mánudagur, 23. febrúar 2009

Ísland í ESB

Í hádeginu í dag hélt ég eftirfarandi erindi hjá "Rótarý Reykjavík - Miðbær" um Ísland og Evrópusambandið og af hverju ég tel að sækja eigi um aðild.

------------------------

Ágætu fundarmenn

Það er mér sönn ánægja og óneitanlega mikill heiður að vera boðið hingað á fund Rótarý Reykjavík - miðborg til þess að tala um Evrópusambandið.

Ég er einn þeirra sem hefur verið þeirrar skoðunar í eflaust bráðum 20 ár að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ég skrifaði fyrst um það greinar í Tímann sáluga hér í kringum 1993/4, þegar ég er í meistaranámi í Þýskalandi. Á ráðstefnu á vegum Sambands ungra framsóknarmanna haustið 1994 flutti ég erindi um Evrópusambandið og hvatti til þess að Ísland myndi sækja um aðild.

Við skulum segja að viðbrögðin hafi verið blendin!

Ræða mín í dag er ekki sú sama ég flutti þá – sitt hvað hefur jú á daga okkar og Evrópusambandsins drifið.

Aðild að Evrópusambandinu, og aðildarumsókn, munu ekki einar og sér leysa þann vanda sem Ísland glímir við í dag. Hins vegar felst í því trúverðug stefnumörkun til framtíðarinnar sem mun styðja við aðrar þær aðgerðir sem hér þarf að grípa til vegna endurreisnar íslensks samfélags.

Ef ekki er farin þessi leið þá er það mín skoðun að uppbygging öll muni taka lengri tíma, verða ómarkvissari og árangur muni láta á sér standa.

Aðild að Evrópusambandinu mun að sama skapi ekki verða til þess að Ísland tapi fullveldi, þjóðareinkennum og yfirráðum yfir sjálfum sér eins og andstæðingar aðildar fullyrða gjarnan.

Öfganna á milli þeirra sem telja aðild jaðra við heimsenda og drottinsvik og þeirra sem sjá ESB sem svar við öllum okkar vanda liggur sannleikurinn.

Ég er þeirrar skoðunar, að vegnum kostum og göllum, að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu – og tel að það hafi aldrei verið brýnna en einmitt nú.

EES: Takmarkaður innri markaður

Í dag er Ísland aðili að EES sem að nafninu til gefur okkur alla kosti innri markaðar Evrópusambandsins án þess að við þurfum að taka á okkur meinta ókosti fullrar aðildar.

Þetta er hins vegar ekki allskostar rétt því sameiginlegur markaður EES skortir veigamikla þætti til þess að geta talist sannur innri markaður.

Í fyrsta lagi er EES ekki tollabandalag. Það þýðir að Ísland getur rekið sína eigin tollastefnu gagnvart þriðju ríkjum, það er þeim ríkjum sem ekki eru aðilar að annað hvort ESB eða EFTA. Tollastefna og fríverslun er þannig ekki samræmd milli ESB annars vegar og annarra aðildarríkja EES hins vegar. Það þýðir að upprunastaðfestingar er alltaf þörf þegar vara frá Íslandi fer inn á markað hjá Evrópusambandinu. Frjáls flutningur vöru er þannig aldrei án tafa.

Í öðru lagi nær myntsamstarf Evrópu ekki til EES-ríkjanna, en myntbandalag er lokahnykkurinn á uppbyggingu á raunverulegum innri markaði. Með myntsamstarfi hverfur gengisáhætta milliríkjaviðskipta þeirra landa sem eiga aðild að því, auk þess sem annar kostnaður sem leiðir af því að eiga í viðskiptum með fleiri gjaldmiðla fellur niður sömuleiðis milli þessara landa.

Í þriðja lagi eru landbúnaður og sjávarútvegur undanskilin í EES, þó ákveðið aukið markaðsaðgengi sé tryggt, m.a. með bókun 9 við EES-samninginn. Þegar og ef matvælafrumvarpið verður lagt fram og samþykkt á Alþingi mun það auðvelda markaðsaðgengi fyrir íslenskar sjávar- og landbúnaðarafurðir. Áfram munu hins vegar gilda magntakmarkanir sem falla myndu niður við aðild að sambandinu.

