miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Súr varnarmálaber

Í gær var haldin fundur á vegum SVS og Varðberg sem ég því miður missti af. Þar flutti erindi meðal annarra Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra. Erindi hans má finna á heimasíðu Björns.

Í erindi sínu kemur hann inn á nýútgefna skýrslu Thorvald Stoltenberg og þá möguleika sem þar er velt upp um aukið samstarf Norðurlandanna, einkum á sviði öryggis- og varnarmála.

Rétt er að taka fram að skýrsla Stoltenbergs er unnin að ósk og frumkvæði utanríkisráðherra Norðurlandanna. Hann ber þó einn ábyrgð á niðurstöðum og tillögum þeim sem þar eru settar fram, og þegar er ljóst að þær eru margar hverjar mjög umdeildar. Skýrslan er þó gott veganesti til framtíðar og mun án efa hjálpa til við að þroska og móta samstarf þjóðanna á þessu sviði, sem þegar er töluvert.

Fyrir Ísland er aukið samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála æskilegt af ýmsum ástæðum. Ekki þó síst af pólitískum ástæðum þar sem öryggis- og varnartengd verkefni hafa ætíð átt erfitt uppdráttar í pólitískri umræðu hér innanlands. Alvöruleysi, útúrsnúningar og sjálfhverfa hafa oftar en ekki orðið ofan á í umræðu um þessi mál. Nokkuð sem Björn Bjarnason þekkir vel frá gamalli tíð.

Þess vegna vekur erindi hans nokkra furðu. Margt er þar ágætt, en ýmislegt orkar þar verulegs tvímælis svo ekki sé meira sagt.

Eitt af því sem skýrsla Stoltenbergs endurspeglar ágætlega er sú staðreynd að á hinum Norðurlöndunum er almenn sátt um þá stefnu að til staðar þurfi að vera varnar og hervernd á friðartímum. Það kemur fram í þrennu, í fyrsta lagi þeirri einföldu staðreynd að hann veltir hvergi upp þeim möguleika að varnir séu óþarfar, í öðru lagi að hann hvetur til aukins samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála, og í þriðja lagi, sem snertir okkur íslendinga beint, hvetur hann til þess að Norðurlöndin öll komi sameiginlega að loftrýmiseftirliti- og gæslu við Ísland. Stoltenberg eyðir ekki tíma í að velta vöngum yfir hvort þess sé þörf, hann virðist ganga út frá því sem gefnum hlut.

Björn Bjarnason hins vegar velur að túlka þessa tillögu Stoltenbergs sem eitthvað allt annað. Hún sé eingöngu til þess að draga Svíþjóð og Finnland nær NATO. Björn segir:

Ég les tillögur Stoltenbergs um norræna ábyrgð á loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu yfir Íslandi á þann veg, að með henni sé hann að skapa ný tengsl Finna og Svía við NATO, því að bandalagið mun ekki láta af hernaðarlegri varðstöðu á N-Atlantshafi, auk þess sem hann væntir þess, að Íslendingar láti sig hernaðarlegan þátt eigin öryggis beint varða.

Þannig að hugsanleg þátttaka Svía og Finna í loftrýmisgæsluverkefni við Ísland m.v. túlkun Björns Bjarnasonar líklegast ekki vegna þess að verkefnið sjálft eigi rétt á sér, út frá öryggis- og varnarforsendum, heldur til þess að opna þeim einhverja bakdyraleið inn í Atlantshafsbandalagið!

Björn augljóslega hefur ekkert álit á loftrýmisgæslu NATO við Ísland, enda segir hann í beinu framhaldi af ofangreindri tilvitnun:

Eins og kunnugt er urðu hermálayfirvöld NATO og einstakra NATO-ríkja við þeirri ósk íslenskra stjórnvalda að senda hingað reglulega flugsveitir til að sinna loftrýmiseftirliti. Ég tel, að þetta eftirlit þjóni fyrst og síðast pólitískum tilgangi. Með því minnir NATO á, að hér er um háloftasvæði bandalagsríkjanna að ræða og nú vill Stoltenberg, að norrænu ríkin utan NATO verði einnig þátttakendur í að helga sér þetta svæði.

Ef um væri að ræða beinar land- eða nærvarnir Íslands, ætti að grípa til annarra ráðstafana en þeirra að kalla öðru hverju til flugveitir frá öðrum ríkjum. Þessar varnir yrðu best tryggðar með meðaldrægum loftvarnaflaugum á suðvestur horni landsins, eins og bent var á strax við brottför Bandaríkjahers héðan.

Þetta er merkileg yfirlýsing frá fyrrum dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Geir, sem þáverandi forsætisráðherra, óskaði eftir því við bandalagið á leiðtogafundi þess í Riga í Lettlandi haustið 2006 að það kannaði hvort og með hvaða hætti loftrýmiseftirliti og –gæslu yrði háttað við Ísland í kjölfar brotthvarfs Bandarísks varnarliðs.

