föstudagur, 23. september 2011

Fluttur

Hef flutt mig til í blogg-veröld eyjan.is og skrifa nú á blog.eyjan.is/fridrik


fimmtudagur, 8. september 2011

Skynsemin ræður!

Ég gat ekki varist því að hvá lítið eitt þegar ég sá heilsíðuauglýsingar gærdagsins frá einhverjum sem kalla sig skynsemi punktur is. Ekki er þetta ný jógúrt sem ætlað er að keppa við skyr punktur is, og ekki á þessi félagsskapur neinar rætur að rekja til trabantvinafélagsins “Skynsemin ræður!” sem starfrækt var hér í eina tíð.


Hér er farið fram nokkuð lymskulega með þá áskorun til Alþingis “...að leggja til hliðar aðildarumsókn að Evrópusambandinu”. Hljómar ósköp sakleysislega, svona eins og “Leggðu frá þér blaðið elskan á meðan þú ferð út með ruslið”.
En látið ekki gabbast. Það er ekki punkturinn hjá þessum félagsskap. Þetta er einfaldlega áskorun um að draga aðildarumsóknina til baka – hætta við allt heila klabbið og þannig ræna þjóðina þeim lýðræðislega rétti að fá að tjá afstöðu sína til aðildarsamnings í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Rökin fyrir þessari aðför að lýðræðinu (ég get líka verið dramadrottning) kalla á nánari skoðun:
Í fyrsta lagi telur skynsemi punktur is að það séu “breyttar forsendur í Evrópusambandinu”, þ.e. ESB sjálft hafi tekið svo miklum breytingum frá samþykkt aðildarumsóknar að það sé vart þekkjanlegt fyrir sama samband. Einnig að sambandið glími við “...alvarlega skuldakreppu sem ekki sér fyrir endann á og mikil óvissa ríkir um framtíð evrunnar”.
Um þetta er það að segja að erfitt er að henda reiður á hvaða miklu breytingar þetta eru. Kannski það að Eistland hefur tekið upp Evru og að lokið er aðildarsamningi við Króatíu. Eru það tilefni til uppgjafar? Breytingar hafa ennþá littlar orðið, en einhverjar eru boðaðar, eins og t.d. aðlögun sjávarútvegstefnu ESB að þeirri íslensku, sem hlýtur að teljast nokkuð jákvætt.
Vissulega er ESB að eiga við alvarlega skuldakreppu og ekki ástæða til að gera lítið úr henni. Hún er þó einkum bundin við takmarkaðan fjölda aðildarríkja, og er misjöfn að eðli og umfangi eftir því hvaða ríki á í hlut. Eitt af vandamálunum við að vinna að lausnum er jú að þrátt fyrir allt samanstendur sambandið af frjálsum, fullvalda ríkjum sem marsera ekki öll í takt og eru ekki alltaf sammála. Það er nú þvert ofan í allt talið um stórríkið. Stórríkisrökin hins vegar gætu átt við með öflugum spuna ef núverandi skuldakreppa leiðir af sér aukið samstarf og samhæfingu á sviði efnahagsmála þ.a. að stjórn þeirra verði markvissari og ábyrgari í það heila. Væri það ekki ákveðinn kostur?
Höfum í huga að m.v. höfðatölu er ESB í betri skuldastöðu en t.d. bæði Bandaríkin og Japan. Eflaust er einnig skárra að gera ráð fyrir því að þegar að því kemur að greiða atkvæði um aðildarsamning verði búið að leysa yfirstandandi skuldakreppu, eða alltént koma lausnum í góðan farveg. Framtíð Evrunnar er síðan þrátt fyrir bölbænir nokkuð traust. Er útilokað að eitthvert núverandi aðildarríkja gæti hrökklast úr samstarfinu? Nei, en mjög ólíklegt. Líkur á upplausn myntsamstarfsins eru enn frekar hverfandi, enda hafa aðildarríki myntsamstarfsins öll lýst því yfir að þau standi heilshugar að baki því.
Í öðru lagi er vísað til skoðanakannana, sem “...sýna að afgerandi meirihluti landsmanna er andvígur aðild og vill draga umsókn til baka.” Á þessu er nú allur gangur og hafa skoðanakannanir verið á ýmsa lund. Fjarri öllum raunveruleika er hins vegar að tala um afgerandi afstöðu þjóðarinnar á einn veg eða annan, jafnvel þó notaðar séu einungis þær kannanir sem skynsemi punktur is vísar til. Annars vegar er um að ræða Facebook-könnun þar sem hlutföllin voru 53 á móti 47, uppgjafarsinnum í hag, og hins vegar ein Gallupkönnun fyrir Heimssýn þar sem uppgjafarsinnar hlutu 51% stuðning. Nei, þetta er ekki sérlega afgerandi, enda er eina skoðanakönnunin sem skiptir máli sú sem fram fer á kjördag.
Í þriðja lagi er svo vísað til þess að allt sé þetta svo óskaplega dýrt og mikil óvissuferð. (Reyndar hafa andstæðingar aðildarviðræðna líka haldið því fram að enginn ástæða sé til þess að fara í svona leiðangur þar sem allt liggi þegar fyrir – varla verður bæði sleppt og haldið í þessum rökræðum, eða hvað?) “Ferlið sjálft er mjög mannfrekt, kallar á ýmsar breytingar og dreifir þannig kröftum stjórnsýslunnar frá mun brýnni verkefnum”.
Um þetta er það að segja að kostnaðaráætlun liggur þegar fyrir og ætli megi ekki gera ráð fyrir að þegar sé búið að leggja út fyrir allt að helmingi kostnaðarins. Væri því ekki fullkominn sóun að hlaupa frá hálfkláruðu verki og rúmlega það? Ekki er annað að sjá en að stjórnsýslan sé að takast á við þetta verkefni af miklum myndarskap og það án þess nokkur hafi orðið var við umtalsverðar mannaráðningar vegna aðildarumsóknarinnar. Stjórnsýslan, merkilegt nokk, ræður bara nokkuð vel við verkefnið, a.m.k. þeir hlutar hennar sem fá leyfi til þess að sinna því, ásamt því að sinna öðrum verkefnum.
Þegar öllu er á botninn hvolft er því lítil skynsemi í málflutningi þeirra uppgjafarsinna sem standa að baki skynsemi punktur is. Á hópurinn að því leiti það sameiginlegt með trabantvinafélaginu. Þeir héldu jú fram að það væri skynsamlegt að eiga Trabant, m.a. af því að hann var svo eyðslugrannur. Það að bílinn væri óöruggur með afbrigðum og allsherjar umhverfisslys (loft-, hljóð og sjónmengun) á fjórum hjólum leiddu menn hjá sér. Enginn ástæða til að láta smáatriði eins og raunveruleikann trufla sig.
Ég kallaði reyndar í gær eftir framtíðarsýn frá andstæðingum aðildar. Kannski felst hún dulítið í þessari tilvísun nafns félagsskaparins í trabantvinafélag níunda áratugarins. Það er kannski framtíðarsýnin. Áratugurinn fyrir aðild Íslands að EES. Þegar Samband Íslenskra Samvinnufélaga og stórheildsalar í Reykjavík réðu lögum og lofum. Þegar aðgengi í bönkum var háð því hverja þú þekktir og hvaða flokk þú kaust. Hvaða ætt þú tilheyrðir. Já, þegar gjaldeyrishöft voru normið og útvaldir áttu reikninga í útlöndum og almenningur fékk bara að fara þangað stundum. Þegar voru til góðir gæjar og vondir gæjar. Kalt stríð og huggulegheit.
Karlmenn kysstust og það var ekki “gay”.

Já, í þá gömlu góðu daga...!

miðvikudagur, 7. september 2011

Valkostir og framtíðarsýn

Samfylkingin er jafnan gagnrýnd af fulltrúum annarra flokka á þingi fyrir það að hafa enga aðra framtíðarsýn en aðild Íslands að Evrópusambandinu.


Þessi gagnrýni beinist augljóslega jafnframt að okkur sem ekki eru félagar í Samfylkingunni, en eru hlynntir aðild Íslands að ESB.


Sú gagnrýni er við nánari skoðun ósköp léttvæg, þó ekki væri nema af tveimur megin ástæðum.


Annars vegar vegna þess að framtíðarsýnin Ísland í ESB er ansi mögnuð og fæli í sér verulegar breytingar á ýmsum sérviskuháttum íslenskum. Alvöru fríverslun við okkar helstu nágrannaþjóðir á svo að segja öllum sviðum yrði stærsta merkjanlega breytingin frá fyrsta degi, áhrif á stjórnsýslu yrðu önnur breyting, margt til batnaðar, sumt íþyngjandi, og víðtæk efnahagsleg áhrif yrðum við vör við í vaxandi mæli, sérstaklega í aðdraganda upptöku Evru sem gjaldmiðils, og ekki síst þegar því takmarki yrði náð, svo fátt eitt sé talið.


Hins vegar vegna þess að þeir sem gagnrýna með þessum hætti hafa ekki boðið upp á neina sambærilega framtíðarsýn eða valkost sem hægt væri að stilla upp andspænis aðild að ESB. Vefur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, er skýrt dæmi um þetta. Þar á forsíðu er tengill í skjal sem yfirskriftina “12 ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild”. Allar ganga þær meira og minna út á að hafna aðild út frá mestmegnis bábyljurökum um hversu afleitt samband þetta er, en hvergi er reynt að setja fram annan heildarvalkost.


Sama er að segja um þá stjórnmálaflokka á þingi sem afdráttarlaust hafna aðild. Ekki virðist fara mikið fyrir heildstæðri framtíðarsýn, valkosti eða -kostum, hvað þá stefnu.


Bægslagangurinn gegn aðildarviðræðum við ESB ber þetta með sér. Það er helst vaðið áfram í neikvæðni og niðurrifi, en lítið boðið upp á aðra valkosti.


Finna má hins vegar brot af stefnu og stefnumiðum í einstökum málum, sem kannski helst má samþætta undir slagorðunum “Virkjum, veiðum og verðtryggjum!”


Í grein í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag skrifaði Illugi Gunnarsson, alþingismaður, ágæta grein undir yfirskriftinni “Verkefnin blasa við”. Verkefnin voru að mati þingmannsins fern – lækkun skatta, óbreytt kvótakerfi, nýting orkuauðlinda og ný peningastefna. Lítið fór fyrir smáatriðum, en þó vakti það athygli mína að þingmaðurinn útilokaði ekki aðild Íslands að ESB og evru sem valkost tengdum peningastefnunni. Reyndar minntist hann ekki á ESB svo neinu næmi og ekki kallaði hann eftir því að draga aðildarumsóknina til baka.


Virði ég það hjá þingmanninum að í stað þess að raupa um aðildarumsóknina að ESB og að hún komi í veg fyrir að unnið sé að öðrum málum setti hann fram það sem hann telur mikilvægt að vinna að. Svo má vera sammála því eða ekki. Aðalatriðið er þó að verkefnalisti þingmannsins virtist vera enn ein útgáfan af “Virkjum, veiðum og verðtryggjum”, með viðbótarkryddinu skattalækkun.


Ég er ekki á móti virkjunum, en það verður að vera innan skynsamlegra marka og ekki felst í því bjargræði fyrir alla. Einnig er fjárfestingaumhverfi til virkjanna ekki með besta móti og kallar annað hvort á ríkisábyrgðir eða, og jafnvel einnig, háan fjármögnunarkostnað. Sama á við um veiðarnar, þær munu fara fram, en hvorki gefa Íslandi þær viðbótartekjur eða þau viðbótarstörf sem þarf. Um skattamálin, peningastefnuna og fylgifisk hennar, verðtryggingarbölið, ætla ég ekki að fjölyrða í þessum pistli.


Ég horfi hins vegar upp á að sú framtíðarsýn sem felst í auknu samstarfi og samþættingu við okkar helstu nágrannaþjóðir og þær þjóðir sem náð hafa lengst í þróun efnahags-, réttinda- og velferðakerfa, þrátt fyrir núverandi erfiðleika, er undir stöðugri árás meinfýsinna sem bjóða upp á takmarka framtíðarsýn sjálfir, nema ef vera skyldi meira af því sama.


Á meðan hlusta ég á börnin mín gera sínar framtíðaráætlanir og er Ísland ekki lengur hluti af þeim. Þeim hugnast ekki þetta eilífa basl.


Og ég heyri í vinum og kunningjum sem ekki starfa við virkjanir og veiðar, til dæmis við sköpun, og þá einkum nýsköpun, og áætlanir þeirra um framtíðina eru orðnar án Íslands.