Í fjórða lagi eru þjónustuviðskipti ennþá ýmsum takmörkunum háð á EES-svæðinu og innan ESB. Hingað til hafa tilraunir til þess að auka frelsi í þjónustuviðskiptum ekki gengið eftir eins og að var stefnt.

Þrátt fyrir þetta er það engu að síður þannig að Ísland er að miklu leyti búið að aðlaga sig Evrópusambandinu.

Í dag er upp undir 100% af regluverki Evrópusambandsins sem varðar innri markaðinn tekið upp í EES.

Eins og áður sagði nær hins vegar innri markaðurinn og EES ekki til sameiginlegrar stefnu ESB hvað varðar landbúnað, sjávarútveg og tollamál. Langstærsti hluti “gerða” ESB er vegna þessara þriggja þátta, enda er þar meðal annars um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir sem varðað geta ýmsar smærri afgreiðslur. Dæmi um slíkt gæti verið tímabundin lokun sláturhúss í Danmörku vegna salmonellusýkingar. Tilkynning um slíka lokun, og síðar um enduropnun, fær samt gerðanúmer og telst með í heildartölum um fjölda “gerða”, jafnvel þó að viðkomandi “gerðir” hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt sláturhús.

Þetta er skýringin á því af hverju andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta fullyrt að raunverulegar tölur um innleiðingu “gerða” ESB í landslög á Íslandi sé einungis 6,5%. Þessar tölu eiga ekki við um sama hlutinn.

Staðreyndin er sú að ekkert ríki ESB leiðir allar “gerðir” í landslög. Á því er ekki þörf. Innleiðing í landslög fer eftir eðli, umfangi og viðfangsefni gerðarinnar.

ESB vs. EES

Ef litið er til þess hvað upp á vantar hjá Íslandi, það er að segja hvað Ísland þarf að bæta við í sínu Evrópusamstarfi við aðild að ESB, þá er það tiltölulega takmarkað þegar á heildina er litið.

Í stækkunaráætlun Evrópusambandsins gagnvart umsóknarríkjum eru talin 35 atriði sem þarf að semja um.

Af þessum 35 atriðum eru 22 hluti af EES-samningnum eða Schengen samstarfinu. Þrír liðir til viðbótar eru síðan að einhverju leyti, mismikið þó, tengdir EES-samningnum, en það eru uppbyggingarstyrkir, sem Ísland leggur til; Samstarf á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála og Ísland tengist með ýmsum hætti; og framlagsmál, en Ísland hefur takmarkaða framlagsskyldu til ESB vegna bæði EES og Schengen samstarfsins.

Út af stendur eftirfarandi:

-Landbúnaðar- og byggðastefna,
- Fiskveiðar,
- Skattamál,
- Efnahags- og myntsamstarf,
- Réttarvarsla og grundvallarréttindi,
- Tollabandalag,
- Utanríkistengsl, þ.m.t. samningar við þriðjuríki,
- Fjárhagslegt eftirlit,
- Stofnanir, og
- Önnur mál, sem eru sértæk mál hvers umsóknarríkis.

Undir flestum þessara atriða eru hins vegar bæði ESB og Ísland þegar undir áhrifum af alþjóðlegu samstarfi á öðrum vettvangi, til dæmis á vettvangi OECD, Evrópuráðsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Atlantshafsbandalagsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Þannig blasir við að í ljósi samningasögu nýrra aðildarríkja er í engum af þessum viðbótarliðum umfram EES-samninginn atriði sem gera má ráð fyrir að erfitt verði að ná í aðildarviðræðum ásættanlegri niðurstöðu fyrir Ísland. Hin augljósa hugsanlega undantekning er fiskveiðar, sem fæli í sér aðkomu Íslands að sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins.

Hví segi ég hugsanlega? Jú því það er hin þekkta stærð. Á Íslandi er engin tilbúin til þess að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistefnuna að óbreyttu. Markmið hennar getur Ísland hins vegar stutt. Ísland einfaldlega býr við þann kost í sjávarútvegsmálum að vera fyrir löngu búin að ná og uppfylla markmið stefnunnar um t.d. sjálfbærni og verndun stofna.

