föstudagur, 27. febrúar 2009
Þjóðfundur
Þarna er um að ræða einskonar viðvarandi rauntíma skoðanakönnun á þessu hefðbundna eins og fylgi flokkanna, en einnig er hægt að kjósa um mál eins og hvort sækja eigi um aðild að ESB, afstöðu til ríkistjórnar og stjórnarandstöðu og þess háttar.
Svo er líka hægt að taka þátt í prófkjörum, t.d. um hver eigi að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvestur kjördæmi!
Hægt er að innskrá sig m.a. með facebook auðkenni.
Eftir að maður hefur skráð sig getur maður hvenær sem er farið inn á kerfið og kosið í öllum þeims atkvæðagreiðslum sem boðið er upp á - og hvenær sem er skipt um skoðun.
Þú telur hins vegar einungis sem eitt atkvæði, þannig að ef þú skiptir um skoðun að þá færist atkvæði þitt frá því sem þú kaust áður.
Bráðsmellið.
fimmtudagur, 26. febrúar 2009
ICESAVE raunveruleikapróf
Það er augljóst af því svari að íslenska ríkið er ekki að fara út í málaferli vegna ICESAVE, þ.e vegna túlkunar á ábyrgð innistæðutrygginga.
Það útilokar ekki að einkaaðilar sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna beitingar bresku hryðjuverkalaganna fari í mál fyrir breskum dómstólum. Þar á meðal skilanefndir gamla Kaupþings og Landsbankans. Ríkið getur eftir sem áður komið að slíkum málaferlum til dæmis sem vinur réttarins.
En beinn málarekstur ríkisins um túlkun á ábyrgð innistæðutrygginga er nokkurn veginn útilokaður.
Eins og fram kemur í svari ráðherrans er túlkun sú sem sett er fram af íslenskum stjórnvöldum um takmarkaða ábyrgð á innistæðutryggingasjóði hafnað af öllum okkar nánustu samstarfsþjóðum.
Hér er ekki einungis um að ræða Evrópusambandið sem slíkt.
Hvert og eitt einasta aðildarríki þess, sem sjálfstætt og fullvalda ríki, auk Noregs, hafna lagatúlkun þeirri sem sett hefur verið fram um takmörkun ábyrgða.
Þegar vegið er og metið hvort vit er í því að fara í málarekstur, hvort sem um er að ræða einstakling, fyrirtæki, eða, eins og í þessu tilviki þjóð, er hluti af ákvarðanatökuferlinu kalt mat á möguleikum á því að ná árangri.
Kalt mat myndi líklega leiða í ljós sigurlíkur langt innan við 50%. Bjartsýnt mat væri kannski á bilinu 10 – 20%, ég tel sjálfur þær líkur kannski vera á bilinu 1-2% og byggi það m.a. á því að með því að tryggja allar innistæður íslenskra aðila, án hámarks, hafi íslensk stjórnvöld í reynd sjálf gengið gegn þessari túlkun. Bendi hér á fyrri færslu mína um þetta mál.
Það er hins vegar í sjálfu sér aukaatriði við hlið þess kalda hagsmunamat sem þarf að vera á kostnaði ferilsins sjálfs og á ég þar ekki við lögfræðikostnaðinn.
Málaferli af þessu tagi myndu taka að lágmarki 2 ár og gætu þess vegna tekið allt upp í 7 ár.
Á meðan væri allt stopp.
Í svari utanríkisráðherra segir meðal annars (feitletrun er mín):
...hvorki stofnanir ESB né nokkurt aðildarríki þess, þ.m.t. Norðurlöndin auk Noregs sem er í EES, [eru] reiðubúin að fallast á að lagaóvissa ríki um það hvort ábyrgð á bankainnstæðum sé fyrir hendi. ESB-ríkin og framkvæmdastjórn ESB virtust í október sl. meta það svo að Ísland væri ekki í stakk búið að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt reglum EES og að í aðgerðum íslenskra stjórnvalda gæti falist mismunun á grundvelli þjóðernis. Bretland krafðist þess raunar af framkvæmdastjórn ESB að gripið yrði til sérstakra verndaraðgerða samkvæmt EES-samningnum gagnvart Íslandi, en það var þó ekki gert.
ESB-ríkin hafa mjög skýra afstöðu til þess hverjar skyldur Íslands eru í máli þessu og hafa skoðanir verið látnar í ljós um að Ísland sé að virða að vettugi skyldur sínar á innri markaði sambandsins. Það gæti valdið uppnámi á EES-samningum. Að auki verður að geta þess að ein af forsendum fyrirgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þeirra ríkja sem að henni koma var að samkomulag næðist við Breta, Hollendinga og Þjóðverja vegna uppgjörs innlána í útibúum íslenskra banka í viðkomandi ríkjum.
EES-samningurinn væri í uppnámi, fyrirgreiðslan hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum væri í uppnámi, viðskiptasambönd okkar við öll okkar helstu samstarfsríki væru í uppnámi og þar með væru pólitísk samskipti okkar við öll okkar helstu samstarfsríki í uppnámi.
Þrátt fyrir að lagatæknilega sé hægt að halda því fram að hugsanlega megi komast undan þessum ábyrgðum eru líkur á því að sú lagatæknilega túlkun næði fram að ganga hverfandi. Hagsmunum þeim sem yrði fórnað til lengri tíma, ekki bara á meðan að málaferlum stæði, heldur einnig til langrar framtíðar í kjölfarið, væru miklu mun meiri en svo að slíkt gæti talist ábyrgt.
Blekkingum um að aðrir kostir séu raunhæfir verður að linna.
Kristinn H
Ekki þarf það að koma á óvart, en af því tilefni er ekki úr vegi að rifja upp kveðju Framsóknarflokksins til Kristins við brotthvarf hans þaðan fyrir tveimur árum - ekki alveg upp á dag, en næstum því.
Þar segir meðal annars:
Það er þannig hvort sem um er að ræða stjórnmálaflokk eða bara hvaða vinnustað sem er að menn eru aldrei sammála um allt.
Flestir kannast líklega við að hafa einhvern tíma verið ósáttir við vinnufélaga í lengri eða skemmri tíma. Það er misjafnt hvað verður úr slíku en yfirleitt er gerð sú krafa til fólks að það láti ekki ágreininginn verða að aðalatriði heldur ræði hann sín á milli og komist að niðurstöðu sem allir vinna síðan sameiginlega að.
Oft eru sumir ekki fullkomlega sáttir en setja það til hliðar af því að þeir eiga sér stærri sameiginleg markmið sem skipta meira máli. Kristni auðnaðist ekki að vinna þannig með Framsóknarflokknum.
Það er leitt á vissan hátt því það skrýtna er að á öllum þessum tíma var það sennilega ekki það sem Kristinn sagði sem gerði samstarfið erfitt og síðan ómögulegt – heldur hvernig hann sagði það. Kristinn er mjög hæfileikaríkur maður en líklega á hann ekki vel heima í flokki – hann er líklega betri með sjálfum sér.
Flokkaflakk Kristins hefur líka á sér yfirbragð þess að snúast frekar um refskák til þess að tryggja atvinnuöryggi hans sem þingmanns, en að það snúist um einhverjar sérstakar hugsjónir eða pólitík. Þær hafa enda virst oft breytast svona rétt eins og vindurinn blæs.
Og við sem höfum komið á Bolafjall vitum að þar getur oft orðið hvasst og blásið úr mörgum áttum, jafnvel á sama tíma...!
miðvikudagur, 25. febrúar 2009
Þingstörfin framundan
Þau verða líkast til hraðsend til Forseta lýðveldisins til staðfestingar og forsætisráðherra mun setja nýja menn í embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra nú á föstudaginn.
Þar með mun þessum kafla verða lokið.
Nýr og mun athyglisverðari kafli mun hins vegar hefjast næsta mánudag.
Þá má gera ráð fyrir að Framsóknarflokkurinn byrji að setja inn lagafrumvörp og þingsályktunartillögur byggðar á þeim efnahagstillögum sem flokkurinn kynnti sl. mánudag.
Tillögur sem forystu menn stjórnarflokkanna gáfu lítið fyrir á blaðamannafundi sínum í gær.
Tillögur sem verðandi formaður Sjálfstæðisflokksins tekur undir.
Þannig að í næstu viku megum við búast við því að þingið hefji afgreiðslu á frumvörpum sem verða lögð fram af fulltrúum þess flokks sem ver þá ríkisstjórn vantrausti. Sú ríkisstjórn mun leggjast gegn samþykkt frumvarpanna, en þau munu hljóta meirihlutasamþykkt á Alþingi í krafti stuðnings stjórnarandstöðunnar.
Athyglisvert, ekki satt?
Snilld!!!
Yfirlýsing viðskiptaráðuneytisins frá því fyrr í dag um möguleg málaferli, og þó ekki, er tær snilld. Sérstaklega þar sem segir:
"Fyrri ríkisstjórn ákvað jafnframt að kanna aðra möguleika til málshöfðunar, m.a. fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki breytt þeirri ákvörðun og enga ákvörðun tekið um að höfða slíkt mál fyrir þeim dómstóli eða öðrum."
Núverandi ríkisstjórn hefur sem sagt ekki ákveðið að gera ekki neitt. Hún hefur hins vegar að sama skapi ekki heldur ákveðið að gera eitthvað, eða ef út í það er farið, ekki ákveðið að ekki gera ekki neitt!
Sir Humphrey Appleby myndi fyllast stollti!
Afskriftir lána
Atvinnuleysi eykst, laun eru lækkuð.
Það gerði engin athugasemd við það að skuldbinda skattborgara þessa lands um hundruð milljarða til þess að tryggja innistæður langt umfram skyldutryggingu.
Það gerði engin athugasemd við það að tugum, ef ekki hundruð, milljarða af peningum sömu skattborgara voru teknir til að “lagfæra” stöðu peningamarkaðssjóða sem engin skylda var til þess að gera.
Eitthvað var nöldrað, en ekkert gert, þegar að yfir þrjú hundruð milljörðum í væntanlega tapaðri skuldabréfaeign Seðlabanka Íslands var yfirfærð á ríkissjóð og þannig teknir úr vasa skattgreiðenda með einu pennastriki.
Ekkert hefur verið að gert hér í þann fjölda ára sem falsaðar verðbólgutölur hafa ofmælt íslenska verðbólgu, sem aftur hefur leitt af sér hreina eignaupptöku lánastofnanna úr vasa lántakenda, umfram það sem eðlilegt gat talist.
Þegar hins vegar kemur að því að veita skuldurum þessa lands einhverja sambærilega fyrirgreiðslu og þeim sem áttu pening á bók eða í peningamarkaðssjóði, er risið upp á afturfæturna í mikilli vandlætingu.
Skuldurum, hvers eign var bundin í steinsteypu en ekki í bankabók.
Eign sem hefur brunnið upp hraðar og meira í efnahagshruninu en nokkuð annað.
Það lið getur átt sig.