Ég hef framtíðarsýn um Ísland sem land efnahagslegs stöðugleika, en jafnframt framþróunar. Land tækifæra, land erlendrar og innlendrar fjárfestingar, land fríverslunar, menntunar og heilbrigðis. Land skynsemi í skattamálum, land þar sem jafnvægi verður milli þess að nýta og njóta náttúrunnar. Land án verðtryggingar.


Land ábyrgðar á alþjóðavettvangi. Land samstarfs og samvinnu.


Land framtíðar kynslóða. Lands vina minna og ættingja, forfeðra, barna og barnabarna.


Ég tel að betur megi uppfylla þessa framtíðarsýn með aðild að ESB


Ég vil því skora á þá sem eru því ósammála að koma fram með heildstæðan annan valkost. Það gæti gefið okkur kost á því að í reynd velja á milli skýrra kosta þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning.


Kannski myndi líka öll umræðan um framtíð Íslands fá á sig eitthvað jákvæðara yfirbragð.


Því bæri að fagna.

mánudagur, 5. september 2011

Sérlausnasambandið

Eftir að hafa þurft að hlusta á þus, röfl og raup andaðildarsinna árum, og já áratugum saman, um hið gangstæða, kemur enn einu sinni fram að Evrópusambandið tekur tillit til sérstöðu aðildarríkja þar sem það á við. Þrátt fyrir að vera mestmegnis samband um almennar, sameiginlegar leikreglur um samskipti og viðskipti ríkja er ESB nógu öflugt, þroskað og já, tillitssamt og praktískt til þess að þola það og skilja að það er samband fullvalda og sjálfstæðra ríkja sem öll hafa sín sérmál sem þarf að vera hægt að taka tillit til.

Og nú erum við með það skriflega á blaði frá sambandinu sjálfu. Allt sem þarf er að Ísland setji fram eigin kröfur og skilgreiningar á því hverjar þær þarfir eru og hvernig íslendingar telji og vilji að þeim sé mætt t.d. innan sameiginlegrar landbúnaðarstefnu sambandsins, sjá bréf fastafulltrúa Póllands, formennskuríkis ESB:

"Iceland presents a a strategy including a planning schedule of measures to be taken progressively in order to ensure full compliance with the acquis under chapter 11 Agriculture and rural development by the date of accession as regards agricultural policy, legislation and administrative capacity, taking into account the specific circumstances for agriculture in Iceland."

Reyndar er rýniskýrslan sem fylgdi með hrein skyldulesning líka, en þar má einmitt rýna milli lína hvurslags fúsk og frat íslenskt landbúnaðarkerfi er, án skilvirks eftirlits eða hæfra stofnanna með fulla getu til að framfylgja markaðri stefnu (hvað er íslenska orðið yfir "competent"?). Beingreiðslur streyma úr vasa skattborgara beint til Bændasamtakanna sem sér um að dreifa góssinu til sinna félagsmanna. Öllu eftirliti með því hvernig þeim peningum er dreift og eytt er ábótavant. Í þokkabót, eins og kemur fram í skýrslunni, hefur Ísland enga heildarstefnu um þróun byggðar í dreifbýli, enga stefnu gagnvart "hefðbundinni" framleiðslu, og afskaplega vanþróaða stefnu hvað varðar lífrænan landbúnað, og það frá þjóðinni sem vill selja "hreinastu" landbúnaðarvörur "í heimi" til grunlausra útlendinga undir merkjum eins og "Sustainable Iceland".

Og jú, þær littlu kröfur sem við þó setjum fram gagnvart ESB (en heildarkröfur vantar af því að landbúnaðarráðuneytið og Bændasamtökin neita að taka þátt, geri ég ráð fyrir) snúast m.a. um það hvernig Ísland eigi ekki að þurfa uppfylla reglur ESB um að t.d. eldisfiskar eigi að hafa lágmarksrými í eldiskerjum!

Svei mér þá, ég hef orðið á tilfinningunni að ástæða þess að landbúnaðarráðherra og Bændasamtök Íslands eru jafn gallharðir í andspyrnu sinni hljóti að vera vegna þess að nánari rýni á framkvæmd íslenskrar landbúnaðarstefnu, að því marki sem hún er til og rekin, sé vegna þess að þessir aðilar gera sér fyllilega grein fyrir að hún einfaldlega þolir ekki dagsins ljós. En þar virðast hagsmunasamtök bænda beinlínis standa gegn hagsmunum bændanna sjálfra. Það hlýtur t.d. að vera full ástæða til að skoða af hverju margfallt hærri styrkir til íslenskrar kjötframleiðslu en viðgengst í ESB skilar sér engu að síður í helmingi lægra afurðaverði til íslenkra bænda en hjá evrópskum kollegum þeirra.

föstudagur, 19. ágúst 2011

Róttæk skattaleið?

Það er ekki að sjá að skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára hafi skilað sérstökum árangri. Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum og er þar stærsti einstaki vandinn gríðarlegur vaxtakostnaður vegna þeirra skulda sem ríkissjóður tók á sig vegna hrunsins.


Þó að einhverju leyti hafi skattkerfisbreytingarnar skilað hærri tekjum, hafa þær haft þau neikvæðu hliðaráhrif að draga úr viðskiptum, letja fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu, hvetja til svartrar vinnu, auka óhagræði, draga úr gagnsæi og skaða skilvirkni skattkerfisins, m.a. þannig að skatteftirlit er orðið mun flóknara og þyngra í vöfum. M.ö.o. flóknara skattkerfi hefur gert það að verkum að líklega er auðveldara að svíkjast undan skatti en áður var.


Nær væri að einfalda skattkerfið til muna, fækka skattstofnum, en hækka þá sem eftir standa, og auka þannig gagnsæi og auðvelda eftirlit. Með því móti mætti tryggja jafnari tekjur, auka traust á markaði og gera fjárfestingarumhverfi meira aðlandi til atvinnu- og verðmætasköpunar.


Þetta verður þó að gerast í samhengi við mun meira afgerandi aðgerðir til þess að taka á skuldastöðu ríkisins og háum fjármagnskostnaði þess á núverandi lánum. Í þeim efnum skortir á róttækni og veldur það nokkrum vonbrigðum hvað núverandi stjórnvöld hafa í raun verið hefðbundin og fyrirsjáanleg í skattaaðgerðum sínum. Skattar hækkaðir og skattstofnum fjölgað, allt í nafni aukinnar tekjuöflunnar, réttlætis og siðbótar, en árangurinn hefur látið á sér standa. Skattekjur einstakra skattstofna hafa jafnvel staðið í stað og dregist saman og hugsa ég að flestir landsmenn sýnist skorta á siðbót og réttlæti.


En aðal gallinn við það sem hingað til hefur verið gert er að það er óttalegt mjatl. Lítið hefur borið á umræðu um sérstaka einskiptisskatta til að mæta kostnaði vegna hrunsins og væri kannski vert að taka þá umræðu aftur og á breiðari grunni.


Sá einskiptisskattur sem þó hefur verið ræddur er að leggja skatt á eignir lífeyrissjóðanna og þannig taka út framtíðartekjuskatt strax. Því fylgir þá jafnframt að leggja fullan tekjuskatt á lífeyrissframlag héðan í frá, en lífeyrissgreiðslur yrði þá væntanlega framvegis skattfrjálsar. (Einnig rekur mig minni til að hafa séð tillögur um að leggja fullan tekjuskatt á bankainnistæður sem nutu tryggingar umfram hið löglega hámark upp á u.þ.b. 3 milljónir.)


Ef eignir lífeyrissjóðanna eru um og yfir 2 þúsund milljarðar myndi 40% skattlagning þeirra skila 800 milljörðum í ríkissjóð. Það myndi duga til að greiða niður vel rúmlega helming núverandi skulda ríkisins og þ.a.l. jafnframt lækka vaxtakostnað þess um meira en helming. Fjárlagagati þessa árs yrði þar með lokað í einum vettvangi og meira að segja yrði afgangur sem nýta mæti til að greiða ennþá meiri skuldir.


Þetta er langt í frá gallalaus aðgerð, m.a. vegna þess að ekki er verra fyrir ríkissjóð að eiga vísar framtíðarskatttekjur frá lífeyrisþegum, sérstaklega þar sem þeim mun fara fjölgandi meira hlutfallslega en þeim sem vinna.


En hugsanlega mætti skattleggja lífeyrissjóðina með öðrum hætti og án þess að framtíðarskatttekjum ríkissins sé fórnað um of.


Ein af skattbreytingum þeim sem komið var á af núverandi ríkisstjórn var endurreisn eignaskatts, sem heitir nú því gildishlaðna nafni auðlegðarskattur. Skilaði hann nokkrum tekjum, en ekki nóg til þess að hafa veruleg áhrif. Búast má jafnframt við að sá skattur verði tæpast langlífur og verði afnuminn við fyrsta tækifæri þegar og ef t.d. Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn.


Því er kannski vert að velta fyrir sér hvort ekki væri nær, í stað auðlegðarskatts og tekjuskattlagningar á lífeyrissjóði, að setja á sérstakan einskiptiseignaskatt sem myndi einnig ná til eigna lífeyrissjóðanna.


Til dæmis 30 – 40 prósent.


Með því móti mætti ná inn nægum tekjum, 12 til 15 hundruð milljarða, til að greiða niður líkast til allar innlendar skuldir ríkissjóðs og þar með lækka vaxtakostnaðinn til framtíðar um tugi milljarða. Eflaust yrði jafnframt til fé til nauðsynlegra framkvæmda sem gætu ýtt undir aukna atvinnustarfsemi og raunverulegan hagvöxt byggðan á nýrri verðmætasköpun.


Hægt væri jafnframt að láta ýmsar skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára ganga til baka, og reyndar nýta tækifærið til þess að einfalda skattkerfið verulega.


Hvað varðar eignir landsmanna í lífeyrissjóðum þá væri hægt að bæta „tjónið“ sem af þessari skattlagninu hlytist með róttækum gagnaðgerðum. Til dæmis með því að sameina enn frekar lífeyrissjóði og stofna sérstakan þjóðarlífeyrissjóð í anda norska olíusjóðsins (sem reyndar heitir Statens pensjonsfond utland). Í þann sjóð mætti leggja núverandi eignir ríkisins sem stendur til að selja hvort eð er, eins og fjármálafyrirtækin, en stóri framtíðartekjupósturinn ætti að vera allt auðlindagjald framtíðarinnar, af fiski, olíu o.þ.h. Ætti það að ganga langleiðina, og líkast til gott betur, í að bæta fyrir einskiptisskattlagningu af þessu tagi.


Fyrir eignafólk mætti bæta „tjónið“ með aflagningu auðlegðarskattsins og lækkun á fjármagnstekjuskatti. Einnig, fyrir þann fjölda sem ekki er með eignir í lausu fé, að bjóða upp á dreifingu skattgreiðslna, einskonar raðgreiðslur.


En allir myndu hagnast á því að ríkissjóður yrði svo að segja skuldlaus og losað yrði um allt hagkerfið í einum vettvangi þannig að það gæti farið að blómstra fyrir alvöru á ný.

mánudagur, 15. ágúst 2011

Lífeyrissjóðir og leiguhúsnæði

Hún er athyglisverð um ræðan um leiguhúsnæði sem fram fer á Íslandi. Ein afleiðing séreignarstefnu þeirrar sem rekin hefur verið áratugum saman er sú að aldrei hefur orðið til þroskaður leigumarkaður.

Enda þannig að nánast hefur verið litið niður á þá sem leigja. Aumingjar sem ekki gátu keypt sér húsnæði!

Meira að segja hefur félagslega húsnæðiskerfið áratugum gengið út á að gera fólki sem hefur engin efni á því kleift að "eignast" að nafninu til eigin húsnæði. Af hverju ekki félagslegt leiguhúsnæði?

Hér væri reyndar vettvangur tilvalinn til fjárfestingar og fjármögnunar fyrir lífeyrissjóði landsins. Hingað til hafa sjóðirnir aðallega stundað lánastarfsemi (verðtryggð bréf gegn "traustum" veðum) á fasteignamarkaði, en ekkert virðist koma í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir væru beinlínis þátttakendur á fasteigna- og leigumarkaði, þ.e. eiga og reka húsnæði til útleigu.

Hér gæti verið bæði almennt húsnæði og sérhæft (íbúðir fyrir aldraða, félagslegt leiguhúsnæði).

Þetta væri sjóðunum trygg tekjulind, og ætti að opna leið fyrir umtalsvert ódýrara leiguhúsnæði fyrir sjóðsfélaga ásamt því að skapa sjóðunum traustan langtímatekjugrunn. Ætti fjárfesting af þessu tagi að standa lífeyrissjóðunum nær en ýmislegt annað sem sýslað hefur verið með af peningum eigenda sjóðanna á undanförnum árum.

