föstudagur, 6. febrúar 2009

Hvalveiðar

Í kvöld sat ég mikinn hvalveiðifund í Bíóhöllinni á Akranesi. Þar voru mættir allir þingmenn kjördæmisins, auk nýbakaðs sjávarútvegsráðherra, Steingríms J. Sigfússonar. Rætt var um reglugerðarsetningu Einars K. Guðfinnssonar á síðustu dögum hans í embætti og er óhætt að segja að stuðningur við þá gjörð Einars hafi verið afdráttarlaus á fundinum.

Rétt er að taka fram strax að ég styð ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að gefa út kvóta vegna hvalveiða.

Veiðar á hval eru í samræmi við sögu okkar, hefðir og ábyrga stefnu um sjálfbærni í nýtingu auðlinda hafsins.

Útgefinn kvóti er langt innan þeirra marka sem teljast þolandi fyrir viðkomandi hvalastofna út frá sjónarmiðum sjálfbærni.

Gagnrýni á ráðherrann fyrrverandi um að óeðlilegt sé að taka slíka ákvörðun á sama tíma og hann hreinsar úr skúffum sínum í ráðuneytinu og tekur pokann sinn er skiljanleg.

Ákvörðunin hefur þannig yfir sér ákveðinn blæ pólitísks leikaraskapar, sem hefur meira að gera með pólitískt framhaldslíf ráðherrans fyrrverandi í Norðvesturkjördæmi en efnilegar forsendur hennar.

Gagnrýna má jafnframt að eðlilegra hefði verið að taka þessa ákvörðun fyrr og kjarkinn hafi vantað hjá ráðherranum til ákvarðanatöku alveg þar til hann sá fram á snemmbúið prófkjör og kosningar.

Á móti kemur að ákvörðunin er engu að síður tekin í rökréttu samhengi við opnun á markaðsaðgangi fyrir hvalkjöt á Japansmarkað.

Ákvörðun fyrr hefði þannig byggt á veikari grunni., þ.e.a.s. ekki hefðu legið neinar markaðsforsendur fyrir ákvörðuninni.

Leyfilegt veiðimagn sætir einnig gagnrýni. Hér mælir reglugerðin þó einungis fyrir að fylgt sé veiðiráðum Hafrannsóknarstofnunnar, svo vart halda þau rök.

Þó halda megi því fram að full bratt sé farið hvað varðar langreyði að fara úr 7 í 150 dýr, má telja næsta víst að öll stórhvalaveiði verður fyrir mikilli gagnrýni, sama hver fjöldi veiddra dýra verður.

Höfum í huga að afstaða meirihluta þjóðarinnar og meirihluta þingsins liggur fyrir. Hvalveiðar njóta ríks stuðnings.

Þar með er ekki sagt að við séum blind fyrir þeirri neikvæðu afstöðu megin þorra alþjóðasamfélagsins til veiðanna, síður en svo.

Það er hins vegar grundvallarforsenda til þess að vera trúverðug í þeirri baráttu að hér séu stundaðar raunverulegar veiðar.

Sjálfur hef ég varið sjónarmið Íslands á erlendum vettvangi með hléum í bráðum 20 ár – fyrst í háskólum þeim sem ég stundaði snemma á tíunda áratugnum, og síðar í starfi mínu í sendiráðum Íslands í Bandaríkjunum og Danmörku.

Þetta er rökræða sem er í miklu andstreymi tilfinninga.

Tilfinninga sem ekki er hægt að leiða hjá sér. Við vitum öll hvað tilfinningasemi í pólitískri umræðu getur verið erfið viðureignar – um það sjáum við reglulega dæmi, nú síðast í hvatvísum tilfinningareiðilestri sjálfstæðismanna við það að vera hent öfugum út úr stjórnarráðinu og úr valdasæti þingforseta. Það verður jú stundum að sýna aðgát í nærveru sálar!

Við skulum því halda okkar striki varðandi veiðar og vinnslu á hval með sjálfbærni nýtingar að leiðarljósi.

Þau rök gilda ekki lengur, að minnsta kosti í nánustu framtíð, að slíkar veiðar skipti okkur ekki máli efnahagslega og við getum vel gert eitthvað annað.

Að sama skapi eiga þau rök ekki við að við íslendingar borðum ekki hvalkjöt.