Fjálglega hefur verið rætt um tímabundna frystingu verðtryggingar, búnar hafa verið til gervivísitölur til að milda áhrif verðbólguskotsins (sem er skot úr óásættanlegri verðbólgu upp á 8-10% upp í ofurverðbólgu upp á 17-20%), og aðrar bráðabirgðalausnir, sem flest allar hafa það sammerkt að vera ómarkvissar, illframkvæmanlegar og lítt líklegar til varanlegs árangurs. Þær velti einungis vandanum á undan okkur.
Það hefur líka verið talað um að líta á “stöðu hvers skuldara fyrir sig.”
Sem er vita vonlaust verk í ljósi þess mikla fjölda sem er í erfiðri skuldastöðu vegna kreppunnar og hrunsins.
Það verður líka að hafa í huga regluna um jafnfræði.
Tillaga forystu Framsóknarflokksins um 20% afskrift veðskulda er þannig verðug tilraun til þess að mæta skuldavanda heimila og fyrirtækja með einföldum og gagnsæjum hætti og þannig að gætt sé fyllsta jafnræðis.
Tillögurnar eru vissulega róttækar. Sjálfur setti ég fram í umræðuhópi sem vann “Ályktun um stjórnmála- og efnahagsástandið” á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins eftirfarandi tillögu:
- Öll lán einstaklinga og fyrirtækja í erlendri mynt hjá öllum lánastofnunum verði færð í íslenskar krónur á dagsgengi 30. janúar nk. með afföllum að 1/3. Mismunurinn verði afskrifaður og heimilt að færa sem tap á móti skattandlagi til allt að tíu ára.
- Öll verðtryggð lán einstaklinga og fyrirtækja hjá öllum lánastofnunum verði afskrifuð um 20% um næstu mánaðarmót. Þá afskrift verði heimilt að færa sem tap á móti skattandlagi til allt að tíu ára.
Þessa tillögu lagði ég fram til þess að undirstrika það að allar hugmyndir í þá veru að milda áhrif hrunsins á þá sem skulda, yrðu að gæta jafnræðis. Jafnræðið setti mönnum þær skorður að láta jafnt yfir alla ganga. Ég hafði enga trú á því að þar yrði fallist á þessa tillögu og varð það raunin.
Bankarnir eru allir komnir í fangið á ríkinu. Þar með geta bankarnir (ríkið) ekki farið fram með einum skuldara með einum hætti, t.d. 30% afskrift skulda, en látið annan greiða allt upp í topp. Það er ekki í samræmi við jafnræðisreglu.
Nú er sambærileg tillaga hins vegar orðið hluti af formlegri tillögu til aðgerða í efnahagsmálum hjá Framsóknarflokknum. Unnin í samvinnu við þá ágætu hagfræðinga Jón Daníelsson og Ragnar Árnason.
En, aðallega af því er virðist af því að þessar tillögur eru settar fram af Framsóknarflokknum, er reynt að gera þær með einhverjum hætti tortryggilegar.
Enginn þeirra sem gagnrýnir setur hins vegar fram aðra valkosti.
Tillögur Framsóknarmanna eru vissulega róttækar. Að mínu viti hins vegar jafnvel ekki nógu róttækar þar sem ekki er tekið á gengistryggðu lánunum og jafnvel hugsa ég að 20% afskrift yrði ekki nóg.
Höfum í huga að í sjálfu sér má líta á tillögurnar sem afskrift verðbótaþáttar síðustu 14 til 18 mánaða.
Tillögur þessar er rétt að ræða. Við skuldarar þessa lands eigum ákveðna heimtingu á því að komið sé til móts við okkar eignabruna, rétt eins og gert hefur verið við gagnvart þeim sem áttu sínar eignir í banka, bæði á sparireikningum og í peningamarkaðssjóðum.
Vel má vera að við slíkar umræður komist menn að útfærsluleiðum sem eitthvað dragi eitthvað úr kostnaði. Hugsanlega má, án þess að dregið sé úr vægi jafnræðisreglunnar, setja ákveðið þak á afskriftir. Til dæmis að afskrifa megi veðskuldir um 20%, þó eigi um hærri upphæð en sem nemur 5 milljónum.
Látum ekki nægja að afskrifa einungis okkur sem skuldum!
þriðjudagur, 24. febrúar 2009
ESB í bítið
Upptöku af þeim hluta þáttarins má nálgast hér.
Stjórnmál í boðhætti
Það er því skiljanleg afstaða hans að hafa viljað bíða í tvo daga með það að samþykkja afgreiðslu frumvarps um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands úr viðskiptanefnd þingsins. Sérstaklega ef hann telur að umtöluð skýrsla ESB muni leggja upp nýja vinkla í málinu sem geti haft veigamikil áhrif á starfshætti Seðlabankans í framtíðinni.
Hins vegar er líklegt að sama hvað verður í skýrslu ESB, verði ekki tími til þess að taka á þeim málum í þessu frumvarpi. Skýrsla ESB verður auk þess innlegg í aðra vinnu á alþjóðavettvangi sem snýr að reglusetningum og starfsumhverfi Seðlabanka, eftirlitsaðila og fjármálamarkaða, þ.m.t. viðskiptabanka og fjárfestingarfélaga.
Á vettvangi ESB, innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og annars staðar í alþjóðlegu samhengi er undir að endurskoðun og tillögum til úrbóta.
Þessu verki verður ekki lokið á næstu vikum.
Núverandi frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands tekur ekki á þessum þáttum. Í því felast einungis grunnbreytingar á skipulagi bankans sem munu gera það kleift að hægt verður að stilla upp nýju liði bankastjórnar, bankastjóra og peningastefnunefndar. Nýtt lið sem mun vinna með næstu ríkisstjórn og Alþingi að tillögum um frekari breytingar á lögum um Seðlabankann, og eftir atvikum um lögum um fjármálaeftirlit.
Núverandi frumvarp er fyrsta skref, ekki lokaskref.
Praktískt og pólitískt var þess vegna afstaða Höskuldar í viðskiptanefnd þingsins ekki nauðsynleg. Nýtt þing, í kjölfar kosninga, mun þurfa að vinna áfram að frekari breytingum á lögum um Seðlabankann.
Það breytir ekki því að það sem gerðist í kjölfar ákvörðunar Höskuldar var til skammar.
Eftir allt talið um virðingu þingsins og nauðsyn þess að efla stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu er brugðist við þann hátt að jaðrar við byltingu. Framkvæmdavaldið, sem starfar í umboði minnihluta á Alþingi, virtist ætla að reyna að beita þvingunum á löggjafann til þess að knýja fram niðurstöðu í málinu.
Nýr Forseti Alþingis lét fulltrúum framkvæmdavaldsins í reynd eftir stjórnun þingsins. Féll hann þar með á sínu fyrsta prófi.
Umhugsunarfrestur Höskuldar réttlætti ekki þá niðurlægingu þingsins.
Er ekki komið nóg af stjórnmálum í boðhætti?
mánudagur, 23. febrúar 2009
Ísland í ESB
------------------------
Ágætu fundarmenn
Það er mér sönn ánægja og óneitanlega mikill heiður að vera boðið hingað á fund Rótarý Reykjavík - miðborg til þess að tala um Evrópusambandið.
Ég er einn þeirra sem hefur verið þeirrar skoðunar í eflaust bráðum 20 ár að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu.
Ég skrifaði fyrst um það greinar í Tímann sáluga hér í kringum 1993/4, þegar ég er í meistaranámi í Þýskalandi. Á ráðstefnu á vegum Sambands ungra framsóknarmanna haustið 1994 flutti ég erindi um Evrópusambandið og hvatti til þess að Ísland myndi sækja um aðild.
Við skulum segja að viðbrögðin hafi verið blendin!
Ræða mín í dag er ekki sú sama ég flutti þá – sitt hvað hefur jú á daga okkar og Evrópusambandsins drifið.
Aðild að Evrópusambandinu, og aðildarumsókn, munu ekki einar og sér leysa þann vanda sem Ísland glímir við í dag. Hins vegar felst í því trúverðug stefnumörkun til framtíðarinnar sem mun styðja við aðrar þær aðgerðir sem hér þarf að grípa til vegna endurreisnar íslensks samfélags.
Ef ekki er farin þessi leið þá er það mín skoðun að uppbygging öll muni taka lengri tíma, verða ómarkvissari og árangur muni láta á sér standa.
Aðild að Evrópusambandinu mun að sama skapi ekki verða til þess að Ísland tapi fullveldi, þjóðareinkennum og yfirráðum yfir sjálfum sér eins og andstæðingar aðildar fullyrða gjarnan.
Öfganna á milli þeirra sem telja aðild jaðra við heimsenda og drottinsvik og þeirra sem sjá ESB sem svar við öllum okkar vanda liggur sannleikurinn.
Ég er þeirrar skoðunar, að vegnum kostum og göllum, að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu – og tel að það hafi aldrei verið brýnna en einmitt nú.
EES: Takmarkaður innri markaður
Í dag er Ísland aðili að EES sem að nafninu til gefur okkur alla kosti innri markaðar Evrópusambandsins án þess að við þurfum að taka á okkur meinta ókosti fullrar aðildar.
Þetta er hins vegar ekki allskostar rétt því sameiginlegur markaður EES skortir veigamikla þætti til þess að geta talist sannur innri markaður.
Í fyrsta lagi er EES ekki tollabandalag. Það þýðir að Ísland getur rekið sína eigin tollastefnu gagnvart þriðju ríkjum, það er þeim ríkjum sem ekki eru aðilar að annað hvort ESB eða EFTA. Tollastefna og fríverslun er þannig ekki samræmd milli ESB annars vegar og annarra aðildarríkja EES hins vegar. Það þýðir að upprunastaðfestingar er alltaf þörf þegar vara frá Íslandi fer inn á markað hjá Evrópusambandinu. Frjáls flutningur vöru er þannig aldrei án tafa.
Í öðru lagi nær myntsamstarf Evrópu ekki til EES-ríkjanna, en myntbandalag er lokahnykkurinn á uppbyggingu á raunverulegum innri markaði. Með myntsamstarfi hverfur gengisáhætta milliríkjaviðskipta þeirra landa sem eiga aðild að því, auk þess sem annar kostnaður sem leiðir af því að eiga í viðskiptum með fleiri gjaldmiðla fellur niður sömuleiðis milli þessara landa.
Í þriðja lagi eru landbúnaður og sjávarútvegur undanskilin í EES, þó ákveðið aukið markaðsaðgengi sé tryggt, m.a. með bókun 9 við EES-samninginn. Þegar og ef matvælafrumvarpið verður lagt fram og samþykkt á Alþingi mun það auðvelda markaðsaðgengi fyrir íslenskar sjávar- og landbúnaðarafurðir. Áfram munu hins vegar gilda magntakmarkanir sem falla myndu niður við aðild að sambandinu.
Í fjórða lagi eru þjónustuviðskipti ennþá ýmsum takmörkunum háð á EES-svæðinu og innan ESB. Hingað til hafa tilraunir til þess að auka frelsi í þjónustuviðskiptum ekki gengið eftir eins og að var stefnt.
