laugardagur, 24. janúar 2009

Viðsnúningur staðfestur

Niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt er í morgun staðfestir niðurstöðu könnunar MMR frá því fyrr í vikunni. Verulegur viðsnúningur er orðinn í fylgi Framsóknarflokksins. Dauðagöngunni er vonandi lokið.

Niðurstaða flokksþingsins um síðustu helgi, þar sem gjörbreyting varð á forystu flokksins, auk þess sem hann gekkst við mistökum fortíðar og lagði grunn að stefnumörkun og uppbyggingu til framtíðar, á hér stóran þátt.

Fyrst og fremst má hins vegar þakka þennan viðsnúning nýjum formanni, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Skárri skoðanakannanir eru þakkarverðar. Þær gefa mönnum aukinn kjark og eru gott veganesti inn í þá kosningabaráttu sem framundan er. En hafa ber í huga að það er enn langur vegur að því að ná fram varanlegri endurreisn flokksins.

Ekki eru nema tæp sex ár síðan flokkurinn fékk rúm 17% í kosningum sem þá var talin varnarsigur, en langt frá því ásættanleg niðurstaða.

Nýr formaður, ásamt flokksmönnum öllum þurfa að halda vel á spilunum til þess að byggja á þessari uppsveiflu, festa hana í sessi eins varanlega og hægt er í fljótandi stjórnmálaástandi samtímans, og helst, nema hvað, sækja enn meira fylgi.

Stjórnmálaástandið hér er viðkvæmt, jafnvel eldfimt. Sveiflur næstu vikna í aðdraganda kosninga eiga eflaust eftir að verða verulegar í fylgi allra flokka. Ný framboð eiga án efa eftir að koma fram.

Og heilsufar leiðtoga núverandi stjórnarflokka mun hafa sín áhrif. Megi þau njóta Guðs blessunar og allra góðra óska í sinni baráttu. Þeirra vegna, fjölskyldna þeirra og þjóðarinnar óska ég þeim alls hins besta og skjóts og öruggs bata. 

3 ummæli:

  1. Það má lengi þakka Sigmundi þessa uppsveiflu, en Framsóknarflokkurinn sýndi það á flokksþinginu um síðustu helgi að hann er flokkur sem getur breyst. Þingfulltrúar endurspegluðu vilja þjóðarinnar um breytingar og það er að skila sér. Sigmundur er spegilmynd þeirra breytinga sem fólk vill á flokkunum. Nú er bara að standa sig.... X við B þann 9 maí

    SvaraEyða
  2. Ég hélt að afturbatapíka yrði ekki hrein mey fyrr en eftir sjö ár. Það virðist ekki eiga við um Framsókn. Þeir kannast ekkert við síðustu stjórn, né að þeir beri einhverja ábyrð á kvótakerfunum í sjávarútvegi og landbúnaði eða að þeir kannist við klíkuskap og helmingaskipti. Þeir hafa verið hellstu varðhundar landbúnaðar á Íslandi og nota matvælaöryggi sem sem afsökun. Þar á engu að breyta. Landbúnaðarkerfið á Íslandi er það óhagkvæmasta í heimi aðeins um 50% af tekjum hanns kemur frá vörusölu, hitt eru styrkir.
    Framsókn þar að moka flórinn áður en þeir eru stjórntækir. Ef Framsókn verður í næstu stjórn með nánast sama fólk og somu stefnu, þá er ég fluttur úr landi. Þá er Ísland að eilífu sokkið í heimskunar haf.

    SvaraEyða
  3. Það ber að taka til greina að fylgisaukningin er á kostnað Samfylkingar sem á í mikilli innri baráttu um þessar mundir. Það verður athyglivert að sjá hvernig Framsókn kemur út úr könnunum ef að endurnýjun verður í Samfylkingunni og "ný og ferskari" andlit komast þar til valda. Sem stendur mætti segja að nýfundið fylgi Framsóknar, með SDG í forystu, séu burgeisar og 101-liðar og hætt er við að með sterkri forystu Samfylkingarinnar fari stuðningurinn þangað, aftur.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.