föstudagur, 20. febrúar 2009

Þunnur ís Framsóknar

Framsóknarflokkurinn hefur átt við ákveðin ímyndarvanda að stríða.

Illt umtal um flokkinn og stuðningsmenn hans hefur verið að mestu óverðskuldað – og ef eitthvað hefur verið verðskuldað hefur það verið lítið öðruvísi en það sem tíðkast hefur í almennt í pólitískum kúltur hérlendis (það er hins vegar engin réttlæting!).

Fyrir þá 99.99% framsóknarmanna sem eru heiðarlegir og vinnusamir hugsjónamenn og -konur hefur þetta umtal tekið á.

Töluverð gerjun og þung undiralda hefur verið í flokknum lengi. Í haust fór þessi gerjun vaxandi og aldan þyngdist. Bankahrunið og efnahagskreppan urðu síðan til þess að ekki varð lengur haldið aftur af breytingarbylgjunni innan flokksins.

Ungir framsóknarmenn (og nokkrir eldri hundar) risu upp gegn forystu flokksins með eftirminnilegum hætti og á miðstjórnarfundi í nóvember var ákveðið að flýta flokksþingi og m.a. taka þar ákvörðun í Evrópumálum.

Atburðir í framhaldi þess miðstjórnarfundar urðu lyginni líkastir, en formaður flokksins sagði óvænt af sér tveimur dögum eftir miðstjórnarfund og hvarf úr landi í frí. Varaformaður tók við en lýsti því yfir að hún myndi ekki sækjast eftir að sitja sem formaður í kjölfar flokksþings. Fram kom óvænt framboð í formann flokksins. Flokksþing gerði hið óvænta – algerlega var skipt um forystu (og jú Framsóknarflokkurinn samþykkti að vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu).

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Flokkurinn virtist rísa úr öskustónni. Framsóknarmenn um land allt lyftu höfðinu hærra – margir fyrrum félagar sneru aftur til flokksins. Fylgið tók stökk í skoðanakönnunum.

Nýr formaður og þingflokkur umpóluðu íslenskum stjórnmálum með því að bjóðast til að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti, með ákveðnum skilyrðum, ef Samfylking sliti þáverandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Fortíðin hefur hins vegar ekki alveg sagt skilið við flokkinn.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum fékk flokkurinn að finna fyrir því hvað hann er í raun enn á þunnum ís hvað varðar ímynd sína og umbreytingu. Þegar þingflokkurinn fékk loks nýjan stjórnarsáttmála, eða aðgerðaáætlun, nýrrar ríkisstjórnar í hendurnar var strax farið að herma upp á flokkinn að vilja tefja málið. NB flokkurinn sem var ástæða þess að yfirhöfuð var kostur á myndun nýrrar ríkisstjórnar átti allt í einu að vera orðinn flækjufóturinn í ferlinu. Ekkert var eins fjarri sannleikanum.

Samt virtist ótrúlega auðvelt að koma því inn hjá fólki og fjölmiðlum að eitthvað “óeðlilegt” væri við sjálfsagða kröfu Framsóknarflokksins um að staðið væri við upphafleg skilyrði flokksins hvað varðaði stuðning.

Ný Framsókn var ekki að fá neina hveitibrauðsdaga.

Og staðreyndin er sú að Framsóknarflokkurinn er áfram á þunnum ís.

Þess vegna eru fregnir eins og sú sem barst af móttöku borgarfulltrúans Óskars vinar míns Bergssonar frá því í nóvember ekki heppileg. Það má vel vera að hún hafi verið innan “réttar” hans embættis að fá hana kostaða af borginni, en það var dómgreindarskortur engu að síður, sérstaklega þar sem hér var víst bara um móttöku fyrir framsóknarmenn í sveitarstjórnum að ræða. Þó hún hafi kostað lítið, um 90 þúsund krónur skildist mér af fréttum, þá er það aukaatriði.

Upphæðin gerir þetta í reynd ennþá hallærislegra. Ef þarna voru mættir um 35 manns þá gerir þetta u.þ.b. 2600 krónur á mann, sem ég leyfi mér að efast um að þátttakendur hefðu ekki vel getað pungað út fyrir sjálfir.