Þrátt fyrir þetta er það engu að síður þannig að Ísland er að miklu leyti búið að aðlaga sig Evrópusambandinu.
Í dag er upp undir 100% af regluverki Evrópusambandsins sem varðar innri markaðinn tekið upp í EES.
Eins og áður sagði nær hins vegar innri markaðurinn og EES ekki til sameiginlegrar stefnu ESB hvað varðar landbúnað, sjávarútveg og tollamál. Langstærsti hluti “gerða” ESB er vegna þessara þriggja þátta, enda er þar meðal annars um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir sem varðað geta ýmsar smærri afgreiðslur. Dæmi um slíkt gæti verið tímabundin lokun sláturhúss í Danmörku vegna salmonellusýkingar. Tilkynning um slíka lokun, og síðar um enduropnun, fær samt gerðanúmer og telst með í heildartölum um fjölda “gerða”, jafnvel þó að viðkomandi “gerðir” hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt sláturhús.
Þetta er skýringin á því af hverju andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta fullyrt að raunverulegar tölur um innleiðingu “gerða” ESB í landslög á Íslandi sé einungis 6,5%. Þessar tölu eiga ekki við um sama hlutinn.
Staðreyndin er sú að ekkert ríki ESB leiðir allar “gerðir” í landslög. Á því er ekki þörf. Innleiðing í landslög fer eftir eðli, umfangi og viðfangsefni gerðarinnar.
ESB vs. EES
Ef litið er til þess hvað upp á vantar hjá Íslandi, það er að segja hvað Ísland þarf að bæta við í sínu Evrópusamstarfi við aðild að ESB, þá er það tiltölulega takmarkað þegar á heildina er litið.
Í stækkunaráætlun Evrópusambandsins gagnvart umsóknarríkjum eru talin 35 atriði sem þarf að semja um.
Af þessum 35 atriðum eru 22 hluti af EES-samningnum eða Schengen samstarfinu. Þrír liðir til viðbótar eru síðan að einhverju leyti, mismikið þó, tengdir EES-samningnum, en það eru uppbyggingarstyrkir, sem Ísland leggur til; Samstarf á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála og Ísland tengist með ýmsum hætti; og framlagsmál, en Ísland hefur takmarkaða framlagsskyldu til ESB vegna bæði EES og Schengen samstarfsins.
Út af stendur eftirfarandi:
-Landbúnaðar- og byggðastefna,
- Fiskveiðar,
- Skattamál,
- Efnahags- og myntsamstarf,
- Réttarvarsla og grundvallarréttindi,
- Tollabandalag,
- Utanríkistengsl, þ.m.t. samningar við þriðjuríki,
- Fjárhagslegt eftirlit,
- Stofnanir, og
- Önnur mál, sem eru sértæk mál hvers umsóknarríkis.
Undir flestum þessara atriða eru hins vegar bæði ESB og Ísland þegar undir áhrifum af alþjóðlegu samstarfi á öðrum vettvangi, til dæmis á vettvangi OECD, Evrópuráðsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Atlantshafsbandalagsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Þannig blasir við að í ljósi samningasögu nýrra aðildarríkja er í engum af þessum viðbótarliðum umfram EES-samninginn atriði sem gera má ráð fyrir að erfitt verði að ná í aðildarviðræðum ásættanlegri niðurstöðu fyrir Ísland. Hin augljósa hugsanlega undantekning er fiskveiðar, sem fæli í sér aðkomu Íslands að sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins.
Hví segi ég hugsanlega? Jú því það er hin þekkta stærð. Á Íslandi er engin tilbúin til þess að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistefnuna að óbreyttu. Markmið hennar getur Ísland hins vegar stutt. Ísland einfaldlega býr við þann kost í sjávarútvegsmálum að vera fyrir löngu búin að ná og uppfylla markmið stefnunnar um t.d. sjálfbærni og verndun stofna.
Það sem meira er, ESB, þ.e. stjórnmálaleiðtogar helstu aðildarríkja og æðstu embættismenn þekkja og viðurkenna þessa staðreynd. ESB hefur ekki hagsmuni af því að stefna íslenskum sjávarútvegi í tvísýnu eða spila pólitískan leik með eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Engin fordæmi eru fyrir því að sambandið geri slíkt í aðildarviðræðum.
Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins á því ekki að vera þröskuldur fyrir aðild Íslands. Um það þarf þó að semja og framtíðar samningamenn og –konur Íslands í væntanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið munu að sjálfsögðu hafa hagsmuni Íslands í þessum efnum að leiðarljósi.
Að mínu mati yrði landbúnaður ekki sérstakt vandamál í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Landbúnaður almennt nýtur sérstakrar viðurkenningar og verndar innan ESB nú þegar, og í aðildarsamningum Svíþjóðar og Finnland var samið sérstaklega um heimildir til aukins stuðning við landbúnað á erfiðum svæðum. Engin ástæða er til að ætla annað en að Ísland muni ná fram sambærilegum heimildum fyrir íslenskan landbúnað.
Höfum jafnframt í huga að íslenskur landbúnaður mun áfram leika lykilhlutverk á ferskvörumarkaði hér á landi. Samkeppnisstaða landbúnaðarins er að mínu mati vanmetin. Ef íslenskur landbúnaður fær eðlilegra rekstrarumhverfi þá er honum allir vegir færir. Til dæmis tel ég meiri ógn stafa að viðvarandi háum fjármagnskostnaði og skorti á aðgangi að lánsfé fyrir íslenskan landbúnað, en af frjálsari innflutningi á matvöru.
Í dag er það svo að við fáum ferskar kjúklingabringur á 1500 krónur kílóið á tilboðum stórmarkaðanna. Við þetta verð á engin innflutningur eftir að keppa. Tala nú ekki um ef annað rekstrarumhverfi bætist hér, þá gæti þetta verð lækkað ennþá meira.
Höfum í huga að ESB ríkið Danmörk, með litlar sem engar auðlindir og skandinavískt skattaumhverfi er stórveldi á alþjóðamörkuðum með unnar landbúnaðarvörur.
Það sem síðan skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild.
Á Íslandi getur ekki orðið um frekari hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi nema með auknu aðgengi á erlenda markaði. Eini erlendi markaðurinn sem máli skiptir opnast við aðild að ESB. Hinn valkosturinn er frekari fækkun starfa í báðum þessum greinum, því hvorug þeirra getur búist við miklum vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Það verða engin 15 þúsund ný störf til í landbúnaði og sjávarútvegi.
Í þessu samhengi er rétt að ræða líka um réttinn til fríverslunarsamninga við þriðju ríki. Við aðild að ESB færist sá réttur frá aðildarríki til framkvæmdastjórnar sambandsins. Tvíhliða fríverslunarsamningar Íslands munu þannig heyra sögunni til. Í staðinn fengi Ísland hins vegar aðild að viðskiptasamninganeti Evrópusambandsins sem er umfangsmeira en það sem Ísland hefur í dag.
Ísland mun auk þess ekki lokast innan “tollamúra” Evrópusambandsins. ESB-þjóðirnar eru allar í alþjóðaviðskiptastofnuninni og lúta þeim niðurstöðum sem þar um semjast. Meintir tollamúrar Evrópusambandsins finnast fyrst og fremst þegar kemur að landbúnaðarvörum, og þær varnir þeirra eru eins og mildar hraðahindranir í samanburði við þá tolla- og gjaldamúra sem við íslendingar höfum byggt okkur sjálfir.
Valkostirnir: Í ESB eða úr EES
Eftir 15 ára farsælt EES-samstarf er Ísland á krossgötum. Holskeflan sem reið yfir Ísland er megin ástæða þess að í dag hefur það svigrúm og frelsi sem fylgdi EES-samningnum verið sett í bið og fjórfrelsinu er í dag stýrt úr Seðlabanka Íslands.
Efnahagsástandið, hrun gjaldmiðilsins og bankanna og gjaldmiðilshöftin sem sett voru í desember síðastliðinn hafa sett frjálsa flutninga fjármagns í algert uppnám, og hafa með beinum og óbeinum hætti áhrif á frjálsa flutninga t.a.m. vöru og þjónustu, grunnstoða fjórfrelsis EES samningsins.
Tvær leiðir eru út úr þessu ástandi og það eru hinir raunverulegu valkostir sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Annars vegar uppsögn á EES-samningnum eða að taka skrefið til fulls og sækja um aðild að ESB.
Ástæða þess að mikilvægt er að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort Ísland hyggst sækja um aðild að ESB er einföld. Þó aðildarumsókn, og í framhaldi aðild, sé ekki “töfralausn” hvað varðar núverandi ástand, varðar hún leið til framtíðar sem auðveldar framhaldið.
Höfum í huga að það að sækja ekki um aðild er engin “töfralausn” heldur og að mínu viti ekki nein lausn á neinu.
Með aðildarumsókn að ESB verður strax til vegvísir um hvert Ísland stefnir.
Aðildarumsókn, og væntanlega aðild, setur skýran ramma um uppbyggingu nýs Íslands sem er skýr og skiljanlegur í alþjóðlegu samhengi sem uppbygging án aðildar og aðildarumsóknar getur ekki gert. Vegvísir aðildarumsóknar verður þannig ekki síst til þess að mynda traust á alþjóða vettvangi og auðvelda alla uppbyggingu til framtíðar.
Fullyrðingin um að ESB-aðild sé ekki brýnt verkefni og aðrir hlutir eigi að hafa forgang er einfaldlega röng. Hins vegar er engin ástæða til þess að bíða með aðrar aðgerðir í efnahagsmálum á meðan að komist er að niðurstöðu hvað varðar ESB.
Allar aðgerðir, í bráð og lengd, og væntanlegur árangur þeirra, munu verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum þeirrar ákvörðunar.
Án aðildarumsóknar verður núverandi ástand viðvarandi mun lengur. Uppbygging mun taka lengri tíma og haftaástand mun verða viðvarandi til lengri framtíðar. Það í sjálfu sér hefur þau áhrif að EES-samstarfinu kynni að vera ógnað. Án virks fjórfrelsis er EES-samningurinn ekki svipur hjá sjón
Að auki mun aðildarumsókn strax hafa áhrif á samningsstöðu okkar hvað varðar vaxtakjör vegna uppgjörs ICESAVE. Aðildarumsókn mun einnig hafa áhrif á uppgjör við aðra kröfuhafa í gömlu bankana og mun að öllum líkindum verða til þess að auðvelda framkvæmd yfirtöku erlendra kröfuhafa á nýju bönkunum.
Eitt stærsta hagsmunamálið í þessu samhengi snýr síðan að peningamálum. Íslenska krónan hefur sýnt sig að mega sín lítils í umróti alþjóðlegra viðskipta, sérstaklega þegar gefur á. Framtíðarskipan peningamála þjóðarinnar verður að koma í ásættanlegan farveg.
Rétt er að minna hér á að Ísland uppfyllir í dag öll skilyrði aðildar að Evrópusambandinu. Ísland uppfyllir auk þess öll skilyrði til þátttöku í peningasamstarfi Evrópusambandsins. Ísland uppfyllir hins vegar ekki öll skilyrði til upptöku evrunnar, það er um verðlagsþróun, stöðu ríkisfjármála, gengisþróun og langtíma vaxtaþróun.
