föstudagur, 30. janúar 2009
Hægan, hægan!
Sómakennd
Þrír menn sitja saman í stjórn opinberrar stofnunnar. Í dag er þessi stofnun rúin trausti og sannarlega hefur stjórnun og stefna stofnunnarinnar síðastliðinn átta ár leikið stórt hlutverk í því efnahagshruni sem hér hefur orðið.
Meðal þjóðarinnar, á Alþingi og innan fræðasamfélagsins sem mest lætur sig varða þau mál sem stofnunin fjallar um virðist svo til algert sammæli um að stjórn þessi verði að víkja.
Það er yfirlýst markmið nýrrar ríkisstjórnar að skipta þessari stjórn út.
Á alþjóðavettvangi er kallað eftir því að þessari stjórn verði vikið frá.
En hún situr sem fastast.
Að eigin viti gerðu þeir ekkert rangt. Þeir vita betur. Allir aðrir hafa rangt fyrir sér.
Hafa þeir enga sómakennd?
----------------------------------
(Mynd fengin af Wikipedia)
laugardagur, 24. janúar 2009
Hagur Sjálfstæðisflokksins...
Viðsnúningur staðfestur
Niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt er í morgun staðfestir niðurstöðu könnunar MMR frá því fyrr í vikunni. Verulegur viðsnúningur er orðinn í fylgi Framsóknarflokksins. Dauðagöngunni er vonandi lokið.
Niðurstaða flokksþingsins um síðustu helgi, þar sem gjörbreyting varð á forystu flokksins, auk þess sem hann gekkst við mistökum fortíðar og lagði grunn að stefnumörkun og uppbyggingu til framtíðar, á hér stóran þátt.
Fyrst og fremst má hins vegar þakka þennan viðsnúning nýjum formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.
Skárri skoðanakannanir eru þakkarverðar. Þær gefa mönnum aukinn kjark og eru gott veganesti inn í þá kosningabaráttu sem framundan er. En hafa ber í huga að það er enn langur vegur að því að ná fram varanlegri endurreisn flokksins.
Ekki eru nema tæp sex ár síðan flokkurinn fékk rúm 17% í kosningum sem þá var talin varnarsigur, en langt frá því ásættanleg niðurstaða.
Nýr formaður, ásamt flokksmönnum öllum þurfa að halda vel á spilunum til þess að byggja á þessari uppsveiflu, festa hana í sessi eins varanlega og hægt er í fljótandi stjórnmálaástandi samtímans, og helst, nema hvað, sækja enn meira fylgi.
Stjórnmálaástandið hér er viðkvæmt, jafnvel eldfimt. Sveiflur næstu vikna í aðdraganda kosninga eiga eflaust eftir að verða verulegar í fylgi allra flokka. Ný framboð eiga án efa eftir að koma fram.
Og heilsufar leiðtoga núverandi stjórnarflokka mun hafa sín áhrif. Megi þau njóta Guðs blessunar og allra góðra óska í sinni baráttu. Þeirra vegna, fjölskyldna þeirra og þjóðarinnar óska ég þeim alls hins besta og skjóts og öruggs bata.
föstudagur, 23. janúar 2009
Stjórnarkreppa
Það hryggir mig að sjá og heyra að hér stefnir allt í fjögurra mánaða stjórnarkreppu.
Samtök Atvinnulífsins
Í s l a n d á r i ð 2 0 1 5
Þær tillögur sem hér eru settar fram af Samtökum atvinnulífsins um hagsýna,
framsýna og áræðna atvinnustefnu geta snúið vörn í sókn verði þeim hrint í
framkvæmd. Sé rétt á málum haldið, er framtíð íslensks efnahagslífs öfundsverð.
Árið 2015 gæti einkennst af eftirtöldum þáttum:
• Sköpuð hafa verið 20 þúsund störf frá hruni fjármálakerfisins árið 2008
• Íslendingar búa við aukinn stöðugleika með nýrri mynt.
• Verðbólga er svipuð og í samkeppnislöndum, launabreytingar hóflegar og kaupmáttur eykst.
• Meiri fjölbreytni er í íslensku atvinnulífi en nokkru sinni. Öflug íslensk alþjóðafyrirtæki hafa eflt starfsemi sína, útflutningsfyrirtæki eflst með
auknum stöðugleika í gengi og umhverfi nýsköpunar hefur styrkst.
• Íslenskt atvinnulíf býr við trausta stjórnarhætti og einfalt en traust regluumhverfi.
• Atvinnuleysi er svipað og var 2004 og minna en í flestum ríkjum Evrópu.
• Eftir að kröfuhafar íslensku bankanna komu að rekstri þeirra hefur það eflst og íslenskt atvinnulíf býr við vaxandi traust á erlendum fjármálamörkuðum.
• Bankakerfið er að meginstofni til í eigu innlendra og erlendra fjárfesta.
