laugardagur, 21. febrúar 2009

Að hugsa hið óhugsandi

Í þeirri kreppu sem heimurinn allur er að eiga við er ekki skortur á samanburði við kreppuna miklu sem hófst við lok þriðja áratugar síðustu aldar. Skrifað og rætt hefur verið um hvað varð orsakavaldur kreppunnar á þeim tíma, hvort kreppan nú eigi sér raunverulega hliðstæðu við kreppuna þá og hvort draga megi lærdóma af viðbrögðum við kreppunni þá sem gagnast í viðbrögðum við kreppunni nú.

Almennt er talið að tvenn mjög afdrifarík mistök hafi verið gerð í síðustu heimskreppu sem verði að forðast nú. Í fyrsta lagi hafi fjárflæði í fjármálakerfi heimsins, þ.m.t. aðgengi að lánsfé úr seðlabönkum til viðskiptabanka ekki verið tryggt, og í öðru lagi var gripið til viðskiptahindrana og annarra lausna sem byggðu á hafta- og þjóðernisstefnu.

Hvað fyrri þáttinn varðar hafa ríki heims að mestu staðið sig nokkuð vel í að tryggja fjárflæði og aðgang að lánsfé úr Seðlabönkum til helstu bankastofnanna. Björgunaraðgerðir hafa verið settar af stað og bankar jafnvel í mörgum tilvikum þjóðnýttir í stað þess að setja þá í þrot. Vandinn er hins vegar sá að þetta hefur ekki dugað til. Það er m.a. vegna þess að traust er af skornum skammti og hafa fjármálastofnanir frekar hamstrað fé og haldið í stað þess að tryggja eðlilegar lánafyrirgreiðslur til atvinnulífsins.

Það á sér ýmsar skýringar, t.d. þá staðreynd að yfirfjárfestingar, ofurskuldsetningar, undirmálslán og skuldavafningar hafa unnið gríðarlegt skemmdarverk á hinu frjálsa markaðshagkerfi. Hér hefur misbeiting á eiginfjárstöðu fyrirtækja, EBIDTA-um og Excel-leikfimi átt ríkan þátt í því hruni sem orðið er. Um allt fjármálakerfið liggja eitruð lán og fjármálagjörningar og því miður reyndust undirmálslán til húsnæðiskaupa í Bandaríkjunum rétt toppurinn á ísjakanum. Jafnframt hafa hrein fjársvikamál af ótrúlegum stærðargráðum komið upp.

Töluvert er því til af peningum, en þeir eru ekki að skila sér í umferð. Verðfallið sem er fylgifiskur kreppunnar gerir það líka að verkum að verðmat á fyrirtækjum á markaði er vonlaust og þannig ekki hægt að meta veðhæfi til lánveitinga. Að sama skapi er erfitt fyrir þá sem þó eiga laust fé til fjárfestinga að gera ábyrg tilboð í þau fyrirtæki sem eru til sölu.

Því er lausafjárvandinn flóknari en svo að trygging fjárflæðis frá seðlabönkum dugi til. Þess vegna hafa stjórnvöld út um allan heim gripið inn í líka og eru að veita fé út í hagkerfið með “örvunar”-aðgerðum. Hins vegar á eftir að koma í ljós hver árangurinn verður og í augnablikinu lítið annað að gera en að vona það besta.

Hinn þátturinn snýr að tilhneigingu þjóða til haftastefnu og þjóðernishyggju þegar á bjátar í efnahagsmálum. Í upphafi fjórða áratugarins varð það ekki síst til þess að setja hagkerfi heimsins í baklás. Nú, ekki síður en þá, er lykillinn að efnahagslegri endurnýjun opin og frjáls heimsviðskipti þjóða í millum. Kenning David Ricardo um hlutfallslega yfirburði á jafn vel, ef ekki betur, við í dag en þegar hún var sett fram fyrir bráðum 200 árum.

Alþjóðleg viðskipti á vörum og þjónustu, og já, frjálst flæði fjármagns eru þrátt fyrir allt lífsnauðsynleg fyrir hagkerfi heimsins.

Alþjóðleg viðskipti þurfa, eins og önnur samskiptaverk mannanna að lúta ákveðnum leikreglum. Þeim verður best náð í alþjóðlegu samstarfi eins og innan alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Evrópusambandsins.

