föstudagur, 30. janúar 2009

Hægan, hægan!

Jæja, nú loga bloggheimar. Vandlætið og vænissýkin vegna þess að þingflokkur Framsóknarflokksins samþykkti ekki möglunarlaust nýjan stjórnarsáttmála Samfylkingar og VG er þegar komin út fyrir öll velsæmismörk.

Enda höfuðglæpur að eyðileggja "photo-op" á Austurvelli í jafn-fallegu veðri og var í dag.

Förum aðeins yfir málið.

Sunnudaginn 19. janúar sl. lýkur stórglæsilegu flokksþingi Framsóknarflokksins með því að kjörin er ný forysta með Sigmund Davíð Gunnlaugsson í broddi fylkingar. Jafnframt er þar samþykkt Ályktun um stjórnmála og efnahagsástandið þar sem lögð er til drög að aðgerðaáætlun. Það eru tólf dagar síðan.

Þriðjudaginn 21. janúar er nýjum formanni Framsóknarflokksins veitt "fullt umboð til að bjóða forsvarsmönnum Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs að mynda minnihlutaríkisstjórn flokkanna tveggja sem varin yrði vantrausti af hálfu Framsóknarflokksins á meðan alþingiskosningar verða undirbúnar. " Í þessu sama tilboði er tekið fram að tilboðið sé háð eftirfarandi skilyrðum: "að kosningar fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi og að strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs. Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins." Það eru 10 dagar síðan.

Síðastliðinn mánudag slitnar upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Dagurinn fer í fundahöld leiðtoga stjórnmálaflokkanna með Forseta lýðveldisins. Framsóknarflokkurinn staðfestir fyrra tilboð um að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og VG vantrausti með sömu skilyrðum. Það eru fimm dagar síðan.

Síðastliðinn þriðjudag fær formaður Samfylkingarinnar stjórnarmyndunarumboð. Það eru fjórir dagar síðan. Þann dag, daginn eftir, daginn þar á eftir og aftur í dag, ítrekar Framsóknarflokkurinn tilboð sitt með sömu skilyrðum. Samfylking og VG lýsa sig í reynd sammála skilyrðunum. 

Í dag klukkan 13:30 fær Framsóknarflokkurinn stjórnarsáttmála væntanlegrar ríkisstjórnar í hendurnar. Í honum koma fram markmið, en engar leiðir. Þó orð séu til alls fyrst þá verður að setja fram áætlun.

Það að lýsa yfir með almennur orðalagi að það eigi að hjálpa heimilunum og aðstoða fyrirtækin, en í engu setja fram með hvaða hætti það verður gert er engan veginn fullnægjandi.

"Þetta reddast" viðhorfið dugir ekki til. Það er fullreynt

Það verður að vera trúverðug aðgerðaáætlun, jafnvel þó nýrri ríkisstjórn sé ekki til setunnar boðið nema í rétt um þrjá mánuði.

Kannski menn hefðu átt að nota meiri tíma í að skipuleggja aðgerðaráætlun og minni í að skipuleggja "photo-op"!

Framsóknarmenn hafa ekki breytt eða bætt við skilyrði sín. Þau eru þau sömu í dag og þau voru þegar þau voru sett fram fyrir 10 dögum síðan.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki óskað eftir neinu sérstöku í sinn hlut vegna fyrirhugaðs stuðnings við nýja ríkisstjórn. Engar sporslur, engir bitlingar, ekkert rugl.

Framsóknarflokkurinn hefur einungis beðið um að það verði alvöru plan - alvöru aðgerðaáætlun. Það má engan tíma missa. "Photo-oppið" getur hins vegar beðið, jafnvel alveg fram á mánudag!

13 ummæli:

 1. Ef Framsókn ætlar að gera frekari kröfur þá verður að koma fram í hverju þær felast.

  mbk
  Sigurður Ásbjörnsson
  ps. Annars get ég frætt þig um það að gerð verður tillaga um utanþingsstjórn til forseta þar sem tilboð Framsóknar reyndist blöff.

  SvaraEyða
 2. 31. janúar, 2009 at 12:27 fh.

  David

  þetta er rétt Andrés

  Saga Framsóknar er ekki glæsileg og þeir ættu að sjá sóma sinn í að reyna ekki að blekkja almenning með leikrænum tilburðum af þessum toga.

  Þeir geta staðið sig í þessu, einsog um var talað, eða haldið áfram að gera í brækurnar.

  Formaðurinn ungi sem hefur lofað góðu fram til þessa verður að sýna að hann hafi styrk gagnvart sama gamla þingflokknum og kallaði þessa ógæfu yfir okkur og sýna þannig að raunverulegur afturbati hafa átt sér stað í flokknum.

  Annars verða kjósendur fljótir að kveikja og minnast þáttöku Framsóknar í sem hækju íhaldssins í einka(vina)væðingu bankanna og þeir ná ALDREI að þvo af sér ímynd Finns Ingólfssonar og Haldórs Ásgrímssonar sem þeir eru að reyna gera.

  Þetta er geymt en ekki gleymt…og þó batnandi flokk sé best að lifa þá verða menn að sýna það í verki og með innihaldi en ekki einhverju spin-tali og nýjum umbúðum.