Aðild að ESB, og í kjölfarið aðild að peningasamstarfi þess er hin ábyrga og trúverðuga leið Íslands til þess að skjóta traustari stoðum undir íslenskt hagkerfi og efnahagslíf. Sú leið mun leiða til þess að við getum tekið upp alþjóðlega mynt, með öllum þeim kostum sem því fylgja. Kostum sem vega mun þyngra en hugsanlegir ókostir.
Aðrar leiðir eru tálsýn. Einhliða upptaka er ekki trúverðugur kostur – ekki nema menn vilji annað hvort endurvekja gamla sáttmála og ganga noregskonungi á hönd, nú eða snúa sér í vesturátt og verða nýtt Púerto Ríkó!
Fullveldi, áhrif og staða
Þegar rætt er um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu eru þrjú atriði til víðbótar sem þarf að nefna: Fullveldi, hugsanleg áhrif Íslands innan ESB og staða okkar í samfélagi þjóðanna.
Vissulega felst í ESB aðild ákveðið framsal á fullveldi, en önnur áhrif koma í staðin og hið yfirþjóðlega vald er temprað. Það er lengi hægt að velta fyrir sér hvers virði fullveldið var hér síðastliðið haust í upphafi bankakrísunnar.
Nauðsynlegt er líka að gera sér grein fyrir að hið klassíska fullveldi er þegar orðið takmarkað hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Enda er það svo að færa má rök fyrir því að þvert á röksemdir ESB-andstæðinga muni fullveldi Íslands frekar aukast við aðild m.v. núverandi aðstæður.
Við skulum líka hafa í huga að hugtak eins og fullveldi er hlutfallslegt í eðli sínu og er merkingarlaust á samhengis við einhver samskipti og samband milli aðila. Maður á eyðieyju getur verið fullkomlega frjáls og algerlega fullvalda – en slíkt frelsi og fullveldi er merkingarlaust.Áhrif Íslands og íslendinga innan ESB er einnig eitthvað sem menn hafa talið erfitt að sjá fyrir. Á heimasíðu Heimssýnar – hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum segir svo um hugsanleg áhrif Íslands innan ESB:
“Það er skemmst frá því að segja að áhrif Íslands innan Evrópusambandsins, yrði af íslenskri aðild, yrðu svo gott sem engin. Sú meginregla gildir innan sambandsins að vægi einstakra aðildarríkja, og þar með allir möguleikar þeirra til þess að hafa áhrif innan þess, fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Ljóst er að þetta fyrirkomulag myndi seint henta hagsmunum Íslendinga enda flest aðildarríki Evrópusambandsins milljónaþjóðir og í sumum tilfellum tugmilljónaþjóðir á sama tíma og Íslendingar eru aðeins rúmlega 300 þúsund.”
Þetta er viðhorf sem endurspeglar grundvallarmisskilning á alþjóða samstarfi almennt og evrópusamstarfi sérstaklega.
Það er einfaldlega þannig að þegar fulltrúar aðildarríkja ESB sitja saman á fundum að þá sitja þar 27 fulltrúar – einn fulltrúi, ein rödd. Geta fulltrúa Íslands til að færa rök fyrir máli sínu er þannig mikilvægara en hve nákvæmlega mörg atkvæði hann vigtar. Það er alltaf meginmarkmið að ná sátt í málum og þau skipti sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram þar sem reynt hefur á atkvæðavægið eru fá. Ef eitthvað, þá hefur hallað á stóru ríkin í þeim efnum.
Áhrif þjóða í ákveðnum málaflokknum fara ennfremur frekar eftir hagsmunum þeirra en mannfjölda. Þannig er augljóst að við aðild yrði Ísland ein af þremur stærstu sjávarútvegsþjóðum Evrópusambandsins. Vigt landsins og áhríf í þeim málaflokki yrði í samræmi við þá staðreynd.
Reynsla Íslands af því Evrópusamstarfi sem við eigum hvað beinastan þátt, Schengen-samstarfinu, hefur sýnt að þegar þar situr fulltrúi sem er vel undirbúin og veit um hvað hann er að tala, að þá eru áhrif okkar töluverð. Ljóst er að á Schengen vettvanginum að minnsta kosti er sjónarsviptir af brotthvarfi Björns Bjarnasonar.
Staða Íslands í samfélagi þjóða mun verða fyrir verulegum áhrifum af því hvert við stefnum í Evrópumálum. Aðildarumsókn og síðan aðild munu leika lykilhlutverk í því að endurbyggja ímynd og áhrif Íslands á alþjóðavettvangi. Í augnablikinu er Ísland í þeirri stöðu að okkur er vantreyst, enginn veit hvert við stefnum eða hvað við ætlum að gera. Eins og ég sagði hér áður gefur aðildarumsókn og aðild skýra vísbendingu um hvert við stefnum og eftir hvaða leikreglum við hyggjumst fara.
Í orðræðum undanfarinna vikna hafa oft komið upp vangaveltur um hvort orð og æði háttsettra ráða- og embættismanna við upphaf bankahrunsins hafi orðið til þess að gera illt verra og jafnvel orðið til þess að gefa bretum tilefni til að beita Landsbankann hryðjuverkalögum. Það er verðug umræða og án efa töluvert til í því. Það sem hins vegar hefur upp á vantað í þeim vangaveltum eru hvaða áhrif áframhaldandi upphrópanir og vangaveltur meðal ráðamanna þjóðarinnar um að við ættum helst ekki að standa við okkar skuldbindingar hafa á stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu.
Þingmenn til dæmis virðast stundum ekki átta sig á því að í alþjóðapólitísku samhengi þá er litið til þeirra sem ráðamanna.
Ég get síðan ekki látið hjá líða að nefna þá einkennilegu staðreynd að á þessum síðustu og verstu tímum, einmitt þegar að staða, ímynd og ásynd Ísland á erlendum vettvangi stendur hvað verst er hrópað mest um nauðsyn þess að fækka sendiráðum og skera niður íslensku utanríkisþjónustuna. Við erum í miðri stærstu alþjóðapólitísku kreppu lýðveldisins og þetta er það helsta sem mönnum dettur í hug.
Skynsemin í því er að minnsta kosti umdeilanleg!
Ekki afsláttarþjóð!
Ágætu fundarmenn,
Ég hef hér í nokkuð löngu máli tæpt á því helsta sem ég tel skipta máli í hinni íslensku Evrópuumræðu. Það er brýnt að fá úr því skorið hver framtíðarstefna Íslands verður í þessum efnum þar sem það mun óneitanlega hafa áhrif á það uppbyggingarstarf sem framundan er.
Það hefur löngum viljað loða við lýðveldið að við íslendingar viljum taka þátt í alþjóðasamstarfi með afslætti.
Við vildum ekki verða stofnaðilar að Sameinuðu þjóðunum. Hið glænýja lýðveldi var svo hlutlaust að það vildi ekki óhreinka sig með því að lýsa yfir samstöðu með bandamönnum gegn möndulveldunum.
Við gengum í NATO með því skilyrði að við þyrftum sjálfir ekkert að leggja til, jú nema vindblásna heiði á ystu nöf Reykjanesskagans.
Við gengum í EES og hreyktum okkur af því að hafa þar fengið allt fyrir ekki neitt.
Við áttum í varnarsamstarfi við Bandaríkin, sem á endanum lognaðist út af aðallega vegna okkar eigin þvermóðsku hvað varðaði kostnaðarþátttöku í því sem sneri að okkur sjálfum, eins og rekstri borgaralega hluta alþjóðaflugvallarins í Keflavík.
Við lendum í efnahagskreppu og bankahruni og það fyrsta sem okkur dettur í hug er að bjarga eigin skinni og skilja eftir með fullan skaða alla þá sem eru “af erlendu bergi brotnir.”
Auðvitað setur smæð okkar ákveðin takmörk. En við eigum að hafa stolt og metnað til þess að taka þátt í því alþjóðlega samstarfi sem okkur hugnast og samræmist okkar hagsmunum á þann hátt að sómi sé að.
Við eigum að vera “meðal þjóða þjóð.”
sunnudagur, 22. febrúar 2009
Hvaða verktakar?
Ögmundur gagnrýnir forvera síðan enn frekar, en það sem mig fýsir að vita er hvaða verktakar voru þetta? Ennfremur væri gaman að vita hvernig þeir voru valdir til verksins, hvaða sérþekkingu þeir höfðu fram að færa til þess og síðast en ekki síst, hversu háir eru reikningarnir.
Ætli Ögmundur, eða Guðlaugur Þór, séu ekki til í að upplýsa það? Svona í nafni opinnar stjórnsýslu og aukins gegnsæis?
Mikið væri það jákvætt ef góð og gild svör væru við þessum spurningum.
laugardagur, 21. febrúar 2009
Að hugsa hið óhugsandi
Almennt er talið að tvenn mjög afdrifarík mistök hafi verið gerð í síðustu heimskreppu sem verði að forðast nú. Í fyrsta lagi hafi fjárflæði í fjármálakerfi heimsins, þ.m.t. aðgengi að lánsfé úr seðlabönkum til viðskiptabanka ekki verið tryggt, og í öðru lagi var gripið til viðskiptahindrana og annarra lausna sem byggðu á hafta- og þjóðernisstefnu.
Hvað fyrri þáttinn varðar hafa ríki heims að mestu staðið sig nokkuð vel í að tryggja fjárflæði og aðgang að lánsfé úr Seðlabönkum til helstu bankastofnanna. Björgunaraðgerðir hafa verið settar af stað og bankar jafnvel í mörgum tilvikum þjóðnýttir í stað þess að setja þá í þrot. Vandinn er hins vegar sá að þetta hefur ekki dugað til. Það er m.a. vegna þess að traust er af skornum skammti og hafa fjármálastofnanir frekar hamstrað fé og haldið í stað þess að tryggja eðlilegar lánafyrirgreiðslur til atvinnulífsins.
Það á sér ýmsar skýringar, t.d. þá staðreynd að yfirfjárfestingar, ofurskuldsetningar, undirmálslán og skuldavafningar hafa unnið gríðarlegt skemmdarverk á hinu frjálsa markaðshagkerfi. Hér hefur misbeiting á eiginfjárstöðu fyrirtækja, EBIDTA-um og Excel-leikfimi átt ríkan þátt í því hruni sem orðið er. Um allt fjármálakerfið liggja eitruð lán og fjármálagjörningar og því miður reyndust undirmálslán til húsnæðiskaupa í Bandaríkjunum rétt toppurinn á ísjakanum. Jafnframt hafa hrein fjársvikamál af ótrúlegum stærðargráðum komið upp.
Töluvert er því til af peningum, en þeir eru ekki að skila sér í umferð. Verðfallið sem er fylgifiskur kreppunnar gerir það líka að verkum að verðmat á fyrirtækjum á markaði er vonlaust og þannig ekki hægt að meta veðhæfi til lánveitinga. Að sama skapi er erfitt fyrir þá sem þó eiga laust fé til fjárfestinga að gera ábyrg tilboð í þau fyrirtæki sem eru til sölu.
