Eftir umrót síðustu mánaða sem hófst með hruni íslensku krónunnar og náði hámarki með hruni bankakerfisins er ljóst að íslensk stjórnmál standa á krossgötum. Framsóknarflokkurinn er enn sem komið er eini stjórnmálaflokkurinn sem fyrirsjáanlegt er að mun bregðast við kröfum um breytingar á ásýnd og framvarðarsveit. Flokksþing Framsóknarflokksins sem haldið verður nú um helgina mun velja bæði nýjan formann og varaformann, auk þess sem flokkurinn mun marka framtíðarstefnu um hvort sótt skuli um aðild Íslands að Evrópusambandinu
Framsóknarflokkurinn hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár. Útkoma flokksins í síðustu kosningum, bæði til Alþingis og sveitastjórna, getur tæpast talist ásættanleg fyrir stjórnmálaflokk sem kennir sig við frjálslynda umbótastefnu og sem lengst af á yfir 90 ára sögu sinni hefur verið annar stærsti flokkur landsins.
Þessi staða flokksins á sér margar skýringar en því er ekki að leyna að innanflokksátök og meint spillingarmál hafa eflaust reynst flokknum hvað dýrkeyptust, auk þess sem hófsemis- og skynsemisrödd miðjusækins flokks málamyndanna og samvinnu er stundum auðdrekkjanleg í orðskrúði málfundastjórnmála þar sem slagorðin geta haft betur en raunveruleg stefna.
Um meinta spillingu flokksins og flokksmanna gef ég lítið fyrir. Hins vegar er það oft þannig að það sem virðist verður veruleiki og Framsóknarflokkurinn og talsmenn hans hafa ekki staðið sig nógu vel í að sverja af sér meinta spillingu. Það hryggir mig t.d. óneitanlega að enn hefur enginn af forsvarsmönnum Framsóknarflokksins stigið fram, þ.m.t. enginn frambjóðenda í forystusæti flokksins á flokksþinginu nú um helgina, og með óyggjandi hætti lýst vanþóknun sinni á þeim viðskiptaháttum sem tengjast Gift og eignarhaldsfélagi Samvinnutrygginga. Þar varð til við stofnun Vátryggingafélags Íslands stór fjárhæð sem sannanlega var eign þáverandi tryggingataka Samvinnutrygginga. Með útúrsnúningum og lagaklækjum tókst sjálfvöldum forsvarsmönnum eignarhaldsfélagsins að “fresta” útborgun þessa fjár til réttmætra eigenda og nýttu þá til að byggja sín eigin viðskiptaveldi.
Sú réttlæting var notuð að a.m.k. framan af græddu menn á öllu umstanginu og eign tryggingatakanna hefði bara farið vaxandi. Siðferðilega er það hins vegar algert aukaatriði. Menn voru þarna að nýta fé annarra til eigin auðgunar, og skipti engu þó gefið væri í skyn að raunverulegir eigendur fjárins myndu líka fá að njóta ávaxtanna – einhvern tímann seinna. Fór það nú svo að á endanum tapaðist allt.
Í Gift fór Framsóknarflokkurinn ekki með neitt ákvarðanavald. Óumdeilanlega komu að því félagi þekktir Framsóknarmenn, núverandi og fyrrum, og óneitanlega er slíkt sýsl ekki til neins annars en að gefa flokknum og það sem hann raunverulega stendur fyrir, slæmt orð. Sannanlega hefur Framsóknarflokkurinn ekki notið “góðs” af viðskiptaháttum þessara aðila.
Núverandi og fyrrverandi forysta flokksins er hins vegar óneitanlega því marki brennd að hafa með aðgerðum og aðgerðaleysi sínu orðið samdauna siðrofi af þessu tagi, jafnvel þó þeir hafi ekki átt beinan hlut að máli. Umrótið sem hefur gengið yfir okkur öll á undanförnum mánuðum gerir það að verkum að í Framsóknarflokknum gefst nú einstakt tækifæri til þess að móta sér nýja framtíð með nýrri framsókn og endurreisa þannig trúverðugleika flokksins.
En til þess að það gerist verða nýir forystumenn að þora að segja eitthvað...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.