föstudagur, 23. janúar 2009

Stjórnarkreppa

Það hryggir mig að sjá og heyra að hér stefnir allt í fjögurra mánaða stjórnarkreppu.

 Líklega munu sjálfstæðismenn láta undan og fallast á kosningar í vor. Hagsmunir stjórnarflokkanna hvað varðar bæði forystu og innra starf kalla hins vegar á það að fresta þeim eins lengi og hægt er.

 Svona eins og spilafíklarnir sem vilja taka næsta slag af því það hlýtur að koma að því að þeir fái þann stóra.

 Þjóðin getur beðið.

 Ef einhver alvara er á bakvið það að vilja afstýra stjórnarkreppu og fallist er á að hér þurfi að kjósa “sem fyrst” þá á auðvitað að kjósa “sem fyrst”.

 24. grein stjórnarskrárinnar segir eftirfarandi:

 24. gr. Forseti lýðveldisins getur rofið Alþingi, og skal þá stofnað til nýrra kosninga, áður en 45 dagar eru liðnir frá því er gert var kunnugt um þingrofið, enda komi Alþingi saman eigi síðar en tíu vikum eftir, að það var rofið. Alþingismenn skulu halda umboði sínu til kjördags.

 “Áður en 45 dagar eru liðnir” segir þarna. Ef stjórnarkreppa er vond en kosningar óumflýjanlegar er ábyrgðarlaust annað en að boða til þeirra sem fyrst og þá innan 45 daga. Þess vegna eftir mánuð!

 Var einhver búin að plana eitthvað sérstakt laugardaginn 22. febrúar?

 En nei, það stefnir í að félag ákvarðanafælinna muni hikandi og hálf-grátandi fallast á vorkosningar og dagsetning þeirra verði í lok maí.

 Eins og góð kona sagði á Alþingi um daginn:

 “Helvítis lydduskapur er þetta!”

3 ummæli:

 1. Þú ert nú meiri lýðskrumarinn. Heimtar kosningar núna strax vegna þess að þú heldur að það henti spillingarflokknum þínum að halda þær sem fyrst áður en fólk fattar að hann hefur í raun ekki breyst neitt þó þið séuð með nýjan formann. Það mun líka rifjast upp fyrir fólki að Framsókn á megin sök á hruninu nú. Þið voruð í ríkisstjórnunum sem lögðu grunninn að því. Þú ert ekki að hugsa um þjóðarhag heldur hvernig þú og félagar þínir getið komist í áhrifastöður til að skara eld að ykkar eigin kökum. Þjóðin mun sjá í gegnum ykkur.

  SvaraEyða
 2. Það er skiljanlegt að ofangreint komment sé ekki undir nafni. Þarna fer sérlega málefnalegur og sanngjarn einstaklingur sem er alveg til í að standa fyrir eigin skoðunum... nafnlaust.

  G.Vald

  SvaraEyða
 3. Burt séð frá öllu öðru, þá held ég að aðalvandamálið við beitingu þessarar greinar er að þá kemur Forsetinn inn í pólitíkina með afgerandi hætti. Þar sem okkar núverandi Forseti er ekki ókunnugur pólitík, þá er ég viss um að þetta yrði til að hella olíu á eld. Honum mun ekki takast að gera þetta án þess að þetta sé að einhverju leiti tengt við hans fortíð. Að því leyti held ég að þessi leið sé ófær.

  Bestu kveðjur,

  Arnar Gestsson

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.