Að sama skapi er svar Óskars við því hvort hann hafi fengið stuðning frá Eykt ekki fullnægjandi. Það er kannski skiljanlegt þar sem á þeim tíma sem hugsanlegur stuðningur á að hafa verið veittur lágu ekki fyrir neinar reglur um birtingu slíkra upplýsinga og engin hefð fyrir því þá að stjórnmálamenn skilyrtu við móttöku fjárframlaga í kosningasjóði að slíkt yrði birt.

Mér þykir hins vegar ólíklegt annað en að Eykt sé tilbúið að gangast við því að hafa stutt Óskar, hafi svo verið, a.m.k. án þess að upphæðar sé getið. Óskari er í lófa lagið að lýsa því jafnframt yfir að þau fjárframlög sem hann hefi þegið í kosningasjóði hafi verið án skuldbindinga og hann hafi aldrei látið slíkt hafa áhrif á afstöðu sína við afgreiðslur mála í þeim trúnaðarstöðum sem hann hefur gegnt á vegum borgarinnar – og hef ég enga ástæðu til að efast um það.

Það er óþolandi fyrir stjórnmálamenn að sitja undir ávirðingum að hafa eitthvað óhreint í pokahorninu. Þess vegna er það alveg laukrétt hjá Óskari þegar hann segir að það sé “algjörlega nauðsynlegt fyrir alla aðila að leikreglur séu skýrar.”

Það á að vera almenna reglan að stjórnmálamenn, og þeir sem sæki eftir sætum á lista framboða, upplýsi um hagsmuna- og fjármálatengsl.

Þetta er nauðsynlegt fyrir alla stjórnmálaflokka, ekki síst Framsóknarflokkinn. Sífelldar ávirðingar um spillingu og óeðlileg hagsmunatengsl sem ráði pólitískum afgreiðslum eru með öllu óþolandi.

Það er hins vegar rétt í þessu samhengi að minna á að það var þingflokkur Framsóknarflokksins, fyrstur flokka, sem á síðasta kjörtímabili tók sig til og birti allar upplýsingar um hagsmuna- og fjármálatengsl. Ég man ekki til að aðrir stjórnmálaflokkar hafi gert slíkt hið sama.

Fyrir sjálfan mig er þetta nokkuð auðvelt. Ég hef engin sérstök hagsmunatengsl. Ég á hvorki hlutabréf né skuldabréf. Ég er með lán í tveimur íslenskum bönkum, bæði verðtryggð og í erlendri mynt og er með bílafjármögnun hjá einum þeirra aðila sem býður slíkt. Ég skulda námslán.

Ég er einn þeirra þúsunda íslendinga sem fyrir rúmu ári átti fasteign þar sem eignin var töluvert umfram skuldir, en horfi nú upp á óhugnanlegan eignabruna vegna annars vegar verðtryggingaráhrifa á þau verðtryggðu lán sem hvíla á fasteigninni og hins vegar vegna almenns verðhruns á fasteignamarkaði. Að sama skapi er ég einn þeirra þúsunda íslendinga sem er með erlent lán sem hefur margfaldast vegna hruns íslensku krónunnar.

Í þessum staðreyndum liggja kannski mín helstu hagsmunatengsl.

Ég hef ekki sóst eftir neinum styrkjum eða fjárhagslegum stuðningi vegna framboðs míns til fyrsta sætis á lista Framsóknarflokksins í Norðvestur kjördæmi.

Ég geri ekki ráð fyrir (og hef ekki efni á) að eyða í framboð mitt meiri pening en að borga bensín á bílinn til að geta mætt á fundi.

(Því verð ég að viðurkenna að þegar Sjálfstæðisflokkurinn biður frambjóðendur í prófkjörum að gæta hófs og eyða ekki meiru en sem nemur 2,5 milljónum í prófkjörsbaráttur sínar hver, að þá fallast mér alveg hendur. Tvær og hálf milljón í prófkjör að gæta hófs! Á hvaða plánetu er þessi flokkur? Hefði ekki verið nær lagi að m.v. a.m.k. tífalt minni upphæð?)

13 ummæli:

  1. hmmmmm,
    alltaf í boltanum?

    SvaraEyða
  2. Smá athugasemd við tölfræðina hjá þér:
    Ef 99.99% framsóknarmanna eru heiðarlegir er aðeins einn af hverjum 10.000 spilltur.

    Þú þarf hátt í milljón framsóknarmenn til að ná þeirri tölu, miðað við alla spillingarpésana sem búið er að benda á síðustu mánuði.

    SvaraEyða
  3. Þetta er bara bull
    Framsóknarflokkurinn er gjörsamlega rotinn af spillingu og verður það þangað til gert er upp við viðbjóðinn.