Þeirrar hinnar sömu ríkisstjórnar sem hafði allt fram til hinsta dags í samningaviðræðum við Bandaríkin haldið fram mikilvægi þess að hér yrðu staðsettar fjórar orrustuþotur árið um kring til að gæta íslensks loftrýmis. Rétt eins og ríkisstjórnir þar á undan allt síðan 1991 höfðu gert, og gott ef Björn Bjarnason var ekki ráðherra í þeim öllum.

Hér kemur s.s. á daginn að það var líka óþarfi. Nóg hefði verið að setja hér upp meðaldrægar loftvarnarflaugar!

Svo því sé haldið til haga að þá er fyrirkomulag loftrýmisgæslu hér á landi sérlausn fyrir Ísland sem nokkurs konar undanþága frá þeirri almennu reglu að loftrýmisgæsla sé virk 24 tíma sólarhringsins allt árið um kring innan bandalagsins.

Rétt er líka að nefna hér að kostnaður þeirra ríkja sem koma til Íslands og sinna loftrýmisgæslu er margfalt hærri en sá kostnaður sem lendir á íslenska ríkinu. Það er hæpið að þær þjóðir sem hingað koma og sinna þessu verkefni geri það eingöngu af einhverri pólitískri greiðasemi.

Það sem vekur þó mesta athygli mína eru hnýtingar ráðherrans fyrrverandi út í tilvist Varnarmálastofnunnar. Það byrjar strax í upphafi erindis hans þegar hann fullyrðir að “Varnarmálalögin hafa að markmiði að tryggja forræði utanríkisráðuneytisins á hernaðarlegum öryggismálum þjóðarinnar eftir brottför varnarliðsins.“ Ráðherrann fyrrverandi virðist s.s. hafa upplifað setningu laganna sem stofnanalega refskák milli ráðuneyta, en ekki sem rökrétta stjórnsýslulega leið til að skipa varnarmálum í ákveðin farveg.

Þetta er athyglisvert m.a. í ljósi þess að um áramótin 2007/8 var sett ný reglugerð um stjórnarráð Íslands, nokkrum mánuðum áður en að varnarmálalög voru samþykkt, þar sem kemur fram í 12 gr. undirlið 10 að utanríkisráðuneytið fari með:

Varnarmál, aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, samskipti og samstarf við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála, varnarsvæði, öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og önnur öryggissvæði, rekstur mannvirkja og eigna Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, þ.m.t. íslenska ratsjár- og loftvarnakerfið (IADS).

Rétt er að hafa í huga að áratugum saman hafa varnarmál verið á forræði utanríkisráðuneytisins. Þar hefur starfað sérstök varnarmálaskrifstofa, sem hafði m.a. það meginverkefni að sinna daglegum samskiptum við bandaríska varnarliðið. Utanríkisráðuneytið hefur rekið fastanefnd Íslands hjá Atlantshafbandalaginu og þannig er ljóst að einungis innan utanríkisráðuneytisins hafði byggst upp á löngum tíma reynsla og þekking á varnarsamstarfi við önnur ríki, hvort heldur sem var á tvíhliða eða fjölþjóða vettvangi.

Ný reglugerð um stjórnarráðið festi þessa hefð í sessi með formlegum hætti og má segja að varnarmálalögin hafi verið rökrétt afleiðing þess. Fullyrðingin um að lögunum sem slíkum hafi verið ætlað að tryggja forræði utanríkisráðuneytisins yfir málaflokknum er þannig kjánaleg. Sá “slagur” var löngu yfirstaðinn, ef hann var yfirhöfuð einhvern tíma raunverulegur.

Björn heldur hins vegar áfram hnýtingum í stofnunina og segir “Við framkvæmd varnarmálalaganna hefur nýtt, ólögbundið stofnanaheiti komið til sögunnar, það er Varnarmálastofnun Íslands og út á við getur enginn efast um, að henni sé í raun ætlað hernaðarlegt hlutverk.”

Ekki er alveg hægt að skilja hvað ráðherrann fyrrverandi á við með “ólögbundnu stofnanaheiti”. Í varnarmálalögum er tekið fram í 6. grein að Ríkið starfrækir sérstaka stofnun, undir yfirstjórn utanríkisráðherra, sem nefnist Varnarmálastofnun Hugsanlega er ráðherrann fyrrverandi með þessu að hnýta í þá staðreynd að eftir samþykkt laganna hefur við lögbundið heiti stofnunarinnar verið bætt við þjóðkenningunni “Íslands”.

