miðvikudagur, 25. febrúar 2009

Afskriftir lána

Atvinnuleysi eykst, laun eru lækkuð.

Það gerði engin athugasemd við það að skuldbinda skattborgara þessa lands um hundruð milljarða til þess að tryggja innistæður langt umfram skyldutryggingu.

Það gerði engin athugasemd við það að tugum, ef ekki hundruð, milljarða af peningum sömu skattborgara voru teknir til að “lagfæra” stöðu peningamarkaðssjóða sem engin skylda var til þess að gera.

Eitthvað var nöldrað, en ekkert gert, þegar að yfir þrjú hundruð milljörðum í væntanlega tapaðri skuldabréfaeign Seðlabanka Íslands var yfirfærð á ríkissjóð og þannig teknir úr vasa skattgreiðenda með einu pennastriki.

Ekkert hefur verið að gert hér í þann fjölda ára sem falsaðar verðbólgutölur hafa ofmælt íslenska verðbólgu, sem aftur hefur leitt af sér hreina eignaupptöku lánastofnanna úr vasa lántakenda, umfram það sem eðlilegt gat talist.

Þegar hins vegar kemur að því að veita skuldurum þessa lands einhverja sambærilega fyrirgreiðslu og þeim sem áttu pening á bók eða í peningamarkaðssjóði, er risið upp á afturfæturna í mikilli vandlætingu.

Skuldurum, hvers eign var bundin í steinsteypu en ekki í bankabók.

Eign sem hefur brunnið upp hraðar og meira í efnahagshruninu en nokkuð annað.

Það lið getur átt sig.

Fjálglega hefur verið rætt um tímabundna frystingu verðtryggingar, búnar hafa verið til gervivísitölur til að milda áhrif verðbólguskotsins (sem er skot úr óásættanlegri verðbólgu upp á 8-10% upp í ofurverðbólgu upp á 17-20%), og aðrar bráðabirgðalausnir, sem flest allar hafa það sammerkt að vera ómarkvissar, illframkvæmanlegar og lítt líklegar til varanlegs árangurs. Þær velti einungis vandanum á undan okkur.

Það hefur líka verið talað um að líta á “stöðu hvers skuldara fyrir sig.”

Sem er vita vonlaust verk í ljósi þess mikla fjölda sem er í erfiðri skuldastöðu vegna kreppunnar og hrunsins.

Það verður líka að hafa í huga regluna um jafnfræði.

Tillaga forystu Framsóknarflokksins um 20% afskrift veðskulda er þannig verðug tilraun til þess að mæta skuldavanda heimila og fyrirtækja með einföldum og gagnsæjum hætti og þannig að gætt sé fyllsta jafnræðis.

Tillögurnar eru vissulega róttækar. Sjálfur setti ég fram í umræðuhópi sem vann “Ályktun um stjórnmála- og efnahagsástandið” á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins eftirfarandi tillögu:

- Öll lán einstaklinga og fyrirtækja í erlendri mynt hjá öllum lánastofnunum verði færð í íslenskar krónur á dagsgengi 30. janúar nk. með afföllum að 1/3. Mismunurinn verði afskrifaður og heimilt að færa sem tap á móti skattandlagi til allt að tíu ára.
- Öll verðtryggð lán einstaklinga og fyrirtækja hjá öllum lánastofnunum verði afskrifuð um 20% um næstu mánaðarmót. Þá afskrift verði heimilt að færa sem tap á móti skattandlagi til allt að tíu ára.


Þessa tillögu lagði ég fram til þess að undirstrika það að allar hugmyndir í þá veru að milda áhrif hrunsins á þá sem skulda, yrðu að gæta jafnræðis. Jafnræðið setti mönnum þær skorður að láta jafnt yfir alla ganga. Ég hafði enga trú á því að þar yrði fallist á þessa tillögu og varð það raunin.

Bankarnir eru allir komnir í fangið á ríkinu. Þar með geta bankarnir (ríkið) ekki farið fram með einum skuldara með einum hætti, t.d. 30% afskrift skulda, en látið annan greiða allt upp í topp. Það er ekki í samræmi við jafnræðisreglu.

Nú er sambærileg tillaga hins vegar orðið hluti af formlegri tillögu til aðgerða í efnahagsmálum hjá Framsóknarflokknum. Unnin í samvinnu við þá ágætu hagfræðinga Jón Daníelsson og Ragnar Árnason.

En, aðallega af því er virðist af því að þessar tillögur eru settar fram af Framsóknarflokknum, er reynt að gera þær með einhverjum hætti tortryggilegar.

Enginn þeirra sem gagnrýnir setur hins vegar fram aðra valkosti.

Tillögur Framsóknarmanna eru vissulega róttækar. Að mínu viti hins vegar jafnvel ekki nógu róttækar þar sem ekki er tekið á gengistryggðu lánunum og jafnvel hugsa ég að 20% afskrift yrði ekki nóg.

Höfum í huga að í sjálfu sér má líta á tillögurnar sem afskrift verðbótaþáttar síðustu 14 til 18 mánaða.

Tillögur þessar er rétt að ræða. Við skuldarar þessa lands eigum ákveðna heimtingu á því að komið sé til móts við okkar eignabruna, rétt eins og gert hefur verið við gagnvart þeim sem áttu sínar eignir í banka, bæði á sparireikningum og í peningamarkaðssjóðum.

