fimmtudagur, 22. janúar 2009

Eitraður leiðari

Í öllum hasarnum í dag hefur leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í morgun (gær)án efa farið framhjá flestum.

Hann er skyldulesning.

Sama hvað gerist næstu daga í innanlandsstjórnmálunum er óumflýanlegt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins mun fara fram um aðra helgi.

Þar er barist á banaspjótum um sál flokksins og sú sál tengist merkilegt nokk utanríkispólitík að miklu leyti. 

Leiðari Þorsteins byrjar sem huggulegt snakk um nýjan forseta Bandaríkjanna, þær vonir sem hann vekur og þann vanda sem hann þarf að takast á við.

Síðan kemur hins vegar þetta:

"Kjör nýs forseta gefur Íslandi tækifæri til þess að freista þess að koma samskiptunum við Bandaríkin í samt lag. Einhvern veginn hefur kjölfestan farið úr íslenskri utanríkispólitík á síðustu árum eins og ýmsu öðru. Samskiptin við Bandaríkin eru hluti af þeim vanda. Staða okkar í Evrópu er annar hluti.

Brotthvarf varnarliðsins héðan bar að með sérstökum hætti sem á vissan hátt þótti dæmigert fyrir Bush-stjórnina. Fyrir hinu getum við ekki lokað augunum að sú niðurlæging fyrir Ísland sem fólst í háttseminni við þá ákvörðun skrifast að talsverðu leyti á okkar eigin reikning.

Viðræðurnar við stjórnvöld í Bandaríkjunum um framtíð varnarsamstarfsins byggðust á kolröngu stöðumati af Íslands hálfu og svipuðu oflæti og leiddi af sér ris og fall bankakerfisins. Afleiðingin varð brestur í samskiptum við bandalagsþjóð til margra ára. Segja má að það hafi verið fyrstu alvarlegu utanríkispólitísku mistök lýðveldistímans.

Sú hugmyndafræði að Ísland geti án skuldbindinga spilað á stórveldi heimsins sitt á hvað til að tryggja hagsmuni sína frá einum tíma til annars er jafn fúin og hlutleysisstefnan á sinni tíð. Nánari Evrópusamvinna er því rökrétt framhald á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Það breytir hins vegar ekki mikilvægi þess að treysta á ný samskiptin við Bandaríkin. Þeir fersku vindar sem fylgja stjórnarskiptunum þar í gær opna möguleika fyrir Ísland til að takast á við það viðfangsefni í ljósi nýrra aðstæðna, á nýjum forsendum og af fullu raunsæi.

Það var löngum mikilvægur kjarni í utanríkispólitíkinni að fylgja þeim Evrópuþjóðum að málum sem stóðu vörð um tengslin yfir Atlantshafið. Nýjar aðstæður hafa ekki breytt þeirri þörf í tvíhliða samstarfi og í samvinnu með öðrum Evrópuþjóðum." 

Feitletrun er mín. Hér er spjótum beint á margt og marga í fáeinum vel völdum orðum. Augljósast er að hér er spjótum m.a. beint að utanríkispólitískum greinum Styrmis Gunnarssonar, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, á heimasíðu Evrópunefndar Sjálfstæðisflokksins. En spjótin beinast að sama skapi einnig að fleiru og fleirum. 

Verulega athyglisvert.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.