Í þessari sömu setningu reynir hann jafnframt að hervæða stofnunina af því “að henni sé í raun ætlað hernaðarlegt hlutverk” Litlu síðar segir hann “Ég sé ekki hvaða hag NATO hefur af því að gera kröfu til þess, að íslenska utanríkisráðuneytið stofni til hernaðarlegrar starfsemi undir dulnefni til að sinna verkefnum í þágu bandalagsins hér á landi.”

Hvað er ráðherrann fyrrverandi að fara? Hér er hann að búa til einhverja herímynd á Varnarmálastofnun, væntanlega í þeim tilgangi einum að ala á einhverri tortryggni. Enda segir hann síðar:

Í skýrslu sinni víkur Stoltenberg að þeirri breytingu, sem varð við brottför bandaríska varnarliðsins héðan frá Íslandi. Hann segir, að síðan hafi íslensk yfirvöld (varnarmálastofnun) borið ábyrgð á rekstri aðstöðunnar á Keflavíkurflugvelli og ratsjárkerfinu sem sinnir loftrýmiseftirliti og þá segir: „Ísland hefur notið hagnýtrar aðstoðar frá Danmörku og Noregi við þjálfun þess íslenska starfsfólks sem starfar á þessum vettvangi.“

Ástæða er til að staldra við þessi orð og minna á, að með varnarmálastofnun var lagt af stað á þeim grunni, að Íslendingar ættu aðeins að sinna þar borgaralegum verkefnum, eins og þeir hefðu gert, á meðan bandaríska varnarliðið var hér. Hafi ný þjálfun komið til sögunnar í samvinnu við Dani og Norðmenn er ástæða til að velta fyrir sér, hvort að hún hafi verið „varnartengd“, svo að notað sé hugtak utanríkisráðuneytisins yfir hernaðarleg viðfangsefni.

Hér fer ráðherrann fyrrverandi út á einhverja furðulega braut hártoganna um hugtök, orð og orðþýðingar. Það getur verið munur á varnartengdri starfsemi og hernaðarlegri starfsemi. “Defense” er merkingarmeira orð en “military” í enskri tungu, og sama á við í íslenskunni um varnir annars vegar og her hins vegar.

Ráðherranum fyrrverandi til upplýsinga þá er sjálfsagt að greina frá því hér að sú þjálfun sem fengist hefur m.a. frá norðmönnum og dönum hefur snúið að ákveðnum þáttum í rekstri og umsýslu loftvarnarkerfisins, þ.m.t. þætti er lúta að samskiptum milli borgaralegra starfsmanna Varnarmálastofnunnar við þeirra gagnaðila innan herstjórnarkerfa okkar bandalagsríkja og framkvæmd loftrýmiseftirlits samkvæmt NATO-stöðlum. Verklagsreglur Ratsjárstofnunnar fyrrverandi voru á sínum tíma eftir bandarískum stöðlum. Starfsmenn Varnarmálstofnunnar sinna þannig t.d. loftrýmiseftirliti, sem er varnartengt verkefni, en stýra ekki aðgerðum orrustuþotna, sem er hernaðarlegt verkefni.

Þetta eru hins vegar núansar sem ekki er auðvelt fyrir leikmenn að skilja, sérstaklega þá sem hafa ekki fyrir því að kynna sér málið en vilja frekar ala á tortryggni með útúrsnúningi og orðhengilshætti.

Það er margt fleira sem ég gæti hugsað mér að hnýta í þetta erindi Björns Bjarnasonar. Ég vil þó taka undir með honum að veg Landhelgisgæslu Íslands vil ég gjarnan sjá sem mestan og bestan. Í samstarfi Varnarmálastofnunnar og Landhelgisgæslunnar mætti ná fram miklu hagræði fyrir báða aðila. Það skaut því skökku við að dómsmálaráðherrann fyrrverandi skildi við Landhelgisgæsluna févana, með skip sem varla geta siglt og þyrlur sem varla geta flogið. Sér er nú hver metnaðurinn.

Að sama skapi er það merkileg staðreynd að undanfarið ár hefur það verið dómsmálaráðuneytið sem hefur staðið leynt og ljóst í vegi fyrir eðlilegu og gagnkvæmt hagfelldu samstarfi Varnarmálastofnunnar og Landhelgisgæslunnar, sem m.a. sést á þeirri staðreynd að enn kúldrast Landhelgisgæslan með allan sinn flugflota í óhentugu og aðþrengdu húsnæði á Reykjavíkurflugvelli á meðan að henni hefur staðið til boða fyrirmyndaraðstaða í NATO-flugskýli á Keflavíkurflugvelli.

Dómsmálaráðuneyti Björns Bjarnasonar stundaði sömuleiðis einhvern undarlegan skæruhernað gegn stofnuninni með því m.a. að standa að gerð dæmalauss minnisblaðs um einhvern ímyndaðan sparnað á rekstri loftvarnarkerfisins með því að færa verkefni hennar í Skógarhlíð og þá væntanlega til Neyðarlínunnar. Þetta sjónarmið endurspeglast í erindi ráðherrans fyrrverandi þegar hann segir undir lokin að “Fjármunum til öryggismála verði varið til þess frekar en til að reka varnarmálastofnun, enda geta borgaralegar stofnanir tekið við verkefnum hennar.”