Er ekki tækifærið einmitt núna?

miðvikudagur, 20. júlí 2011

Húsbankafrumvarp, anno 1987

1987 lögðu þingmenn Borgaraflokksins, þeir Júlíus Sólnes og Guðmundur Ágústsson, fram frumvarp til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka. Þar sem þeir voru á þeim tíma ekki komnir í ríkisstjórn fékkst þetta ágæta frumvarp að því er virðist enga umræðu á þingi.

Þrátt fyrir að vera næstum aldarfjórðungs gamalt frumvarp virðist það merkilegt nokk standast ágætlega tímans tönn. Í því er gert ráð fyrir að húsbankar fjármagni sig á opnum markaði án ríkisábyrgðar.

Athyglisvert er líka að grípa niður í greinargerð frumvarpsins, en þar segir meðal annars:

Þeir sem nú eru að byggja eða kaupa sér íbúð eiga aðeins kost á lánum með fullri verðtryggingu. Eignarhlutfall þeirra fer ekki hraðvaxandi eins og áður heldur er jafnvel hætta á að það minnki með tímanum. Þegar eru mörg dæmi þess að fólk hefur átt í erfiðleikum með sölu á íbúðum með miklum verðtryggðum lánum…einfaldlega vegna þess að söluverð þeirra heldur ekki í við verðtryggðu lánin. Áhvílandi lán með uppfærðum verðbótum eru orðin mun hærri en markaðsverð íbúðarinnar.

Þessi hætta ágerist eftir því sem lánshlutfall verðtryggðra lána eykst. Það er fyrirsjáanlegt að mikil hætta er á því að allar minni íbúðir, sem verða byggðar og keyptar á næstu árum með fullum húsnæðislánum… muni ekki halda verðgildi sínu í takt við lánskjaravísitölu. Þannig gæti skapast það ástand að stór hluti fólks sitji í íbúðum sem það getur ekki selt vegna þess að skuld við Byggingarsjóð ríkisins er meiri en söluverð íbúðarinnar. Það má því segja að Byggingarsjóður ríkisins eigi allar slíkar íbúðir. Fólkið er í raun orðið að leiguliðum hjá ríkinu. Það á ekkert í íbúðinni þótt hún sé þinglýst á nafn viðkomandi en hefur samning um afnot af henni næstu 40 árin meðan það stendur í skilum. Sjálfseignarstefnan margrómaða er í reynd hrunin.

Síðar segir í sömu greinargerð:

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilraun verði gerð til þess að brjótast út úr myrkviðum lánskjaravísitölunnar. Lánskjaravísitalan hefur haft óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna. Hún hefur komið fjölda manns á vonarvöl og lagt mörg atvinnufyrirtæki í rúst. Misgengishópurinn, sem varð að þola stórhækkun lánskjaravísitölu umfram kaupgjaldsvísitölu á árunum 1983-1984 hefur enn ekki fengið leiðréttingu sinna mála hvað húsnæðislánin áhrærir. Lánskjaravísitalan verkar með þeim hætti að óeðlilegir þættir, svo sem hækkun matvöru, hefur áhrif á hana. Þannig mun 10%-matarskattur ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sama dag og hann er lagður á, hækka skuldir íbúðaeigenda við húsnæðislánakerfið um einn milljarð króna.

Á þeim átta árum sem eru liðin síðan lánskjaravísitalan var tekin í notkun hefur hún rúmlega átjánfaldast. Byggingarvísitalan hefur rúmlega sextánfaldast. Á sama tíma hefur verðgildi bandaríkjadals ellefufaldast og dönsku krónunnar nífaldast. Maður, sem hefði fengið að taka danskt húsnæðislán í júní 1979, skuldaði nú miklu minna en sá sem hefði tekið jafnhátt Íslenskt húsnæðislán með sömu afborgunarskilmálum.

Jamm...

þriðjudagur, 19. júlí 2011

Aflífum Íbúðalánasjóð

Nú eru víst sex vikur til stefnu fyrir íslensk stjórnvöld til þess að breyta starfsemi Íbúðalánasjóðs í samræmi við athugasemdir Eftirlitstofnunar EFTA (ESA).

Hér er tillaga í púkkið sem er eflaust ekki til skoðunar í Velferðarráðuneytinu:

Leggjum niður Íbúðalánasjóð.

Ein af stærri athugasemdum ESA er sú að sjóðurinn njóti ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar. Það er rétt að því marki að þannig hafa stjórnvöld umgengist sjóðinn og leyft sjóðnum að kynna sig á markaði. Grannt skoðað er ekkert um það í lögum um sjóðinn sem segir að hann njóti ríkisábyrgðar. Það er afleidd staða sem kemur til vegna eignarhaldsins.

En þökk sé þessu fyrirbæri Íbúðalánasjóði er s.s. de facto ríkisábyrgð á stórum hluta allra húsnæðisskulda landsmanna. Hleypur þar á hundruðum milljarða, en heildarskuldir sjóðsins í lok síðasta árs voru 826 milljarðar. (Hef nú aðeins þusað um þetta áður.)

Bókfærðar eignir á móti voru 836 milljarðar, þ.a. tæknilega var sjóðurinn í plús, en vitað er að töluvert af meintum eignum eru óseljanlegar fasteignir sem líkast til er færðar of háu verði í bókhald sjóðsins, auk bréfa sem eru komin í vanskil, en vanskil yfir 90 daga voru um síðustu áramót 3,9 milljarðar (sjá hér).

Nær væri að stofnað yrði hlutafélag um þennan rekstur, sem síðar yrði sett á markað, t.d. einskonar húsbanka að danskri fyrirmynd. Bjóða mætti bönkunum þátttöku í þessum húsbanka, t.d. með þeim hætti að þeir leggðu inn a.m.k. hluta sinna húsnæðislána í púkkið í skiptum fyrir hlut í hinum nýja húsbanka.

Reyndar er það eitt af vannýttu tækifærum hrunsins að hafa ekki aflífað Íbúðalánasjóð þá og þegar og farið út í breytingar af þessu tagi. Nýr húsbanki hefði þá getað verið virkur hluti í afskriftum og endurskipulagningu húsnæðislánakerfisins með því t.d. að "kaupa" húsnæðisskuldabréf bankanna á afskriftarverði gegn hlut í húsbankanum. Í framhaldi hefði eflaust mátt vinna með mun auðveldarri og gagnsærri hætti að endurskipulagningu húsnæðisskulda heimilanna.

En það er eftiráspeki, en þarf kannski ekki að vera of seint.

Nú er hins vegar komið að því að bregðast þarf við réttmætri gagnrýni ESA á starfsemi sjóðsins og tilvalið að nýta það tækifæri til róttækra umbóta. Fyrsta skrefið í því yrði að leggja sjóðinn niður í núverandi mynd.

miðvikudagur, 13. júlí 2011

Illa fengið fé...

Ef einhver kæmi til annars og gæfi honum milljón kall í seðlum bara sisona yrði sá hinn sami líklegast assgoti kátur, en kannski líka pínu tortrygginn. Ef löggan kæmi stuttu síðar og spyrði hvort að einhver hefði komið við og gefið milljón kall og útskýrði jafnframt að milljón kallinum hefði verið stolið, og reyndar fullt af milljónköllum, sem þjófurinn hefði síðan gefið slatta hinum og þessum en haldið sjálfur stærstum hluta, hvað myndi þiggjandinn gera?

Ætli milljónkallinum yrði ekki skilað – afhentur laganna vörðum?

Líklega – þó eflaust gæti viðkomandi reynt að halda því fram að við þessu fé hafi verið tekið í góðri trú og því engin ástæða til að afhenda það einhverjum löggum!

Eru eigendur verðtryggðra pappíra ekki í svipuðum sporum og sá sem fékk milljónkallinn?

Ef verðbólguskot undanfarinna ára er af stórum hluta afleiðing markaðsmisnotkunnar nokkurra fjármálastofnanna/eignarhaldsfélaga og eigenda/starfsmanna þeirra sem hafi með bellibrögðum og jafnvel ólöglegu athæfi haft neikvæð áhrif á gengi krónunnar, sem þrýsti upp verðbólgu og þannig jók gengisgróða vegna verðtryggingar peningapappíra, eru þá ekki verðbætur á verðtryggða pappíra þannig tilkomnar í reynd illa fengið fé?

Eru ekki allir verðtryggðir skuldunautar undanfarinna ára fórnarlömb ræningja? Er rétt að þeir greiði þær verðbætur sem urðu til vegna ólögmæts athæfis?

Er ekki ákveðið siðleysi falið í því að vilja halda verðbótum fengnum með þessum hætti?

Á kannski erindi Arnars Jenssonar til stjórnlagaráðs um upptöku ólögmæts ávinnings við í þessu samhengi? Leiðrétting á verðbólgusprungnum lánum sé þannig sambærileg við „...að ná til baka fjármunum og eignum sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti og skila þeim til réttra eigenda.“

Er sjálfsagt að rukka og halda illa fengnu fé, jafnvel þó það sé fengið í góðri trú?

miðvikudagur, 29. júní 2011

Gjaldeyrisvildarkjör

Þá er lokið seinni hluta gjaldeyrisútboðs Seðlabankans.

Keyptar voru rúmlega 61,7 milljón evrur á "special deal just for you my friend" genginu 210 krónur hver evra. Við dauðlegir fáum í kringum 166 krónur fyrir okkar evrur, sem við verðum að selja, annars getum við átt von á sektum, eða jafnvel fangelsi.

Fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan seldi Seðlabankinn að því er mér reiknast til rétt rúmlega 61 milljón evra þ.a. nettó er bankinn með tæpar 700 þúsund evrur í plús, auk þess að "græða" á gengismuninum.

Athyglisvert er að bera saman framboð og eftirspurn í þessum tveimur uppboðum. Í fyrra uppboðinu, þegar evrur voru boðnar fyrir krónur (og verulega takmarkaðar krónur þar sem tilboðsgjafar urðu að geta fært sönnur á samfellda eign á þeim krónum frá því fyrir hrun), var umframeftirspurnin rúmlega 450%.

Umframeftirspurnin þegar krónur voru boðnar fyrir evrur var 11%.

Bendir þetta því miður til lítils annars en gífurlegs flóttaþrýstings úr krónum í evrur.

Fréttatilkynning Seðlabankans frá í gær segir síðan ekkert um það hverjir voru að kaupa þessar krónur á þessum vildarkjörum. Voru það lífeyrissjóðir að láta undan þrýstingi og losa erlendar eignir fyrir íslensk krónubréf? Eða voru það aðrir aðilar á innlendum markaði sem njóta þegar sérkjara undir núverandi gjaldeyrishöftum en gátu núna fengið ennþá betri díl. Voru það mögulega erlendir fjárfestar?

Tæplega voru það Tortólapeningar...

Það er vonandi að fjölmiðlar og greinendur á markaði leiti frekari upplýsinga.

mánudagur, 20. júní 2011

Pólitískar hreinsanir boðaðar

Óþól sumra andstæðinga aðildarviðræðna við ESB tekur á sig nýjar og enn ósmekklegri myndir.

Persónugering þessa óþols tekur á sig nýja og áður óþekkta mynd á opinberu bloggi Heimssýnar í dag.

Þar er upplýst um óánægju Heimssýnar með aðalsamningamann Íslands í aðildarferlinu, sem þarf nú svo sem ekki að koma á óvart. Niðurlag pistilsins er hins vegar einkar athyglisverður:

"Þegar Össur tekur upp tjaldhælana sína í ráðuneytinu verður fararsnið á fleiri en honum einum."

Það var og...!

Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að þegar og ef fulltrúar Heimssýnar komast til valda í stjórnarráðinu, og þá sérstaklega utanríkisráðuneytinu, munu s.s. fara fram pólitískar hreinsanir og væntanlega allir reknir sem unnið hafa að aðildarferlinu.

Huggulegt, ekki satt?

Er byrjað að skrifa niður nöfnin?

Þarf eitthvað að rifja upp í hverslags þjóðfélögum slíkt hefur tíðkast?

þriðjudagur, 14. júní 2011

Velgengni jaðarríkja ESB

Grikkland er í rusli. Aumingja Grikkland. Vandi landsins er allur heimagerður, en aðild landsins að ESB og evru hefur gert það að verkum að það kom að skuldadögum og loks sást að keisarinn var berrassaður. Það var ekki fögur sjón.


Einhverjir vilja læra þá lexíu af gríska vandanum að ESB sé afleitt fyrir jaðar- og smáríki innan sambandsins. En er það svo? Árangur ríkja innan ESB, sem samstarf sjálfstæðra ríkja, virðist fyrst og fremst byggja á getu og atorku ríkjanna sjálfra til að standa sig. Aðildin að ESB þjónar hins vegar eins og smurning og viðbótaraflgjafi fyrir þau ríki.