Því er lausafjárvandinn flóknari en svo að trygging fjárflæðis frá seðlabönkum dugi til. Þess vegna hafa stjórnvöld út um allan heim gripið inn í líka og eru að veita fé út í hagkerfið með “örvunar”-aðgerðum. Hins vegar á eftir að koma í ljós hver árangurinn verður og í augnablikinu lítið annað að gera en að vona það besta.
Hinn þátturinn snýr að tilhneigingu þjóða til haftastefnu og þjóðernishyggju þegar á bjátar í efnahagsmálum. Í upphafi fjórða áratugarins varð það ekki síst til þess að setja hagkerfi heimsins í baklás. Nú, ekki síður en þá, er lykillinn að efnahagslegri endurnýjun opin og frjáls heimsviðskipti þjóða í millum. Kenning David Ricardo um hlutfallslega yfirburði á jafn vel, ef ekki betur, við í dag en þegar hún var sett fram fyrir bráðum 200 árum.
Alþjóðleg viðskipti á vörum og þjónustu, og já, frjálst flæði fjármagns eru þrátt fyrir allt lífsnauðsynleg fyrir hagkerfi heimsins.
Alþjóðleg viðskipti þurfa, eins og önnur samskiptaverk mannanna að lúta ákveðnum leikreglum. Þeim verður best náð í alþjóðlegu samstarfi eins og innan alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og Evrópusambandsins.
Verndar-, hafta- og þjóðernisstefna einnar þjóðar leiðir til sambærilegra viðbragða viðskiptaþjóða hennar og svo koll af kolli. Það var þetta sem gerðist á fjórða áratug síðustu aldar. Verndar-, hafta og þjóðernisstefna í viðskiptum smitaðist yfir í stjórnmálin (eða var það öfugt?), sumstaðar með skelfilegum afleiðingum.
Það veldur því áhyggjum að farið er að bera á verndar-, hafta- og þjóðernisstefnu hér og hvar hjá þjóðum heims. Strax eru slíkir tilburðir farnir að valda spennu í pólitískum samskiptum milli ríkja, þar með talið innan Evrópusambandsins.
Eflaust kæta þau tíðindi andstæðinga ESB aðildar hér á landi, en þeim er hins vegar hollast að hafa í huga að ef draumur þeirra og spá um að ESB muni á endanum liðast í sundur (á sama tíma reyndar og þeir fullyrða að ESB sé að verða ofurríki, en þessar tvær fullyrðingar geta tæpast verið báðar sannar á sama tíma!) verða afleiðingar hrikalegar. Líka fyrir þau ríki sem standa utan sambandsins.
Það er athyglisvert að þegar í ræðu og riti er farið að minna á að síðasta kreppa hafi á endanum verið “leyst” með heilli heimstyrjöld. Nýjasti nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði, Paul Krugman, vísaði t.d. tvisvar til þessa í greinum sínum í New York Times í síðustu viku. Í annarri sagði hann eftirfarandi:
If you want to see what it really takes to boot the economy out of a debt trap, look at the large public works program, otherwise known as World War II, that ended the Great Depression. The war didn’t just lead to full employment. It also led to rapidly rising incomes and substantial inflation, all with virtually no borrowing by the private sector.
Í hinni sagði hann, “Well, the Great Depression did eventually come to an end, but that was thanks to an enormous war, something we’d rather not emulate.”
Sama var reyndar uppi á teningnum í grein Philip Stevens í Financial Times í vikunni, sem aðallega fjallaði um mikilvægi þess að ríkin innan ESB færu ekki út af braut fjórfrelsisins og yfir í þjóðernis- og verndarstefnu í efnahagsmálum. Bergmál lærdóma fjórða áratugar síðustu aldar ómar í þessum orðum:
I do not count myself among those who believe that the global recession is necessarily a prelude to political and social apocalypse. I have resisted the temptation to stock my cupboards with canned food and bottled water. War between European states remains an even more distant prospect. Most of them no longer have proper armies. Those that do are often reluctant to allow their soldiers out after dark.
The stresses, though, are real. The protectionist impulses across the Continent – from protests against foreign workers in Britain to “buy French” campaigns in Paris – are a reminder of why a generation of far-sighted leaders decided that peace and prosperity must be embedded in institutionalised co-operation.
The risk now is that, as the recession deepens, popular disturbances become self-sustaining: that a defensive move here fans the embers of nationalism there; that the single market unravels.
Það er því mikilvægt að vel takist til við það að vinna veröldina út úr þessari kreppu. Hér á Íslandi skulum við varast að glepjast á braut hafta- og verndarstefnu.
Og umfram allt ættu menn að forðast skaðaskemmtun yfir hugsanlegum óförum Evrópusambandsins í þessum alheimsefnahagshremmingum.
Sökudólgarnir þrír...
Undanfarin ár fylgdumst við með hálf-forviða hvernig annar hver maður varð allt í einu ríkur, og síðan ofur-ríkur. Íslenskir auðjöfrar spruttu upp úr nánast engu og urðu alþjóðlegir leikmenn á fjármálavöllum heimsins.
Það er því alveg nauðsynlegt að reyna að setja málið upp á sem einfaldastan hátt og hef ég verið að brjóta heilann um það undanfarið.
Niðurstaða mín í þeim vangaveltum er, að ef frá eru talin glannaskapur, greindarskortur og græðgi (G-in þrjú), þá eru sökudólgar krísunnar E-in þrjú: EBIDTA, Eigið fé og Excel.
Tökum mjög einfaldað dæmi:
Í gamla daga virkaði viðskiptalífið þannig að ef þú vildir eignast tekjugefandi eign sem kostaði þúsund krónur, þá fékkst þú í mesta lagi lán fyrir hugsanlega 800 krónum og lagðir sjálfur fram 200 krónur.
Gefum okkur að 800 króna lánið hafi verið á 5% vöxtum (kúlulán, þ.e. bara borgaðir vextir – engar afborganir) og árstekjurnar af 1000 króna eigninni 100 krónur að þá var kostnaðurinn af fjárfestingunni vextirnir af 800 kallinum, sem sagt 40 krónur.
Tekjur þínar voru þá 60 krónur, sem þýðir í þessu mjög svo einfaldaða dæmi að þú varst að fá 30% ávöxtun á eiginfjárframlagi þínu upp á 200 krónur.
Svo fór að losna um lánsfé þannig að svigrúm fór að myndast til að auka skuldsetninguna. Þú skuldsettir eignina upp í 900 krónur, vextir voru óbreyttir 5% og kostnaðurinn þannig orðinn 45 krónur á ári. Tekjur þínar eru núna 55 krónur, en það er 55% ávöxtun á eiginfjárframlagi þínu, sem nú er bara hundrað kall eftir hina auknu skuldsetningu.
En nú ertu hins vegar með 100 krónur í lausu fé til að gera aðra fjárfestingu, þannig að nú er hægt að bæta við annarri þúsund króna eign sem gefur af sér 100 krónur á ári – báðar að gefa af sér 55% ávöxtun á þínu eiginfjárframlagi. 200 krónurnar sem þú lagðir til eru að gefa af sér 110 krónur í hreinar tekjur á ári.
Nú er farið að vera virkilega gaman að vera til og því um að gera að setja dæmið upp í töflureikninum (Excel) og nota hugtak eins og EBIDTA. EBIDTA er skammstöfun á ensku orðunum yfir “tekjur fyrir vaxtagreiðslur, afskriftir o.s.frv.” en fyrir okkar dæmi er nóg að vita að hana má misnota til þess að rökstyðja “leiðréttingu” á virði eignarinnar í ljósi þess hvaða tekjum hún er að skila.
Af því að EBIDTA-n er svo fín, og þú ert að ná 55% arðsemi af þínu eiginfjárframlagi, þá er “augljóst” að eignin hlýtur að vera meira virði þar sem hún getur auðveldlega borið hærri skuldsetningu. Höfum líka í huga að þú hlýtur að vera komin með óefnislega eign eins og viðskiptavild af því að þú ert svo duglegur að fá tekjur af eigninni!
Því hlýtur næsta skref að vera það að þú sannfærir sjálfan þig, og bankann þinn, að í raun séu þessar tvær eignir sem þú keyptir á samtals 2000 krónur í reynd 4000 króna virði. Það þýðir að það hlýtur að vera allt í lagi að skuldsetja eignirnar upp á 3000 krónur.
Óbreyttir vextir og óbreyttar tekjur þýða að þú ert ennþá "bara" að borga 150 krónur í vexti á móti 50 krónum í hreinar tekjur þínar. Það er samt sem áður 25% hagnaður af þínu eiginfjárframlagi upp á 200 krónur og þú er komin með 1200 krónur í viðbót til að fjárfesta fyrir. 12 nýjar 1000 króna eignir!!!
Þú skuldsetur hverja fyrir 900 krónur. Borgar 45 krónur í vexti af hverri, en færð 55 krónur í tekjur. Samtals eru tekjur þínar orðnar 50 (tekjurnar af fyrstu tveimur eftir auknu skuldsetninguna) plús 12 (þessar nýju til viðbótar) sinnum 55 krónur (tekjurnar af hverri þeirra). Samtals eru þetta þannig orðnar 710 króna árstekjur. Og mundu, þú lagðir bara fram 200 krónur í upphafi til að setja þetta af stað!
Þetta setur þú upp í Excel töflureikninum þínum.
Gerir “copy-paste” nokkrum sinnum.
Og áður en þú veist af ertu búin að breytast “úr bjána-blönkum í breiðvaxinn milljóner.”
En....
Þetta gengur upp á meðan að þrjár forsendur halda
1. Tekjurnar af eignunum haldast stöðugar (eða hækka – og þá ber eignin frekari skuldsetningu)
2. Vextirnir haldast óbreyttir (eða lækka – og þá ber eignin frekari skuldsetningu)
3. "Markaðsvirði eignanna" helst óbreytt (eða hækkar – og þá ber eignin frekari skuldsetningu)
Síðastliðinn 6 ár hafa þessar þrjár forsendur haldið, og ef tækifæri var til að auka skuldsetningu var það gripið.
En svo allt í einu fóru þær að gefa sig.
Draumurinn sem byggði á mjög svo takmörkuðu eigin fé, hringli með EBIDTA og misbeitingu á Excel breytist í martröð á augabragði.
Áhættan var orðin yfirgengileg, ekkert svigrúm var til staðar fyrir niðursveiflur og spilaborgin hrundi.
----------------------------
Ég ítreka að hér er um að ræða verulega einfaldaða uppsetningu sem er vonandi til að hjálpa til við að skýra málið. Laun og skattar, rafmagn, ljós og hiti o.s.frv. o.s.frv. er öllu sleppt til að hafa dæmið sem einfaldast og auðskiljanlegast. Vona að það hafi tekist. Athugsemdir, ábendingar og leiðréttingar í kommentakerfið væru hins vegar afskaplega vel þegnar.
föstudagur, 20. febrúar 2009
Þunnur ís Framsóknar
Illt umtal um flokkinn og stuðningsmenn hans hefur verið að mestu óverðskuldað – og ef eitthvað hefur verið verðskuldað hefur það verið lítið öðruvísi en það sem tíðkast hefur í almennt í pólitískum kúltur hérlendis (það er hins vegar engin réttlæting!).