    Hvað með Finn Ingólfs, Ólaf Ólafs, Þórólf, Alfreð Jónsson, Binga, Óskar bergs, Gift stjórnina, Halldór Ásgrímsson osfrv? Eða eru þessir kónar ekki framsóknarmenn

    SvaraEyða
  4. Heiðarleg umfjöllun. Held hins vegar að rotnu eplin taki til meira en 1 0/00 af flokknum.
    Saknaði að þú fjallaðir um Þráin Bertelsson og hvers vegna hann hætti við að gefa kost á sér og sagði sig úr framsóknarflokknum.
    Kveðja,
    -Þorsteinn Egilson

    SvaraEyða
  5. Góður pistill Friðrik, en ekki alveg nógu gagnrýninn á eigin flokk.

    Ég er einn af þeim sam gaf Framsókn alveg séns eftir landsþingið, en svo mundi ég að þetta er enn Framsóknarflokkurinn. Tengsl við umdeilda athafnamenn (tölfræðin ein segir að einhverjir þeirra séu líklega sekir um þær sakir sem á þá eru bornar) og bein viðvera manna sem tengjast afar rotnum tíma í sögu flokksins (Íraks-málum, orkuveituskandölum, einkavinavæðingu, o.fl.) skyggir algerlega á þá endurnýjun er í gangi.

    Leiðin útúr þessu er að stíga risaskref í þá átt að opna flokkinn og gera hann gegnsæjari.

    Svolítið á anda þess sem ég skrifaði um í þessum pistli um gegnsæji í viðskiptalífinu.

    Fá fjármál og tengsl allra frambjóðenda upp á borðið. Opna bókhald flokksins og sýna hverjir styðja hann og í hvað peningarnir fara. Gera sömuleiðis upp við fortíðina og segja okkur hverjir styrktu hann síðustu ár og hvernig staðið var að ýmsum umdeildum málum.

    Ég myndi kjósa ykkur sama hvaða skítur leyndist í fortíðinni, enda myndi þetta gefa fyrirheit um að ykkur væri alvara sem endurnýjaður og nútímalegur flokkur og von um sambærilegar breytingar í stjórnsýslunni ef þið kæmust þar að.

    Ég óttast hins vegar að þið hvorki þorið - né þolið - að sýna okkur hvað leynist í þessum gögnum.

    SvaraEyða
  6. Aðeins til að setja hlutina í samhengi, þá eru um 21.000 flokksbundnir sjálfstæðismenn í Reykjavík. Með 2,5 milljónir í handraðanum væri snertiverðið 119 krónur. Fyrir frambjóðanda, sem stefnir á 1. sæti, er nauðsynlegt — bæði fyrir hann og lýðræðið — að hann komi sér og stefnumálum sínum á framfæri, þannig að hald sé í. Það er erfitt fyrir
    119 kr. á nef hvert.

    Í slíkri prófkjörsbaráttu myndi ég vilja hringja tvisvar í hvern einasta kjósanda, prenta bækling og senda á línuna, halda úti fjörlegum vef, senda markpóst á þrjá hópa, sem samtals eru um helmingur kjósendahópsins, birta sem nemur 6-8 heilsíðum af blaðaauglýsingum, halda a.m.k. 3-4 viðburði á kosningaskrifstofunni, og ná 12-20 stuttum útvarpsspottum á kjördag.

    Þessar kosningar eru óvenjulegar, lítinn pening að fá o.s.frv. Í baráttu um 1. sætið þyrfti maður samt að ná tveimur símtölum á liðið, koma út markpósti á a.m.k. 2 hópa (ca. 1/3 kjósenda), samtals um tveimur heilsíðum í dagblöðum og 2-3 viðburðum. Sjálfboðaliðsvinna getur lækkað kostnaðinn við þetta allt talsvert, en fyrir 119 krónur á kjósanda er það óvinnandi vegur.

    Eða... svo við setjum þetta í annað samhengi, 119 krónur deilast liðlega 21 sinni upp í 2.600 krónum en ef þú margfaldar það með 1.000 færðu fjölda flokksbundinna sjálfstæðismanna í Reykjavík. Og það er punkturinn, Frissi minn. Hér er við feykilegan fjölda að eiga (fleiri en samanlagðan fjölda flokksmanna allra hinna flokkanna í öllum kjördæmum), en engin hefð er lengur fyrir pólitískum fundum þar sem unnt væri að ná til þorra kjósendanna, líkt og enn þekkist í deifbýliskjördæmunum (sbr. benzínreikninginn þinn). Jafnvel þó svo maður önglaði saman öllum átta milljónunum sem lög leyfa, hefði maður aðeins úr 380 krónum að spila við hvern kjósanda. Það hrekkur ekki heldur langt.