  Góðar stundir

  SvaraEyða
 3. Sigurður,

  Framsókn er ekki að gera frekari kröfur. Kröfurnar eru þær sömu og þær hafa verið frá upphafi. Við viljum alvöru aðgerðaáætlun. Það er ekkert blöff. Forysta Samfylkingar og Vg eru því reyndar að því er virðist algerlega sammála þar sem hún hefur fallist á sjónarmið Framóknar og bíður okkar tillagna. Það eru bara fótgönguliðarnir sem eru að missa sig. Við höfum littlar efasemdir um að ný ríkisstjórn þeirra mun taka við í síðasta lagi á mánudag.

  SvaraEyða
 4. Friðrik hefur rétt fyrir sér það er engin hætta á að þessi stjórn verði ekki mynduð því annars yrði bara híjað á Sigmund!
  Mbkv.
  Stefán Benediktsson

  SvaraEyða
 5. Ég var einmitt að ræða þetta í dag, það verður að vera áætlun, ekki bara yfirlýsing. Ég er mjög ánægður með að Framsóknarmenn stöðvi slík hroðvirknisvinnubrögð.

  SvaraEyða
 6. "Að framsóknarmenn stöðvi hroðvirknisleg vinnubrögð" Þetta er nú sá besti sem ég hef heyrt lengi!!!!
  Lifi Ísland ( Án framsóknar)

  SvaraEyða
 7. Þvílíkt BULLSHIT!!
  Staðreynd málsins er að Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson og hinir ræningjanna 40 hafa eyðilagt framsókn. Hér eftir hefur flokkurinn bara áhuga á að maka krókinn við kjötkatlana meðan alþýðunni blæðir út. Það sýndi gamla valdaklíkan hugsjónamanninum Sigmundi í dag. Hann er eins og bergnuminn, stynur upp lélegum afsökunum fyrir því að klíkan heimtar greiðslu fyrir það að styðja stjórnina.

  Ég kem af langri ætt framsóknar- og samvinnumanna og þessi framsókn er ekkert sem forfeður mínir og mæður hefðu skrifað uppá

  Svei ykkur öllum saman!

  SvaraEyða
 8. Jón Stefán. Hvað er það sem Framsókn hefur farið fram á sér til handa? Um hvaða "greiðslu" er að ræða? Ég skal svara því. Ekki neitt!

  SvaraEyða
 9. Friðrik, það er ekki rétt hjá þér að Framsókn hafi engu bætt við kröfur sínar. Varðandi efnahagsaðgerðir stendur orðrétt í umboðinu (tilvitnun tekin úr þinni eigin bloggfærslu):

  "strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs."

  Fyrir liggur að í skjölum þeim sem afhent voru framsóknarmönnum var tiltekið að í slíkar aðgerðir ætti að fara - og það strax. Enda er það stór ástæða þess að mikilvægt var að stofna til nýs stjórnarsamstarfs. Ætti ekki að fara í markvissar aðgerðir strax, hefði Samfylkingin alveg eins getað starfað áfram með Sjálfstæðismönnum.

  Það var á þessum tímapunkti (og svo sum nokkrum sinnum áður í fjölmiðlum í þessari viku) sem formaður Framsóknar bætir "raunhæfum aðgerðum" sem lista útfærslur en ekki markmið við það umboð sem hann hafði skriflega frá flokknum.

  Hvað sem öllu öðru líður, jafnvel þó formaðurinn hafi endurnýjað umboðið frá flokknum til þess að gefa slíkar yfirlýsingar, þá er þetta breyting frá því umboði sem þú vísar til í upphafi færslunnar og segir að hafi ekkert breyst.

  SvaraEyða
 10. Er þetta ekki dæmigert fyrir flokkana? Þeir eru allir ónýtir! Óhæfir til góðra verka, geta ekki komist að samkomulagi. Baktjalda- og leynimakk út í það endalausa. Það þarf nýtt fólk á þing, nýja flokka. Burt með þetta ónýta alþingi!

  SvaraEyða
 11. Sælir,

  Ég held að nú sé ástæða til að Framsóknarmenn kynni sér hvað það þíði að verja minnihlutastjórn vantrausti. Í því loforðy fellst bara það, að ferja hana vantrausti, en ekki loforð um að styðja öll mál sem hún setur fram.

  Framsókna hagar sér eins og virkum þátttakanda í myndun þessarar minnihlutastjórnar eins og þeir séu þátttakendur í henni án ráðuneytis. Ég ætla ekki að setja út á það að Framsóknarmenn hafi kallað til sérfræðinga sér til aðstoðar við mótun á útfærslum, það er gott mál, en þeir ættu þá líka að kalla til sérfræðinga um hlutverk sitt í því að verja minnihlutastjórn falli.

  SvaraEyða
 12. Það er ágætt að Framsóknarflokkurinn sanni það að þrátt fyrir andlitslyftingu í forystunni að þá er innrætið enn jafn spillt og skemmt.

  SvaraEyða
 13. Framsóknarflokkurinn er spillt glæpasamtök
  sem þjóðin þarf að hreinsa alveg af yfirborði jarðar
  Finnur, Ólafur Ó Halldór Á.
  Þvílíkur viðbjóður allt saman.

  Gilli

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.