Það sem meira er, ESB, þ.e. stjórnmálaleiðtogar helstu aðildarríkja og æðstu embættismenn þekkja og viðurkenna þessa staðreynd. ESB hefur ekki hagsmuni af því að stefna íslenskum sjávarútvegi í tvísýnu eða spila pólitískan leik með eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Engin fordæmi eru fyrir því að sambandið geri slíkt í aðildarviðræðum.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins á því ekki að vera þröskuldur fyrir aðild Íslands. Um það þarf þó að semja og framtíðar samningamenn og –konur Íslands í væntanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið munu að sjálfsögðu hafa hagsmuni Íslands í þessum efnum að leiðarljósi.

Að mínu mati yrði landbúnaður ekki sérstakt vandamál í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Landbúnaður almennt nýtur sérstakrar viðurkenningar og verndar innan ESB nú þegar, og í aðildarsamningum Svíþjóðar og Finnland var samið sérstaklega um heimildir til aukins stuðning við landbúnað á erfiðum svæðum. Engin ástæða er til að ætla annað en að Ísland muni ná fram sambærilegum heimildum fyrir íslenskan landbúnað.

Höfum jafnframt í huga að íslenskur landbúnaður mun áfram leika lykilhlutverk á ferskvörumarkaði hér á landi. Samkeppnisstaða landbúnaðarins er að mínu mati vanmetin. Ef íslenskur landbúnaður fær eðlilegra rekstrarumhverfi þá er honum allir vegir færir. Til dæmis tel ég meiri ógn stafa að viðvarandi háum fjármagnskostnaði og skorti á aðgangi að lánsfé fyrir íslenskan landbúnað, en af frjálsari innflutningi á matvöru.

Í dag er það svo að við fáum ferskar kjúklingabringur á 1500 krónur kílóið á tilboðum stórmarkaðanna. Við þetta verð á engin innflutningur eftir að keppa. Tala nú ekki um ef annað rekstrarumhverfi bætist hér, þá gæti þetta verð lækkað ennþá meira.

Höfum í huga að ESB ríkið Danmörk, með litlar sem engar auðlindir og skandinavískt skattaumhverfi er stórveldi á alþjóðamörkuðum með unnar landbúnaðarvörur.

Það sem síðan skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild.

Á Íslandi getur ekki orðið um frekari hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi nema með auknu aðgengi á erlenda markaði. Eini erlendi markaðurinn sem máli skiptir opnast við aðild að ESB. Hinn valkosturinn er frekari fækkun starfa í báðum þessum greinum, því hvorug þeirra getur búist við miklum vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Það verða engin 15 þúsund ný störf til í landbúnaði og sjávarútvegi.

Í þessu samhengi er rétt að ræða líka um réttinn til fríverslunarsamninga við þriðju ríki. Við aðild að ESB færist sá réttur frá aðildarríki til framkvæmdastjórnar sambandsins. Tvíhliða fríverslunarsamningar Íslands munu þannig heyra sögunni til. Í staðinn fengi Ísland hins vegar aðild að viðskiptasamninganeti Evrópusambandsins sem er umfangsmeira en það sem Ísland hefur í dag.

Ísland mun auk þess ekki lokast innan “tollamúra” Evrópusambandsins. ESB-þjóðirnar eru allar í alþjóðaviðskiptastofnuninni og lúta þeim niðurstöðum sem þar um semjast. Meintir tollamúrar Evrópusambandsins finnast fyrst og fremst þegar kemur að landbúnaðarvörum, og þær varnir þeirra eru eins og mildar hraðahindranir í samanburði við þá tolla- og gjaldamúra sem við íslendingar höfum byggt okkur sjálfir.

Valkostirnir: Í ESB eða úr EES

Eftir 15 ára farsælt EES-samstarf er Ísland á krossgötum. Holskeflan sem reið yfir Ísland er megin ástæða þess að í dag hefur það svigrúm og frelsi sem fylgdi EES-samningnum verið sett í bið og fjórfrelsinu er í dag stýrt úr Seðlabanka Íslands.