    Og hvað þá? Jú, til þess að ná til fjöldans þurfa frambjóðendur mjög að reiða sig á fjölmiðla. Þá er nú dagskrárvald þeirra aldeilis farið að segja til sín (sem kannski útskýrir af hverju blöðin voru svo ákaflega hlynnt þessum skorðum á fjárhagsleg útlát í stjórnmálabaráttu). Hverjir komast helst að? Jú, þeir sem sitja á þingi fyrir munu auðvitað eiga greiðari leið að miðlunum, þó ekki væri nema vegna þess að þeir tala úr fínni ræðustól en þessir metnaðarfullu, sem standa úti á Austurvelli, mænandi inn um gluggana með hélu í skeggbroddunum. Þannig að ekki verður það til endurnýjunar á þingi. Svo er hitt, að fjölmiðlar geta hampað mönnum eða hamlað og þannig haft óeðlileg og ábyrgðarlaus áhrif á lýðræðið. Fylgstu t.d.
    með því — ef blaðið og Ólafur Stephensen lifa svo lengi — hvernig Morgunblaðið mun endalaust hampa Guðlaugi Þór en láta eins og aðrir frambjóðendur séu ekki til.

    Af einhverjum ástæðum vilja margir lifa við þá sjálfsblekkingu að stjórnmál kosti ekki peninga. Að þau eigi bara að vera eitthvert hugsjónadæmi, þar sem ekkert kostar nokkuð. Aðrir játa að eitthvað kosti það nú, en að ríkið eigi þá að sjá um það. Eins og stjórnmálaflokkar á Alþingi þurfi virkilega á frekari samkeppnisvörnum að halda!

    Auðvitað kostar stjórnmálastarf peninga, en eðli máls samkvæmt er ósiðlegt annað en að stjórnmálamennirnir eða stjórnmálaflokkarnir eftir atvikum afli sér fjár sjálfir. Að hluta til snýst það um tjáningarfrelsið. Tjáningarfrelsið á ekki aðeins að vera fyrir tungulipra eða víðförla; vilji ég útbreiða tiltekna skoðun eða hugsjón er mér frjálst að kaupa auglýsingu til þess, nú eða að leggja samherja mínum eða fulltrúa til fé til þess að koma honum á framfæri, svo hann geti útbreitt vora góðu skoðun. Að sama skapi er það brot á tjáningarfrelsinu að skikka menn til þess með skattheimtu (að viðlögðum sektum og refsingu) að niðurgreiða skoðanaútbreiðslu pólitískra andstæðinga sinna.

    En hvað? Á þá bara að leyfa mönnum að þiggja peninga eins og hverjum sýnist og láta hina undursamlegu fegurð lýðræðisins umhverfast í glimmerbaðaða skrumkeppni, þar sem auðmenn og auðhringar bjóða í hórurnar? Nei, þannig þarf það ekki að vera. T.d. mætti byrja á því að banna fortakslaust fjárstuðning allra annara en einstaklinga; aðrir lögaðilar njóta nefnilega ekki mannréttinda né kosningaréttar og þurfa því að halda sínum hagsmunum fram með öðrum hætti og á öðrum vettvangi.

    SvaraEyða
  7. Góð grein. Reyndar held ég að prófkjörsbarátta Björns Inga, Önnu og Óskars fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar hafi kostað þau meira en hámarkið sem Sjálfstæðisflokkurinn setur nú.

    Það verður að passa að fólk fari ekki í svona prófkjör, ef það kostar svona mikið að taka þátt í stjórnmálum þá er sú hætta að leitað sé til fyrirtækja með styrki.

    SvaraEyða
  8. "Illt umtal um flokkinn og stuðningsmenn hans hefur verið að mestu óverðskuldað"

    Þessi setning fannst mér bráðfyndin.

    SvaraEyða
  9. Ég hef heyrt það áður að BINGI sé spilltasti stjórnmálamaður Ísland en ég held að Óskar Bergs hljóti að vera í öðru sæti.