• Skuldir ríkisins hafa lækkað verulega og eru svipaðar og að meðaltali í evruríkjunum.
• Hlutabréfamarkaðurinn hefur eflst og er markaðsverðmæti hlutabréfa orðið jafnhátt og landsframleiðsla
• Íslenskir lífeyrissjóðir eru áfram í fremstu röð.
• Meiri fjölbreytni er í stjórnum og stjórnun fyrirtækja sem eflt hefur íslensk fyrirtæki.
• Opinber rekstur hefur verið einfaldaður sem skilar sér í betri nýtingu skattfjár
• Áætlanir í ríkisbúskapnum eru gerðar til þriggja ára í senn sem skapar aukinn stöðugleika.
• Ísland er land tækifæranna þar sem græðgi og óhóf hafa vikið fyrir metnaði og fagmennsku.
fimmtudagur, 22. janúar 2009
Eitraður leiðari
"Kjör nýs forseta gefur Íslandi tækifæri til þess að freista þess að koma samskiptunum við Bandaríkin í samt lag. Einhvern veginn hefur kjölfestan farið úr íslenskri utanríkispólitík á síðustu árum eins og ýmsu öðru. Samskiptin við Bandaríkin eru hluti af þeim vanda. Staða okkar í Evrópu er annar hluti.
Brotthvarf varnarliðsins héðan bar að með sérstökum hætti sem á vissan hátt þótti dæmigert fyrir Bush-stjórnina. Fyrir hinu getum við ekki lokað augunum að sú niðurlæging fyrir Ísland sem fólst í háttseminni við þá ákvörðun skrifast að talsverðu leyti á okkar eigin reikning.
Viðræðurnar við stjórnvöld í Bandaríkjunum um framtíð varnarsamstarfsins byggðust á kolröngu stöðumati af Íslands hálfu og svipuðu oflæti og leiddi af sér ris og fall bankakerfisins. Afleiðingin varð brestur í samskiptum við bandalagsþjóð til margra ára. Segja má að það hafi verið fyrstu alvarlegu utanríkispólitísku mistök lýðveldistímans.
Sú hugmyndafræði að Ísland geti án skuldbindinga spilað á stórveldi heimsins sitt á hvað til að tryggja hagsmuni sína frá einum tíma til annars er jafn fúin og hlutleysisstefnan á sinni tíð. Nánari Evrópusamvinna er því rökrétt framhald á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það breytir hins vegar ekki mikilvægi þess að treysta á ný samskiptin við Bandaríkin. Þeir fersku vindar sem fylgja stjórnarskiptunum þar í gær opna möguleika fyrir Ísland til að takast á við það viðfangsefni í ljósi nýrra aðstæðna, á nýjum forsendum og af fullu raunsæi.
þriðjudagur, 20. janúar 2009
Ályktun
Stjórnmálin hafa brugðist. Traust er af skornum skammti.
Við þessar aðstæður er brýnt að brugðist verði við með ábyrgum, en jafnframt afgerandi hætti. Þörf er á metnaðarfullri aðgerðaáætlun þar sem tekið er á bráðavanda heimilanna og atvinnulífsins, jafnframt því sem slík aðgerðaáætlun verður að varða leið til lengri tíma."
Í ályktuninni er jafnframt lagt til slíkrar aðgerðaráætlunnar, en hvatt er til þess að hún verði unnin nú á næstu dögum og vikum í samráði við aðila vinnumarkaðar og lífeyrissjóðina. M.a. er lagt til að settur verði á laggirnar sérstakur tímabundinn Endurreisnarsjóður, sem m.a. byggir á hugmynd Halls Magnússonar frá því fyrir flokksþing.
Ályktunin ber skýrt með sér að Framsóknarflokkurinn er flokkur aðgerða.
mánudagur, 19. janúar 2009
Buiter og Mea Culpa Framsóknarflokksins
"Á undanförnum árum virtist hér ríkja mikið umbreytinga- og framfaraskeið þar sem kraftar óbeislaðs athafnafrelsis nutu sín til hins ýtrasta. Á þeim tíma brást Framsóknarflokkurinn í því hlutverki að tryggja að laga- og reglugerðaumhverfi, ásamt uppbyggingu nauðsynlegs aðhalds og eftirlits, m.a. með sterkum og faglegum eftirlitsstofnunum, samræmdist vexti viðskiptalífsins. Frelsi fylgir ábyrgð, en ábyrgðinni var ábótavant. Úr því verður að bæta."
laugardagur, 17. janúar 2009
XB í ESB
föstudagur, 16. janúar 2009
Í ESB eða úr EES?
Fjórfrelsinu er í dag í raun stýrt úr Seðlabanka Íslands.
