laugardagur, 21. febrúar 2009

Sökudólgarnir þrír...

Í því efnahagslega gjörningaveðri sem gengið hefur yfir land og þjóð – já og reyndar heimsbyggðina alla – hefur verið erfitt að henda reiður á því hvað gerðist.

Undanfarin ár fylgdumst við með hálf-forviða hvernig annar hver maður varð allt í einu ríkur, og síðan ofur-ríkur. Íslenskir auðjöfrar spruttu upp úr nánast engu og urðu alþjóðlegir leikmenn á fjármálavöllum heimsins.

Það er því alveg nauðsynlegt að reyna að setja málið upp á sem einfaldastan hátt og hef ég verið að brjóta heilann um það undanfarið.

Niðurstaða mín í þeim vangaveltum er, að ef frá eru talin glannaskapur, greindarskortur og græðgi (G-in þrjú), þá eru sökudólgar krísunnar E-in þrjú: EBIDTA, Eigið fé og Excel.

Tökum mjög einfaldað dæmi:

Í gamla daga virkaði viðskiptalífið þannig að ef þú vildir eignast tekjugefandi eign sem kostaði þúsund krónur, þá fékkst þú í mesta lagi lán fyrir hugsanlega 800 krónum og lagðir sjálfur fram 200 krónur.

Gefum okkur að 800 króna lánið hafi verið á 5% vöxtum (kúlulán, þ.e. bara borgaðir vextir – engar afborganir) og árstekjurnar af 1000 króna eigninni 100 krónur að þá var kostnaðurinn af fjárfestingunni vextirnir af 800 kallinum, sem sagt 40 krónur.

Tekjur þínar voru þá 60 krónur, sem þýðir í þessu mjög svo einfaldaða dæmi að þú varst að fá 30% ávöxtun á eiginfjárframlagi þínu upp á 200 krónur.

Svo fór að losna um lánsfé þannig að svigrúm fór að myndast til að auka skuldsetninguna. Þú skuldsettir eignina upp í 900 krónur, vextir voru óbreyttir 5% og kostnaðurinn þannig orðinn 45 krónur á ári. Tekjur þínar eru núna 55 krónur, en það er 55% ávöxtun á eiginfjárframlagi þínu, sem nú er bara hundrað kall eftir hina auknu skuldsetningu.

En nú ertu hins vegar með 100 krónur í lausu fé til að gera aðra fjárfestingu, þannig að nú er hægt að bæta við annarri þúsund króna eign sem gefur af sér 100 krónur á ári – báðar að gefa af sér 55% ávöxtun á þínu eiginfjárframlagi. 200 krónurnar sem þú lagðir til eru að gefa af sér 110 krónur í hreinar tekjur á ári.

Nú er farið að vera virkilega gaman að vera til og því um að gera að setja dæmið upp í töflureikninum (Excel) og nota hugtak eins og EBIDTA. EBIDTA er skammstöfun á ensku orðunum yfir “tekjur fyrir vaxtagreiðslur, afskriftir o.s.frv.” en fyrir okkar dæmi er nóg að vita að hana má misnota til þess að rökstyðja “leiðréttingu” á virði eignarinnar í ljósi þess hvaða tekjum hún er að skila.

Af því að EBIDTA-n er svo fín, og þú ert að ná 55% arðsemi af þínu eiginfjárframlagi, þá er “augljóst” að eignin hlýtur að vera meira virði þar sem hún getur auðveldlega borið hærri skuldsetningu. Höfum líka í huga að þú hlýtur að vera komin með óefnislega eign eins og viðskiptavild af því að þú ert svo duglegur að fá tekjur af eigninni!

Því hlýtur næsta skref að vera það að þú sannfærir sjálfan þig, og bankann þinn, að í raun séu þessar tvær eignir sem þú keyptir á samtals 2000 krónur í reynd 4000 króna virði. Það þýðir að það hlýtur að vera allt í lagi að skuldsetja eignirnar upp á 3000 krónur.

