laugardagur, 3. janúar 2009

Af líkamsmeiðingum og eignatjóni

Mér er illa við athæfi sem enda með líkamsmeiðingum og eignatjóni.

Skríll sem veldur slíku telst varla húsum hæfur.

Það er sjálfsögð krafa að sá skríll bæti meiðingarnar og tjónið.

Fyrir ári átti ég nettó eign í húsinu mínu.

Í dag er hún líklega horfin og jafnvel komin í mínus – verðtryggingarhækkun á lánunum samfara hruni fasteignamarkaðar hefur haft þau áhrif.

Fyrir ári átti ég einhverja hýru í séreignarlífeyrissparnaði. Á árinu var greitt inn á þennan sparnað af sjálfum mér og vinnuveitanda mínum. Í dag á ég u.þ.b. jafnháa upphæð og í byrjun síðasta árs. Viðbótargreiðslur heils ár einfaldlega hurfu.

Fyrir ári var ég á góðri leið með að eignast bílinn minn. Hann var og er á 50/50 íslenskukrónu og myntkörfu láni. Í dag skulda ég meira í honum en ég gerði fyrir ári þrátt fyrir síhækkandi mánaðargreiðslur.

Fyrir ári var ég nokkuð hress.

Í dag finn ég fyrir reglulegum líkamlegum kvillum eins og vöðvabólgum og ég vona svo sannarlega að þessi brjóstsviði sé bara út af magasýrum!

Svei mér þá ef ég er ekki orðinn viðkvæmari fyrir umgangspestum.

Sef líklega ekki nóg!

Á síðastliðnu ári breytti ég lítið út frá vananum m.v. árin þar á undan. Mætti í vinnuna, elskaði konuna, þótti vænt um börnin mín og fór út með hundana. Dýrustu einstöku útgjöld síðasta árs voru haustafborganirnar af námslánunum og þegar headpakkningin fór í bílnum.

Já, mér er sannarlega illa við athæfi sem enda með líkamsmeiðingum og eignatjóni.

Skríll sem veldur slíku telst varla húsum hæfur.

Það er sjálfsögð krafa að sá skríll bæti meiðingarnar og tjónið.

Að minnsta kosti meiði og skemmi ekki meir!

12 ummæli:

 1. Þetta er góður pistill hjá þér Friðrik.

  Tvíræður og fantavel skrfaður og hugsaður.

  Vona að við fáum menn eins og þig í forystu Framsóknarflokksins. Það er ömurlegt að sjá þessar tilraunir sem enda í Eiríki Tómassyni

  SvaraEyða
 2. Hvernig er hægt að hafa svona heilbrigðar skoðanir og sýn á sannleikann en vera formaður framsóknarfélags?
  Frábært blogg þetta með skrílinn -

  SvaraEyða
 3. Ódýrt spaug, talað niður til fólks. Lélegur pistill.

  SvaraEyða
 4. Ótrúlegur auli í fjármálum

  SvaraEyða
 5. Nafnlaus 1: Þakka þér og hver veit?
  Nafnlaus 2: Þakka þér og það er tiltölulega auðvelt, enda framsóknarmenn almennt með heilbrigðar skoðanir og sýn á sannleikann. Það eru hins vegar stöku spillingarkóngar sem vill svo til að taldir eru framsóknarmenn sem skemma fyrir flokknum.
  Nafnlaus 3: Mat á gæðum pistilsins er væntanlega einstaklingsbundið. En hann er heiðarlegur og sannur - og vonandi pínu beittur.
  Nafnlaus 4: Já, við hefðum aldrei átt að kaupa okkur þak yfir höfuðið og aldrei að kaupa bil. Og aldrei átti ég að treysta ráðleggingum bankans míns um að þeir myndu sjá um að gæta og ávaxta viðbótarlífeyrissparnaði mínum.

  SvaraEyða
 6. Fínn pistill - enn betri svor til nafnlausra sem örugglega eiga lambhúshettur.

  Þetta með skynsömu framsóknarmennina; þeim gæti nú farið fjölgandi ef framsókn tekst að kjósa sér flottan formann og taka stefnu á Evrópu.

  SvaraEyða
 7. ágætur pistill,Friðrik.Okkur hvítflibbaþjófa og fjármálagæpamenn tekur sárt hvernig skríllinn hagar sér,truflar sjónvarpsútsendingu þar sem hún Valgerður okkar ætlaði einmitt að segja frá algeru sakleysi sínu á einkavæðingunni.
  Við hörmum það hvernig flokkurinn okkar er leikinn og fullvissum þjóðina um að við höfum skotið milljörðum undan svo okkur er borgið!

  SvaraEyða
 8. Sterkur pistill. Broddur í honum og skemmtilegt að sjá orðið skríll notað á viðeigandi hátt.

  Steinar

  SvaraEyða
 9. Ari Edwald talaði um ótýnda glæpamenn sem stöðvuðu útsendinguna á Kryddsíldinni. 365-miðlar átu þetta svo upp eftir honum.
  Þeir hafa aldrei verið kallaðir ótýndir glæpamenn þessir sem settu landið á hausinn, útrásarvíkingarnir.
  Friðrik hefur svo sannarlega fengið sinn skell frá þessum útrásarskríl, eignartjón, líkamsmeiðingar og andlega misþyrmingu.

  Rögnvaldur

  SvaraEyða
 10. Blogg gerast ekki betri.
  Neisti

  SvaraEyða
 11. Það eru ótýndir glæpamenn og svo hinsvegar týndir glæpamenn, þeir síðarnefndu eru að sjálfsögðu verri.

  Takk fyrir góðan pistil!

  Kv.Leibbi dóni.

  SvaraEyða
 12. Yndisleg lesning. Raunveruleiki svo margra í dag. magga

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.