    SvaraEyða
  10. Nafnlaus 1: Kemur fyrir!

    Einar Jón: Engar efnislegar athugasemdir?

    Jón Stefán: Nei, Framsóknarflokkurinn er hvorki rotinn né spilltur. Og þann fortíðarvanda sem flokkurinn þó glímir við eru félagar hans búnir að vera gera upp við. En, það má alltaf gera betur. Finnur Ingólfsson er ekki lengur virkur í starfi flokksins. Ólafur Ólafsson er ekki einu sinni í flokknum! Alfreð Þorsteinsson er hættur í pólitík. Björn Ingi er hættur í pólitík. Halldór Ásgrímsson er hættur í pólitík. Óskar Bergsson þekki ég af góðu einu, þess vegna fer svona rugl eins og þessi móttaka alveg einstaklega í taugarnar mér. Menn eiga að vita betur og gæta sín. Þórólfur Gíslason og Giftar-hyskið er hins vegar sér kapítuli og hef ég nú vakið máls á því áður, sjá t.d. http://fridrik.eyjan.is/2009/01/n-framt-n-framskn.html

    Þorsteinn: Rotnu eplin eru velflest vonandi komin í kompóst!!! Ég á hins vegar erfitt með að kommentera nokkuð á Þráinn Bertelsson. Ég skil alveg frústrasjón út í þetta forvalsdæmi í Reykjavík – skil það concept ekki alveg sjálfur – en ég hef nú jafnan talið betra að vinna að breytingum innan flokks en að vera alltaf að þeytast inn og út í gegnum hringdyrnar!

    Hjálmar: Sammála þér að það þarf að opna meira og auka gegnsæi. Mér skilst nú að t.d. bókhaldið hjá mínum ágæta flokki, þegar það verður opnað núna fljótlega, sýni ágætlega og sanni að Framsóknarflokkurinn hefur ekki verið í neinu að “njóta” einhverja meintra tengsla við auðmenn – ja nema síður sé. Og ég held að Framsóknarflokkurinn hafi ekkert að fela og þori alveg að sýna gögnin.

    Nafnlaus 2: Takk fyrir mjög greinargott yfirlit. Blankur opinber starfsmaður eins og ég sem fer fram með hugsjónina eina að vopni og smá bensín í tanknum svitnar samt yfir svona tölum. Það er ekki gott ef aðgangsmiðinn að því að bjóða sig fram til pólitískrar þátttöku er svona dýr. Punktar þínir eru allir umhugsunarverðir.

    Salvör: Þakka þér og ég er þér sammála.

    Egon: Það er gott að mér tókst að gleðja þig!

    SvaraEyða
  11. Þegar flokkur hefur jafn langa sögu af hagsmunatengslum og sérhagsmunagæslu og Framsóknarflokkurinn þá þarf hann að passa sig vel þegar hann ætlar að taka upp nýja háttu. ég held að framsókn hafi fengið góðan séns en auðvitað líta menn undir yfirborðið líka til að sjá hvort þetta sé nokkuð bara enn eitt dæmið af Of-fótósjoppuðum Binga.

    Þannig er jú gott að þingflokkurinn upplýsti um fjármála- og hagsmunatengsl.

    Nýji formaðurinn ykkar tapaði hins vegar hinni nýju ímynd og birtist sem Framsóknarmaður af gamla skólanum þegar hann eyddi talinu um að birta upplýsingar um sín fjármál og sagðist örugglega myndi gera það einhverntíma seinna - ef hann yrði þingmaður.

    Nýja Framsókn hvað???

    SvaraEyða
  12. Friðrik: Er þetta loforð? Má ég láta það berast að Framsókn ætli að opna bókhaldið? Hve mikið? Hve langt aftur í tímann? Og að hve miklu leiti á að upplýsa um tengsl og fjármál þeirra sem eru í framboði?

    Þetta yrðu stórtíðindi og til að vekja verulega trú og traust á ykkur ef til kæmi, en ég á enn eftir að sjá þetta gerast og þið áttið ykkur á því að allt sem ekki verður opnað verður sjálfkrafa álitið innihalda ósóma.

    Reyndar er ég að halda fyrirlestur um gegnsæi og opið aðgengi að upplýsingum á morgun - ykkar strategistar ættu kannski að kíkja? ;)

    SvaraEyða
  13. "In skating over thin ice our safty is in our speed"

    Ralph Waldo Emerson

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.