fimmtudagur, 8. janúar 2009

Tvær ályktanir

Á aðalfundi Framsóknarfélags Akraness í kvöld, þann 8. janúar 2009, voru eftirfarandi ályktanir samþykktar samhljóða:

Mikil afturför með nýju leiðakerfi
Aðalfundur Framsóknarfélags Akraness, haldin 8. janúar 2009, skorar á bæjaryfirvöld á Akranesi að standa vörð um þá almannaþjónustu sem felst í reglulegum strætisvagnaferðum á milli Reykjavíkur og Akraness. Það eru hagsmunir bæjarbúa að sú strætómenning sem myndast hefur glatist ekki til frambúðar, en veruleg hætta er á því í kjölfar upptöku nýs skipulags strætisvagnaferða nú um áramótin. Tafir, óhagræði og óáreiðanleiki hefur einkennt strætisvagnaþjónustu á nýju ári með verulega neikvæðum áhrifum á þá sem nýtt hafa sér þjónustuna til þessa. Mikil gjaldskrárhækkun er jafnframt óásættanleg og vinnur gegn því heildarhagræði sem hlýst af öflugum almenningssamgöngum.

--------------------------------

Nýtt stjórnskipulag dregur úr lýðræði hjá Akraneskaupstað
Aðalfundur Framsóknarfélags Akraness, haldin 8. janúar 2009, átelur framkvæmd stjórnskipulagsbreytinga hjá Akraneskaupstað. Uppsögn allra fulltrúa úr nefndum og ráðum bæjarins dregur úr lýðræði og er beinlínis ólögleg í ljósi þess að sumar nefndir skulu starfræktar á grundvelli laga. Félagið hvetur bæjarstjórn Akraness til þess að afturkalla með formlegum hætti bréf bæjarstjóra frá 23. desember síðastliðnum og áminna hann skriflega vegna þessa. Að öðrum kosti er minnihluti bæjarstjórnar hvattur til að leggja fram stjórnsýslukæru vegna málsins til samgönguráðuneytisins.

3 ummæli:

  1. Var þá samþykkt líka að víta bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins sem samþykkti allar þessar breytingar?

    SvaraEyða
  2. Að breyta skipulagi er eitt, framkvæmd þeirra er annað. Bréfaskriftir bæjarstjórans voru ekki í samræmi við það sem samþykkt var. Samþykktar skipulagsbreytingar fólu ekki í sér að bæjarstjóri gæti lagt niður nefndir og ráð án þess að búið væri að ganga frá því sem tekur við, þ.m.t að lögskipaðar nefndir haldi sér í nýju skipulagi.

    SvaraEyða
  3. Var nokkuð samþykkt að víta Kærunefnd jafnréttismála fyrir að amast við því að bæjarfulltrúa framsóknarflokksins á Akranesi var troðið í opinbert starf á pólitískum forsendum.
    http://www.rettarheimild.is/Felagsmala/KaerunefndJafnrettismala/2008/12/11/nr/2816

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.