Vel má vera að við slíkar umræður komist menn að útfærsluleiðum sem eitthvað dragi eitthvað úr kostnaði. Hugsanlega má, án þess að dregið sé úr vægi jafnræðisreglunnar, setja ákveðið þak á afskriftir. Til dæmis að afskrifa megi veðskuldir um 20%, þó eigi um hærri upphæð en sem nemur 5 milljónum.

Látum ekki nægja að afskrifa einungis okkur sem skuldum!

8 ummæli:

  1. Ef jafnræði er málið ... af hverju þá aðeins að hjálpa þeim sem hafa fengið lán. Hvað með þá sem skulda ekkert? Og hvað með þá sem skulda annað en húsnæðislán?

    Og af hverju % af skuldum, af hverju ekki flata upphæð á haus? Því á nágranni minn sem skuldar 20 millur að fá 4 millur á meðan ég sem aðeins skulda 10 fæ bara 2?

    En bíddu, af hverju á ég eiginlega að fá 2 millur gefins ef ég skulda aðeins 10 millur ... ætti ég ekki bara að ráða við að borga það?

    Og ef fyrirtæki eiga líka að fá 20% niðurfellt, á þá JÁJ að fá 200 milljarða niðurfellingu?

    Í ljósi þess að lánin eru komin inn í nýju bankana Á NIÐURGREIDDU VERÐI ... hver á að borga þessa niðurfellingu? Klárlega ekki erlendir kröfuhafar, þeirra kröfur eru á gömlu bankana.

    Eins og þú kannski getur getið þér til um, finnst mér þetta heldur vafasamur kosningavíxill.

    Og skil ég þó vel vanda skuldara, keypti mína fyrstu íbúð á verðtryggðum lánum í upphafi níunda áratugsins, þegar verðbólgan var 80% um tíma.

    Kveðja
    Elfa Jóns

    SvaraEyða
  2. Hér erum við sammála.

    Líklega í fyrsta sinn sem þú talar um annað en ESB vitleysuna.

    Það þarf fyrst að kjöldraga og flaka Gróðapungana, sem stálu með beinum hætti frá þeim sem voru með verðtryggð lán og gerð fvar atlaga að gengi Krónu okkar.

    Það þarf að ná í og staursetja (ekki þó í eiginlegri merkingu) ,,bankamenn" sem stóðu í svindlinu upp fyrir olnboga og hreinsa allar eigur þeirra og setja inn á Ríkissjóð til útdeilingar meðal féflettra almúgamanna.

    Með kveðju og von um, að þið Finn-ið mönnum ekki skjól í smáa letrinu.

    Miðbæjaríhaldið

    SvaraEyða
  3. Gallinn við þessa aðferð er að sjálfsögðu sá að með þessari aðgerð er verið að troða á þeim sem passað sig hafa á því að skulda ekkert.
    Því miður er þessi hugmynd ekkert annað en lýðskrum að hætti Framóknarmanna. Þeir hafa því miður beitt þessari aðferð í mörg ár. Bjóða kjósendum pening fyrir atkvæði.

    SvaraEyða
  4. Hæ,

    Villi Þorsteins. er einn af þesssum mönnum sem veit hvað hann er að tala um og ég les mikið. Kíktu á þetta: http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/ Kveðja,
    - Stefán

    SvaraEyða
  5. Þetta meikar fullkominn sens hjá þér...
    fólk áttar sig margt ekki á því að í óbreyttu ástandi mun allri þjóðinni blæða svo að ekki er hægt að tala um að þetta kæmi ekki hinum skuldlausu til hagsbóta líka.
    Fólk bara verður að fara að sjá þetta!

    SvaraEyða
  6. Auðvitað er gallinn við þessa aðferð að hún "refsar" þeim sem skulda ekkert.

    Hins vegar verður þeim refsað enn meir ef ekkert er að gert og átta af hverjum tíu fasteignum eru settar á útsölu.

    Þá hrynur endanlega allt hjá þeim sem halda sér þó á floti nú.

    Og þeir sem hafa áhyggjur af afskriftum til Jóns Ásgeirs, þá getum við afskrifað 200 milljarða á hann - og samt á hann ekki fyrir þessu og við eigum Baug. Þannig að þetta skiptir engu máli fyrir ofurskuldarana, þeir fara á hausinn.

    Hvernig sem við snúum þessu þá er eftir að afskrifa endanlega fullt af skuldum, spurningin er einfaldlega hvort við ætlum að gera það með fjöldagjaldþrotum eða bara gjaldþrotahrinu.

    SvaraEyða
  7. Við skulum halda því til haga að þeir sem voru með sitt fé í banka eru búnir að fá sína fyrirgreiðslu.
    Nú þarf að aðstoða heimilin. 20% aðstoð, jafnvel með hámarki.

    En flokkarnir verða að gera betur en að tala. Þeir verða að koma með aðgerðaplan sem segir hvað þeir muni gera ef þeir komast í stjórn. Heimilin þurfum hjálp strx.

    SvaraEyða
  8. Elfa Jóns fékk sem sagt íbúðina sína upp í hendurnar eins og svo margir á þessum tíma! Nóg um það hún hefur ekki nennu til að lesa þennan frábæra pistil! Ég hef lengi verið undrandi á þeirri forgangsröðun að leggja 200 milljarða í Glitnissjóði án þess að hiksta en sjá ekkert athugavert við það að steypa endalausum milljónum ofan á heimilin og neita að leiðrétta þessi rangindi sem heimilin hafa orðið fyrir. Ég neita að skuld mín sé rétt uppfærð! Ég er ein af þeim sem ætla að fara í mál því forsendur hafa algerlega breyst!
    Takk fyrir góðan pistill.
    Elísabet

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.