Óbreyttir vextir og óbreyttar tekjur þýða að þú ert ennþá "bara" að borga 150 krónur í vexti á móti 50 krónum í hreinar tekjur þínar. Það er samt sem áður 25% hagnaður af þínu eiginfjárframlagi upp á 200 krónur og þú er komin með 1200 krónur í viðbót til að fjárfesta fyrir. 12 nýjar 1000 króna eignir!!!

Þú skuldsetur hverja fyrir 900 krónur. Borgar 45 krónur í vexti af hverri, en færð 55 krónur í tekjur. Samtals eru tekjur þínar orðnar 50 (tekjurnar af fyrstu tveimur eftir auknu skuldsetninguna) plús 12 (þessar nýju til viðbótar) sinnum 55 krónur (tekjurnar af hverri þeirra). Samtals eru þetta þannig orðnar 710 króna árstekjur. Og mundu, þú lagðir bara fram 200 krónur í upphafi til að setja þetta af stað!

Þetta setur þú upp í Excel töflureikninum þínum.

Gerir “copy-paste” nokkrum sinnum.

Og áður en þú veist af ertu búin að breytast “úr bjána-blönkum í breiðvaxinn milljóner.”

En....

Þetta gengur upp á meðan að þrjár forsendur halda

1. Tekjurnar af eignunum haldast stöðugar (eða hækka – og þá ber eignin frekari skuldsetningu)

2. Vextirnir haldast óbreyttir (eða lækka – og þá ber eignin frekari skuldsetningu)

3. "Markaðsvirði eignanna" helst óbreytt (eða hækkar – og þá ber eignin frekari skuldsetningu)

Síðastliðinn 6 ár hafa þessar þrjár forsendur haldið, og ef tækifæri var til að auka skuldsetningu var það gripið.

En svo allt í einu fóru þær að gefa sig.

Draumurinn sem byggði á mjög svo takmörkuðu eigin fé, hringli með EBIDTA og misbeitingu á Excel breytist í martröð á augabragði.

Áhættan var orðin yfirgengileg, ekkert svigrúm var til staðar fyrir niðursveiflur og spilaborgin hrundi.

----------------------------

Ég ítreka að hér er um að ræða verulega einfaldaða uppsetningu sem er vonandi til að hjálpa til við að skýra málið. Laun og skattar, rafmagn, ljós og hiti o.s.frv. o.s.frv. er öllu sleppt til að hafa dæmið sem einfaldast og auðskiljanlegast. Vona að það hafi tekist. Athugsemdir, ábendingar og leiðréttingar í kommentakerfið væru hins vegar afskaplega vel þegnar.

5 ummæli:

 1. Of mikil einföldun að mínu mati. Síðan geriru ráð fyrir sama vaxtastigi þegar "losnar" um lánsfé. Að öllu öðru jöfnu þá lækka vextir við slíkt. En það hefur í sjálfu sér ekki áhrif á rökfærslu þína.

  Ennfremur - þá færðu ekki viðskiptavild á bækurnar þínar af því að þú ert svo klár í að búa til tekjur - eina leiðin til þess að fá óefnislegar eignir (s.s. viðskiptavild) á bækur fyrirtækis er í gegnum yfirtöku (þ.e.a.s kaup á annarri viðskiptaeiningu). Það kallar allajafnan á skuldsetningu - þannig að þú ert ekkert endilega að auka verðrými með slíkum æfingum.

  Og, að kenna excel skjölum og EBITDA um ástandið er barnaleg einföldun. Hins vegar tek ég undir það með þér að vissu marki að menn hafa sennilega verið að nota EBITDA án þess að skilja hvað á bakvið þá skammstöfun er. Þannig er hægt að "inflate-a" EBITDA með því að sleppa að endurfjárfesta í mikilvægum tækjum eða búnaði - sem gerir EBITDA hátt í dag en gerir fyrirtækið illa undirbúið fyrir framtíðina. Ennfremur er EBITDA svokölluð pro-forma tala - það þýðir í raun að um hana gilda ekki neinar reikningsskilareglur og því mörg dæmi um að fyrirtæki birti EBITDA - en sleppi stórum eða mikilvægum kostnaðarliðum við að reikna þá tölu.