Vegna efnahagsástands, hruns gjaldmiðilsins og bankanna er viðbúið að það verði varanlegt ástand um langa hríð. Gjaldmiðilshöft þau sem sett voru í desember sl. sem augljóslega setja frjálsa flutninga fjármagns í algert uppnám, og hafa með beinum og óbeinum hætti áhrif á frjálsa flutninga t.a.m. vöru og þjónustu, grunnstoða fjórfrelsis EES samningsins.
Tvær leiðir eru út úr þessu ástandi og það eru hinir raunverulegu valkostir sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Annars vegar uppsögn á EES-samningnum eða að taka skrefið til fulls og sækja um aðild að ESB.
Ástæða þess að mikilvægt er að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort Ísland hyggst sækja um aðild að ESB er einföld. Þó aðildarumsókn, og í framhaldi aðild, sé ekki “töfralausn” hvað varðar núverandi ástand, varðar hún leið til framtíðar sem auðveldar framhaldið.
Með aðildarumsókn að ESB verður strax til vegvísir um hvert Ísland stefnir.
Aðildarumsókn, og væntanlega aðild, setur skýran ramma um uppbyggingu nýs Íslands sem er skýr og skiljanlegur í alþjóðlegu samhengi sem uppbygging án aðildar og aðildarumsóknar getur ekki gert. Vegvísir aðildarumsóknar verður þannig ekki síst til þess að mynda traust á alþjóða vettvangi og auðvelda alla uppbyggingu til framtíðar.
Fullyrðingin um að spurningin um ESB-aðild sé ekki brýnt verkefni og aðrir hlutir eigi að hafa forgang er einfaldlega röng. Hins vegar er engin ástæða til þess að bíða með aðgerðir á meðan að komist er að niðurstöðu hvað varðar ESB.
Allar aðgerðir, í bráð og lengd, og væntanlegur árangur þeirra, munu verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum þeirrar ákvörðunar.
Án aðildarumsóknar verður núverandi ástand viðvarandi mun lengur. Uppbygging mun taka lengri tíma og haftaástand mun verða viðvarandi til lengri framtíðar. Það í sjálfu sér hefur þau áhrif að EES-samstarfinu kynni að vera ógnað. Án virks fjórfrelsis er EES-samningurinn ekki svipur hjá sjón
Valkosturinn er þannig augljós og óumflýjanlegur:
Í ESB eða úr EES.
fimmtudagur, 15. janúar 2009
Ný framtíð – ný Framsókn
Eftir umrót síðustu mánaða sem hófst með hruni íslensku krónunnar og náði hámarki með hruni bankakerfisins er ljóst að íslensk stjórnmál standa á krossgötum. Framsóknarflokkurinn er enn sem komið er eini stjórnmálaflokkurinn sem fyrirsjáanlegt er að mun bregðast við kröfum um breytingar á ásýnd og framvarðarsveit. Flokksþing Framsóknarflokksins sem haldið verður nú um helgina mun velja bæði nýjan formann og varaformann, auk þess sem flokkurinn mun marka framtíðarstefnu um hvort sótt skuli um aðild Íslands að Evrópusambandinu
Framsóknarflokkurinn hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Útkoma flokksins í síðustu kosningum, bæði til Alþingis og sveitastjórna, getur tæpast talist ásættanleg fyrir stjórnmálaflokk sem kennir sig við frjálslynda umbótastefnu og sem lengst af á yfir 90 ára sögu sinni hefur verið annar stærsti flokkur landsins.
Þessi staða flokksins á sér margar skýringar en því er ekki að leyna að innanflokksátök og meint spillingarmál hafa eflaust reynst flokknum hvað dýrkeyptust, auk þess sem hófsemis- og skynsemisrödd miðjusækins flokks málamyndanna og samvinnu er stundum auðdrekkjanleg í orðskrúði málfundastjórnmála þar sem slagorðin geta haft betur en raunveruleg stefna.
Um meinta spillingu flokksins og flokksmanna gef ég lítið fyrir. Hins vegar er það oft þannig að það sem virðist verður veruleiki og Framsóknarflokkurinn og talsmenn hans hafa ekki staðið sig nógu vel í að sverja af sér meinta spillingu. Það hryggir mig t.d. óneitanlega að enn hefur enginn af forsvarsmönnum Framsóknarflokksins stigið fram, þ.m.t. enginn frambjóðenda í forystusæti flokksins á flokksþinginu nú um helgina, og með óyggjandi hætti lýst vanþóknun sinni á þeim viðskiptaháttum sem tengjast Gift og eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga. Þar varð til við stofnun Vátryggingafélags Íslands stór fjárhæð sem sannanlega var eign þáverandi tryggingataka Samvinnutrygginga. Með útúrsnúningum og lagaklækjum tókst sjálfvöldum forsvarsmönnum eignarhaldsfélagsins að “fresta” útborgun þessa fjár til réttmætra eigenda og nýttu þá til að byggja sín eigin viðskiptaveldi.