Fyrir þá 99.99% framsóknarmanna sem eru heiðarlegir og vinnusamir hugsjónamenn og -konur hefur þetta umtal tekið á.
Töluverð gerjun og þung undiralda hefur verið í flokknum lengi. Í haust fór þessi gerjun vaxandi og aldan þyngdist. Bankahrunið og efnahagskreppan urðu síðan til þess að ekki varð lengur haldið aftur af breytingarbylgjunni innan flokksins.
Ungir framsóknarmenn (og nokkrir eldri hundar) risu upp gegn forystu flokksins með eftirminnilegum hætti og á miðstjórnarfundi í nóvember var ákveðið að flýta flokksþingi og m.a. taka þar ákvörðun í Evrópumálum.
Atburðir í framhaldi þess miðstjórnarfundar urðu lyginni líkastir, en formaður flokksins sagði óvænt af sér tveimur dögum eftir miðstjórnarfund og hvarf úr landi í frí. Varaformaður tók við en lýsti því yfir að hún myndi ekki sækjast eftir að sitja sem formaður í kjölfar flokksþings. Fram kom óvænt framboð í formann flokksins. Flokksþing gerði hið óvænta – algerlega var skipt um forystu (og jú Framsóknarflokkurinn samþykkti að vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu).
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Flokkurinn virtist rísa úr öskustónni. Framsóknarmenn um land allt lyftu höfðinu hærra – margir fyrrum félagar sneru aftur til flokksins. Fylgið tók stökk í skoðanakönnunum.
Nýr formaður og þingflokkur umpóluðu íslenskum stjórnmálum með því að bjóðast til að verja minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna vantrausti, með ákveðnum skilyrðum, ef Samfylking sliti þáverandi samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.
Fortíðin hefur hins vegar ekki alveg sagt skilið við flokkinn.
Í stjórnarmyndunarviðræðunum fékk flokkurinn að finna fyrir því hvað hann er í raun enn á þunnum ís hvað varðar ímynd sína og umbreytingu. Þegar þingflokkurinn fékk loks nýjan stjórnarsáttmála, eða aðgerðaáætlun, nýrrar ríkisstjórnar í hendurnar var strax farið að herma upp á flokkinn að vilja tefja málið. NB flokkurinn sem var ástæða þess að yfirhöfuð var kostur á myndun nýrrar ríkisstjórnar átti allt í einu að vera orðinn flækjufóturinn í ferlinu. Ekkert var eins fjarri sannleikanum.
Samt virtist ótrúlega auðvelt að koma því inn hjá fólki og fjölmiðlum að eitthvað “óeðlilegt” væri við sjálfsagða kröfu Framsóknarflokksins um að staðið væri við upphafleg skilyrði flokksins hvað varðaði stuðning.
Ný Framsókn var ekki að fá neina hveitibrauðsdaga.
Og staðreyndin er sú að Framsóknarflokkurinn er áfram á þunnum ís.
Þess vegna eru fregnir eins og sú sem barst af móttöku borgarfulltrúans Óskars vinar míns Bergssonar frá því í nóvember ekki heppileg. Það má vel vera að hún hafi verið innan “réttar” hans embættis að fá hana kostaða af borginni, en það var dómgreindarskortur engu að síður, sérstaklega þar sem hér var víst bara um móttöku fyrir framsóknarmenn í sveitarstjórnum að ræða. Þó hún hafi kostað lítið, um 90 þúsund krónur skildist mér af fréttum, þá er það aukaatriði.
Upphæðin gerir þetta í reynd ennþá hallærislegra. Ef þarna voru mættir um 35 manns þá gerir þetta u.þ.b. 2600 krónur á mann, sem ég leyfi mér að efast um að þátttakendur hefðu ekki vel getað pungað út fyrir sjálfir.
Að sama skapi er svar Óskars við því hvort hann hafi fengið stuðning frá Eykt ekki fullnægjandi. Það er kannski skiljanlegt þar sem á þeim tíma sem hugsanlegur stuðningur á að hafa verið veittur lágu ekki fyrir neinar reglur um birtingu slíkra upplýsinga og engin hefð fyrir því þá að stjórnmálamenn skilyrtu við móttöku fjárframlaga í kosningasjóði að slíkt yrði birt.
Mér þykir hins vegar ólíklegt annað en að Eykt sé tilbúið að gangast við því að hafa stutt Óskar, hafi svo verið, a.m.k. án þess að upphæðar sé getið. Óskari er í lófa lagið að lýsa því jafnframt yfir að þau fjárframlög sem hann hefi þegið í kosningasjóði hafi verið án skuldbindinga og hann hafi aldrei látið slíkt hafa áhrif á afstöðu sína við afgreiðslur mála í þeim trúnaðarstöðum sem hann hefur gegnt á vegum borgarinnar – og hef ég enga ástæðu til að efast um það.
Það er óþolandi fyrir stjórnmálamenn að sitja undir ávirðingum að hafa eitthvað óhreint í pokahorninu. Þess vegna er það alveg laukrétt hjá Óskari þegar hann segir að það sé “algjörlega nauðsynlegt fyrir alla aðila að leikreglur séu skýrar.”
Það á að vera almenna reglan að stjórnmálamenn, og þeir sem sæki eftir sætum á lista framboða, upplýsi um hagsmuna- og fjármálatengsl.
Þetta er nauðsynlegt fyrir alla stjórnmálaflokka, ekki síst Framsóknarflokkinn. Sífelldar ávirðingar um spillingu og óeðlileg hagsmunatengsl sem ráði pólitískum afgreiðslum eru með öllu óþolandi.
Það er hins vegar rétt í þessu samhengi að minna á að það var þingflokkur Framsóknarflokksins, fyrstur flokka, sem á síðasta kjörtímabili tók sig til og birti allar upplýsingar um hagsmuna- og fjármálatengsl. Ég man ekki til að aðrir stjórnmálaflokkar hafi gert slíkt hið sama.
Fyrir sjálfan mig er þetta nokkuð auðvelt. Ég hef engin sérstök hagsmunatengsl. Ég á hvorki hlutabréf né skuldabréf. Ég er með lán í tveimur íslenskum bönkum, bæði verðtryggð og í erlendri mynt og er með bílafjármögnun hjá einum þeirra aðila sem býður slíkt. Ég skulda námslán.
Ég er einn þeirra þúsunda íslendinga sem fyrir rúmu ári átti fasteign þar sem eignin var töluvert umfram skuldir, en horfi nú upp á óhugnanlegan eignabruna vegna annars vegar verðtryggingaráhrifa á þau verðtryggðu lán sem hvíla á fasteigninni og hins vegar vegna almenns verðhruns á fasteignamarkaði. Að sama skapi er ég einn þeirra þúsunda íslendinga sem er með erlent lán sem hefur margfaldast vegna hruns íslensku krónunnar.
Í þessum staðreyndum liggja kannski mín helstu hagsmunatengsl.
Ég hef ekki sóst eftir neinum styrkjum eða fjárhagslegum stuðningi vegna framboðs míns til fyrsta sætis á lista Framsóknarflokksins í Norðvestur kjördæmi.
Ég geri ekki ráð fyrir (og hef ekki efni á) að eyða í framboð mitt meiri pening en að borga bensín á bílinn til að geta mætt á fundi.
(Því verð ég að viðurkenna að þegar Sjálfstæðisflokkurinn biður frambjóðendur í prófkjörum að gæta hófs og eyða ekki meiru en sem nemur 2,5 milljónum í prófkjörsbaráttur sínar hver, að þá fallast mér alveg hendur. Tvær og hálf milljón í prófkjör að gæta hófs! Á hvaða plánetu er þessi flokkur? Hefði ekki verið nær lagi að m.v. a.m.k. tífalt minni upphæð?)
miðvikudagur, 18. febrúar 2009
Súr varnarmálaber
Í erindi sínu kemur hann inn á nýútgefna skýrslu Thorvald Stoltenberg og þá möguleika sem þar er velt upp um aukið samstarf Norðurlandanna, einkum á sviði öryggis- og varnarmála.
Rétt er að taka fram að skýrsla Stoltenbergs er unnin að ósk og frumkvæði utanríkisráðherra Norðurlandanna. Hann ber þó einn ábyrgð á niðurstöðum og tillögum þeim sem þar eru settar fram, og þegar er ljóst að þær eru margar hverjar mjög umdeildar. Skýrslan er þó gott veganesti til framtíðar og mun án efa hjálpa til við að þroska og móta samstarf þjóðanna á þessu sviði, sem þegar er töluvert.
Fyrir Ísland er aukið samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála æskilegt af ýmsum ástæðum. Ekki þó síst af pólitískum ástæðum þar sem öryggis- og varnartengd verkefni hafa ætíð átt erfitt uppdráttar í pólitískri umræðu hér innanlands. Alvöruleysi, útúrsnúningar og sjálfhverfa hafa oftar en ekki orðið ofan á í umræðu um þessi mál. Nokkuð sem Björn Bjarnason þekkir vel frá gamalli tíð.
Þess vegna vekur erindi hans nokkra furðu. Margt er þar ágætt, en ýmislegt orkar þar verulegs tvímælis svo ekki sé meira sagt.
Eitt af því sem skýrsla Stoltenbergs endurspeglar ágætlega er sú staðreynd að á hinum Norðurlöndunum er almenn sátt um þá stefnu að til staðar þurfi að vera varnar og hervernd á friðartímum. Það kemur fram í þrennu, í fyrsta lagi þeirri einföldu staðreynd að hann veltir hvergi upp þeim möguleika að varnir séu óþarfar, í öðru lagi að hann hvetur til aukins samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála, og í þriðja lagi, sem snertir okkur íslendinga beint, hvetur hann til þess að Norðurlöndin öll komi sameiginlega að loftrýmiseftirliti- og gæslu við Ísland. Stoltenberg eyðir ekki tíma í að velta vöngum yfir hvort þess sé þörf, hann virðist ganga út frá því sem gefnum hlut.
Björn Bjarnason hins vegar velur að túlka þessa tillögu Stoltenbergs sem eitthvað allt annað. Hún sé eingöngu til þess að draga Svíþjóð og Finnland nær NATO. Björn segir:
Ég les tillögur Stoltenbergs um norræna ábyrgð á loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu yfir Íslandi á þann veg, að með henni sé hann að skapa ný tengsl Finna og Svía við NATO, því að bandalagið mun ekki láta af hernaðarlegri varðstöðu á N-Atlantshafi, auk þess sem hann væntir þess, að Íslendingar láti sig hernaðarlegan þátt eigin öryggis beint varða.
