miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Höfundur gjaldþrotsins?

Eitt það fáa sem velflestir virðast sammála um er það að núverandi peningastefna Seðlabanka Íslands sé gjaldþrota.

Það er athyglisvert að lesa “Yfirlýsingu um verðbólgumarkmið og breytta gengisstefnu” og “Greinargerð um verðbólgumarkmið og breytta gengisstefnu” frá Seðlabanka Íslands sem hvoru tveggja voru gefnar út í mars 2001.

Þar er hornsteinn hinnar nýju stefnu lagður og hin háleitu markmið verðstöðugleika útskýrð. Þar er Seðlabankanum veitt “...fullt svigrúm til að beita stjórntækjum sínum í því skyni að ná verðbólgumarkmiði sínu.” Jafnframt kemur fram að “Seðlabankinn mun  stefna að því að árleg verðbólga, reiknuð sem hækkun vísitölu neysluverðs á 12 mánuðum, verði að jafnaði sem næst 2½%”.

Það var og.

Eftir allt sem gekk á hvað varðar gengi krónunnar á síðasta ári er athyglisvert að lesa eftirfarandi í greinargerðinni frá 2001:

Fyrir lítið opið hagkerfi eins og Ísland skiptir hins vegar gengi gjaldmiðils þess töluverðu máli fyrir innlenda verðlagsþróun og efnahagslífið almennt. Því mun Seðlabankinn eftir sem áður fylgjast náið með þróun gengisins og bregðast við gengisþróun að því leyti sem bankinn telur það nauðsynlegt til að ná markmiðum sínum. Hann er þó ekki lengur skuldbundinn til að halda gengi krónunnar innan ákveðinna marka.

Seðlabankinn mun áfram hafa svigrúm til að grípa beint inn í þróun gjaldeyrismarkaðarins með kaupum og sölu gjaldeyris telji hann það nauðsynlegt til að stuðla að framgangi verðbólgumarkmiðsins eða ef hann telur að gengissveiflur ógni fjármálalegum stöðugleika.

Það var líka og!

Í lok greinargerðarinnar kemur fram að leita megi m.a. til aðalhagfræðings bankans um nánari upplýsingar. Hann er almennt talinn heilinn á bakvið þessa þá nýju stefnu bankans sem nú hefur beðið gjaldþrot.

Athyglisvert er að það er maðurinn sem nú er oftast nefndur sem líklegur nýr seðlabankastjóri.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísl. Gunnarsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands og Már Guðmundsson aðalhagfræðingur bankans í síma 569-9605.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.