Sú réttlæting var notuð að a.m.k. framan af græddu menn á öllu umstanginu og eign tryggingatakanna hefði bara farið vaxandi. Siðferðilega er það hins vegar algert aukaatriði. Menn voru þarna að nýta fé annarra til eigin auðgunar, og skipti engu þó gefið væri í skyn að raunverulegir eigendur fjárins myndu líka fá að njóta ávaxtanna – einhvern tímann seinna. Fór það nú svo að á endanum tapaðist allt.
Í Gift fór Framsóknarflokkurinn ekki með neitt ákvarðanavald. Óumdeilanlega komu að því félagi þekktir Framsóknarmenn, núverandi og fyrrum, og óneitanlega er slíkt sýsl ekki til neins annars en að gefa flokknum og það sem hann raunverulega stendur fyrir, slæmt orð. Sannanlega hefur Framsóknarflokkurinn ekki notið “góðs” af viðskiptaháttum þessara aðila.
Núverandi og fyrrverandi forysta flokksins er hins vegar óneitanlega því marki brennd að hafa með aðgerðum og aðgerðaleysi sínu orðið samdauna siðrofi af þessu tagi, jafnvel þó þeir hafi ekki átt beinan hlut að máli. Umrótið sem hefur gengið yfir okkur öll á undanförnum mánuðum gerir það að verkum að í Framsóknarflokknum gefst nú einstakt tækifæri til þess að móta sér nýja framtíð með nýrri framsókn og endurreisa þannig trúverðugleika flokksins.
En til þess að það gerist verða nýir forystumenn að þora að segja eitthvað...
Icesave goðsögnin
Hún er þrálíf goðsögnin um það að Ísland þurfi ekki að greiða neitt vegna Icesave-reikninga Landsbankans. Nú er m.a. dregin upp setningarbotn eftir kommu úr 9 ára gamalli franskri skýrslu sem “sönnun“ þess að Ísland þurfi ekki að borga.
Þetta er falleg goðsögn fyrir hnípna þjóð í vanda sem ekki sér fram úr skuldafeni því sem fyrst alþjóðleg fjármálakrísa, síðan hrun gjaldmiðils og loks fall bankakerfis hefur steypt henni í.
Ef út í það er farið er það jafn mikil rökleysa að fullyrða að hægt væri að neita að standa undir ábyrgðum vegna innistæðureikninga í útibúum Landsbankans í Vestmannaeyjum þar sem einungis ætti að tryggja innistæður á meginlandi Íslands!
Vegna lagalegrar stöðu Icesave að íslenskum lögum hefði eina leiðin til að komast undan ábyrgðum vegna þeirra og að beita þeim rökum að innistæðutryggingar ættu ekki við í tilfelli kerfishruns verið sú að þau rök hefði gilt um alla innistæðureikninga bankanna.
Að skilja Icesave-reikninga frá öðrum innlánsreikningum Landsbankans með þeim hætti sem nú er fullyrt að hægt hafi verið brýtur nefnilega gegn meginreglu íslensks réttarfars, þ.e. jafnræðisreglunnar, eins og hún er sett fram í 65. grein stjórnarskrárinnar:
“Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.”
Eftir að íslensk stjórnvöld tóku ákvörðun um að tryggja allar innistæður varð ekki komist hjá því að eiga við skuldbindingar vegna Icesave, annað hvort með samningum við stjórnvöld þeirra ríkja þar sem útibúin voru rekin, eða með málaferlum innistæðueiganda fyrir íslenskum dómstólum.
Slík málaferli hefðu að öllum líkindum aldrei farið á nema einn veg: að jafnræðisreglan yrði látin gilda og greiða þyrfti innistæðueigendum erlendra útibúa með sama hætti og innistæðueigendum innlendra útibúa.
Til þess gæti jafnvel komið þrátt fyrir samkomulag milli íslenskra stjórnvalda og stjórnvalda þeirra ríkja þar sem útibú íslenskra banka voru starfrækt, þ.e. í þeim tilvikum þar sem innistæður viðkomandi reikningseiganda voru hærri en sem nemur samanlagðri innistæðutryggingu að hálfu Íslands og þess ríkis sem útibú íslenska bankans var starfrækt.
Samningar vegna Icesave gera það að verkum Ísland þarf þó líklega ekki að standa undir meiri ábyrgðum en vegna lágmarkstryggingar upp á allt að rétt rúmar 20 þúsund evrur fyrir hvern innistæðureikning. Samtala þeirra eru engu að síður óhugnanlega stórar upphæðir.