Í þessu má t.d. horfa til vina okkar í Eystrasaltsríkjunum. Þau ríki hafa vissulega gengið í gegnum ákveðna eldskírn á undanförnum árum, m.a. í tenglsum við efnhagshrunið 2008. En hvernig vegnar þeim í dag?



Eistland tók upp evruna um síðustu áramót og var hagvöxtur þar á fyrsta ársfjórðungi sá mesti í Evrópu, 8,5%.



Hagvöxtur í Lettlandi á sama tíma var 3,4% og gáfu þeir út skuldabréf í síðustu viku, rétt eins og Ísland. Kjörin voru töluvert betri, tæpir 240 punktar (bréf Íslands var með 320 punkta álagi), og tímalengdin helmingi lengri, eða tíu ár.



Hagvöxtur í Litháen var 6.9% á sama tíma.



Öll ríkin búa s.s. við góðan hagvöxt eftir krísuna og hafa náð viðsnúningi í sínum efnahagsmálum. Sérstaklega Eistland og Lettland hafa haldið sig við fastgengisstefnu í gegnum krísuna til þess að stefna ekki aðild að evrunni í hættu. Eistland tók, eins og áður sagði, evruna upp um síðustu áramót, og Lettland er áfram á góðri leið að sínu takmarki.



Erlent fjárfesting hefur verið stöðug eða vaxandi í ríkjunum.



Svo má að auki velta fyrir sér efnahagsstöðu annarra "jaðarríkja" ESB eins og Póllands, Tékklands og fleiri og bera saman við okkar eigin.



Velgengni þjóða veltur fyrst og fremst á þeim sjálfum. Aðild að fjölþjóðasamstarfi eins og ESB getur hins vegar verulega styrkt þá velgengni eins og dæmin sanna. Ekki virðist t.d. nokkur vafi á því, sérstaklega ekki í hugum borgara þessara ríkja, að aðild þeirra að ESB hefur reynst þeim heilladrjúg.



Þau hafa nýtt sér vel kostina - en það byggði aftur á atorku og dugnaði þeirra sjálfra.

föstudagur, 10. júní 2011

Dollaramilljarður, Icesave og þess háttar...

Það voru jákvæð tíðindi að takast skyldi að ganga frá milljarðsdollara láni í gær fyrir ríkissjóð. Hér eiga fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, starfslið ráðuneytanna og Seðlabankans hrós skilið.

Vel gert.

En...

...við þurfum engu að síður að anda með nefinu í fagnaðarlátunum. Þessi tíðindi eru vissulega jákvæð, en í þeim felast ákveðin hættumerki. Ein eru þau að 320 punktar ERU engu að síður hátt álag á ríkisskuldabréf, þó að kjörin séu vel ásættanleg m.v. ástand á markaði. Önnur eru þau að þó fagna megi því að ríkið geti gefið út skuldabréf á alþjóðamarkaði, þá er það hins vegar í augnablikinu EINI al-íslenski aðilinn sem það getur. Landsvirkjun, OR, sveitarfélögin, o.s.frv. eru allir "utan þjónustusvæðis". Einu aðilarnir sem eiga þess kost að sækja fé á alþjóðamarkaði eru þau fyrirtæki sem eru með umtalsverða starfsemi erlendis OG umtalsvert erlent eignarhald.

Svo má spyrja frekar, þar sem að þessi næstum því 5% lánakjör eru einungis til skamms tíma, 5 ára, hvað þau þýða fyrir hinn almenna markað EF hann skyldi opnast? Þetta er s.s. gólfið þ.a. betri kjör bjóðast ekki. Hvert verður álagið fyrir t.d. virkjunarframkvæmdum, sérstaklega til lengri tíma? Eitthvað sem slík framkvæmd gæti borið?

Og svona rétt til að klára gleðispillinn þá erum við ekki sloppin undan ICESAVE. Málaferlin eru öll eftir og þar getur brugðið til beggja vona. Eins sérkennilegt og það hljómar, þá gæti áhætta þjóðarinnar af ICESAVE líkast til verið meiri nú vegna höfnunar samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu en ef hann hefði verið samþykktur. Nú t.d. taka allir andstæðingar samningsins undir það að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af ICESAVE af því að þrotabúið muni borga, en töldu það fráleita áhættu í aðdraganda kosninga.

Áhættan sem við stöndum ennþá frammi fyrir er hins vegar á því að ekki þurfi einungis að greiða 20 þús evrur, heldur hugsanlega 100 þús evrur, og kannski allt í botn, ef jafnræðisregla telst hafa verið brotin. Að sama skapa er ólíklegt að vaxtakjörin verði sambærileg og í samningnum, ef málið tapast. Eins og þegar hefur komið fram í fréttum hefur ESA gefið 3 mánaða frest til að greiða ICESAVE, og þar er miðað við lágmarkstryggingu. Ef Bretland og Holland gerast aðilar að málarekstri ESA, sem er því miður líklegra en ekki, verður þar að öllum líkindum a.m.k. farið af stað með fullar kröfur.

En málið gæti hugsanlega unnist og þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur, nema jú það að óleyst ICESAVE mun þvælast fyrir okkur þar til endanleg niðurstaða er fengin.

Með þessum ábendingum er ég vissulega að vera nokkur gleðispillir. Auðvitað vonar maður hið besta, en það er rétt samhliða því að vera viðbúin verri tíðindum.

Hafið einnig í huga, að sama hvað manni má finnast um stjórnvöld, hafa sem betur fer allir lagst á eitt við það að fara í meiriháttar "damage control" í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um ICESAVE. Enginn lagðist í kör eða fór í fýlu, heldur lögðu allir dag við nótt við að lágmarka skaðann. Ekkert af því jákvæða sem þó er að gerast kemur til af sjálfu sér. Hingað til hefur það gengið þokkalega, og mun betur en þeir svartsýnustu hefðu þorað að vona, ég sjálfur þar með talinn.

Enn og aftur, um að gera að fagna þessum áfanga, þ.m.t. jákvæðri umfjöllun bæði í Financial Times og Wall Street Journal. Það er líka vonandi að þetta auðveldi framhaldið, hvort heldur sem er varðandi gjaldeyrishöft og aðra erlenda fjármögnun. En þetta er ekki búið og mun kalla á áframhaldandi mikla vinnu og árverkni - stjórnvalda sem annarra.

miðvikudagur, 8. júní 2011

Markaðurinn velur misgengi

Þá liggja fyrir niðurstöður úr fyrsta gjaldeyrisuppboði Seðlabankans, og eins og við er að búast vill bankinn setja þær niðurstöður í sem jákvæðast ljós. Vel heppnað útboð, ágæt eftirspurn, og verðið sem fengið var undir aflandsgengi.

Gott og vel. Ég sé hins vegar niðurstöðuna í aðeins öðru ljósi.

Útboð Seðlabankans endurspeglar gríðarlegan undirliggjandi þrýsting á útstreymi gjaldmiðils.

Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að útboð þetta var bundið verulegum takmörkunum. T.d. máttu einungis þeir taka þátt sem gátu sýnt fram á að krónueign þeirra væri „varanleg“ frá a.m.k. október 2008.

Í öðru lagi flaggaði Seðlabankinn því að hér væri um mjög takmarkað útboð að ræða, einungis 15 milljarðar, og gaf ekkert upp um sínar væntingar, þ.m.t. um hugsanlegt gengi.

Hvoru tveggja var til þess að takmarka hugsanlegt tilboðaflóð.

Þrátt fyrir þessar takmarkanir bárust engu að síður tilboð fyrir rúmlega fjórfalda þá upphæð sem var í boði.

Einnig kemur í ljós að fyrst og fremst var hér um jafngildi reiðufjár, þ.e. peninga á innlánsreikningum að ræða, því skv. Morgunkorni Íslandsbanka „...voru nær allar þær krónur sem Seðlabankinn keypti í útboðinu geymdar á innlánsreikningum.“

Meðalgengið, reynist tæpar 219 krónur fyrir hverja evru, eða rúmlega 30% hærra gengi evru en skráð gengi Seðlabankans. Í kjölfar útboðsins kemur hins vegar í ljós að Seðlabankinn hafði sett sér tilboðsgólf upp á 215 krónur fyrir hverja evru.

Næsta skref seðlabankans verður svo að koma þessum krónum aftur í umferð, með því að bjóða þær til sölu innlendum aðilum, og þá væntanlega fyrst og fremst lífeyrissjóðunum, í skiptum fyrir gjaldeyri.

Nettóáhrif þessarar aðferðarfræði Seðlabankans verður því ekki til að draga úr krónumagni í umferð. Það verða nákvæmlega jafnmargar krónur innan hagkerfisins, en nettó erlendar eignir þjóðarbúsins munu lækka. Hvernig þá? Jú, gjaldeyririnn sem seldur var í gær er farinn, og líkast til kemur ekki aftur. Til þess var jú leikurinn gerður. Bólukrónurnar lifa áfram, og verðbólguþrýstingur vegna þeirra verður áfram til staðar.

Ef Seðlabankanum er alvara með því halda fram árangri þessarar aðferðarfræði, verður þess væntanlega skammt að bíða að næsta uppboð fari fram. Væntanlegt dollaraskuldabréfaútboð ríkisins þarf líklega að fara fram fyrst svo að tryggt sé að nægur gjaldeyrir sé til bæði fyrir uppboð og afborganir lána. Ekki er að sjá að nýtt skuldabréfaútboð ríkisins verði, nema hugsanlega að litlum hluta, til að fjármagna ný verkefni, s.s. vegaframkvæmdir.

Athyglisverðustu skilaboðin sem felast í þessu uppboði eru hins vegar þau að markaðurinn sættir sig við og beinlínis velur misgengisleið út úr krónuvandanum. Í þessari fyrstu umferð, sem var mjög takmörkuð eins og áður segir, var markaðurinn tilbúin til að losa sig við krónur með u.þ.b. fjórðungs afslætti. Hvaða tilboð hefði bankinn fengið ef það hefði verið opið og hver sem er, með hvaða krónueignir sem er, hefði fengið að gera tilboð? Að öllum líkindum mun meiri afslátt, eða fleiri krónur per evru, en varð.

Engu að síður eru skilaboð markaðarins til íslenskra krónueigenda skýr. Krónan er á bilinu fjórðungi til helmingi minna virði en opinbert skráningargengi að mati markaðarins, eftir því hvort horft er til uppboðsgengis eða aflandsgengis. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar framtíðarkostir Íslands í gjaldmiðilsmálum eru ræddir.

fimmtudagur, 2. júní 2011

Ísland úr NATO?

Ögmundur Jónasson á skilið sérstakt hrós. Sér þvert um geð ber hann að hluta ábyrgð á varnarsamstarfi Íslands innan NATO og þ.m.t. á varnaræfingunni Norður Víkingur, sem er nýhafin.

Í dag er það svo að Ísland er aðili að þessu bandalagi, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Að sama skapi er ljóst að sterkur þingmeirihluti er fyrir áframhaldandi veru landsins í bandalaginu. Ögmundi er því nauðugur sá kostur að fylgja meirihlutavilja þingsins í sínu starfi sem ráðherra, hvað svo sem hans innri sannfæring býður honum. Í slíkt þarf sterk bein.

Einnig er það svo að Ögmundur og flokkur hans, Vinstri-Græn (VG), eiga aðild að ríkisstjórn sem styður hernaðaraðgerðir sama bandalags í Líbýu, í umboði og samkvæmt ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær aðgerðir eru einnig Ögmundi og VG þvert um geð, en þinglegur meirihluti virðist hins vegar að baki málinu. Ákall til þess að VG segi sig úr ríkisstjórn vegna þessa af prinsipástæðum eru hjóm eitt. Eins og Ögmundur bendir réttilega á í grein í Morgunblaðinu í morgun (skv. eyjan.is) myndu stjórnarslit vegna þessa máls engu breyta: „Ekkert myndi breytast hvað NATÓ áhrærir við brotthvarf VG úr stjórninni að því undanskildu að stuðningurinn við hernaðarbandalagið yrði eindregnari í Stjórnarráðinu.“

Það er því ekkert nema heiðarlegt við það að VG leggi nú loks fram þingsályktunartillögu um úrsögn Íslands úr NATO. VG er á móti þessu bandalagi og aðild Íslands að því. Þingsályktunartillaga af þessu tagi er því fullkomlega eðlileg, sama hvort VG á aðild að ríkisstjórn eða ekki.

Hverfandi líkur eru hins vegar á því að þingsályktunartillaga þessi verði samþykkt, hvað þá að hún fái einhverja raunverulega umræðu sem væri hreint ágætt.