Efnahagsástandið, hrun gjaldmiðilsins og bankanna og gjaldmiðilshöftin sem sett voru í desember síðastliðinn hafa sett frjálsa flutninga fjármagns í algert uppnám, og hafa með beinum og óbeinum hætti áhrif á frjálsa flutninga t.a.m. vöru og þjónustu, grunnstoða fjórfrelsis EES samningsins.

Tvær leiðir eru út úr þessu ástandi og það eru hinir raunverulegu valkostir sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Annars vegar uppsögn á EES-samningnum eða að taka skrefið til fulls og sækja um aðild að ESB.

Ástæða þess að mikilvægt er að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort Ísland hyggst sækja um aðild að ESB er einföld. Þó aðildarumsókn, og í framhaldi aðild, sé ekki “töfralausn” hvað varðar núverandi ástand, varðar hún leið til framtíðar sem auðveldar framhaldið.

Höfum í huga að það að sækja ekki um aðild er engin “töfralausn” heldur og að mínu viti ekki nein lausn á neinu.

Með aðildarumsókn að ESB verður strax til vegvísir um hvert Ísland stefnir.

Aðildarumsókn, og væntanlega aðild, setur skýran ramma um uppbyggingu nýs Íslands sem er skýr og skiljanlegur í alþjóðlegu samhengi sem uppbygging án aðildar og aðildarumsóknar getur ekki gert. Vegvísir aðildarumsóknar verður þannig ekki síst til þess að mynda traust á alþjóða vettvangi og auðvelda alla uppbyggingu til framtíðar.

Fullyrðingin um að ESB-aðild sé ekki brýnt verkefni og aðrir hlutir eigi að hafa forgang er einfaldlega röng. Hins vegar er engin ástæða til þess að bíða með aðrar aðgerðir í efnahagsmálum á meðan að komist er að niðurstöðu hvað varðar ESB.

Allar aðgerðir, í bráð og lengd, og væntanlegur árangur þeirra, munu verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum þeirrar ákvörðunar.

Án aðildarumsóknar verður núverandi ástand viðvarandi mun lengur. Uppbygging mun taka lengri tíma og haftaástand mun verða viðvarandi til lengri framtíðar. Það í sjálfu sér hefur þau áhrif að EES-samstarfinu kynni að vera ógnað. Án virks fjórfrelsis er EES-samningurinn ekki svipur hjá sjón

Að auki mun aðildarumsókn strax hafa áhrif á samningsstöðu okkar hvað varðar vaxtakjör vegna uppgjörs ICESAVE. Aðildarumsókn mun einnig hafa áhrif á uppgjör við aðra kröfuhafa í gömlu bankana og mun að öllum líkindum verða til þess að auðvelda framkvæmd yfirtöku erlendra kröfuhafa á nýju bönkunum.

Eitt stærsta hagsmunamálið í þessu samhengi snýr síðan að peningamálum. Íslenska krónan hefur sýnt sig að mega sín lítils í umróti alþjóðlegra viðskipta, sérstaklega þegar gefur á. Framtíðarskipan peningamála þjóðarinnar verður að koma í ásættanlegan farveg.

Rétt er að minna hér á að Ísland uppfyllir í dag öll skilyrði aðildar að Evrópusambandinu. Ísland uppfyllir auk þess öll skilyrði til þátttöku í peningasamstarfi Evrópusambandsins. Ísland uppfyllir hins vegar ekki öll skilyrði til upptöku evrunnar, það er um verðlagsþróun, stöðu ríkisfjármála, gengisþróun og langtíma vaxtaþróun.

Aðild að ESB, og í kjölfarið aðild að peningasamstarfi þess er hin ábyrga og trúverðuga leið Íslands til þess að skjóta traustari stoðum undir íslenskt hagkerfi og efnahagslíf. Sú leið mun leiða til þess að við getum tekið upp alþjóðlega mynt, með öllum þeim kostum sem því fylgja. Kostum sem vega mun þyngra en hugsanlegir ókostir.