Ef íslenska ríkið hefði viljað komast hjá því að greiða ábyrgðir vegna innistæðureikninga hjá erlendum útibúum íslenskra banka og beita rökum, sem m.a. koma fram í fyrrnefndri franskri skýrslu og haldið hefur verið fram af sumum íslenskum lögfræðingum, að þær ábyrgðir ættu ekki við í tilfelli kerfishruns hefði jafnt þurft yfir alla að ganga. Sú röksemd er þannig ekki beinlínis röng, en á ekki lengur við eftir að Íslensk stjórnvöld lýstu því yfir að allar innistæður hér á landi yrðu tryggðar. Í ljósi íslenskra laga og jafnræðisreglunnar átti sú yfirlýsing jafnt við útibú Landsbankans á Laugavegi 77, í Vestmannaeyjum og í London.
Úr þessu er þannig samningaleiðin eina leiðin til þess að lágmarka bótaskyldu íslenska ríkisins.
mánudagur, 12. janúar 2009
Framboðskynning í kvöld á Akranesi
Samhliða bæjarmálafundi Framsóknarfélags Akraness í framsóknarhúsinu við Sunnubraut í kvöld mun fara fram frambjóðendakynning.
Frambjóðendum til forystusæta flokksins sem kosið verður í á flokksþinginu um næstu helgi hefur verið boðið í heimsókn og hafa eftirtaldir frambjóðendur nú þegar staðfest komu sína:
Frambjóðendur til formanns:
Höskuldur Þórhallsson, alþingismaður
Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur
Frambjóðendur til varaformanns:
Birkir Jón Jónsson, alþingismaður
Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður
Frambjóðendur til ritara:
Eygló Harðardóttir, alþingismaður
Sæunn Stefánsdóttir, sérfræðingur
Fundurinn hefst klukkan 20:00 í kvöld, mánudagskvöldið 12. janúar 2009 og er öllum opinn.
fimmtudagur, 8. janúar 2009
Tvær ályktanir
Mikil afturför með nýju leiðakerfi
Aðalfundur Framsóknarfélags Akraness, haldin 8. janúar 2009, skorar á bæjaryfirvöld á Akranesi að standa vörð um þá almannaþjónustu sem felst í reglulegum strætisvagnaferðum á milli Reykjavíkur og Akraness. Það eru hagsmunir bæjarbúa að sú strætómenning sem myndast hefur glatist ekki til frambúðar, en veruleg hætta er á því í kjölfar upptöku nýs skipulags strætisvagnaferða nú um áramótin. Tafir, óhagræði og óáreiðanleiki hefur einkennt strætisvagnaþjónustu á nýju ári með verulega neikvæðum áhrifum á þá sem nýtt hafa sér þjónustuna til þessa. Mikil gjaldskrárhækkun er jafnframt óásættanleg og vinnur gegn því heildarhagræði sem hlýst af öflugum almenningssamgöngum.
--------------------------------
Nýtt stjórnskipulag dregur úr lýðræði hjá Akraneskaupstað
Aðalfundur Framsóknarfélags Akraness, haldin 8. janúar 2009, átelur framkvæmd stjórnskipulagsbreytinga hjá Akraneskaupstað. Uppsögn allra fulltrúa úr nefndum og ráðum bæjarins dregur úr lýðræði og er beinlínis ólögleg í ljósi þess að sumar nefndir skulu starfræktar á grundvelli laga. Félagið hvetur bæjarstjórn Akraness til þess að afturkalla með formlegum hætti bréf bæjarstjóra frá 23. desember síðastliðnum og áminna hann skriflega vegna þessa. Að öðrum kosti er minnihluti bæjarstjórnar hvattur til að leggja fram stjórnsýslukæru vegna málsins til samgönguráðuneytisins.
mánudagur, 5. janúar 2009
Samkeppni á blaðamarkaði
Það er á fárra vitorði, að Björn Ingi Hrafnsson á í félagi við konu sína einkahlutafélagið Caramba – hugmyndir og orð ehf. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum er ráðgjöf á sviði almannatengsla, útgáfu- og kynningarstarf, alhliða textavinna og útgáfuþjónusta, rekstur fasteigna og útleiga, eignarhald félaga og gerð viðskiptaáætlana. Enginn smátilgangur!
Samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið innan úr Kaupþingi (gamla) var félagið stofnað í mars 2001 og hefur að mestu leyti verið í rekstri og vörslu ákveðinna verðbréfamiðlara Kaupþings frá stofnun, sem samviskusamlega unnu að því að gera Björn Inga Hrafnsson ríkan.
Einhvern veginn býður mér í grun að Björn Ingi muni þurfa að standa skil á þeirri veltu sem var í þessu félagi hans. Jafnframt mun hann ugglaust þurfa að svara spurningum um það hvernig félagið var fjármagnað í upphafi, þ.e. hvaðan lán til brasks miðlara Kaupþings voru fengin, hvaða veð voru sett fyrir lántökunum, hversu mikið félagið hagnaðist og hver var staða Caramba við bankahrun. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr kjötkötlum Kaupþings þegar bankarannsókn verður komin á einhvern skrið, ekki satt?!
