fimmtudagur, 26. febrúar 2009

Kristinn H

Það fór þá svo á endanum að Kristinn H. Gunnarsson sagði sig úr Frjálslynda flokknum.

Ekki þarf það að koma á óvart, en af því tilefni er ekki úr vegi að rifja upp kveðju Framsóknarflokksins til Kristins við brotthvarf hans þaðan fyrir tveimur árum - ekki alveg upp á dag, en næstum því.

Þar segir meðal annars:

Það er þannig hvort sem um er að ræða stjórnmálaflokk eða bara hvaða vinnustað sem er að menn eru aldrei sammála um allt.

Flestir kannast líklega við að hafa einhvern tíma verið ósáttir við vinnufélaga í lengri eða skemmri tíma. Það er misjafnt hvað verður úr slíku en yfirleitt er gerð sú krafa til fólks að það láti ekki ágreininginn verða að aðalatriði heldur ræði hann sín á milli og komist að niðurstöðu sem allir vinna síðan sameiginlega að.

Oft eru sumir ekki fullkomlega sáttir en setja það til hliðar af því að þeir eiga sér stærri sameiginleg markmið sem skipta meira máli. Kristni auðnaðist ekki að vinna þannig með Framsóknarflokknum.

Það er leitt á vissan hátt því það skrýtna er að á öllum þessum tíma var það sennilega ekki það sem Kristinn sagði sem gerði samstarfið erfitt og síðan ómögulegt – heldur hvernig hann sagði það. Kristinn er mjög hæfileikaríkur maður en líklega á hann ekki vel heima í flokki – hann er líklega betri með sjálfum sér.

Flokkaflakk Kristins hefur líka á sér yfirbragð þess að snúast frekar um refskák til þess að tryggja atvinnuöryggi hans sem þingmanns, en að það snúist um einhverjar sérstakar hugsjónir eða pólitík. Þær hafa enda virst oft breytast svona rétt eins og vindurinn blæs.

Og við sem höfum komið á Bolafjall vitum að þar getur oft orðið hvasst og blásið úr mörgum áttum, jafnvel á sama tíma...!

4 ummæli:

  1. Ætla nú ekki að tala beint um færsluna, þetta "kveðjubréf" til Kristins vakti upp hjá mér minningarnar um fleiri slík sem voru birt á vefsíðum Framsóknarflokksins á árununum þarna á undan. Sérstaklega er mér minnisstæður óhroðinn þegar Jóhann Hauksson gekk úr flokknum. Þetta var alltaf mjög greinilegt merki um gegnsýktan flokk sem var stjórnað af örlítilli klíku sem taldi sig hálfgildings guði og enginn mátti andmæla.

    yes, ég er enn með óbragð í munninum :)

    SvaraEyða
  2. http://www.hrifla.is/?newsID=2157

    http://www.hrifla.is/?newsID=2158

    Christ hvað þetta hefur ekkert skánað með árunum

    SvaraEyða
  3. Svo ég misnoti athugasemdakerfið hjá þér:

    Það er frábært að lesa kveðjubréfið hans Jóhanns. Það lýsir því nákvæmlega hvernig Framsóknarflokkurinn týndi helming af fylginu þótt verkin væru kannski heilt yfir góð. Það voru örfá stór mál á landsvísu og svo endalausar innanflokkserjur á höfuðborgarsvæðinu sem brennimerku flokkinn í augum svo margra.

    Mín ráðlegging til þín er að slaka á ESB umræðunni, fara að tala fyrir því að það sé ekki flokkspólítískt mál og eigi að útkljást í þjóðaratkvæðagreiðslu. Annars endurtekur sagan sig fljótar en ella og helmingurinn af flokknum hverfur aftur.

    SvaraEyða
  4. Það var viðvarandi vandamál í íslenskri pólitík að menn virtust setja sjálfa sig ofar málefnunum. Það er þó loks að breytast, sbr. hvernig þeim fjölgar sem ætla að draga sig úr pólitík og ekki bjóða sig fram í næstu kosningum. Það endurspeglar viðurkenningu á því að þjóðin er þeim sjálfum stærri.

    Ég svona svo sannarlega að allir þeir nýju aðilar sem nú bjóða sig fram geri það í ákveðinni auðmýkt. Við erum að bjóða okkur fram í vinnu fyrir þjóðina. Vinnu, sem verður, sérstaklega næstu árin, hvorki skemmtileg né auðveld. Það verður hörkupúl að koma fótunum á ný undir okkar ágæta land.

    Það verður hins vegar verk sem okkur mun takast, sérstaklega ef menn setja þjóðarhag ofar sérhagsmunum. Pólitískir fulltrúa á þingi hugsi fyrst um land og þjóð, síðan um sitt kjördæmi og hagsmunir "flokksins" gangi alltaf skemur þessum hagsmunum.

    Ég a.m.k. er sjálfur að fara fram með þessu hugarfari.

    Hvað varðar ESB umræðu, þá þarf að taka hana og klára. Og að sjálfsögðu er engin annar kostur en að útkljá það mál á endanum með þjóðaratkvæðagreiðslu - þegar aðilidarsamningur liggur fyrir og við höfum eitthvað að kjósa um!

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.