Eflaust hefði verið mun nær að tefla fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að bandalaginu. Þá þjóðaratkvæðagreiðslu mætti tvinna saman við væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB – sem VG er reyndar líka mótfallið. Myndi atkvæðagreiðsla um aðild að þessum meginstofnunum samstarfs Evrópuþjóða falla vel saman þar sem rökin fyrir aðild að hvorri stofnun um sig eru um margt samhljóða á breiðum grunni. Snúa þau m.a. að mikilvægi þátttöku þjóða í fjölhliða samstarfi með líkum þjóðum, sambærilega þenkjandi og með sambærilega og samþætta hagsmuni, hvort heldur sem er á sviði stjórn-, efnahags-, öryggis- eða varnarmála.

Slík samtvinnuð þjóðaratkvæðagreiðsla yrði þannig auðveld fyrir bæði þá sem hugnast aðild landsins að báðum stofnunum eða eru á móti. Eitthvað yrði hún erfiðari fyrir þá sem væru til í aðra en ekki hina, en það yrði væntanlega yfirstíganlegur vandi, ef sannfæring manna er í þokkalegu lagi.

Eftir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu myndi fækka um tvö stórmálin sem ekki þyrfti að rífast um, að því gefnu að menn virði niðurstöðuna möglunarlaust. Fram að henni eiga og verða ráðherrar hins vegar að fylgja vilja meirihluta þingsins – í báðum málum. Að því leiti mætti Jón Bjarnason taka flokksbróður sinn Ögmund sér til fyrirmyndar.

miðvikudagur, 1. júní 2011

Gjaldmiðill án framtíðar

Íslenska krónan var eitt af fórnarlömbum íslenskra viðskiptahátta í aðdraganda bankahrunsins. Markaðsmisnotkun banka og lykilaðila íslensks viðskiptalífs á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði, með dyggri aðstoð peningaprentunaráhrifa almennrar verðtryggingar og peningastefnu Seðlabankans, margfaldaði peningamagn í umferð á árunum 2001 til 2008.

Þessi aukning var án innistæðu. Má jafnvel halda því fram að með háttsemi sinni hafi þessir aðilar stundað peningafölsun og komist upp með það. Verðlausum pappírum var gefið verðgildi með markaðsmisnotkun á skulda- og hlutabréfamarkaði m.a. í svokölluðum „endurhverfum viðskiptum“ bankanna við Seðlabankann. Þannig gátu bankarnir og velvildarmenn þeirra, sem voru fyrst og fremst í eigendahópnum, í reynd skipt út platkrónum fyrir alvöru krónur.

Í dag sitja þessar „alvöru“ krónur á bókum Seðlabankans og fjármagnseigenda í formi aflandskróna og skuldabréfa.

Þessar krónur eru ein aðalorsök gjaldeyrishaftanna. Í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta er helsta hindrunin á þeirri vegferð hið mikla magn króna í umferð sem gert er ráð fyrir að eigendur vilji skipta yfir í gjaldeyri. Semsagt, að mati bankans bíða fjármagnseigendur í röðum og vilja taka næsta skref og skipta þessum krónum yfir í gjaldeyri.

Í áætlunum bankans eru kynntar tvær hugsanlegar leiðir til þess að losa um þá spennu sem hið mikla krónumagn veldur. Báðar byggja á því að beitt verði mismunandi gengi fyrir krónueignir fjármagnseigenda sem vilja losna úr helsi íslensku krónunnar. Annars vegar að gjaldeyrir verði seldur á uppboði og hins vegar að gjaldeyrisútflæði verði skattlagt þannig að raungengi liggi í reynd við aflandsgengi en ekki álandsgengi (opinbert skráningargengi Seðlabankans). Einungis uppboðsleiðin er komin til framkvæmda með því tilraunauppboði sem Seðlabankinn hefur þegar tilkynnt.

Ljóst er að leiðir Seðlabankans munu taka langan tíma, enda er nú gert ráð fyrir að gjaldeyrishöft verði viðvarandi a.m.k. til 2015.

Einn stór galli við aðferðarfræði Seðlabankans er að samkvæmt henni verður ekki dregið úr heildar peningamagni. Of margar krónur þýða að varanlega hefur dregið úr verðgildi gjaldmiðilsins og hætta er á annarri aðför að högum heimilanna vegna þess undirliggjandi verðbólguþrýstings sem myndast þegar þessar krónur án undirliggjandi verðmætasköpunar komast í umferð eins og áætlun Seðlabankans gerir ráð fyrir.

Seðlabankinn gerir s.s. ráð fyrir að allar þær krónur sem hann kaupir á uppboði verði endurunnar inn í hagkerfið á ný. Virðist bankinn þannig ekki sjá krónumagnið sem slíkt sem sérstakt vandamál, heldur eigendur krónanna. Það er mikill misskilningur, því ætla má að margur íslendingurinn vilji gjarnan skipta út krónunum sínum fyrir erlendan gjaldmiðil, líka þessar endurunnu þegar þær verða komnar í almenna umferð.

Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir landsmanna verði helstu kaupendur á þessum krónum. Tæpast getur það talið heillandi fyrir núverandi og verðandi lífeyrisþega þessa lands að enn frekar eigi að binda trú og traust lífeyriskerfisins á íslensku krónuna.

Með þessari aðferðarfræði er hætta á að gengi krónunnar nái sér ekki á strik á ný, og haldi áfram að vera undir neikvæðum þrýstingi. Þessi aðferðarfræði gæti þannig hugsanlega haft takmörkuð áhrif á afnám hafta, þvert á það sem ætlað er.

Í rauninni eru einungis tvær skilvirkar aðferðir til þess að draga raunverulega úr heildar peningamagni á Íslandi, m.v. núverandi stöðu. Annars vegar með hreinum afskriftum lána og skulda og hins vegar með því að skipta um gjaldmiðil með mismunandi skiptigengi. Hvor um sig er aðferð sem mun hjálpa til við að ýta íslenska hagkerfinu í gang á ný.

Ekki virðist pólitískur vilji til gjaldmiðilsskipta, en ljóst er að verið er að afskrifa skuldir töluvert. Gagnsæi skuldaafskrifta, hverjir njóta þeirra helst og hvernig þær dreifast er hins vegar það sem endalaust er og verður deilt um. Sértækar aðgerðir eru þar helst tortryggðar, ásamt því að vera seinvirkar, og ber því að fagna fjölgun almennra úrræða á breiðum grunni, svo sem þeirra sem Landsbankinn hefur kynnt.

Framtíðarsýnin hlýtur hins vegar að vera að landið hafi skilvirkan gjaldmiðil og losni úr viðjum hagfræðilegra “barbabrellna” eins og gjaldeyrishöftum og verðtryggingu. Ekki verður séð að núverandi gjaldmiðill geti verið trúverðugur hluti af þeirri framtíðarsýn.

laugardagur, 28. maí 2011

Hræðileg frétt

Fréttablaðið og visir.is birta okkur þessa frétt í morgunsárið: Ungt fólk vill vinna í Evrópu.

85% íslenskra ungmenna hafa áhuga á að flytja og prófa að vinna í öðru landi, sem er vel. Hið alvarlega í þessu er að tæpur helmingur þeirra (42%) getur hugsað sér að gera það varanlega.

Þetta kemur fram í könun ESB, Flash Barometer on youth, og var reyndar birt fyrir hálfum mánuði.

Ef rýnt er í þessar tölur má s.s. sjá að, fyrir utan Rúmensk ungmenni (41%) eru 50% og upp úr fleiri íslensk ungmenni en önnur sem geta hugsað sér að flytja úr landi til lengri tíma (sem þýðir í reynd nokkurn veginn varanlega).

Stefnir því í að þorri ungs fólks geti hugsað sér að kjósa um framtíðina, þ.m.t. um aðild að ESB, með farseðlum í stað kjörseðla.

miðvikudagur, 25. maí 2011

"Gæsagangur" Styrmis…

Jæja, eina ferðina enn þarf maður að búa við að „málsmetandi“ andstæðingur aðildar að ESB beiti ósmekklegu lýkingamáli. Nú er það Styrmir Gunnarsson í „leiðara“ á vef sínum.

Ég skal alveg taka smá „tangó“ við Styrmi…!

Í þessum „leiðara“ kvartar hann yfir því að stuðningsmenn aðildar að ESB nenni ekki að debatera við andstæðinga aðildar. Á því er ósköp einföld skýring: Ef „heimssýn“ þeirra Nei-félaga væri ekki svona rotin, vænissjúk og vitlaus, þá væri kannski eitthvað að debatera.

Í „leiðaranum“ nefnir Styrmir sem dæmi að stuðningsmenn aðildar vilji ekki ræða stöðu efnahagsmála á Grikklandi og það sem ESB sé að „gera“ landinu. Það er sjálfsagt að debatera það! Vandi grikkja er nefnilega fyrst og fremst sjálfskapaður. Það er rétt að Grikkland neyðist nú til að grípa til sársukafullra aðgerða. Hins vegar er ekki er rétt að kenna kröfum ESB, AGS og annarra lánadrottna Grikkja um því aðgerðirnar eru fyrst og fremst nauðsynlegar vegna þess að Grikkir hafa einir og óstuddir rekið hörmungar efnahagsstefnu í krafti eigin fullveldis þrátt fyrir aðild að ESB. Aðildin að ESB og sameiginlegu myntinni gerði þeim þó að öllum líkindum kleift að ganga lengra og gera sjálfum sér meiri skaða en þeir hefðu hugsanlega getað gert án aðildar.

Í „leiðaranum“ fjallar Styrmir einnig um ímyndaða ásælni ESB í Ísland vegna einhverrar stórveldahugmyndar um landið í Norðurslóðasamhengi. Fyrir utan hvað þessi fullyrðing er galin, í ljósi þess að þrjú alvöru heimskautalönd eru nú þegar í ESB og að „ávinningur“ Íslands af norðurslóðanánd sinni veltur m.a. á góðu aðgengi að Evrópumörkuðum (t.d. verður umskipunarhöfn á Íslandi mun verðmætara fyrirbæri ef hún getur þjónað bæði sem fríhöfn og sem fyrsta tollhöfn innan ESB), þá endurspeglast í „leiðaranum“ einhver furðuleg blanda stórmennskubrjálæðis og minnimáttakenndar. Annars vegar erum við svo littlir og aumir að við munum eiga okkur lítils innan 500 milljóna manna bandalags, en hins vegar erum við rísandi stórveldi á Norðurslóðum og þau tækifæri sem af því skapast eru meginástæðan fyrir áhuga Evrópusambandsins á aðild Íslands. Trúir Styrmir þessari fullyrðingu sjálfur, eða er þetta mesta dýptin sem hann og „foringinn” í Hádegismóum geta náð í dellurökunum?

Þetta er svo sett í samhengi við það að aðildarumsóknin að ESB sé einskonar "orusta um Ísland", sbr. þegar að flugher Hitlers bombarderuðu Bretland, og "skriðdrekar" ESB muni valta yfir land og þjóð í einhverskonar "Blitzkrieg". Vantaði bara að Styrmir uppnefndi viðræðuáætlunina "Schlieffen Plan" sem myndi fela í sér "endlösung" fyrir íslensku þjóðina.

Nei, það er kannski ekki að ástæðulausu að Já-liðar nenna ekki mikið að debatera við nei-liða. Skrif um "skriðdreka", "orustur" og "Blitzkrieg" er ekki það lága plan sem maður fer niður á. Svona gæsalapparugl er hvorki viðeigandi né vitlegt.

Þegar, og ef, nei-liðar koma sér af þessu lága plani verður kannski hægt að eiga við þá alvöru debat!

Fritz Von Blitz

þriðjudagur, 17. maí 2011

Hvað mun gjaldeyrisuppboð segja okkur?

Í áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta leggur bankinn til tvær hugsanlegar misgengisleiðir til þess að losa landið undan þrýstingi aflandskróna og annarra flóttakróna.

Annars vegar með því að selja gjaldeyri formlega á skráðu gengi, en í reynd skattleggja gjaldeyrisskiptin með þeim hætti að raungengið liggi nær núverandi aflandsgengi krónunnar, og hins vegar með því að halda gjaldeyrisuppboð.

Nú hefur seðlabankastjóri gefið til kynna að hugsanlega verði slíkt uppboð haldið jafnvel fyrir lok vikunnar. Það verði smátt í sniðum og einskonar prufukeyrsla fyrir stærri uppboð.

Ekki er því vitað hvað mikið magn gjaldeyris verður boðið upp, en ljóst er að þessi tilraun verður allrar athygli verð.