Þetta er náttúrulega ekkert annað en hin kostulegasta framsetning. Í fyrsta lagi má ætla að upplýsingar um stofnun þessa meinta félags Björn Inga séu auðfáanlegar úr fyrirtækjaskrá, þ.e. stofndagsetningu og yfirlýstan tilgang. Blaðamaður hins vegar tekur sérstaklega fram að upplýsingarnar séu fengnar innan úr gamla Kaupþingi.
Í öðru lagi (og hér verð ég að viðurkenna að ég enga hugmynd um þetta félag eða fjármál Björns Inga og vissulega getur vel verið að hann þurfi á einhverjum tímapunkti að gera grein fyrir einhverju) gefur blaðamaður hér hins vegar ýmislegt í skyn sem hún rökstyður ekki með neinum hætti. Samt lætur hún liggja að því að hún viti meira en hún segi. Bíðiði bara!
Þetta er kannski ný birtingarmynd samkeppninnar á blaðamarkaði. Leki á trúnaðargögnum úr viðskiptabönkum um ákveðna aðila til að koma á þá höggi með einum eða öðrum hætti. Macchiavelli lifir og tilgangurinn helgar meðalið.
Nú má hins vegar velta fyrir sér hvort einhver blaðamaður Fréttablaðsins muni svara fyrir hönd sinna ritstjóra með safaríkum sögum af ritstjóra Morgunblaðsins frá því t.d. er hann ritstýrði Nýjum skóla, sem einu sinni var ungliðablað Sjálfstæðisflokksins og dreift í framhaldsskóla landsins.
Nei, ætli það.
laugardagur, 3. janúar 2009
Af líkamsmeiðingum og eignatjóni
Skríll sem veldur slíku telst varla húsum hæfur.
Það er sjálfsögð krafa að sá skríll bæti meiðingarnar og tjónið.
Fyrir ári átti ég nettó eign í húsinu mínu.
Í dag er hún líklega horfin og jafnvel komin í mínus – verðtryggingarhækkun á lánunum samfara hruni fasteignamarkaðar hefur haft þau áhrif.
Fyrir ári átti ég einhverja hýru í séreignarlífeyrissparnaði. Á árinu var greitt inn á þennan sparnað af sjálfum mér og vinnuveitanda mínum. Í dag á ég u.þ.b. jafnháa upphæð og í byrjun síðasta árs. Viðbótargreiðslur heils ár einfaldlega hurfu.
Fyrir ári var ég á góðri leið með að eignast bílinn minn. Hann var og er á 50/50 íslenskukrónu og myntkörfu láni. Í dag skulda ég meira í honum en ég gerði fyrir ári þrátt fyrir síhækkandi mánaðargreiðslur.
Fyrir ári var ég nokkuð hress.
Í dag finn ég fyrir reglulegum líkamlegum kvillum eins og vöðvabólgum og ég vona svo sannarlega að þessi brjóstsviði sé bara út af magasýrum!
Svei mér þá ef ég er ekki orðinn viðkvæmari fyrir umgangspestum.
Sef líklega ekki nóg!
Á síðastliðnu ári breytti ég lítið út frá vananum m.v. árin þar á undan. Mætti í vinnuna, elskaði konuna, þótti vænt um börnin mín og fór út með hundana. Dýrustu einstöku útgjöld síðasta árs voru haustafborganirnar af námslánunum og þegar headpakkningin fór í bílnum.
Já, mér er sannarlega illa við athæfi sem enda með líkamsmeiðingum og eignatjóni.
Skríll sem veldur slíku telst varla húsum hæfur.
Það er sjálfsögð krafa að sá skríll bæti meiðingarnar og tjónið.
Að minnsta kosti meiði og skemmi ekki meir!
föstudagur, 2. janúar 2009
"Þetta var pólítísk aðgerð"
"Ef mótmælendur hefðu getað brotið sér leið inní salinn þar sem foringjarnir sátu, hvað hefði gerst þar? Hefðu þeir bara stoppað, sest niður og sungið nallann aftur, eða hefðu þeir ráðist að valdstjórninni í adrenalínrússi?"
Ef mótmælendur ætluðu sér að meiða ráðamenn, þá væru næg tækifæri til þess annars staðar.
"Hefðu þessir sömu mótmælendur brætt og brennt kappla RÚV hefðu þeir verið við þessa útsendingu? Var þetta meira ásættanlegt af því að hér var “baugsmiðill” á ferð? Var þetta kannski á einhvern hátt gott á Jón Ásgeir?"
Án þess að ég geti talað fyrir alla: Já, já, já. Tilgangur mótmælanna var að trufla/stöðva útsendingu. Það að bræða kaplanna þjónaði þeim tilgangi.