Verndar-, hafta- og þjóðernisstefna einnar þjóðar leiðir til sambærilegra viðbragða viðskiptaþjóða hennar og svo koll af kolli. Það var þetta sem gerðist á fjórða áratug síðustu aldar. Verndar-, hafta og þjóðernisstefna í viðskiptum smitaðist yfir í stjórnmálin (eða var það öfugt?), sumstaðar með skelfilegum afleiðingum.

Það veldur því áhyggjum að farið er að bera á verndar-, hafta- og þjóðernisstefnu hér og hvar hjá þjóðum heims. Strax eru slíkir tilburðir farnir að valda spennu í pólitískum samskiptum milli ríkja, þar með talið innan Evrópusambandsins.

Eflaust kæta þau tíðindi andstæðinga ESB aðildar hér á landi, en þeim er hins vegar hollast að hafa í huga að ef draumur þeirra og spá um að ESB muni á endanum liðast í sundur (á sama tíma reyndar og þeir fullyrða að ESB sé að verða ofurríki, en þessar tvær fullyrðingar geta tæpast verið báðar sannar á sama tíma!) verða afleiðingar hrikalegar. Líka fyrir þau ríki sem standa utan sambandsins.

Það er athyglisvert að þegar í ræðu og riti er farið að minna á að síðasta kreppa hafi á endanum verið “leyst” með heilli heimstyrjöld. Nýjasti nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, vísaði t.d. tvisvar til þessa í greinum sínum í New York Times í síðustu viku. Í annarri sagði hann eftirfarandi:

If you want to see what it really takes to boot the economy out of a debt trap, look at the large public works program, otherwise known as World War II, that ended the Great Depression. The war didn’t just lead to full employment. It also led to rapidly rising incomes and substantial inflation, all with virtually no borrowing by the private sector.

Í hinni sagði hann, “Well, the Great Depression did eventually come to an end, but that was thanks to an enormous war, something we’d rather not emulate.”

Sama var reyndar uppi á teningnum í grein Philip Stevens í Financial Times í vikunni, sem aðallega fjallaði um mikilvægi þess að ríkin innan ESB færu ekki út af braut fjórfrelsisins og yfir í þjóðernis- og verndarstefnu í efnahagsmálum. Bergmál lærdóma fjórða áratugar síðustu aldar ómar í þessum orðum:

I do not count myself among those who believe that the global recession is necessarily a prelude to political and social apocalypse. I have resisted the temptation to stock my cupboards with canned food and bottled water. War between European states remains an even more distant prospect. Most of them no longer have proper armies. Those that do are often reluctant to allow their soldiers out after dark.

The stresses, though, are real. The protectionist impulses across the Continent – from protests against foreign workers in Britain to “buy French” campaigns in Paris – are a reminder of why a generation of far-sighted leaders decided that peace and prosperity must be embedded in institutionalised co-operation.

The risk now is that, as the recession deepens, popular disturbances become self-sustaining: that a defensive move here fans the embers of nationalism there; that the single market unravels.


Það er því mikilvægt að vel takist til við það að vinna veröldina út úr þessari kreppu. Hér á Íslandi skulum við varast að glepjast á braut hafta- og verndarstefnu.

Og umfram allt ættu menn að forðast skaðaskemmtun yfir hugsanlegum óförum Evrópusambandsins í þessum alheimsefnahagshremmingum.

4 ummæli:

  1. Heitir "skaðaskemmtun" ekki þórðargleði
    á ástkæra ylhýra?

    Hafðu þökk fyrir ágætan pistil.

    Trausti

    SvaraEyða
  2. Trausti,jú það er rétt.En hér á Akranesi þar sem annar hver maður heitir Þórður finnst manni þetta orð Þórðargleði svona stundum ekki viðeigandi ;)

    Nýyrðið "skaðaskemmtun" stuðlar auk þess skemmtilega!

    SvaraEyða
  3. "Skaðaskemmtun" Nei, kannski engin skemmtun, en það væri mikið lán að sjá Evruna veikjast töluverkt gagnvart krónunni, sem vonandi fylgir þessum hremmingum í Evrópu. Við kaupum, borgum skuldir og fáum reyndar mikið af tekjunum líka í Evrum, en samt betra að hún taki töluverða dýfu.

    SvaraEyða
  4. Ég held að núverandi hagvandamál verði ekki auðveldala leyst, að þeirri einföldu ástæðu að það er engin lausn til. Þetta er svipað og fótbrot, menn verða að taka afleiðingunum, en líka að læra og forðast sömu mistök.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.