"Kjör nýs forseta gefur Íslandi tækifæri til þess að freista þess að koma samskiptunum við Bandaríkin í samt lag. Einhvern veginn hefur kjölfestan farið úr íslenskri utanríkispólitík á síðustu árum eins og ýmsu öðru. Samskiptin við Bandaríkin eru hluti af þeim vanda. Staða okkar í Evrópu er annar hluti.
Brotthvarf varnarliðsins héðan bar að með sérstökum hætti sem á vissan hátt þótti dæmigert fyrir Bush-stjórnina. Fyrir hinu getum við ekki lokað augunum að sú niðurlæging fyrir Ísland sem fólst í háttseminni við þá ákvörðun skrifast að talsverðu leyti á okkar eigin reikning.
Viðræðurnar við stjórnvöld í Bandaríkjunum um framtíð varnarsamstarfsins byggðust á kolröngu stöðumati af Íslands hálfu og svipuðu oflæti og leiddi af sér ris og fall bankakerfisins. Afleiðingin varð brestur í samskiptum við bandalagsþjóð til margra ára. Segja má að það hafi verið fyrstu alvarlegu utanríkispólitísku mistök lýðveldistímans.
Sú hugmyndafræði að Ísland geti án skuldbindinga spilað á stórveldi heimsins sitt á hvað til að tryggja hagsmuni sína frá einum tíma til annars er jafn fúin og hlutleysisstefnan á sinni tíð. Nánari Evrópusamvinna er því rökrétt framhald á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það breytir hins vegar ekki mikilvægi þess að treysta á ný samskiptin við Bandaríkin. Þeir fersku vindar sem fylgja stjórnarskiptunum þar í gær opna möguleika fyrir Ísland til að takast á við það viðfangsefni í ljósi nýrra aðstæðna, á nýjum forsendum og af fullu raunsæi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.