"Þarna þurfti tæknifólk við vinnu sína að slást við mótmælendur til að vernda vinnuna sína! Skaut það ekki skökku við? Ekki var Stöð 2 að reyna stöðva mótmælin – kryddsíldin stefndi í að verða markeruð af mótmælunum á mjög athyglisverðan hátt."
Fyrir það fyrsta er þetta rangfærsla, ekki var reynt að ráðast á tækin. En þar fyrir utan: Fólk á ekki að vernda vinnutæki sín, það er í verkahring lögreglunnar. Fólk er ekki vinnan sín. Tækin þeirra eru ekki börnin þeirra. Fólk í vinnu ætti einfaldlega að halda sig til hlés, það fær samt borgað. Mér þykir leitt að þessi tæknimaður hafi verið kýldur, en eins og sést greiðlega á fréttamyndum Stöðvar 2, þrátt fyrir ógeðfelldan áróður Ara Edwalds útrásarvíkings og Loga Bergmanns þræls hans, þá voru mótmælendur eingöngu að reyna troða sér inn. Maður sér eingöngu ýtingar á þessum myndum. Kannski fékk Jóhann olnbogann í augað frá einhverjum vini sínum, því starfsfólk hótelsins og tæknimenn virtust ganga mun harðar fram en mótmælendur.
"En með því að skjóta sendiboðann – þ.e. að takast að stöðva útsendinguna – skutu mótmælendurnir sjálfa sig í lappirnar."
Ég er sammála þér þar. Þetta hefði verið betra án þess að stöðva útsendingu. Ef lögreglan hefði ekki gasað okkur í burtu hefðum við getað haldið því áfram. En fyrst þeir gerðu það, var jafngott að stöðva útsendinguna alveg.
"Hver var í forsvari fyrir mótmælendahópinn? Var yfirhöfuð eitthvað hægt að tala við þennan hóp?"
Enginn svo ég viti. Hvað meinarðu "tala við þennan hóp"? Þetta var sneiðmynd af þjóðinni, þarna var fólk á öllum aldri. Ég sat við hliðina á örugglega sextugri konu. Þarna var fjölskyldufólk sem skildi börnin eftir heima til að mótmæla ráðamönnum. Þarna var fjölskyldufólk með börnin með sér að styðja aðgerðirnar úr fjarlægð. Það hafa verið næg tækifæri til að tala við þennan hóp en það eina sem við höfum fengið er hroki, skítkast og þagnarveggur.
"Voru þetta bara skrílslæti dulin sem mótmæli? Hasar hasarsins vegna?"
Nei. Þetta var pólítísk aðgerð. Athugum hverjir voru þarna. Valgerður Sverridóttir, sem gaf vinum sínum banka. Ingibjörg Sólrún, sem býr til 1.5 milljarðs kostnaðarlið, "varnarmál", sker hann niður um þriðjung og kallar milljarðinn sem stendur eftir góðan niðurskurð. Klykkir svo út með að ráða vinkonu sína sendiherra. Geir. Nema hvað hann komst ekki inn, því honum seinkaði við að segja okkur í áramótaávarpi sínu að það hafi verið mikil veðursæld síðastliðið sumar.Guðjón og Steingrímur. Lyddur sem vilja taka þátt í "lýðræðislegum umræðum", innilokaðir í herbergi, drekkandi bjór í boði Rio Tinto Alcan. Rio Tinto Alcan ku vera spilltasta fyrirtæki í heimi, og er ábyrgt fyrir Kárahnjúkum sem var að mati erlendra sérfræðinga það sem hleypti bólunni af stað.Þetta fólk á að skammast sín, það á allt að segja af sér, það á ekki að voga sér að berast á í einhverjum montþætti sem eiga að heita "lýðræðislegar umræður". Þetta er ekki lýðræði, þetta er skrum.
Mótmæli eða skrílslæti?
Mótmælin á gamlársdag voru athyglisverð. Ef punkturinn var að trufla og á endanum stöðva útsendinguna þá voru þau vel heppnuð. Ef punkturinn var að koma ákveðnum skilaboðum á framfæri þá voru mótmælin misheppnuð. Skilaboð mótmælendanna fóru a.m.k. fram hjá mér.
Að maður sé að blogga um þennan viðburð 2 dögum síðar er óneitanlega ákveðin “sökksess” hjá mótmælendunum. Engu að síður eru hér nokkrar vangaveltur:
- Ef mótmælendur hefðu getað brotið sér leið inní salinn þar sem foringjarnir sátu, hvað hefði gerst þar? Hefðu þeir bara stoppað, sest niður og sungið nallann aftur, eða hefðu þeir ráðist að valdstjórninni í adrenalínrússi?
