrmæta innsýn og fjölbreytta reynslu sem mun nýtast vel til þeirra átaksverkefna sem framundan eru.

Fyrst og fremst verðum við þó að hefja tafarlausa endurreisn atvinnulífs um land allt. Þar leiðir hvað af öðru og hér verður ríkisvaldið að leika markvisst hlutverk. Því hefur val okkar á fulltrúum til setu á Alþingi sjaldan skipt jafn miklu máli og nú.

Friðrik Jónsson, formaður Framsóknarfélags Akraness
Gsm: 820-5990
TP: fridrik.eyjan@gmail.com
Blogg: http://fridrik.eyjan.is/

Almennar upplýsingar:

Menntun:
- BA-próf í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustu.
- MBA-próf í alþjóðaviðskiptum
- MA-próf í alþjóðasamskiptum.

Starfsreynsla:
- Starfa í dag sem verkefnis- og sviðsstjóri hjá Varnarmálastofnun Íslands (í láni frá utanríkisþjónustunni)
- Hóf störf í utanríkisráðuneytinu í janúar 1996. Var m.a. starfsmaður sendiráðs Íslands í Washington D.C. frá 1998 til 2002 og staðgengill sendiherra við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn 2002 til 2006. Hef starfað á alþjóða-, varnarmála-, og viðskiptaskrifstofum utanríkisráðuneytisins.
- Fyrri störf m.a. hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, í heildsölu, og í Seðlabanka Íslands.
- Auk þess sinnt kennslu í sölu- og markaðsfræðum á háskólastigi.

Fjölskylduhagir:
- Fæddur í Reykjavík 8. maí 1967. Kvæntur Elínborgu Þóru Þorbergsdóttur. Fjögur börn á aldrinum 3 til 24 ára. Þrír hundar.

9 ummæli:

 1. Frábært Friðrik,

  En nú kemur mikilvægasta spurningin: Ertu auðmaður?

  :)

  SvaraEyða
 2. Þakka kveðjuna Hjálmar.

  Og til að svara spurningu þinni, nei, ég er ekki auðmaður. Staurblankur ríkisstarfsmaður með líklega neikvæða eiginfjárstöðu, þökk sé verðtryggingu og falli fasteignamarkaðar!

  SvaraEyða
 3. framsóknarflokkurinn þarf á góðu fólki í framboð gegn þessum mergspylltu mönnum sem vilja fá sinn hlut aftur.
  Myndi kjósa þig ef ég væri flokksbundinn framsóknarmaður.

  kv Skagamaður

  SvaraEyða
 4. Lýst vel á þig... hef lesið bloggið þitt reglulega.
  Annar Skagamaður

  SvaraEyða
 5. 2 SÆTI HVEÐI VERÐI GOTT
  FRAMSÓKN FÆR 3 ÞINGMENN

  SvaraEyða
 6. Gaman hvað Framsóknarflokkurinn hefur mikið mannaval, takk fyrir að bjóða þig fram tl þeirra erfiðu verka sem bíða allra sem setjast á Alþingi.

  Gangi þér vel.

  SvaraEyða
 7. Vona að þú náir þessu sæti.

  Við hvaða skóla tekur maður próf í alþjóðasamskiptum?

  SvaraEyða
 8. Eitt sem mig langar að vita, hvort var það halldór eða Valgerður sem réðu þig í opinbert embætti ?

  SvaraEyða
 9. Þakka hér góðar kveðjur.

  Geir, það má alltaf bæta úr þessu með flokksbindinguna! Ef ekki, og ég hef erindi sem erfiði, þá er þarf ekki flokksbindinguna til þegar kemur að kjördegi...

  Annar skagamaður: þakka þér.

  Sveinbjörn: það er um að gera að stefna á toppinn - vona að spá þín rætist um 3 þingmenn.

  Salvör: þakka þér þín orð. Það er vonandi að í öllum flokkum verði gott og fjölbreytt úrval karla og kvenna sem eru tilbúin að gera allt sem þau geta fyrir land og þjóð.

  Nafnlaus: þakka þér. Það er fjöldi háskóla sem býður upp á slíkt nám. Sendu á mig t-póst og ég skal senda þér til baka slatta af linkum.

  Nafnlaus: Ég var ráðin á tíma Halldórs Ásgrímssonar - undir lok árs 1995 og hóf störf í janúar 1996.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.