Seðlabankanum er nokkur vandi á höndum með framkvæmd þessa útboðs. Við fyrstu sýn væri best að fá sem flestar krónur fyrir sem fæstar evrur, en ef verulegur munur er á skráðu gengi og uppboðsgengi, hvaða skilaboð sendir það, og hver er þýðing þess fyrir framhaldið?

Ef hins vegar uppboðsgengið liggur tiltölulega nærri markaðsgengi, hvaða áhrif hefur það? Vill þá bankinn yfirhöfuð selja?

Í Avens viðskiptunum fyrir árið síðan reiknaðist mönnum til að evrugengið í þeim viðskiptum fyrir lífeyrissjóðina hefði verið um 220 krónur. Eru það kannski efri mörkin fyrir útboðið?

Núverandi aflandsgengi er óvíst, en liggur eflaust á bilinu 280 til 300 krónur evran. Það væru þá líkleg neðri mörk.

Seðlabankinn hefur hins vegar ekki gefið neitt til kynna um hvaða væntingar bankinn hefur til útboðsins. Má líka velta fyrir sér hvort það er gott eða slæmt.

En spennan magnast...!

föstudagur, 8. apríl 2011

Síðasta Icesave bloggið?

Jæja, stóri dagurinn á morgun.

Ég kaus "Já" utan kjörfundar í síðustu viku og atkvæðið ætti að vera löngu komið heim til Íslands.

Ekkert í umræðunni á síðustu metrunum hefur haft áhrif til þess að ég skipti um skoðun.

Frekar að ég sé sannfærðari en áður um að "Já" sé mun skárri kosturinn af tveimur vondum.

En, kannanir gefa til kynna að ég sé í minnihluta.

Svo sem ekki óvanur því.

Þ.a. líkast til verður þetta ekki síðasta Icesave-bloggið...

...en ég hugsa að ég muni frekar vilja skrifa um eitthvað annað.

Eða bara nýta afgangstíma í að fikta við músík. Það er mun meira gaman...




föstudagur, 1. apríl 2011

Standast nei-rökin sjö skoðun?

Aðalsteinn E. Jónasson, dósent og hæstaréttarlögmaður, skrifar ágæta grein í Morgunblaðið í morgun, sem einnig er birt á advice.is. Þar tilgreinir hann með nokkuð málefnalegum hætti og tiltölulega æsingalaust þær sjö megin ástæður fyrir því að hann mun segja nei við Icesave-samningunum í kosningunum 9. apríl.


Sjálfur hef ég komist að gagnstæðri niðurstöðu og hef þegar neytt atkvæðisréttar míns í utankjörfundarkosningu. Að vegnum kostum og göllum tel ég þó áhættu og kostnað við nei meiri en við já.


En lítum á nánar á röksemdir Aðalsteins.


Sú fyrsta er sú að "Fjárhæð skuldbindingar er háð algerri óvissu þrátt fyrir samning". Óvissuna telur hann stafa af þremur þáttum, greiðsluskyldu í erlendum gjaldmiðlum, heimtum úr þrotabúi Landsbankans og lagalegri stöðu neyðarlaganna.


Um þessi rök er það að segja að þessi óvissa er áfram fyrir hendi jafnvel þó samningunum verði hafnað. Verði dómstólaleiðin farin ríkir fullkominn óvissa um niðurstöðuna. Gengisáhættan er þannig óbreytt, og í raun hærri, en hafa ber í huga að þorri eigna þrotabús Landsbankans er í erlendri mynt þ.a. gengisáhættan er ekki allt um lykjandi. Lagaleg staða neyðarlaganna styrktist umtalsvert í dag þegar héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að þau brytu ekki gegn eignarréttarvernd eða jafnræðisreglu stjórrnarskrárinnar. Þá hefur Eftirlitsstofnun EFTA komist að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin hafi ekki falið í sér ólögmæta mismunun gagnvart almennum kröfuhöfum og því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.Að því marki sem menn telja að lagaleg áhætta vegna neyðarlaganna sé til staðar, verður hún ennþá til staðar, jafnvel þó sagt verði nei, og hins vegar eru neyðarlögin nú orðin ein af helstu röksemdum nei-sinna þar sem þau tryggi Bretum og Hollendingum betri heimtur. Verður bæði sleppt og haldið?


Þ.a. þessi rök falla eiginlega á jöfnu.


Önnur rök Aðalsteins eru þau að "Bretar og Hollendingar axla enga ábyrgð samkvæmt samningnum". Þetta eru hártogunarrök, þar sem má segja að þeir hafi gert það með því að borga út innistæðutryggingar án tryggingar fyrir því að fá það endurgreitt, hvorki úr búi bankans eða frá íslenska ríkinu. Þetta er í raun kjarni deilunnar. Með samningunum er einmitt verið að ganga frá því að breska og hollenska ríkið fái endurgreiddan hluta, og langt í frá allan, útlagðan kostnað sinn vegna Icesave og falls Landsbankans.


Þ.a. þessi rök standast ekki skoðun.


Þriðju rökin eru þau að "Samningsbrot leiðir ekki sjálfkrafa til skaðabótaskyldu". Gott og vel. Aðalsteinn segir þó sjálfur að þessu "fylgir óvissa ef til slíks dómsmáls kemur" þ.a. a.m.k. falla þessi rök á jöfnu, þ.e. áhættan er bæði við samþykkt eða höfnun samningsins. Þó er því við að bæta að í samningsbrotamálum þar sem hægt er að sýna fram á beint fjárhagstjón af samningsbrotum eru líkurnar á skaðabótaskyldu mun meiri. Það mun eiga við í málaferlum vegna ICESAVE.


Þ.a. þessi rök falla a.m.k. á jöfnu, en í raun eru meiri líkur en minni á skaðabótaskyldu í dómsmáli.


Fjórðu rökin eru þau að "Engin trygging er fyrir því að aðgangur atvinnulífs að lánsfé muni aukast", þ.e. við samþykkt samkomulagsins. Gott og vel, en sama á við ef samningurinn verður felldur að minnsta kosti. Miðað við öll skilaboð sem berast frá hugsanlegum lánveitendum og matsfyrirtækjum, þ.e. skilaboð frá markaði, er að verði samningarnir felldir muni aðgangur versna.


Þ.a. þessi rök standast ekki skoðun.


Fimmtu rökin eru þau að "Samfélag án ábyrgðar verður samfélag án frelsis". Þetta er flottur frasi og alveg hægt að taka undir hann. Í röksemdafærslu sinni segir Aðalsteinn enga heimild fyrir því að ríkið taki á sig skuldbindingar vegna einkafyrirtækis. Vísar hann í lög um ríkisábyrgðir þar sem segi "Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum." Hér erum við hins vegar komin að öðrum kjarna deilunnar. Að lögum er til Tryggingarsjóður innistæða og deilt er um hvort að ríkisábyrgðarskylda hvíli á því að tryggja lágmarksinnistæður. Ekki allar innistæður, heldur lágmarkið. Ísland tryggði allar innistæður allra íslenskra banka, en bara á Íslandi. Ekki annars staðar. Hámarkskröfur gætu snúist um fullt jafnræði gagnvart innstæðueigendum hér á landi.


Þetta er kjarni samningsins. Viljum við taka áhættuna á dómstólaleiðinni þar sem allt er undir? Allt eða ekkert?


Þ.a. þessi rök falla á jöfnu, að minnsta kosti, og að mínu viti standast þau ekki skoðun.


Sjöttu rökin eru þau að "Freistnivandi leiði til óábyrgar hegðunar". Segir Aðalsteinn að "ef íslenskt samfélag viðurkennir að einkafyrirtæki geti stofnað til skuldbindinga á kostnað ríkisins skapast sú hætta að stjórnendur fyrirtækja og einstaklingar freistist til að hegða sé með óábyrgum hætti (freistnivandi)". Þetta er vissulega gilt sjónarmið, en málið er að "samfélagið" hefur löngum tekið að sér að veita ákveðna ábyrgðartryggingu fyrir mögulegri óábyrgri hegðan prívatsins. Er það gert m.a. af því að við erum jú "samfélag" en aðallega að ákveðnar lágmarkstryggingar styðja við gangverk atvinnu- og viðskiptalífsins. Lágmarksinnistæðurtryggingar eru til staðar svo fólk þori að geyma peninga í banka. Við erum með ábyrgðarsjóð launa, þ.a. jafnvel þó að fyrirtæki verði gjaldþrota og rekstur þeirra stöðvist (í sumum tilvikum vegna óábyrgrar hefðunar eigenda þeirra) er saklausum starfsmönnum og launþegum þess fyrirtækis tryggð ákveðin réttindi. Ríkið rekur eitt stykki íbúðalánasjóð til þess að hlutast til um tryggingar á lánum vegna húsnæðiskaupa.


Þ.a. þessi rök falla um sjálft sig. Með Icesave samningunum er verið að ábyrgjast greiðslu lágmarkstrygginga á mjög afmörkuðum hluta viðskiptalífsins og ekki hægt að draga af því víðtækar ályktanir um opnar ábyrgðir á allt atvinnulífið.


Sjöundu rökin eru síðan þau að það eru "Grundvallar-mannréttindi að fá að beina réttarágreiningi til dómstóla." Ég skal viðurkenna að ég hef illan bifur á dómstólagreddu ákveðinna lögfræðinga. Viðurkenni ég fúslega að það er ekki sérlega málefnalegt hjá mér. Hins vegar verður það að segjast að þau sannindi eru tiltölulega einföld að þorri ágreinings er leystur utan dómstóla, sérstaklega hvað varðar milliríkjadeilur. Það að það sé eitthvert sérstakt mannréttindamál að leysa þessa deilu fyrir dómstólum er því miður, og afsakið orðbragðið, hrein þvæla. Dómstólar eru jafnan og mun frekar síðasta hálmstráið þegar allt annað hefur verið reynt til að leysa úr ágreiningi.


Þ.a. þessi rök standast heldur ekki skoðun.


Verður því að segjast að annars ágæt grein dósentsins hefur lítið nýtt fram að færa. Fimm af sjö rökum virðast ekki standast nánari skoðun og hin tvö falla a.m.k. á jöfnu. Greinin sannfærir mig þar af leiðandi síður en svo um að skipta um skoðun og segja nei.


Því verður atkvæði mitt áfram já við samningum um ICESAVE.

fimmtudagur, 24. mars 2011

Myntbreytingaleið með meiru...

Hélt erindi via skype á fundi Hreyfingarinnar um Efnahagskerfi á tímamótum nú í kvöld, ásamt Lilju Mósesdóttur og Ársæl Valfells. Hér fyrir neðan fer mitt innlegg:

----------------

Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á að þakka Hreyfingunni, og þá sérstaklega Þórði, fyrir að bjóða mér að taka þátt í þessum fundi og leggja á sig allar þessar tæknibrellur til þess að það geti gengið.

Tilefni þess að mér er boðið að vera hér með innlegg er jú það að síðastliðinn rúm tvö ár hef ég reglulega viðrað róttækar hugmyndir um tiltekt í íslenskum efnahagsmálum sem einblína fyrst og fremst á stöðu gjaldmiðilsins, kosti hans og galla. Þessar hugmyndir hef ég viðrað í myrkum skúmaskotum internetsins, á bloggi mínu á vefmiðlinum eyjan.is.

Í sem allra stystu máli ganga þessar hugmyndir út á að það að til þess að klára efnahagslega viðreisn Íslands eftir hrun verði líka að skipta um gjaldmiðil og því samhliða að taka á of mikilli skuldsetningu sem byggst hefur upp innan okkar myntkerfis.

Þetta verði gert með því til dæmis að beita misjöfnu gengi við yfirfærslu í nýja mynt, eftir því um hvaða fjárskuldbindingar er að ræða.

Þó hugmynd sem þessi hafi við fyrstu sýn á sér ákveðið kverúlanta-yfirbragð, er aðgerð sem þessi ekki óþekkt í hag- og heimsögunni. Þetta er afbrigði stýrðar gengisfellingar og dæmi um þessa aðferðafræði má finna hjá þjóðverjum á síðustu öld. Besta og skýrasta dæmið er upptaka þýska marksins árið 1948, sem fram fór á einum sunnudagseftirmiðdegi. Skiptin fóru þannig fram, í einfaldaðri mynd, að beitt var einu gengi m.a. á laun og húsaleigu, öðru á innstæður og því þriðja á stórar peningaupphæðir og fjárskuldbingar.

Þýskaland þá, öndvert við Ísland í dag, var vitanlega í rúst eftir stríð og stríðsrekstur. Það má segja að landinu hafi verið nauðugur sá eini kostur að grípa til róttækra aðgerða sem þessara. Hins vegar er það svo að þessi aðgerð þjóðverja var langt í frá óumdeild og var algerlega andstæð ríkjandi hugmyndum um hvernig ætti að byggja upp hagkerfi eftir meiriháttar áföll. Hernámsaðilar höfðu jú gripið til slíkra aðgerða strax 1945 og var ekkert annað á dagskrá hjá þeim en að herða enn frekar á þeim aðgerðum.

