miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Hvernig hagfræðing?

Frumvarp forsætisráðherra um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands er viðleitni til þess að bjarga ímyndarvanda bankans. En meginbreytingar laganna samkvæmt þessu frumvarpi eru ekki fullnægjandi.

Í fyrsta lagi er það það 3. gr. frumvarpsins, en þar segir m.a.:

Forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra til sjö ára í senn að undangenginni auglýsingu. Seðlabankastjóri skal hafa lokið meistaraprófi í hagfræði og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á peningamálum. Aðeins er heimilt að skipa sama mann seðlabankastjóra tvisvar sinnum. 

Þarna er lagður grunnur að því að seðlabankastjóri geti ekki setið til eilífðarnóns, sem er vel, en það getur engu að síður verið tvö ráðningartímabil upp á samtals 14 ár. Semsagt, nýr seðlabankastjóri sem verður ráðin nú í vor má gera ráð fyrir að vera í starfi til 2023. Er ekki tvisvar fimm ár alveg nóg - eða þá einu sinni 7 ár?

Skilyrðið um meistarapróf í hagfræði er líka ágætt, svo langt sem það nær. En hvaða hagfræði? Rekstrarhagfræði? Tölfræðihagfræði? Skipulagshagfræði? Krafan um víðtæka reynslu og þekkingu á peningamálum getur auk þess verið loðið og teyjanlegt hugtak.

Hafa verður í huga að hagfræði er angi félagsvísinda, og þ.a.l. langt í frá að flokkast undir nákvæm vísindi. Hagfræðin notar tól raunvísinda, en, eins og dæmin sanna, geta tveir hagfræðingar með nákvæmlega sömu gagnasettin komist að gjörólíkri niðurstöðu.

Stóri vandi Seðlabanka Íslands undanfarin ár hefur ekki verið skortur á hagfræðingum og hagfræðiþekkingu.  Hann hefur verið sú staðreynd að Seðlabankinn hefur verið fullkomlega dogmatískur í því að halda uppi peningastefnu sinni, byggt á gölluðum gagnasettum og tölfræði, og haldið þeirri stefnu til streitu hvað sem hefur tautað og raulað. 

Þarf Keynes-ista? Friedman-ista? Peningahyggjumann? Eða hvað? Sá maður sem helst er nefndur í stól seðlabankastjóra er t.d. höfundur núverandi peningastefnu.

Það má jafnvel halda því fram að gallinn við núverandi formann bankastjórnar sé ekki sú staðreynd að hann sé ekki hagfræðingur, heldur það að eftir að hann tók við starfi þar, varð hann að hagfræðingsígildi. Stjórnmálamaðurinn fyrrverandi hefði líklega ekki látið blinda sig um of af hagfræðilegum og tölfræðilegum "staðreyndum". Hann hefði átt að geta séð stóru myndina.

Í öðru lagi er það 4. gr. frumvarpsins, en þar segir m.a.:

Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri, tveir af yfirmönnum bankans á sviði mótunar og framkvæmdar stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði peningamála sem seðlabankastjóri skipar til þriggja ára í senn að fenginni staðfestingu forsætisráðherra. Seðlabankastjóri er jafnframt formaður peningastefnunefndar.

Þetta ákvæði gefur seðlabankastjóra allt of mikið vald. Peningastefnunefndin er í augljósri hættu á að verða einfaldlega spegilmynd seðlabankastjórans. Þessu verður að breyta, t.d. þannig að forsætisráðherra skipi nefndina að fenginni tilnefningu frá x, y og z. Nefna má að Þorsteinn Pálsson, benti á þennan vanda einnig í leiðara í Fréttablaðinu í gær:

Fyrir utan að taka ekki á raunverulegum vanda peningastefnunnar eru alvarlegir gallar á frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Seðlabankastjóranum eru til dæmis ætluð of mikil völd við val á peningastefnunefnd. Atvinnulífið og háskólasamfélagið hafa enga aðkomu að bankaráðinu. 

Það er von til þess að í meðferð þingsins verði þessir ágallar frumvarpsins lagaðir til. Þar er erfiðara um vik með þær hæfniskröfur sem gerðar eru til seðlabankastjóra, en rétt að haft sér í huga að krafan um meistarapróf í hagfræði leysir ekkert í sjálfu sér.

Samkvæmt þeirri kröfu er fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, t.d. einn hugsanlegur kandidat, og annar gæti verið sá sem skrifaði grein um afglöp Davíðs Oddssonar í Fréttablaðið í gær. Við greinarlok kom fram að höfundur væri með meistarapróf í hagfræði og hefði starfað í bönkum víða um Evrópu í yfir tuttugu ár. Samkvæmt síðustu fréttum er hann væntanlega í atvinnuleit. 

5 ummæli:

  1. Hvernig myndir þú vilja sjá 3. grein frumvarpsins?

    SvaraEyða
  2. "3. gr. Forsætisráðherra skipar seðlabankastjóra til sjö ára í senn að undangenginni auglýsingu. Skipunin tekur gildi þegar hún hefur verið staðfest af Alþingi með tveimur þriðju hlutum greiddra atkvæða. Aðeins er heimilt að skipa sama mann seðlabankastjóra tvisvar sinnum."

    Hæfnisskilyrðin eru gagnslaus sýndarmennska, ég hef miklu að athuga við það að áfram sé gert ráð fyrir að forsætisráðherra sé einráður um skipan seðlabankastjóra og því legg ég til að 3. gr. verði efnislega eins og hér að ofan.

    SvaraEyða
  3. Að hafa að lágmarki masterspróf er út í hött!! Doktor er algjört lágmark og þá helst þjóð- og/eða peningamálahagfræðing (ekki rekstrarhagfræðing).

    Mér þætti gaman að sjá lista seðlabanka í heiminum þar sem bankastjórinn er ekki með hagfræðimenntun.

    SvaraEyða
  4. Hvernig væri að læða þarna inn árangurstengingu.

    Ef að Seðlabankinn nær ekki tilsettum árangri kemur það til lækkunar á launum Seðlabankastjóra og vice versa - jafnvel getur verið þar inni klausa um að hann sé leystur frá störfum ef bankinn ítrekað nær ekki takmarki sínu um verðbólgu eða fjármálastöðuleika.

    Þetta þekkist í ýmsum löndum - svo sem á Nýja Sjálandi.

    Ég tel þetta góða hugmynd – sérstaklega þegar menn eru í þessu embætti sem ekki hafa neinn sérstakan starfsheiður að verja. Vel metinn hagfræðingur – t.a.m akademíker, núverandi eða fyrrverandi, sem hefur verið fyrirferðamikill innan fræðanna - hann leggur meira að veði en afdankaður pólitíkus eða einhver annar í venjulegu framapoti.

    Bernanke t.a.m. - ef hann klúðrar öllu missir hann líka trúverðugleika sem öflugur akademíker - já og Marvyn King líka.

    SvaraEyða
  5. Og er ekki bara í fínu lagi að Geir Haarde og Sigurður Einarsson séu gjaldgengir í starfið?

    Ég læt liggja á milli hluta hvort ég vil að þeir yrðu valdir, en ég sé hreinlega ekkert að því að þér standist hæfisreglurnar.

    Davíð Oddsson stóðst líka hæfisreglur fyrir sérstakan saksóknara ...

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.