Þessi fullyrðing er einfaldlega röng. Á meðan að Ísland er í varnarsamstarfi vestrænna þjóða að þá gilda í því samstarfi ákveðnar leikreglur. Varnarmál eru mikilvægari og alvarlegri mál en svo að hægt sé að nálgast þau ábyrgðarlaust og með annarlega hagsmuni í fyrirrúmi. Fyrrgreint minnisblað, sem fengið hefur verulega umfjöllun í fjölmiðlum, var illa unnið, byggt á forsendulausum ágiskunum og með svo gríðarlegum skekkjum að það var ekki hægt að taka það alvarlega. Bara með því að leiðrétta einföldustu reiknivillur var kostnaður við rekstur núverandi loftvarnarkerfis við flutning í Skógarhlíð orðin dýrari en reksturinn er í dag á höndum Varnarmálastofnunnar. En áfram er þvælan tuggin.

Eftir brotthvarf bandarísks varnarliðs frá Íslandi er eins og margir þeir sem það studdu hér áður fyrr hafi alveg tapað áttum þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Þeir hinir sömu sem áður vildu varið land hafa nú allt á hornum sér og vilja helst ekkert af varnarmálum vita. Biturðin yfir því sem þeim fannst vera óbilgirni og ósanngirni Bandaríkjamanna í þeim viðskilnaði endurspeglar líka þá sorglegu staðreynd að menn eru enn í afneitun um að sú atburðarrás öll var meira og minna sjálfsköpuð.

4 ummæli:

  1. Friðrik hefur hér lög að mæla. BB virðist svo gersamlega blindaður af hatri sínu á ISG og svekkelsi yfir að hafa ekki sem ráðherra fengið að ráða öllu sem tengdist vörnum Íslands að hann lætur það leiða sig út í annað eins bull og hann lét út úr sér í þessari ræðu á fundi SVS.

    SvaraEyða
  2. "Atlantshafsbandalagið á ekki að ákveða ráðstöfun fjármuna til íslenskra öryggismála,..."
    Hverju er þingmaður sjálfstæðisflokksins eiginlega að halda fram þarna? Rétt er að fara fram á að Björn Bjarnason skýri þá hugsun sem þarna liggur að baki.
    Á hann við að Atlantshafsbandalagið hafi núna, eða hafi í tíð hans sem ráðherra reynt að hafa einhver óeðlileg áhrif á varnarmál Íslands?
    Á hann við að Atlanthafsbandalagið eigi ekki að koma að ákvarðanatöku um hvernig fjármagni þess sé ráðstafað á Íslandi?
    Bandalagið hefur fjárfest í uppbyggingu á fullkomnu ratsjárkerfi og stöðluðum byggingum á Íslandi fyrir um 1 milljarð evra. Vill þingmaðurinn einhliða ákvarðanatöku um þær eignir eða vill hann fara að þeim venjum og reglum sem NATO hefur komið sér upp meðal annars um öryggi bygginga og öryggi í meðförum við öflun og dreifingu upplýsinga?
    Er yfirlýst andstaða þinmannsins til ESB að lita afstöðu hans til bandalagsins? Það sem segir mest um þessa skoðun sjálfstæðisflokksins er að hún er í fullu samræmi við stefnu VG í varnarmálum. Ætli maður muni eiga von á Keflavíkurgöngu sjálfstæðismanna?

    SvaraEyða
  3. "Þessar varnir yrðu best tryggðar með meðaldrægum loftvarnaflaugum á suðvestur horni landsins, eins og bent var á strax við brottför Bandaríkjahers héðan"

    Og bara sleppa loftrýmiseftirliti?
    Er það ekki varnarstefna undir slagorðinu: "Shoot first, ask later!"

    SvaraEyða
  4. Ekki má gleyma innslagi VG á sama fundi sbr. blogg formanns utanríkismálanefndar:

    17.2.2009 | 21:46

    Varnarmálastofnun óþörf

    "Í meginatriðum er ég þeirrar skoðunar að það eftirlit með loftrými sem við teljum nauðsynlegt eigi að vera í höndum stofnana eins og Flugmálastjórnar og Landhelgisgæslu

    og stofnun Varnarmálastofnunar hafi verið óþörf. Þá ákvörðun á hiklaust að endurmeta.

    Efnahagshrunið og –þrotið kallar á mikinn niðurskurð – og það er fráleitt annað en að varnarmálin verði hluti af því dæmi og raunar miklu fremur en margir aðrir málaflokkar."

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.