- Hefðu þessir sömu mótmælendur brætt og brennt kappla RÚV hefðu þeir verið við þessa útsendingu? Var þetta meira ásættanlegt af því að hér var “baugsmiðill” á ferð? Var þetta kannski á einhvern hátt gott á Jón Ásgeir?
- Þarna þurfti tæknifólk við vinnu sína að slást við mótmælendur til að vernda vinnuna sína! Skaut það ekki skökku við? Ekki var Stöð 2 að reyna stöðva mótmælin – kryddsíldin stefndi í að verða markeruð af mótmælunum á mjög athyglisverðan hátt. En með því að skjóta sendiboðann – þ.e. að takast að stöðva útsendinguna – skutu mótmælendurnir sjálfa sig í lappirnar.
- Hver var í forsvari fyrir mótmælendahópinn? Var yfirhöfuð eitthvað hægt að tala við þennan hóp?
- Voru þetta bara skrílslæti dulin sem mótmæli? Hasar hasarsins vegna?
fimmtudagur, 1. janúar 2009
Gleðilegt ár, sérstaklega Slóvakía!
Í dag verður Slóvakía formlega 16 meðlimur Evru-svæðisins og evran verður þeirra gjaldmiðill - einungis rúmum fjórum árum eftir að Slóvakía hlaut aðild að Evrópusambandinu.
Hér má sjá fréttatilkynningu Seðlabanka Evrópu í tilefni dagsins. Sem góðum embættismönnum sæmir er ekkert verið að missa sig í tilfinningasemi heldur taka þeir Joe Friday úr Dragnet sér til fyrirmyndar "Just the facts!":
Following the adoption of the euro by Slovakia, Národná banka Slovenska becomes a full member of the Eurosystem, the central banking system of the euro area, which comprises the ECB and, as of today, the 16 national central banks (NCBs) of the EU Member States that have adopted the euro. In accordance with the Protocol on the Statute of the European System of Central Banks and of the European Central Bank, Národná banka Slovenska has paid up the remainder of its contribution to the capital of the ECB and transferred its contribution to the foreign reserve assets of the ECB.
The integration of Slovak monetary financial institutions (MFIs) into the euro area banking system on 1 January 2009 was already taken into account in the publication of the euro area liquidity needs and in the benchmark allotment on 29 and 30 December 2008. Slovak counterparties in the Eurosystem will be able to participate in the Eurosystem’s open market operations announced after 1 January 2009.
Hér má ennfremur sjá frétt sem birt er á Time.com í dag í tilefni tíu ára afmælis evrunnar sem er einnig haldið hátíðlegt í dag. Staða gjaldmiðilsins metin óvenju sterk og verkefnið sem slíkt vel heppnað. Þeir hafa víst ekki haft samband við þá betur upplýstu hér á Íslandi sem eru sí og æ að spá því að myntsamtarfið liðist í sundur innan skamms, alveg rétt strax, bíðiði bara!
Heimsendaspámenn nútímans.
Í greininni segir m.a. eftirfarandi:
Before the euro, a financial crisis in Europe went hand-in-hand with currency woes: a run on weaker currencies, heavy intervention by central banks and finally a collapse of the parity system. "I've lived through currency devaluations, and they are fraught with anxieties," says Hans Martens, chief executive of the European Policy Centre. "But the way the euro coped with the financial crisis was absolutely great. You have a big island of stability, with small nations protected when the big waves became rough."
The euro's tenth anniversary will see the euro zone take on a 16th member, Slovakia. A further eight other central and eastern European countries have set themselves the goal of joining within the next six years, including Poland, whose political establishment dropped its longtime opposition after a recent run on the Polish zloty. The euro has found some other unexpected converts, too, thanks to the financial crisis. The Danes voted against joining the euro zone in 2000, but they are set to hold another referendum in March. Iceland — not even an E.U. member — is pondering "unilateral euroization" after seeing its krona plunge nearly 80% against the euro between September and October.
And the biggest prize of all, Britain, is said to be warming to the euro.
Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort Time sé raunverulegur fréttamiðill. Hugsanlega eru þetta bara einhverjir trúboðar!
PS: Bendi jafnframt á þennan pistil Oliver Kamm á Times Online. Niðurlag greinar hans á allt eins við um Ísland eins og Bretland:
It used to be argued that the greater importance of the financial services sector to the UK economy made euro membership unsuitable for us. Surely no one can now maintain that a common European approach to banking supervision and capital adequacy is a threat. The weaknesses of the UK financial system are glaring and need to be remedied. If the UK were in the euro, then it could advance effective European regulation, while opposing impractical schemes that would simply distort markets.
The idea that the UK economy has characteristics that are distinctive from those of Europe has been undermined. The greater importance of our housing sector is a crippling weakness, not an idiosyncrasy. The peculiarly destructive cycle of boom and bust in the UK is a product of specific policy errors. Joining the euro will not work miracles, but it would make easier the task of repair.