Aðrar leiðir eru tálsýn. Einhliða upptaka er ekki trúverðugur kostur – ekki nema menn vilji annað hvort endurvekja gamla sáttmála og ganga noregskonungi á hönd, nú eða snúa sér í vesturátt og verða nýtt Púerto Ríkó!

Fullveldi, áhrif og staða

Þegar rætt er um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu eru þrjú atriði til víðbótar sem þarf að nefna: Fullveldi, hugsanleg áhrif Íslands innan ESB og staða okkar í samfélagi þjóðanna.

Vissulega felst í ESB aðild ákveðið framsal á fullveldi, en önnur áhrif koma í staðin og hið yfirþjóðlega vald er temprað. Það er lengi hægt að velta fyrir sér hvers virði fullveldið var hér síðastliðið haust í upphafi bankakrísunnar.

Nauðsynlegt er líka að gera sér grein fyrir að hið klassíska fullveldi er þegar orðið takmarkað hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Enda er það svo að færa má rök fyrir því að þvert á röksemdir ESB-andstæðinga muni fullveldi Íslands frekar aukast við aðild m.v. núverandi aðstæður.

Við skulum líka hafa í huga að hugtak eins og fullveldi er hlutfallslegt í eðli sínu og er merkingarlaust á samhengis við einhver samskipti og samband milli aðila. Maður á eyðieyju getur verið fullkomlega frjáls og algerlega fullvalda – en slíkt frelsi og fullveldi er merkingarlaust.Áhrif Íslands og íslendinga innan ESB er einnig eitthvað sem menn hafa talið erfitt að sjá fyrir. Á heimasíðu Heimssýnar – hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum segir svo um hugsanleg áhrif Íslands innan ESB:

“Það er skemmst frá því að segja að áhrif Íslands innan Evrópusambandsins, yrði af íslenskri aðild, yrðu svo gott sem engin. Sú meginregla gildir innan sambandsins að vægi einstakra aðildarríkja, og þar með allir möguleikar þeirra til þess að hafa áhrif innan þess, fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Ljóst er að þetta fyrirkomulag myndi seint henta hagsmunum Íslendinga enda flest aðildarríki Evrópusambandsins milljónaþjóðir og í sumum tilfellum tugmilljónaþjóðir á sama tíma og Íslendingar eru aðeins rúmlega 300 þúsund.”

Þetta er viðhorf sem endurspeglar grundvallarmisskilning á alþjóða samstarfi almennt og evrópusamstarfi sérstaklega.

Það er einfaldlega þannig að þegar fulltrúar aðildarríkja ESB sitja saman á fundum að þá sitja þar 27 fulltrúar – einn fulltrúi, ein rödd. Geta fulltrúa Íslands til að færa rök fyrir máli sínu er þannig mikilvægara en hve nákvæmlega mörg atkvæði hann vigtar. Það er alltaf meginmarkmið að ná sátt í málum og þau skipti sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram þar sem reynt hefur á atkvæðavægið eru fá. Ef eitthvað, þá hefur hallað á stóru ríkin í þeim efnum.

Áhrif þjóða í ákveðnum málaflokknum fara ennfremur frekar eftir hagsmunum þeirra en mannfjölda. Þannig er augljóst að við aðild yrði Ísland ein af þremur stærstu sjávarútvegsþjóðum Evrópusambandsins. Vigt landsins og áhríf í þeim málaflokki yrði í samræmi við þá staðreynd.

Reynsla Íslands af því Evrópusamstarfi sem við eigum hvað beinastan þátt, Schengen-samstarfinu, hefur sýnt að þegar þar situr fulltrúi sem er vel undirbúin og veit um hvað hann er að tala, að þá eru áhrif okkar töluverð. Ljóst er að á Schengen vettvanginum að minnsta kosti er sjónarsviptir af brotthvarfi Björns Bjarnasonar.
Staða Íslands í samfélagi þjóða mun verða fyrir verulegum áhrifum af því hvert við stefnum í Evrópumálum. Aðildarumsókn og síðan aðild munu leika lykilhlutverk í því að endurbyggja ímynd og áhrif Íslands á alþjóðavettvangi. Í augnablikinu er Ísland í þeirri stöðu að okkur er vantreyst, enginn veit hvert við stefnum eða hvað við ætlum að gera. Eins og ég sagði hér áður gefur aðildarumsókn og aðild skýra vísbendingu um hvert við stefnum og eftir hvaða leikreglum við hyggjumst fara.