Mest af veiðinni undanfarin ár hefur farið á innlendan markað og í núverandi efnahagsástandi geri ég ráð fyrir að hrefnukjötið verði væntanlega það rauða kjöt sem ég muni helst hafa efni á að kaupa á grillið næsta sumar.

Það er síðan eðlileg og sjálfsögð krafa að þrátt fyrir veiðar verði hagsmunir hvalaskoðunar og ferðaþjónustu ekki fyrir borð bornir.

Hafsvæðið í kringum Ísland er stórt og víðfeðmt og ástæðulaust að þessar tvær atvinnugreinar, hverra hagsmunir fara ekki vel saman, stundi sýna starfsemi í kjöldragi hverrar annarrar.

Það kann vel að fara svo að til lengri framtíðar verði hvalveiðum sjálfhætt, að minni hagsmunir þurfi í þeim efnum að víkja fyrir meiri eins og stundum verður.

Þangað til er hins vegar ástæðulaust að láta deigan síga. Hvalinn er rétt að veiða og nýta rétt eins og önnur gæði lands og sjávar.

5 ummæli:

 1. kosningabaráttan er byrjuð. Gangi þér vel.

  Steinar

  SvaraEyða
 2. Þó svo að hægt sé að rökstyðja sjálbærar veiðar á hval ágætlega er málið flóknara en það. Hafandi búið í mið evrópu í rúman áratug og oft reynt að útskýra afstöðu okkar íslendinga um nýtingu náttúruauðlinda fyrir hinum almenna evrópubúa er flestum nokk sama.

  Þetta er tilfinningamál og það er staðreynd að þetta hefur neikvæð áhrif á sölu íslenskra afurða til hins evrópska meðaljóns. Þetta ber að hafa í huga. Mannskepnan/neytandinn lætur stjórnast af tilfinningum frekar en rökum og köldu mati á staðreyndum.
  Nú tengist nafn íslands mikið neikvæðum fréttum um fjármálaskandala og klúður. Bætum svo fréttum af hvalveiðum við (sumir evrópubúar tengja það jafnvel seladrápi) og útkoman fer að verða ansi erfið fyrir útflytjendur annarra afurða.

  SvaraEyða
 3. "Veiðar á hval eru í samræmi við sögu okkar, hefðir og ábyrga stefnu um sjálfbærni í nýtingu auðlinda hafsins"

  HEFÐIR! Burt með villimanslegar hefðir! og ofbeldi! Einar K ætti að SKAMMAST SÍN!!

  SvaraEyða
 4. Norðmenn hafa reiknað út að 1 veidd Hrefna þíðir að það má veiða 5 tonnum meira af þorski enn ella.þannig að 200 hrefnur gefa 1000 tonnum meira af þorski sem hægt er að veiða.varlega áætlað verðmæti gæti verið um 350 miljónir+verðmæti kjötsins kanski ca 450 miljónir þannig að Hrefnan gefur af sér um 800 miljónir + 300miljónir í hvalaskoðun. Ekki spurning skjæotum skoðum og njótum.

  SvaraEyða
 5. Mikið er ég fegin að lesa þennan pistil -- loksins einhver sem hefur bæði vit og skoðun á hvalveiðum. Ég vænti þess að þú getir þá svarað eftirfarandi spurningum:

  1. var byrjað að laga til í hvalstöðinni í fyrravor?
  2. á hvaða forsendum fóru framkvæmdir af stað hjá hvalaútgerðum?
  3. hverjir fengu úthlutað kvóta? Hafa þeir aðilar tök á að veiða hvali?
  4. hvaðan koma tölur um að 2-300 störf skapist?
  5. við hvað eiga þessi hundruð manna og kvenna að vinna og hvar (á hvaða skipum, í hvaða vinnslu og hvar á landinu?)
  6. hafa náðst samningar um sölu á afurðunum?
  7 náðust samningar um sölu á hvalafurðum í fyrra eða árin áður þegar veiðar voru leyfðar?
  8. hvert var heildarverðmæti þeirra hvalaafurða sem tókst að selja?
  9. náðist að veiða uppí 9 dýra langreyðarkvóta síðast?
  10. eru menn bjartsýnir á að það takist núna?

  Anna -- sem bíður spennt eftir svari.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.