Þannig að hugsanleg þátttaka Svía og Finna í loftrýmisgæsluverkefni við Ísland m.v. túlkun Björns Bjarnasonar líklegast ekki vegna þess að verkefnið sjálft eigi rétt á sér, út frá öryggis- og varnarforsendum, heldur til þess að opna þeim einhverja bakdyraleið inn í Atlantshafsbandalagið!
Björn augljóslega hefur ekkert álit á loftrýmisgæslu NATO við Ísland, enda segir hann í beinu framhaldi af ofangreindri tilvitnun:
Eins og kunnugt er urðu hermálayfirvöld NATO og einstakra NATO-ríkja við þeirri ósk íslenskra stjórnvalda að senda hingað reglulega flugsveitir til að sinna loftrýmiseftirliti. Ég tel, að þetta eftirlit þjóni fyrst og síðast pólitískum tilgangi. Með því minnir NATO á, að hér er um háloftasvæði bandalagsríkjanna að ræða og nú vill Stoltenberg, að norrænu ríkin utan NATO verði einnig þátttakendur í að helga sér þetta svæði.
Ef um væri að ræða beinar land- eða nærvarnir Íslands, ætti að grípa til annarra ráðstafana en þeirra að kalla öðru hverju til flugveitir frá öðrum ríkjum. Þessar varnir yrðu best tryggðar með meðaldrægum loftvarnaflaugum á suðvestur horni landsins, eins og bent var á strax við brottför Bandaríkjahers héðan.
Þetta er merkileg yfirlýsing frá fyrrum dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Geir, sem þáverandi forsætisráðherra, óskaði eftir því við bandalagið á leiðtogafundi þess í Riga í Lettlandi haustið 2006 að það kannaði hvort og með hvaða hætti loftrýmiseftirliti og –gæslu yrði háttað við Ísland í kjölfar brotthvarfs Bandarísks varnarliðs.
Þeirrar hinnar sömu ríkisstjórnar sem hafði allt fram til hinsta dags í samningaviðræðum við Bandaríkin haldið fram mikilvægi þess að hér yrðu staðsettar fjórar orrustuþotur árið um kring til að gæta íslensks loftrýmis. Rétt eins og ríkisstjórnir þar á undan allt síðan 1991 höfðu gert, og gott ef Björn Bjarnason var ekki ráðherra í þeim öllum.
Hér kemur s.s. á daginn að það var líka óþarfi. Nóg hefði verið að setja hér upp meðaldrægar loftvarnarflaugar!
Svo því sé haldið til haga að þá er fyrirkomulag loftrýmisgæslu hér á landi sérlausn fyrir Ísland sem nokkurs konar undanþága frá þeirri almennu reglu að loftrýmisgæsla sé virk 24 tíma sólarhringsins allt árið um kring innan bandalagsins.
Rétt er líka að nefna hér að kostnaður þeirra ríkja sem koma til Íslands og sinna loftrýmisgæslu er margfalt hærri en sá kostnaður sem lendir á íslenska ríkinu. Það er hæpið að þær þjóðir sem hingað koma og sinna þessu verkefni geri það eingöngu af einhverri pólitískri greiðasemi.
Það sem vekur þó mesta athygli mína eru hnýtingar ráðherrans fyrrverandi út í tilvist Varnarmálastofnunnar. Það byrjar strax í upphafi erindis hans þegar hann fullyrðir að “Varnarmálalögin hafa að markmiði að tryggja forræði utanríkisráðuneytisins á hernaðarlegum öryggismálum þjóðarinnar eftir brottför varnarliðsins.“ Ráðherrann fyrrverandi virðist s.s. hafa upplifað setningu laganna sem stofnanalega refskák milli ráðuneyta, en ekki sem rökrétta stjórnsýslulega leið til að skipa varnarmálum í ákveðin farveg.
Þetta er athyglisvert m.a. í ljósi þess að um áramótin 2007/8 var sett ný reglugerð um stjórnarráð Íslands, nokkrum mánuðum áður en að varnarmálalög voru samþykkt, þar sem kemur fram í 12 gr. undirlið 10 að utanríkisráðuneytið fari með:
Varnarmál, aðild að Atlantshafsbandalaginu (NATO), varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna, samskipti og samstarf við erlend ríki, hermálayfirvöld og alþjóðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála, varnarsvæði, öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og önnur öryggissvæði, rekstur mannvirkja og eigna Atlantshafsbandalagsins á Íslandi, þ.m.t. íslenska ratsjár- og loftvarnakerfið (IADS).
Rétt er að hafa í huga að áratugum saman hafa varnarmál verið á forræði utanríkisráðuneytisins. Þar hefur starfað sérstök varnarmálaskrifstofa, sem hafði m.a. það meginverkefni að sinna daglegum samskiptum við bandaríska varnarliðið. Utanríkisráðuneytið hefur rekið fastanefnd Íslands hjá Atlantshafbandalaginu og þannig er ljóst að einungis innan utanríkisráðuneytisins hafði byggst upp á löngum tíma reynsla og þekking á varnarsamstarfi við önnur ríki, hvort heldur sem var á tvíhliða eða fjölþjóða vettvangi.
Ný reglugerð um stjórnarráðið festi þessa hefð í sessi með formlegum hætti og má segja að varnarmálalögin hafi verið rökrétt afleiðing þess. Fullyrðingin um að lögunum sem slíkum hafi verið ætlað að tryggja forræði utanríkisráðuneytisins yfir málaflokknum er þannig kjánaleg. Sá “slagur” var löngu yfirstaðinn, ef hann var yfirhöfuð einhvern tíma raunverulegur.
Björn heldur hins vegar áfram hnýtingum í stofnunina og segir “Við framkvæmd varnarmálalaganna hefur nýtt, ólögbundið stofnanaheiti komið til sögunnar, það er Varnarmálastofnun Íslands og út á við getur enginn efast um, að henni sé í raun ætlað hernaðarlegt hlutverk.”
Ekki er alveg hægt að skilja hvað ráðherrann fyrrverandi á við með “ólögbundnu stofnanaheiti”. Í varnarmálalögum er tekið fram í 6. grein að “Ríkið starfrækir sérstaka stofnun, undir yfirstjórn utanríkisráðherra, sem nefnist Varnarmálastofnun” Hugsanlega er ráðherrann fyrrverandi með þessu að hnýta í þá staðreynd að eftir samþykkt laganna hefur við lögbundið heiti stofnunarinnar verið bætt við þjóðkenningunni “Íslands”.
Í þessari sömu setningu reynir hann jafnframt að hervæða stofnunina af því “að henni sé í raun ætlað hernaðarlegt hlutverk” Litlu síðar segir hann “Ég sé ekki hvaða hag NATO hefur af því að gera kröfu til þess, að íslenska utanríkisráðuneytið stofni til hernaðarlegrar starfsemi undir dulnefni til að sinna verkefnum í þágu bandalagsins hér á landi.”
Hvað er ráðherrann fyrrverandi að fara? Hér er hann að búa til einhverja herímynd á Varnarmálastofnun, væntanlega í þeim tilgangi einum að ala á einhverri tortryggni. Enda segir hann síðar:
Í skýrslu sinni víkur Stoltenberg að þeirri breytingu, sem varð við brottför bandaríska varnarliðsins héðan frá Íslandi. Hann segir, að síðan hafi íslensk yfirvöld (varnarmálastofnun) borið ábyrgð á rekstri aðstöðunnar á Keflavíkurflugvelli og ratsjárkerfinu sem sinnir loftrýmiseftirliti og þá segir: „Ísland hefur notið hagnýtrar aðstoðar frá Danmörku og Noregi við þjálfun þess íslenska starfsfólks sem starfar á þessum vettvangi.“
Ástæða er til að staldra við þessi orð og minna á, að með varnarmálastofnun var lagt af stað á þeim grunni, að Íslendingar ættu aðeins að sinna þar borgaralegum verkefnum, eins og þeir hefðu gert, á meðan bandaríska varnarliðið var hér. Hafi ný þjálfun komið til sögunnar í samvinnu við Dani og Norðmenn er ástæða til að velta fyrir sér, hvort að hún hafi verið „varnartengd“, svo að notað sé hugtak utanríkisráðuneytisins yfir hernaðarleg viðfangsefni.
Hér fer ráðherrann fyrrverandi út á einhverja furðulega braut hártoganna um hugtök, orð og orðþýðingar. Það getur verið munur á varnartengdri starfsemi og hernaðarlegri starfsemi. “Defense” er merkingarmeira orð en “military” í enskri tungu, og sama á við í íslenskunni um varnir annars vegar og her hins vegar.
Ráðherranum fyrrverandi til upplýsinga þá er sjálfsagt að greina frá því hér að sú þjálfun sem fengist hefur m.a. frá norðmönnum og dönum hefur snúið að ákveðnum þáttum í rekstri og umsýslu loftvarnarkerfisins, þ.m.t. þætti er lúta að samskiptum milli borgaralegra starfsmanna Varnarmálastofnunnar við þeirra gagnaðila innan herstjórnarkerfa okkar bandalagsríkja og framkvæmd loftrýmiseftirlits samkvæmt NATO-stöðlum. Verklagsreglur Ratsjárstofnunnar fyrrverandi voru á sínum tíma eftir bandarískum stöðlum. Starfsmenn Varnarmálstofnunnar sinna þannig t.d. loftrýmiseftirliti, sem er varnartengt verkefni, en stýra ekki aðgerðum orrustuþotna, sem er hernaðarlegt verkefni.
Þetta eru hins vegar núansar sem ekki er auðvelt fyrir leikmenn að skilja, sérstaklega þá sem hafa ekki fyrir því að kynna sér málið en vilja frekar ala á tortryggni með útúrsnúningi og orðhengilshætti.
Það er margt fleira sem ég gæti hugsað mér að hnýta í þetta erindi Björns Bjarnasonar. Ég vil þó taka undir með honum að veg Landhelgisgæslu Íslands vil ég gjarnan sjá sem mestan og bestan. Í samstarfi Varnarmálastofnunnar og Landhelgisgæslunnar mætti ná fram miklu hagræði fyrir báða aðila. Það skaut því skökku við að dómsmálaráðherrann fyrrverandi skildi við Landhelgisgæsluna févana, með skip sem varla geta siglt og þyrlur sem varla geta flogið. Sér er nú hver metnaðurinn.
Að sama skapi er það merkileg staðreynd að undanfarið ár hefur það verið dómsmálaráðuneytið sem hefur staðið leynt og ljóst í vegi fyrir eðlilegu og gagnkvæmt hagfelldu samstarfi Varnarmálastofnunnar og Landhelgisgæslunnar, sem m.a. sést á þeirri staðreynd að enn kúldrast Landhelgisgæslan með allan sinn flugflota í óhentugu og aðþrengdu húsnæði á Reykjavíkurflugvelli á meðan að henni hefur staðið til boða fyrirmyndaraðstaða í NATO-flugskýli á Keflavíkurflugvelli.