Í orðræðum undanfarinna vikna hafa oft komið upp vangaveltur um hvort orð og æði háttsettra ráða- og embættismanna við upphaf bankahrunsins hafi orðið til þess að gera illt verra og jafnvel orðið til þess að gefa bretum tilefni til að beita Landsbankann hryðjuverkalögum. Það er verðug umræða og án efa töluvert til í því. Það sem hins vegar hefur upp á vantað í þeim vangaveltum eru hvaða áhrif áframhaldandi upphrópanir og vangaveltur meðal ráðamanna þjóðarinnar um að við ættum helst ekki að standa við okkar skuldbindingar hafa á stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu.
Þingmenn til dæmis virðast stundum ekki átta sig á því að í alþjóðapólitísku samhengi þá er litið til þeirra sem ráðamanna.

Ég get síðan ekki látið hjá líða að nefna þá einkennilegu staðreynd að á þessum síðustu og verstu tímum, einmitt þegar að staða, ímynd og ásynd Ísland á erlendum vettvangi stendur hvað verst er hrópað mest um nauðsyn þess að fækka sendiráðum og skera niður íslensku utanríkisþjónustuna. Við erum í miðri stærstu alþjóðapólitísku kreppu lýðveldisins og þetta er það helsta sem mönnum dettur í hug.

Skynsemin í því er að minnsta kosti umdeilanleg!

Ekki afsláttarþjóð!

Ágætu fundarmenn,

Ég hef hér í nokkuð löngu máli tæpt á því helsta sem ég tel skipta máli í hinni íslensku Evrópuumræðu. Það er brýnt að fá úr því skorið hver framtíðarstefna Íslands verður í þessum efnum þar sem það mun óneitanlega hafa áhrif á það uppbyggingarstarf sem framundan er.

Það hefur löngum viljað loða við lýðveldið að við íslendingar viljum taka þátt í alþjóðasamstarfi með afslætti.

Við vildum ekki verða stofnaðilar að Sameinuðu þjóðunum. Hið glænýja lýðveldi var svo hlutlaust að það vildi ekki óhreinka sig með því að lýsa yfir samstöðu með bandamönnum gegn möndulveldunum.

Við gengum í NATO með því skilyrði að við þyrftum sjálfir ekkert að leggja til, jú nema vindblásna heiði á ystu nöf Reykjanesskagans.

Við gengum í EES og hreyktum okkur af því að hafa þar fengið allt fyrir ekki neitt.

Við áttum í varnarsamstarfi við Bandaríkin, sem á endanum lognaðist út af aðallega vegna okkar eigin þvermóðsku hvað varðaði kostnaðarþátttöku í því sem sneri að okkur sjálfum, eins og rekstri borgaralega hluta alþjóðaflugvallarins í Keflavík.

Við lendum í efnahagskreppu og bankahruni og það fyrsta sem okkur dettur í hug er að bjarga eigin skinni og skilja eftir með fullan skaða alla þá sem eru “af erlendu bergi brotnir.”

Auðvitað setur smæð okkar ákveðin takmörk. En við eigum að hafa stolt og metnað til þess að taka þátt í því alþjóðlega samstarfi sem okkur hugnast og samræmist okkar hagsmunum á þann hátt að sómi sé að.

Við eigum að vera “meðal þjóða þjóð.”

2 ummæli:

  1. Takk fyrir góðan pistil/ræðu!

    SvaraEyða
  2. Það er sannarlega jákvæð upplifun að sjá umfjöllun um flókið mál með jafn skilmerkilegum hætti og hér er gert.

    Bestu þakkir Friðrik fyrir góða greiningu á stöðu Íslands gagnvart ESB.

    Agnar H. Johnson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.