föstudagur, 16. janúar 2009

Í ESB eða úr EES?

Eftir 15 ár í EES-samstarfinu, sem hefur reynst íslendingum mjög farsælt, er svo komið að samningurinn er verulega laskaður.

Fjórfrelsinu er í dag í raun stýrt úr Seðlabanka Íslands.

Vegna efnahagsástands, hruns gjaldmiðilsins og bankanna er viðbúið að það verði varanlegt ástand um langa hríð. Gjaldmiðilshöft þau sem sett voru í desember sl. sem augljóslega setja frjálsa flutninga fjármagns í algert uppnám, og hafa með beinum og óbeinum hætti áhrif á frjálsa flutninga t.a.m. vöru og þjónustu, grunnstoða fjórfrelsis EES samningsins.

Tvær leiðir eru út úr þessu ástandi og það eru hinir raunverulegu valkostir sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Annars vegar uppsögn á EES-samningnum eða að taka skrefið til fulls og sækja um aðild að ESB.

Ástæða þess að mikilvægt er að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort Ísland hyggst sækja um aðild að ESB er einföld. Þó aðildarumsókn, og í framhaldi aðild, sé ekki “töfralausn” hvað varðar núverandi ástand, varðar hún leið til framtíðar sem auðveldar framhaldið.

Með aðildarumsókn að ESB verður strax til vegvísir um hvert Ísland stefnir.

Aðildarumsókn, og væntanlega aðild, setur skýran ramma um uppbyggingu nýs Íslands sem er skýr og skiljanlegur í alþjóðlegu samhengi sem uppbygging án aðildar og aðildarumsóknar getur ekki gert. Vegvísir aðildarumsóknar verður þannig ekki síst til þess að mynda traust á alþjóða vettvangi og auðvelda alla uppbyggingu til framtíðar.

Fullyrðingin um að spurningin um ESB-aðild sé ekki brýnt verkefni og aðrir hlutir eigi að hafa forgang er einfaldlega röng. Hins vegar er engin ástæða til þess að bíða með aðgerðir á meðan að komist er að niðurstöðu hvað varðar ESB.

Allar aðgerðir, í bráð og lengd, og væntanlegur árangur þeirra, munu verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum þeirrar ákvörðunar.

Án aðildarumsóknar verður núverandi ástand viðvarandi mun lengur. Uppbygging mun taka lengri tíma og haftaástand mun verða viðvarandi til lengri framtíðar. Það í sjálfu sér hefur þau áhrif að EES-samstarfinu kynni að vera ógnað. Án virks fjórfrelsis er EES-samningurinn ekki svipur hjá sjón

Valkosturinn er þannig augljós og óumflýjanlegur:

Í ESB eða úr EES.

6 ummæli:

  1. Við erum að fara að borga 30-50% af skatttekjum í afborganir á næstu árum. Ég myndi telja að stóra spurningin ætti að vera hvernig við eiginlega gerum það. Hvernig eigi að dreyfa byrðinni þannig að sem fæstir gefist upp og flýji land, skyljandi okkur hin eftir í verri stöðu. Að ætla að fara að nota slíkt ástand til að setjast niður og ræða utanríkispólitík einangrað er fáránlegt. Evrópumálin verða ekki rædd utan við samningana um hvernig skuli staðið í skylum við lánadrottna. Ef innganga í ESB er hluti af þeirri áætlun munu flestir sætta sig við það, enda erum við komin í þrot. Sé hinsvegar engin lausn fólgin í því að ganga í ESB ættum við kannski að reyna að leita betur að lausnum á þessum vandamálum áður en við förum að nota alla krafta okkar í Evrópumál.

    SvaraEyða
  2. Halda menn virkilega að það hafi aldrei neinn í ESB brotið neinar reglur þar????? Held að það væri auðvelt að finna einhver mál þar sem ríki innan ESB hafi farið á svig við ESB sáttmálann. Hvað ætli t.d. Rúmenía eða Búlgaría hafi oft brotið reglur ESB? Líklega oftar brotið reglurnar en farið eftir þeim.

    Koma svo, vakna. Ef menn ætla að beita einhverjum rökum fyrir ESB aðild, þá er þetta ekki leiðin. Þetta tal um einhvern Vegvísi og annað slíkt er bara orð út í bláinn.

    Það er lítið mál að senda Björn Bjarnason út til Brussel, og fá það á hreint hvaða samning Íslendingar fengju hugsanlega. Af hverju þarf að gera svona mikið úr þessu? Það þarf enga aðildarumsókn til að fá úr því skorið. Ekki beita þessu embættismanna flækju systemi enn og aftur. Gera þetta bara einfalt.

    SvaraEyða
  3. Lestu aftur hvað þú skrifaðir.

    Þú segir farsælt.

    Hvaðð um ,,fjórfrelsið" sem kom okkur í þau spor sem við nú erum í ??

    Við undirritun var því miður ekki ljóst, hve stek völd stofnanir ESB hefur á land og þjo´ð, gerðir hennar og lagasetningu.
    Það kom afar ljóslega fram þegar stjórnvöld hér voru kærð fyrir ,--haltu þér fast,---FJÁRMÁLAFLUTNIGNSHÖFT!!!! HÖFT, hvorki meira né minna.
    ÞAð var gert í sambandi við hækkun bindiskyldu á millifærslum banka milli landa.

    Síðan munaði ekki miklu að Siggi Einars hefði fengið Íbúðalánasjóð í umsjá.

    Nei minn kæri Frammari.

    Svona vitlaus er þjóðin EKKI.

    Erum búin að fá upp í kok a´Ólafi í Samskip Finni Ingólfs, Þórólfi ,,Kaupfélagsstjóra capo de tuti capi, Sigga Einars, Geir Skerjafjarða-fundamanni Magnússyni og fleirum.

    Að vísu eru hinir mætustu men --eða voru, --í Framsóknarflokki. Þar má minnast á Bjarna á Selfossi nokkra ágætis Samvinnumenn af hugsjón og suma bændur sem í einfeldni trúðu hinum.

    Með von um, að Framsókanarflokkurinn komist heill frá fundi

    Miðbæjaríhaldið

    SvaraEyða
  4. Það er ekki fjórfrelsið sem kom okkur í þessi vandræði. Heldur skortur á aðhaldi hérna á Íslandi, slíkt hefur ekkert með EES að gera.
    ESB er engin töfalausn, en það er lausn engu að síður. Allavegana betri heldur en hinn möguleikinn.

    SvaraEyða
  5. Nokkur dæmi um hvernig menn hafa ekki farið eftir reglum eða tilskipunum ESB, og komið með rökstuðning:

    Svíþjóð: Munntóbak, af hverju er það bannað í öllum ESB löndum nema Svíþjóð? Kannski beittu þeir fyrir sig að það væri einhver hefð á bakvið þetta.

    Danmörk: Bann við sölu á áfengu öli á áldósum. Þessu gátu Danir haldið til streitu vegna þess að þetta var hluti af menningu þjóðarinnar. Raunveruleg ástæða var hins vegar sú að þeir voru að vernda innlendan bjóriðnað

    Ísland: Neftóbak. Af hverju er það leyft, en allt samskonar dót bannað? Það er hefði fyrir notkun á íslensku neftóbaki, en ekki neinu sambærilegu dóti.

    Mætti þá ekki alveg eins segja að það sé hefð fyrir gjaldeyrishöftum á Íslandi, þess vegna beitum við þessu? Það er ekkert ólöglegt við þetta?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.