mánudagur, 5. janúar 2009

Samkeppni á blaðamarkaði

Samkeppnin á blaðamarkaði milli Morgunblaðsins annars vegar og Fréttablaðsins hins vegar tók á sig alveg nýja mynd í gær.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins er í tveimur aðskildum greinum, skrifuðum af sama blaðamanninum, sett út á tvo ritstjóra Fréttablaðsins persónulega. Annars vegar er grein um meinta langrækni Þorsteins Pálssonar, aðal-ritstjóra Fréttablaðsins, sem meira að segja er kynnt sérstaklega á forsíðu moggans, og hins vegar er dylgju-pistill um fjármál Björns Inga Hrafnssonar, viðskiptaritstjóra Markaðar Fréttablaðsins.

Meinta langrækni Þorsteins Pálssonar finnur blaðamaðurinn út með því að rifja upp annars vegar sögu af því þegar fyrir rúmum 18 árum síðan viðtal hennar við téðan Þorstein, sem þá var formaður Sjálfstæðisflokksins, var sett í ruslið af þáverandi ritstjórum blaðsins, og hins vegar með því að rifja upp leiðara sama Þorsteins úr Fréttablaðinu frá því viku fyrir hrun (ekki eftir eins og blaðamaður heldur fram), eða 23. september sl. undir yfirskriftinni "Jónasi svarað." Tengingin er í sjálfu sér súrrealísk og blaðamaður hefur ekki fyrir því að rifja upp að tilefni leiðarans voru viðbrögð formann bankastjórnar Seðlabankans frá því tveimur dögum fyrr í viðtali á Stöð 2 við greinum m.a. Jónasar Haralz og Einars Benediktssonar, en leiðarinn segir svo frá:

Svar bankastjórnarinnar sem nú liggur fyrir í nefndu sjónvarpsviðtali var einkar skýrt og afdráttarlaust. Bankastjórarnir, einn fyrir alla og allir fyrir einn, líta einfaldlega svo á að slíkur málflutningur sé „lýðskrum" og á honum hafi menn á þeim bæ bæði „skömm" og „fyrirlitningu". Sannarlega er ekki unnt að kvarta yfir því að svör hafi ekki fengist við hógværri beiðni.

Ekki er að finna nein þau föstu skot í þessum leiðara sem blaðamaður Morgunblaðsins vísar til í grein sinni þegar hún segir "...þar skaut Þorsteinn slíkum skotum að Davíð Oddssyni að annað eins hefur ekki sést á prenti frá Þorsteini. Leiðarinn var svo beittur og háðskur að ég gat ekki að mér gert að hugsa, skyldi Þorsteinn vera miklu langræknari og hefnigjarnari en Davíð?!"

En aðalritstjóri Fréttablaðsins er s.s. kannski bæði langrækinn og hefnigjarn, jafnvel langræknari og hefnigjarnari en formaður bankaráðs Seðlabankans! Þetta hlýtur að teljast stórfrétt, sérstaklega þegar þessu er vafið saman við "viðtalið sem aldrei birtist". Sjálfsgagnrýni blaðamannsins nær að sjálfsögðu ekki til þess að kannski var viðtalinu á endanum hennt vegna blaðamennskulegra ágalla. Kannski skorti þar upp á sanngirni og óhlutdrægni í fréttamennsku og blaðamaður með einum eða öðrum hætti of nátengdur viðfangsefninu með einhverjum hætti. Hver veit?

Á öðrum stað í blaðinu undir yfirskriftinni "Sloppnir fyrir horn" dylgjar sami blaðamaður um fjármál Björns Inga Hrafnssonar. Þar segir blaðamaður m.a.:

Það er á fárra vitorði, að Björn Ingi Hrafnsson á í félagi við konu sína einkahlutafélagið Caramba – hugmyndir og orð ehf. Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum er ráðgjöf á sviði almannatengsla, útgáfu- og kynningarstarf, alhliða textavinna og útgáfuþjónusta, rekstur fasteigna og útleiga, eignarhald félaga og gerð viðskiptaáætlana. Enginn smátilgangur!

Samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið innan úr Kaupþingi (gamla) var félagið stofnað í mars 2001 og hefur að mestu leyti verið í rekstri og vörslu ákveðinna verðbréfamiðlara Kaupþings frá stofnun, sem samviskusamlega unnu að því að gera Björn Inga Hrafnsson ríkan.

Einhvern veginn býður mér í grun að Björn Ingi muni þurfa að standa skil á þeirri veltu sem var í þessu félagi hans. Jafnframt mun hann ugglaust þurfa að svara spurningum um það hvernig félagið var fjármagnað í upphafi, þ.e. hvaðan lán til brasks miðlara Kaupþings voru fengin, hvaða veð voru sett fyrir lántökunum, hversu mikið félagið hagnaðist og hver var staða Caramba við bankahrun. Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur upp úr kjötkötlum Kaupþings þegar bankarannsókn verður komin á einhvern skrið, ekki satt?!

Þetta er náttúrulega ekkert annað en hin kostulegasta framsetning. Í fyrsta lagi má ætla að upplýsingar um stofnun þessa meinta félags Björn Inga séu auðfáanlegar úr fyrirtækjaskrá, þ.e. stofndagsetningu og yfirlýstan tilgang. Blaðamaður hins vegar tekur sérstaklega fram að upplýsingarnar séu fengnar innan úr gamla Kaupþingi.

Í öðru lagi (og hér verð ég að viðurkenna að ég enga hugmynd um þetta félag eða fjármál Björns Inga og vissulega getur vel verið að hann þurfi á einhverjum tímapunkti að gera grein fyrir einhverju) gefur blaðamaður hér hins vegar ýmislegt í skyn sem hún rökstyður ekki með neinum hætti. Samt lætur hún liggja að því að hún viti meira en hún segi. Bíðiði bara!

Þetta er kannski ný birtingarmynd samkeppninnar á blaðamarkaði. Leki á trúnaðargögnum úr viðskiptabönkum um ákveðna aðila til að koma á þá höggi með einum eða öðrum hætti. Macchiavelli lifir og tilgangurinn helgar meðalið.

Nú má hins vegar velta fyrir sér hvort einhver blaðamaður Fréttablaðsins muni svara fyrir hönd sinna ritstjóra með safaríkum sögum af ritstjóra Morgunblaðsins frá því t.d. er hann ritstýrði Nýjum skóla, sem einu sinni var ungliðablað Sjálfstæðisflokksins og dreift í framhaldsskóla landsins.

Nei, ætli það.


2 ummæli:

  1. Ég reikna með að hér eigir þú við langrækni Þorsteins en ekki langdrægni hans, nema Þorsteinn sé einhverskonar kjarnaeldflaug. Þó vissulega fljúgi jú skot þarna á milli manna.

    SvaraEyða
  2. Vissulega. Rétt stafsett en vitlaust orð! Þakka ábendinguna og þetta hefur hér með verið leiðrétt.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.