Hvaða aðgerðir voru það? Jú, höft og skammtanir af öllu tagi. Gjaldeyrishöft, viðskiptahöft, skattlagning og tollar, að ógleymdum hreinum vöruskömmtunum.

Kunnuglegt ekki satt?

Ísland hefur enn ekki gengið jafn langt, en við búum við gjaldeyrishöft, viðskiptahöft, og höfum mætt efnahagsvandanum með auknum sköttum, gjöldum og aukinni skuldsetningu.

Og við erum farin að upplifa eiginlegar vöruskammtanir. Dregið hefur stórlega úr vöruúrvali í verslunum, sumpart vegna beinnar afleiðingar annars rekstrarumhverfis, en einnig vegna skatta- og gjaldastefnu stjórnvalda.

Peningastefnustjórnunarvandi okkar er af sama meiði og þjóðverja eftir stríð - of margar krónur í umferð í formi peninga og annarra fjárskuldbindinga. Vandi þjóðverja var vissulega mun meiri og af hrikalegri ástæðum, en hagfræðilegi vandinn er í eðli sínu sá sami.

En hver er vandinn í raun?

Ef litið er til hagtalna Seðlabankans sést þetta ágætlega. Heildar innlendar skuldbindingar í íslenskum krónum undir lok síðasta árs, eru um 3.400 milljarðar. Það eru um 220% af þjóðarframleiðslu.

Peningamagn í umferð undir lok síðasta árs tæplega 1.450 milljarðar, um 94% af þjóðarframleiðslu.

Sambærilegar tölur fyrir tíu árum síðan, árið 2001, rúm 64% heildar innlend skuldbinding í krónum, og tæp 45% peningamagn í umferð, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Það er í raun athyglisvert að skoða sérstaklega peningamagnið á síðustu mánuðum fyrir hrun.

Í júlí 2007 er peningamagn í umferð orðið rétt rúmlega þúsund milljarðar.

Í september 2008 – 14 mánuðum síðar – er það orðið rúmlega 1.420 milljarðar.

Eftir hrun heldur það áfram að aukast. Í nóvember er það orðið u.þ.b. 1.650 milljarðar.

Það hefur lækkað síðan, og er, eins og áður sagði, um 1.450 milljarðar í dag.

Hvað skýrir þessa verulegu aukningu?

Auðvitað kemur þar ýmislegt til, sem við hinir dauðlegu og ekki með hagfræðipróf frá Harvard getum ekki alveg skilið eða náð utan um, en ein af skýringunum er sjálfvirkni íslenska skuldabréfamarkaðarins í gegnum annars vegar verðtryggingu og hins vegar gengistryggingu.
Önnur skýring er þennslan á húsnæðimarkaði eftir innkomu bankana á húsnæðislánamarkað, sem hafði þau áhrif að húsnæðisverð og skuldsetning húsnæðis rauk upp.

Þriðja skýringin tengist svo að mínu viti meintum fölsunum á gengi hlutabréfa á íslenska hlutabréfamarkaðnum, þar sem menn með krosskaupum, eignarhaldsfélagaflækjum og lánum til hlutabréfakaupa til þess að keyra upp hlutabréfaverð, tókst í skjóli hins frjálsa markaðar og slaks eftirlits að í reynd prenta sér peninga.

Enn það er önnur saga.

Staðan er s.s. sú að mínu mati að skuldsetning íslensk efnahagslífs og peningamagn í umferð sé það hátt miðað við þjóðarframleiðslu að það sé ekki sjálfbært og eitthvað verði undan að láta.
Að við núverandi aðstæður sé fyrirsjáanlegt annað hrun gjaldmiðilsins við afnám gjaldeyrishafta.

Um þetta eru menn augljóslega ekki sammála. Bent hefur verið á að frá hruni höfum við búið við nettó gjaldeyrisinnstreymi og verulega breytta og jákvæðari stöðu viðskipta við útlönd. Einnig að erlendir eigendur krónubréfa hafi ekki fullnýtt heimildir sínar til þess að skipta vaxtagreiðslum í erlenda mynt og flytja úr landi, eins og þeim er þó heimilt.

Það er allt gott og blessað, og vissulega jákvætt. En á móti má velta því fyrir sér hvort þetta ástand sé sjálfbært til lengdar, í ljósi þess að lítið er um innflutning, hvort heldur sem er á fjárfestingavörum til atvinnuuppbyggingar og framleiðslu, og stórir innflutningsinnkaupaliðir almennings hafa hrunið, en líklega einungis tímabundið, svo sem hvað varðar bifreiðakaup. Einnig eru fyrirsjáanlegar miklar afborganir erlendra lána ríkisins á næstu árum.

Efnahagsleg tiltekt með upptöku annarrar myntar getur farið fram með ýmsum hætti. Það er hægt að fara hina hreinu þýsku leið og skipta um gjaldmiðil strax, eða á tiltölulega skömmum tíma, með mismunandi gengi.

Það má líka fara þessa leið í skrefum, eða eins konar markaðsleið, þ.e. byrja á því að færa einungis launagreiðslur yfir í hina nýju mynt, hafa hana án hafta, en halda þeirri gömlu áfram innan hafta.

Með þessum hætti væri komið upp fjölmyntakerfi í reynd. Höftin yrðu svo afnumin eitt af öðru í áföngum og markaðurinn réði skiptigenginu.

Þessi aðferð er í sjálfu sér í engu öðruvísi en líkleg leið seðlabankans til afnáms haftanna, nema hvað hér yrði launþegar í fyrsta sæti varðandi afnám, skuldabréfaeigendur kæmu síðar. Ef fara á leið þar sem velja þarf sigurvegara, er þá ekki alveg eins gott að velja vel?

Beiting mismunandi gengis er nefnilega ekki svo fjarri nútíma efnahagsstjórn. Seðlabankinn beitti afbrigði af þessari aðferð á síðasta ári þegar keypt voru skuldabréf í íslenskum krónum af seðlabankanum í Lúxemborg á allt öðru og mun lægra gengi en opinbert skráningargengi.

Framsóknarflokkurinn lagði til vorið 2009 að beitt yrði uppboðsleið, þ.e. að eigendum skuldabréfa yrði leyft að bjóða í gjaldeyri til að losa eignir héðan. Þar hefði s.s. orðið annað gengi en opinbert skráningargengi.

Og sú leið sem líklegast er að verði farin, afnám hafta í áföngum, verður sömuleiðis í reynd ekkert annað en misgengisleið, þar sem þeir sem fara fyrstir munu að öllum líkindum fara á skársta genginu, nema til komi aðrar ráðstafanir, eins og t.d. sérstök skattlagning á gjaldeyrisútflæði.

---

Það er rétt að taka það skýrt fram að efnahagsleg tiltekt af þessu tagi hefur takmarkað að segja ein og sér. Fleira verður að koma til.

Í fyrsta lagi verður að afnema hér verðtryggingu. Það að stórum hluta hagkerfisins sé alltaf hlíft, sama hvað á gengur, gerir það m.a. að verkum að aðlögun hagkerfisins eftir hrun gengur jafn hægt og raun ber vitni. Verðtrygging er fjármálaútgáfan af heróíni og við erum öll fíklar. Verðtryggingin er hegðunarvandamál sem ýtir undir aukna áhættu, sérstaklega einhliða áhættu skuldara, og aukna skuldsetningu umfram efni.

Í öðru lagi verður að taka hér til í skatta og gjaldakerfi. Eftir breytingar síðustu tveggja ára, með það skiljanlega markmið að auka tekjur ríkissjóðs, er kerfið orðið mun flóknara, ógagnsærra og erfiðara í rekstri en áður. Skatteftirlit, leyfi ég mér að fullyrða, er orðið mun erfiðara í framkvæmd en var fyrir hrun. Það verður að einfalda kerfið aftur og gera það skilvirkara.

Í þriðja lagi verða breytingar sem þessar að vera í samhengi við einhverja framtíðaráætlun um það hvert við stefnum. Ísland verður að fara að fá einhverja kjölfestu í lífsins alþjóðlega ólgusjó.

Við erum land sem treystir algerlega á viðskipti og samskipti við umheiminn. Það umhverfi verður að vera í lagi. Því tel ég að hvort heldur sem myntbreytingar leið verði farin, eða einhver önnur hefðbundnari, þá sé okkur það fyrir allra bestu að ljúka ICESAVE með samningum, segja já 9 apríl, halda áfram að stefna að aðild að Evrópusambandinu og, að samningum loknum, séu þeir ásættanlegir, ganga í ESB með þeim kostum og göllum sem því fylgir.

Ég reyndar hef nefnt þann valkost að með myntbreytingarleið nú gætum við tekið upp nýjan gjaldmiðil sem væri með sama gengi og evran. Jafnframt gætum við lýst yfir fastgengisstefnu til a.m.k. næstu 3 til fimm ára og sleppt því að gefa út okkar eigin mynt. Nýr gjaldmiðill væri eingöngu til rafrænn þar til að niðurstaða liggur fyrir um aðild Íslands að ESB. Evrur og sent yrðu samþykkt sem gildur lögeyrir og væri nýtt í stað eigin gjaldmiðils í daglegum viðskiptum. Verði aðild samþykkt, þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir. Verði aðild felld, þá verði hafin prentun og útgáfa eigin myntar með formlegum hætti á ný.

Enn þá gæti byrjað aftur hringrásin sem við þekkjum svo vel, gengissig og fellingar, verðtryggingin kæmi aftur og svo framvegis og svo framvegis.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Krónur og leiðindi (tölfræði)

Miðdepill umræðu undanfarna daga, frá því að Lilja Mósesdóttir varpaði fram gjaldmiðilsnafnbreytingartillögu (flott orð!) sinni í Silfri Egils sl. sunnudag, ætti að vera hvort að núverandi gengi krónunnar sé að einhverju leyti sjálfbært til lengri tíma. Þ.e. getum við búist við því að geta undið ofan af gjaldeyrishöftunum án þess að núverandi gjaldmiðill hrynji frekar en það sem orðið er.

En, því miður, hefur umræðan að vanda meira snúist um hvað menn héldu að væri sagt og héldu að væri meint, en ekki hvað raunverulega var sagt og meint. Á því hafa þó verið undantekningar, sbr. fésbókarspjall okkar Gylfa Magnússonar sem ég birti í bloggpistli sl. mánudag.

Ég hef áhyggjur af því að m.v. núverandi stöðu gjaldmiðilsins og heildar stöðu skuldbindinga í íslenskum krónum sé núverandi gengi ekki sjálfbært og að við afnám hafta verði gengisfall óumflýjanlegt. Afnám þeirra í skrefum með hefðbundnum hætti muni fela í sér að þeir sem fái að fara fyrst muni geta gert það á hagstæðasta genginu. Almenningur mun síðan sitja eftir með ónýtan gjaldmiðil, verðtryggðar skuldir í hæstu hæðum og ríkistryggðar erlendar skuldir Seðlabanka sem stofnað var til í þeirri veiku von að gjaldmiðlinum væri við bjargandi.

Aðrir telja þetta ekki vandamál.

Til einföldunar birti ég eftirfarandi mynd:



Þessi mynd sýnir annars vegar heildar innlendar skuldir og hins vegar peningamagn í umferð (M3) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu annars vegar 2001 og hins vegar 2010 (Byggt á gögnum frá Seðlabanka Íslands og Hagstofu).

Árið 2001 voru heildar innlendar skuldir rúm 64% af vergri þjóðarframleiðslu - 2010 eru þær orðnar tæp 220%.

Árið 2001 var heildar peningamagn í umferð (M3) tæp 45% af vergri þjóðarframleiðslu - 2010 er það tæp 94%.

Verg þjóðarframleiðsla hefur u.þ.b. tvöfaldast á þessum tíma (199,44%).

Heildar innlendar skuldir hafa tæplega sjöfaldast (680%).

Peningamagn hefur rúmlega fjórfaldast (420%).

Gengi evru hefur hækkað u.þ.b. 76%.

Er ótti minn um frekara fall gjaldmiðilsins ástæðulaus? Verður ekki eitthvað undan að láta?

mánudagur, 14. mars 2011

Krónur og Norður-Kórea

Minn ágæti skólabróðir úr Hagaskóla og MR, Gylfi Magnússon, linkaði "af engu sérstöku tilefni" þessa frétt inn á Facebook hjá sér í gær. Segir hún af aftöku yfirmanns fjármála Norður-Kóreu, en það var refsingin sem hann hlaut fyrir að hafa klúðrað upptöku nýs gjaldmiðils í landinu.

