þriðjudagur, 24. febrúar 2009

Stjórnmál í boðhætti

Höskuldur Þórhallsson er vandaður maður, varfærinn og vill vanda vel til verka, sérstaklega þegar kemur að grafalvarlegum hlut eins og lagasetningu. Þar rennur lögmanninum blóðið til skyldunnar.

Það er því skiljanleg afstaða hans að hafa viljað bíða í tvo daga með það að samþykkja afgreiðslu frumvarps um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands úr viðskiptanefnd þingsins. Sérstaklega ef hann telur að umtöluð skýrsla ESB muni leggja upp nýja vinkla í málinu sem geti haft veigamikil áhrif á starfshætti Seðlabankans í framtíðinni.

Hins vegar er líklegt að sama hvað verður í skýrslu ESB, verði ekki tími til þess að taka á þeim málum í þessu frumvarpi. Skýrsla ESB verður auk þess innlegg í aðra vinnu á alþjóðavettvangi sem snýr að reglusetningum og starfsumhverfi Seðlabanka, eftirlitsaðila og fjármálamarkaða, þ.m.t. viðskiptabanka og fjárfestingarfélaga.

Á vettvangi ESB, innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annars staðar í alþjóðlegu samhengi er undir að endurskoðun og tillögum til úrbóta.

Þessu verki verður ekki lokið á næstu vikum.

Núverandi frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands tekur ekki á þessum þáttum. Í því felast einungis grunnbreytingar á skipulagi bankans sem munu gera það kleift að hægt verður að stilla upp nýju liði bankastjórnar, bankastjóra og peningastefnunefndar. Nýtt lið sem mun vinna með næstu ríkisstjórn og Alþingi að tillögum um frekari breytingar á lögum um Seðlabankann, og eftir atvikum um lögum um fjármálaeftirlit.

Núverandi frumvarp er fyrsta skref, ekki lokaskref.

Praktískt og pólitískt var þess vegna afstaða Höskuldar í viðskiptanefnd þingsins ekki nauðsynleg. Nýtt þing, í kjölfar kosninga, mun þurfa að vinna áfram að frekari breytingum á lögum um Seðlabankann.

Það breytir ekki því að það sem gerðist í kjölfar ákvörðunar Höskuldar var til skammar.

Eftir allt talið um virðingu þingsins og nauðsyn þess að efla stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu er brugðist við þann hátt að jaðrar við byltingu. Framkvæmdavaldið, sem starfar í umboði minnihluta á Alþingi, virtist ætla að reyna að beita þvingunum á löggjafann til þess að knýja fram niðurstöðu í málinu.

Nýr Forseti Alþingis lét fulltrúum framkvæmdavaldsins í reynd eftir stjórnun þingsins. Féll hann þar með á sínu fyrsta prófi.

Umhugsunarfrestur Höskuldar réttlætti ekki þá niðurlægingu þingsins.

Er ekki komið nóg af stjórnmálum í boðhætti?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.