Dómsmálaráðuneyti Björns Bjarnasonar stundaði sömuleiðis einhvern undarlegan skæruhernað gegn stofnuninni með því m.a. að standa að gerð dæmalauss minnisblaðs um einhvern ímyndaðan sparnað á rekstri loftvarnarkerfisins með því að færa verkefni hennar í Skógarhlíð og þá væntanlega til Neyðarlínunnar. Þetta sjónarmið endurspeglast í erindi ráðherrans fyrrverandi þegar hann segir undir lokin að “Fjármunum til öryggismála verði varið til þess frekar en til að reka varnarmálastofnun, enda geta borgaralegar stofnanir tekið við verkefnum hennar.”
Þessi fullyrðing er einfaldlega röng. Á meðan að Ísland er í varnarsamstarfi vestrænna þjóða að þá gilda í því samstarfi ákveðnar leikreglur. Varnarmál eru mikilvægari og alvarlegri mál en svo að hægt sé að nálgast þau ábyrgðarlaust og með annarlega hagsmuni í fyrirrúmi. Fyrrgreint minnisblað, sem fengið hefur verulega umfjöllun í fjölmiðlum, var illa unnið, byggt á forsendulausum ágiskunum og með svo gríðarlegum skekkjum að það var ekki hægt að taka það alvarlega. Bara með því að leiðrétta einföldustu reiknivillur var kostnaður við rekstur núverandi loftvarnarkerfis við flutning í Skógarhlíð orðin dýrari en reksturinn er í dag á höndum Varnarmálastofnunnar. En áfram er þvælan tuggin.
Eftir brotthvarf bandarísks varnarliðs frá Íslandi er eins og margir þeir sem það studdu hér áður fyrr hafi alveg tapað áttum þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Þeir hinir sömu sem áður vildu varið land hafa nú allt á hornum sér og vilja helst ekkert af varnarmálum vita. Biturðin yfir því sem þeim fannst vera óbilgirni og ósanngirni Bandaríkjamanna í þeim viðskilnaði endurspeglar líka þá sorglegu staðreynd að menn eru enn í afneitun um að sú atburðarrás öll var meira og minna sjálfsköpuð.
miðvikudagur, 11. febrúar 2009
Hvernig hagfræðing?
sunnudagur, 8. febrúar 2009
Hitler forsætisráðherra?
Í þessu samhengi er ágætt að minnast færslu í dagbók fyrrverandi dómsmálaráðherra frá því fyrir rúmu ári síðan, en þar segir m.a.:
"...hefðu fréttamennirnir mátt rifja upp orðin, sem höfð eru eftir bandaríska heimspekingnum Leo Strauss: Umræðum eða deilum lýkur, þegar annar aðilinn tekur að líkja hinum við Hitler og nasista."
Er þetta þá ekki búið?
En kannski er það ekki tilvísunin hjá bankastjórnarformanninum. Kannski er hann að vísa til Radovans Karadzic eða Slobodan Milosevic, og þá hlýtur málið að horfa allt öðruvísi við!
Nú, eða kannski er bara hér um að ræða meinlaust líkingamál og ólíklegt að "...menn leggi slíkt líkingamál að jöfnu við að kenna verk eða skoðanir manna við Hitler."
Þetta basl er öllum til minnkunar. Eitthvað verður undan að láta og ég vona að það verði ekki land og þjóð.
Fögur er hlíðin...
laugardagur, 7. febrúar 2009
ESB-aðild hefði bjargað miklu
föstudagur, 6. febrúar 2009
Hvalveiðar
Rétt er að taka fram strax að ég styð ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra um að gefa út kvóta vegna hvalveiða.
Veiðar á hval eru í samræmi við sögu okkar, hefðir og ábyrga stefnu um sjálfbærni í nýtingu auðlinda hafsins.
Útgefinn kvóti er langt innan þeirra marka sem teljast þolandi fyrir viðkomandi hvalastofna út frá sjónarmiðum sjálfbærni.
Gagnrýni á ráðherrann fyrrverandi um að óeðlilegt sé að taka slíka ákvörðun á sama tíma og hann hreinsar úr skúffum sínum í ráðuneytinu og tekur pokann sinn er skiljanleg.
Ákvörðunin hefur þannig yfir sér ákveðinn blæ pólitísks leikaraskapar, sem hefur meira að gera með pólitískt framhaldslíf ráðherrans fyrrverandi í Norðvesturkjördæmi en efnilegar forsendur hennar.
Gagnrýna má jafnframt að eðlilegra hefði verið að taka þessa ákvörðun fyrr og kjarkinn hafi vantað hjá ráðherranum til ákvarðanatöku alveg þar til hann sá fram á snemmbúið prófkjör og kosningar.
Á móti kemur að ákvörðunin er engu að síður tekin í rökréttu samhengi við opnun á markaðsaðgangi fyrir hvalkjöt á Japansmarkað.
Ákvörðun fyrr hefði þannig byggt á veikari grunni., þ.e.a.s. ekki hefðu legið neinar markaðsforsendur fyrir ákvörðuninni.
Leyfilegt veiðimagn sætir einnig gagnrýni. Hér mælir reglugerðin þó einungis fyrir að fylgt sé veiðiráðum Hafrannsóknarstofnunnar, svo vart halda þau rök.
Þó halda megi því fram að full bratt sé farið hvað varðar langreyði að fara úr 7 í 150 dýr, má telja næsta víst að öll stórhvalaveiði verður fyrir mikilli gagnrýni, sama hver fjöldi veiddra dýra verður.
Höfum í huga að afstaða meirihluta þjóðarinnar og meirihluta þingsins liggur fyrir. Hvalveiðar njóta ríks stuðnings.
Þar með er ekki sagt að við séum blind fyrir þeirri neikvæðu afstöðu megin þorra alþjóðasamfélagsins til veiðanna, síður en svo.
Það er hins vegar grundvallarforsenda til þess að vera trúverðug í þeirri baráttu að hér séu stundaðar raunverulegar veiðar.
Sjálfur hef ég varið sjónarmið Íslands á erlendum vettvangi með hléum í bráðum 20 ár – fyrst í háskólum þeim sem ég stundaði snemma á tíunda áratugnum, og síðar í starfi mínu í sendiráðum Íslands í Bandaríkjunum og Danmörku.
Þetta er rökræða sem er í miklu andstreymi tilfinninga.
Tilfinninga sem ekki er hægt að leiða hjá sér. Við vitum öll hvað tilfinningasemi í pólitískri umræðu getur verið erfið viðureignar – um það sjáum við reglulega dæmi, nú síðast í hvatvísum tilfinningareiðilestri sjálfstæðismanna við það að vera hent öfugum út úr stjórnarráðinu og úr valdasæti þingforseta. Það verður jú stundum að sýna aðgát í nærveru sálar!
Við skulum því halda okkar striki varðandi veiðar og vinnslu á hval með sjálfbærni nýtingar að leiðarljósi.
Þau rök gilda ekki lengur, að minnsta kosti í nánustu framtíð, að slíkar veiðar skipti okkur ekki máli efnahagslega og við getum vel gert eitthvað annað.
Að sama skapi eiga þau rök ekki við að við íslendingar borðum ekki hvalkjöt.
Mest af veiðinni undanfarin ár hefur farið á innlendan markað og í núverandi efnahagsástandi geri ég ráð fyrir að hrefnukjötið verði væntanlega það rauða kjöt sem ég muni helst hafa efni á að kaupa á grillið næsta sumar.
Það er síðan eðlileg og sjálfsögð krafa að þrátt fyrir veiðar verði hagsmunir hvalaskoðunar og ferðaþjónustu ekki fyrir borð bornir.
Hafsvæðið í kringum Ísland er stórt og víðfeðmt og ástæðulaust að þessar tvær atvinnugreinar, hverra hagsmunir fara ekki vel saman, stundi sýna starfsemi í kjöldragi hverrar annarrar.
Það kann vel að fara svo að til lengri framtíðar verði hvalveiðum sjálfhætt, að minni hagsmunir þurfi í þeim efnum að víkja fyrir meiri eins og stundum verður.
Þangað til er hins vegar ástæðulaust að láta deigan síga. Hvalinn er rétt að veiða og nýta rétt eins og önnur gæði lands og sjávar.
miðvikudagur, 4. febrúar 2009
Framboðsyfirlýsing
Ég sækist eftir að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Ég býð fram krafta mína, ekki aðeins í þágu Norðvesturkjördæmis heldur í þágu landsins alls í ljósi þess mikla uppbyggingarstarfs sem fyrir höndum er.
Það er erfitt verk fyrir höndum. Nauðsynlegt er að byggja upp traust á stjórnvöldum og stofnunum samfélagsins og kallar það á ný og gegnsæ vinnubrögð. Mikilvægt er að vel takist til. Við höfum ekki efni á mistökum. Sá kvóti er uppurinn.
Nú sem aldrei fyrr er þörf á uppbyggingu og endurreisn alþjóðlegra tengsla landsins, svo bætt verði fyrir þau mistök sem gerð voru í samskiptum við okkar helstu vinaþjóðir. Aldrei aftur megum við finna okkur á alþjóðlegu bersvæði, óstudd og óvölduð.
Í á fjórtánda ár hef ég notið þeirrar gæfu að vinna í þjónustu þjóðarinnar innan íslenskrar stjórnsýslu, bæði innanlands og erlendis. Það hefur gefið mér dýrmæta innsýn og fjölbreytta reynslu sem mun nýtast vel til þeirra átaksverkefna sem framundan eru.
Fyrst og fremst verðum við þó að hefja tafarlausa endurreisn atvinnulífs um land allt. Þar leiðir hvað af öðru og hér verður ríkisvaldið að leika markvisst hlutverk. Því hefur val okkar á fulltrúum til setu á Alþingi sjaldan skipt jafn miklu máli og nú.
Friðrik Jónsson, formaður Framsóknarfélags Akraness
Gsm: 820-5990
TP: fridrik.eyjan@gmail.com
Blogg: http://fridrik.eyjan.is/
Almennar upplýsingar:
Menntun:
- BA-próf í alþjóðasamskiptum og utanríkisþjónustu.
- MBA-próf í alþjóðaviðskiptum
- MA-próf í alþjóðasamskiptum.
Starfsreynsla:
- Starfa í dag sem verkefnis- og sviðsstjóri hjá Varnarmálastofnun Íslands (í láni frá utanríkisþjónustunni)
- Hóf störf í utanríkisráðuneytinu í janúar 1996. Var m.a. starfsmaður sendiráðs Íslands í Washington D.C. frá 1998 til 2002 og staðgengill sendiherra við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn 2002 til 2006. Hef starfað á alþjóða-, varnarmála-, og viðskiptaskrifstofum utanríkisráðuneytisins.
- Fyrri störf m.a. hjá Vinnuveitendasambandi Íslands, í heildsölu, og í Seðlabanka Íslands.
- Auk þess sinnt kennslu í sölu- og markaðsfræðum á háskólastigi.
Fjölskylduhagir:
- Fæddur í Reykjavík 8. maí 1967. Kvæntur Elínborgu Þóru Þorbergsdóttur. Fjögur börn á aldrinum 3 til 24 ára. Þrír hundar.