Ég gat ekki stillt mig um að skjóta á Gylfa að öðruvísi hefði farið fyrir þjóðverjum og setti í athugasemd tengil á grein um þýska efnahagsundrið og gjaldmiðilsskiptin 1948.

Í kjölfarið á því hófust orðaskipti okkar Gylfa um þýsku leiðina og hvort hún gæti átt við hér, kosti hennar og galla. Með góðfúslegu leyfi Gylfa birti ég megnið hér fyrir neðan, en ég vara við því að þetta er langt, en að mörgu leyti ágætt debat. Kannski eru þarna fróðleiksmolar sem aðrir geta haft gagn og gaman af:

(Hef reynt að leiðrétta sem flestar innsláttarvillur og fjarlægt kumpánleg ávörp okkar Gylfa á hvorn annan.)

Gylfi: "Bráðavandi krónunnar (fyrir utan allan króníska vandann) er að útlendingar eiga of margar krónur sem þeir vilja losna við. Þú leggur í grundvallaratriðum til að þær verði bara gerðar upptækar. Ég er til í að skoða það ef við töpum ...einhvern tíma heimsstyrjöld, stór hluti þjóðarinnar deyr eða örkumlast, minni hlutahópar eru sviptir eigum sínum og síðan sendir í útrýmingarbúðir, framleiðslutæki og innviðir eru meira eða minna sprengd í loft upp og stór hluti íbúðarhúsnæðis sömuleiðis, hungursneyð vofir yfir, landið hertekið, smækkað og því skipt í tvennt."

Friðrik: "Þjóðverjar gerðu þetta líka 1990 þegar þeir tóku yfir Ostmark. 4000 Ostemark fóru á genginu 1:1, en restin á 1:2. Þetta felur ekki í sér endilega upptöku, heldur frekar að færa krónueigur ALLRA nær raunvirði. Eða telur þú að núverandi gengi sé raunhæft án hafta? Tæpast, því þá þyrfti ekki höftin.

Það sem ég "legg til", eða réttara hreyfi við til umræðu, er að hægt er að fara í þetta með öðrum hætti með upptöku nýrrar myntar. Það má fara þýskuleiðina með fyrirfram ákveðnum mis-gengjum, eða það má fara þá leið að taka upp jafnhliða gjaldmiðil, samhliða núverandi og færa raunhagkerfið yfir í hann, þ.e. laun, ný lán, osfrv, en láta verð skuldbindinga ráðast hreinlega af markaði. Það mun þurfa að gera hvort eð er, með einum eða öðrum hætti, þegar að höftin verða afnumin.

Hingað til hef ég ekki heyrt mikið um með hvaða hætti það á að fara fram, öðru vísi en svo að gera það í áföngum, sem þýðir að einhver ætklar að taka að sér að velja sigurvegarana. Þ.e. hverjir fá að fara fyrst úr krónunni, og þá væntanlega á skársta genginu.

Einhvern veginn þurfum við að komast úr þessum vítahring. Þetta er ein leið. Ekki sú eina, en sýndu endilega spilin um hvað þú vildir leggja til. Bottom-line-ið er það að peningarstjórnunarstefnulega eigum við við sama vanda að glíma og þjóðverjar eftir stríð, of margar krónur í umferð í formi peninga og annarra fjárskuldbindinga. Vandi þjóðverja var vissulega mun meiri og af hrikalegri ástæðum, en hagfræðilegi vandinn var í eðli sínu sá sami.

Yfir til þín..."

Gylfi: "Þú misskilur alveg endalok austur-þýska marksins. Það var ekkert gert upptækt eða "fært nær raunvirði". Skiptigengið (sem var ýmist 1:1, 1:2 eða 1:3) var í öllum tilfellum afar hagstætt fyrir þá sem áttu austur-þýsk mörk, raunhæft gengi hefði verið u.þ.b. 1:5. Í þessu fólst því styrkveiting, frá Vestur-Þjóðverjum til Austur-Þjóðverja. Vanhugsað þó því að sá böggull fylgdi skammrifi að laun voru eftir þetta of há austanmegin m.v. framleiðni þar. Íslenska krónan er hins vegar nær örugglega talsvert undir eðlilegu gengi núna sem sést best á því að hagkerfið framleiðir jafnvirði 2-3 milljarða króna af gjaldeyri - nettó - í hverri viku. Það er auðvitað lykilatriði þegar rætt er um afnám haftanna."

Friðrik: "Yfirtaka austur-þýska marksins var vissulega gjafgjörningur Vestur-Þýskalands gagnvart austrinu, en breytir ekki því að beitt var misjöfnu gengi. Austur-þjóðverjum fannst sumum að vísu að sér vegið, en það er önnur saga. Fyrir ónýtan gjaldmiðil er náttúrlega fínt að hafa fengið að skipta á því gengi sem boðið var. Rétt eins og það er óskaplega þægilegt að geta skipt heima á gervigengi Seðlabankans. En eins og við báðir vitum þá er það gengi ekki "sustainable" til lengri tíma. Ef allt væri svona "hönkí-dorí" í gjaldeyrismálum þá þyrfti engin höft. En í stað þess hefur ekkert annað gerst en að höftin er styrkt og efld.

Vissulega er jákvætt að hagkerfið framleiði þetta af gjaldeyri, en það breytir því ekki að skuldbindingar í íslenskum krónum hanga yfir okkur eins og Damóklesarsverð. Heildar innlendar skuldir íslensks banka- og peningakerfis hafa vaxið úr tæpum 500 milljörðum 2001 í næstum 3.500 milljarða undir lok nóvembers síðastliðinn. Í lok árs 2001 var M3 peningamagn (samtala M2 (peningamagn og almenns sparifjár) og bundinna innlána) tæpir 343 milljarðar króna. M4 peningamagn (peningamagn og sparifé (M3) að viðbættri innlendri verðbréfaútgáfu) 392,6 milljarðar. Í lok árs 2007 voru gildin fyrir sömu mælingar peningamagns orðnar 1.230 milljarðar fyrir M3 og tæpir 1.637 milljarðar fyrir M4. Eftir hrun, í lok árs 2009 var staðan þannig að M3 stóð í 1.606 milljörðum. M4 var í lok árs 2008 komið í um 1.943 milljarða, en mér sýnist að sú tala hafi lækkað í um 1.626 milljarða undir lok árs 2009 sem endurspeglar væntanlega afskrift innlendrar verðbréfaeignar í kjölfar hrunsins.

Það eru of miklar skuldbindingar í íslenskum krónum innan okkar peningakerfis, eða það eru a.m.k. mínar áhyggjur. Of miklar til þess að standa undir núverandi gengisskráningu. Aftur, einhvern veginn þurfum við að brjótast út úr þessum vítahring. Hvað leggur þú til minn kæri?"

Gylfi: "Þetta eru háar tölur en minnst af þessu er eitthvað sérstakt vandamál. Það sem flækir afnám haftanna er tvennt, annars vegar krónueignir sem líklegt er að menn (erlendir sem innlendir) vilji skipta í aðra gjaldmiðla þegar höftin eru afnumin og hins vegar krónur sem eru fastar úti og munu streyma heim. Það síðara er raunar mun minna vandamál en hið fyrra. Hið fyrra þarf einfaldlega að leysa með því að afnema höftin í skrefum, hleypa eignum út í skynsamlegri röð og hafa gjaldeyrisforða sem stuðpúða. Það er í grundvallaratriðum ekkert sérstaklega flókið eða óviðráðanlegt. Hve hratt þetta getur gerst fer fyrst og fremst eftir því hve mikið streymi gjaldeyris verður í hina áttina, annars vegar vegna viðskiptajafnaðar og hins vegar vegna fjárfestinga.

Það er allt annað mál að án hafta verður gjaldmiðillinn fyrirsjáanlega hér eftir sem hingað til óstöðugur, bæði gengi og verðlag. Eignaupptaka með nafnbreytingu nú myndi engu breyta um það, a.m.k. ekki til batnaðar."

Friðrik: "Afnám hafta í skrefum er í sjálfu sér ekkert annað en það sem ég er að leggja til, nema með öfugum formerkjum! Þá velur þú einhverja sigurvegara sem fá að fara út á hærra gengi. Þannig mun það ganga koll af kolli, þar til að eftir situr almenningur og fær loks að skipta, en á versta genginu, þar sem ekkert bendir jú til annars en að við afnám hafta muni gengið falla jafnt og þétt. Það er og verður umframeftirspurn eftir gjaldeyri héðan í frá.

Öllu heiðarlegra væri þá að rífa gjaldeyrishaftaplásturinn af og leyfa markaðnum að ráða þessu, en á því er sá galli á gjöf Njarðar að við sitjum jú uppi með verðtryggingu, sem veitir einum hluta hagkerfisins alltaf óeðlilegt skjól. Ef markaðurinn ræður verði gjaldmiðilsins getur enginn kvartað um eignaupptöku. Eignaupptaka er síðan ekki raunveruleg, þar sem hún byggir á því að menn telji núverandi gengi endurspegla raunvirði gjaldmiðilsins. Ef það væri svo þyrfti engin höft. Seðlabankinn viðurkenndi það í reynd með kaupum sínum á krónuskuldbindingunum af Lúx í fyrra á aflandsgengi. Skv. þínum rökum fór þar fram "eignaupptaka"... eða hvað?"

Gylfi: "Gjaldeyrishöft eru í eðli sínu íþyngjandi og að einhverju marki hægt að jafna við eignaupptöku því að krónan er svipt hluta af greiðsluhæfi sínu (þ.e. það er t.d. ekki hægt að nota hana til að kaupa erlend verðbréf). Fyrir almenning á Íslandi er þetta yfirleitt ekki mjög íþyngjandi, það er hægt að nota krónuna óhindrað innanlands og til að kaupa vörur og þjónustu frá útlöndum sem er það sem skiptir íbúa landsins mestu. Fyrir erlenda fjárfesta sem sitja uppi með krónur er þetta mun meira íþyngjandi enda skiptir það greiðsluhæfi sem krónan missir vegna haftanna þá lykilmáli. Þeir sem eiga aflandskrónur eru svo í verstri stöðu því að þær krónur eru til skamms tíma nær algjörlega án greiðsluhæfis - m.a. þess vegna er aflandsgengið mjög lágt og ekki góð vísbending um framtíðargengi krónunnar án hafta.

Á móti kemur síðan að fyrir þá sem eiga krónur, bæði innlenda og erlenda aðila, er akkur í því að það takist að ná stöðugleika á gengið og leysa vandann vegna uppsafnaðra króna sem langar að verða evrur eða dollarar með skipulegum hætti. Það vill enginn þurfa að troðast út um stíflaða neyðarútganga.

Skipulagt afnám haftanna felur í sér að einhverjir fá að fara á undan öðrum en það þarf ekki að vera svo slæmt fyrir þá sem fara síðastir, sérstaklega ekki í ljósi þess að krónan mun nær örugglega styrkjast á næstu árum. Þess vegna m.a. er allt eins víst að sumir þeirra sem fá að fara snemma munu frekar bíða (sem sést nú þegar á því að ekki fer nándar nærri allt það fé úr landi sem má gera það skv. núverandi reglum). Það auðveldar auðvitað afnám haftanna og gerir það allt eins líklegt að hægt sé að afnema þau tiltölulega hratt.

Það er svo allt annað mál að færa má ágæt rök fyrir því að það hefði verið betra að sleppa höftunum alveg, fara í kalda sturtu (ofan á allt annað sem dundi á landanum) haustið 2008. Það hefði verið óþægilegt til skamms tíma en að öllum líkindum gengið tiltölulega hratt yfir. Sú leið var hins vegar ekki farin og úr því sem komið er kemur vart annað til greina en að afnema höftin í nokkrum áföngum."

Friðrik: "Bjartsýni þín er upplífgandi. Vona að þú hafir rétt fyrir þér þar sem ég tel littlar líkur á því að róttækninni verði beitt. Ég því miður er ekki jafn bjartsýnn. Um of finnast mér rökin byggjast á von en vissu - að þetta reddist. En þetta kemur allt í ljós. Vissulega er síðan alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. En þakka spjallið. Alltaf gaman að taka þátt í vitrænum umræðum. Svo segja menn að Norður Kórea láti aldrei neitt gott af sér leiða...!"

Svo mörg voru þau orð. Sýnir að meira að segja róttækar hugmyndir er eftir allt saman hægt að ræða á grundvelli staðreynda og án upphrópanna, jafnvel þó menn séu ekki endilega sammála og takist ekki að sannfæra hvorn annan um "hið eina rétta" enda er ekkert svoleiðis til...!