  Samt sem áður - ofureinföldun á þessu ástandi. Það hjálpar ekki neinum að skilja það - frekar gerir þá sem ekki skilja þessi hugtök sem þú notar enn berskjaldaðri fyrir óupplýstri og grunnri umræðu.

  SvaraEyða
 2. Já, þú meinar!

  SvaraEyða
 3. Ósammála því að þessi einföldun hjálpi ekki. Það má vel vera að þegar flækjustigið eykst þá komi ýmislegt í ljós sem einföldunin getur ekki útskýrt. Hins vegar þá finnst mér hún vel útskýra grunn vandamálsins, fólk einfaldlega gerði ekki ráð fyrir að þurfa að borga lánin.

  Hvernig fæ ég það út? Það er nokkuð greinilegt að nokkurn vegin hvað sem þurfti að gera til þess að halda þessum þremur atriðum "réttu megin" var gert. Það borgaði sig til þess að geta grætt meira.

  Það ætti einhver að senda þetta fólk í smá stærðfræðikennslu ... það er svo augljóst að þetta dæmi gengur ekki upp, svona Rómarveldisstækkun springur alltaf þegar það finnst ekki fólk til þess að borga fyrir brúsann.

  SvaraEyða
 4. Nafni, það er nauðsynlegt að reyna að ofureinfalda til að skilja hvað hefur verið í gangi. Flestar ábendingar þínar eru réttmætar, en þær breyta ekki grunnpunktinum - menn kjöftuðu sig upp í hagnaðarvæntingar sem ekki gátu staðist til lengdar, yfirskuldsettu sig og tóku áhættu sem stóðst ekki fyrsta bakslag.

  Punktur þinn um viðskiptavild er svo ekki alveg réttur - hún þarf jú að eiga sér eitthvert upphaf - og það eru til reglur í bókhaldi um slíkt.

  EBIDTA er er algengasta dæmið um tölu sem í sjálfu sér segir ekki mikið. Hún var upphaflega notuð til samanburðar á fyrirtækjum innan sömu greinar til að sjá hvernig þau stæðu rekstrarlega - en hefur verið í seinni tíð notuð til að réttlæta fjárfestingarákvarðanir sem getur verið (og er) mjög hættulegt. Tökum sem dæmi þegar Eimskip keypti Versacold og Atlas Cold Storage og tók lán í Kanadadollurum á 15% vöxtum - sem NB var 1045 punktum yfir þáverandi millibankavöxtum á kanadadollar - að þá var það réttlætt m.a. með því að EBIDTA-n væri þannig að sú skuldsetning stæði undir fjárfestingunni. Annað hefur svo að sjálfsögðu komið í ljós.

  Dæmi voru síðan að sjálfsögðu um að menn voru með fjárfestignarfélög og allt yfirskuldsett upp í topp (og yfir). Þess vegna m.a. rúllaði fjárfestingarfélagið Gnúpur strax í nóvember/desember 2007 og FL Group riðaði til falls á sama tíma. FL Group var þá bjargað tímabundið með miklum sýndareignarmillifærslum. Þessi félög þoldu ekki þá hækkun sem þá þegar fór að verða á þeirra skuldatryggingarálagi - þ.e. hærri lánsfjárkostnaði. Þeir gerðu ráð fyrir ódýru lánsfé til eilífðar...

  Nafnlaus: já, ég meina!

  Björn Levi: Það er ljóst að menn töldu sig vera búna að finna upp eilífðarvélina. Minnir að t.d. lán Saga-capital til Daggar Pálsdóttur vegna kaupa á hlut í Spron hafi verið á þeim tíma sem hluturinn var keyptur hærri en þáverandi markaðsvirði hlutarins - hlutabréf í Spron áttu jú víst bara eftir að hækka!

  SvaraEyða
 5. Þetta er sérlega gott innlegg í umræðuna, Friðrik, og ég hvet þig til að koma með fleiri.

  Ég held að áhyggjur Nafna séu óþarfar, því vissulega á maður að lesa svona einfaldanir sem slíkar - þ.e. með slíkri hógværð að maður skilji hvað maður skilur lítið.

  En þetta hjálpar; tvímælalaust.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.